• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
VLFA

VLFA

Big fan of open source and Joomla

Website URL: http://joomlabuff.com

Í gær var hinn árlegi jóla stjórnar-og trúnaðarráðsfundur Verkalýðsfélags Akraness haldin en á þeim fundi fer formaður yfir það helsta sem gerst hefur í starfsemi félagsins á árinu sem er að líða.

Formaður kom víða við í sinni yfirferð. Sem dæmi má nefna þá kjarasamninga sem félagið hefur gert á árinu en fram kom að félagið gekk frá kjarasamningi við Samband íslenskra sveitafélaga eftir harðvítugar deilur við sambandið vegna kröfu þeirra síðarnefndu um að svokallað Salek samkomulag þyrfti að vera fylgiskjal með samningum. Þessu hafnaði Verkalýðsfélag Akraness algjörlega og neitaði þess vegna að ganga frá samningnum á sínum tíma ef sambandið myndi standa fast á því að gera kröfu um að SALEK yrði fylgiskjal. Þessi ágreiningur endaði með því að VLFA stefndi Sambandi íslenskra sveitafélaga fyrir Félagsdóm vegna þess að sambandið sagðist verða skuldbundið því að fylgja Salek samkomulaginu en fyrir Félagsdómi drógu fulltrúar Sambands íslenskra sveitafélaga það til baka og var málinu því vísað frá dómi. Í framhaldi af því gekk VLFA frá kjarasamningi við sambandið eftir að þeir féllu frá þeirri kröfu um að Salek samkomulagið yrði fylgiskjal með samningnum.

Formaður fór einnig yfir þá alvarlegu kjaradeilu sem sjómenn eiga nú í við útgerðamenn en eins og flestir vita hafa sjómenn í tvígang fellt kjarasamning og því ljóst að þessi deila er gríðarlega erfið viðfangs enda ber mikið á milli deiluaðila. Fram kom í máli formanns að hann sé kominn inn í samninganefnd sjómanna og muni leggja sitt að mörkum til þess að leysa þá deilu sem í gangi er enda miklir hagsmunir í húfi.

Formaður fór einnig yfir þá misskiptingu sem átt hefur sér stað í íslensku samfélagi og gerði það að umtalsefni að lágmarkstaxtar verkafólks séu alltof lélegir enda eru þeir langt frá þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út. Fram kom í máli formanns að þegar hækkun þingfarakaups er borið saman við hækkun lágmarkstaxta verkafólks þá komi fram að þingfarakaupið hafi hækkað um 464% en lægsti taxti verkafólks um 306% frá árinu 1996. Fyrir 20 árum var þingfarakaupið 195.000 kr. á mánuði en lægsti launataxti verkafólks var á sama tíma 60.000 kr. Í dag er lágmarkstaxti verkafólks kominn upp í 244.000 kr. en þingfarakaupið er hins vegar komið upp í 1.100.000 króna á mánuði. Þingfarakaupið hefur sem sagt hækkað um 905 þúsund á mánuði á meðan lægsti launataxti verkafólks hækkaði um 184 þúsund. Svo segja áhrifamenn í íslensku samfélagi að lagmarkslaun verkafólks hafi ætíð hækkað sérstaklega umfram aðra hópa samfélagsins. Þessar staðreyndir um þingfarakaupið gagnvart lægsta taxta verkafólks sýnir að það er rakalaus þvæla!

Í yfirferð formanns kom einnig fram að Verkalýðsfélag Akraness hefur staðið í ströngu við hagsmunagæslu fyrir sína félagsmenn og nefndi hann í því samhengi að félagið hafi verið með fimm dómsmál vegna ágreinings um túlkun kjarasamninga og innheimtumála vegna vangoldinna launa. Niðurstaða sé komin í tvö af þessum fimm dómsmálum en félagið vann tvö mál fyrir Félagsdómi gegn Norðuráli þar sem ágreiningur var um túlkun á ávinnslu á orlofs-og desemberuppbótum sem og túlkun á ávinnslu á starfsaldri.  Bæði þessi mál vann Verkalýðsfélag Akraness og munu þessir dómar hafa mikla fjárhagslega þýðingu fyrir þá sem heyra undir niðurstöðu dómsins. Einnig hafa þessir dómar umtalsvert fordæmisgildi enda mun Norðurál þurfa að leiðrétta kjör fjölmargra starfsmanna fjögur ár aftur í tímann.

Fram kom í máli formanns að félagið hafi ætíð staðið þétt við bakið á sínum félagsmönnum við að verja réttindi og kjör sín og nefndi formaður að frá árinu 2004 til dagsins í dag sé félagið búið að innheimta tæpar 400 milljónir króna vegna hina ýmsu kjarasamningsbrota fyrir sína félagsmenn. Það kom fram í máli formanns að bara á þessu ári hafi félagið innheimt laun og önnur réttindi sem nemur rúmum 30 milljónum króna. Sem dæmi um það náði VLFA samkomulagi við Akraneskaupstað um að endurgreiða skólaliðum sveitarfélagsins álag vegna aðalhreingerninga sem starfsmenn inna af hendi ári hvert fjögur ár aftur í tímann eða 5,7 milljónir króna í heildina.

Í yfirferðinni kom skýrt fram hjá formanni að félagið stendur mjög vel bæði fjárhagslega og félagslega og mun reyna að halda áfram að berjast fyrir auknum réttindum og kjörum sinna félagsmanna. Það er stefna félagsins að hvika hvergi frá því að verja réttindi okkar félagsmanna og mun félagið alls ekki horfa í krónur og aura við að verja þau réttindi.  

Samningaráð Starfsgreinasambands Íslands, sem formaður Verkalýðsfélags Akraness situr í, átti fund með forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins í gær og er það mat formanns að himinn og haf sé á milli deiluaðila. Það tilboð sem SA hefur lagt fram er með þeim hætti að alls ekki er hægt að ganga að því. Grundvallarkrafan sem nánast öll íslenska þjóðin styður er að lágmarkslaun á Íslandi verði skilyrðislaust orðin 300.000 kr. innan þriggja ára. Það er morgunljóst að þetta er grunnkrafa sem verður að nást í gegn til að hægt verði að ganga frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði fyrir verkafólk. 

Þessi krafa er sanngjörn, réttlát og eðlileg enda eru það mannréttindi að dagvinnulaun verkafólks séu með þeim hætti að hægt sé að halda mannlegri reisn og að þau dugi svona nokkurn veginn fyrir þeim nauðþurftum sem þarf til að reka heimili frá mánuði til mánaðar. Þessi hugmyndafræði Samtaka atvinnulífsins um að stytta dagvinnutímabil og lækka yfirvinnuprósentu jafnvel niður í 50% er óaðgengileg með öllu. Enda liggur fyrir samkvæmt útreikningum að verkafólkið sjálft væri að kaupa stóran hluta sinna launahækkana eða með öðrum orðum, að eftir 35 yfirvinnutíma á mánuði væri allur ávinningur af slíkum breytingum horfinn út í veður og vind. 

Þetta er grafalvarleg staða og Samtök atvinnulífsins verða að hlusta á þjóðarsálina og ganga að þessum sanngjörnu kröfum íslensku verkafólki til heilla enda á verkafólk það svo sannarlega skilið og mörg fyrirtæki hafa fulla getu og burði til þess að mæta þessum réttlátu kröfum. 

Það þarf ekkert að ræða sjávarútveginn sem skilar 50-60 milljarða hagnaði ár hvert, þar er nægt svigrúm. Ferðaþjónustan er eins og hún er, þar ríkir gullgrafaraævintýri enda er sú atvinnugrein farin að skila mestum gjaldeyristekjum fyrir íslenska þjóð og meira að segja bárust fréttir af því í gær að hagnaður Haga sem á og rekur fjölmargar verslanir eins og til dæmis Bónus og Hagkaup var 3,8 milljarðar og milljarða hagnaður verður greiddur til eigenda. Ætlar einhver að halda því fram að Hagar hafi ekki tækifæri til að lagfæra kjör afgreiðslufólksins sem starfar til dæmis á kassa í stórmörkuðum tengdum fyrirtækinu? Að sjálfsögðu er slíkt hægt og þessar launabreytingar þarf að sækja af fullum þunga enda er það siðferðisleg skylda verkalýðshreyfingarinnar að laga kjör þessa fólks sem og annarra sem eru að vinna á lökustu kjörunum á íslenskum vinnumarkaði. 

Allavega er staðan grafalvarleg því lítinn samningsvilja er að finna af hálfu Samtaka atvinnulífsins og þeir eru því miður ekki tilbúnir til þess að deila ávinningnum af góðri afkomu fyrirtækja eins og til dæmis í sjávarútvegi og hjá Högum með starfsfólkinu og er það þeim sem því ráða til ævarandi skammar.

Friday, 30 December 2016 00:00

Gleðilegt ár!

Verkalýðsfélag Akraness óskar félagsmönnum sínum gleðilegs nýs árs.

Athygli er vakin á því að við opnum á hádegi mánudaginn 2. janúar 2017

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni gagnrýndi Verkalýðsfélag Akraness harðlega uppsagnir 7 ræstingarkvenna við Fjölbrautaskóla Vesturlands en þær uppsagnir voru að frumkvæði nýráðins skólameistara FVA og voru gerðar til að mæta hagræðingu og sparnaði í rekstri skólans. Eins og fram kom hér á heimasíðunni er dapurlegt og nöturlegt til þess að vita að á sama tíma og kennarar fengu 30% launahækkun sé krafist launalækkunar hjá ræstingarfólki skólans. Þær konur sem þarna um ræðir hafa starfað þarna í allt að 30 ár við góðan orðstír. 

Það er ánægjulegt til þess að vita að kennarar hafa staðið þétt við bakið á ræstingarkonunum og á fundi starfsmanna Fjölbrautaskóla Vesturlands var samþykkt ályktun þar sem meðal annars kom fram að starfsmenn mótmæli harðlega uppsögnum þessara 7 starfsmanna og skoraði fundurinn á skólameistara að draga uppsagnirnar tafarlaust til baka. Það kemur einnig fram í þessari ályktun að það sé fráleitt að gera starfsfólk í ræstingu ábyrgt fyrir þeim halla sem orðið hefur á rekstri stofnunarinnar á undanförnum árum og hér sé byrjað á öfugum enda. Því miður er það lenska hjá stjórnendum fyrirtækja og stofnana sem vilja láta til sín taka í hagræðingaráformum að leita ætíð þangað sem síst skyldi en það er í störf tengdum ræstingu, mötuneytum og þvottahúsum. Þar telja þessir hagræðingarsnillingar mestu möguleikana á sparnaði.

Verkalýðsfélag Akraness ítrekar áskorun sína og tekur undir með starfsmönnum Fjölbrautaskóla Vesturlands að þessar uppsagnir verði tafarlaust dregnar til baka og leitað verði annarra leiða til að mæta halla skólans en í vasa ræstingarkvenna.   

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá var þing Alþýðusambands Íslands haldið dagana 26.-28. október. Það mál sem helst var til umfjöllunar á þinginu var nýtt vinnumarkaðsmódel að norrænni fyrirmynd.

Það er morgunljóst að mjög skiptar skoðanir voru hjá þingfulltrúum um nauðsyn þess að taka hér upp nýtt samningalíkan. Það er óhætt að segja að þessar skiptu skoðanir endurspeglist í þeirri ályktun sem samþykkt var á þinginu um nýtt vinnumarkaðsmódel, en í ályktun sem samþykkt var á þinginu segir m.a.:

„42. þing Alþýðusambands Íslands bendir á þá staðreynd að grunnur að nýju íslensku samningalíkani verður ekki unninn við núverandi aðstæður. Til þess þarf lengri tíma og dýpri umræður. Eigi að breyta og bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga þurfa að vera til staðar forsendur sem hægt er að vinna út frá.“

Á þinginu var mikið rætt um að traust þyrfti að ríkja á milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Formaður Verkalýðsfélags Akraness sagði í sínum ræðum að mikilvægt væri að forysta ASÍ myndi byrja á því að skapa sér og ávinna sér traust innbyrðis, með öðrum orðum við sín aðildarfélög og félagsmenn.

Formaður VLFA spurði á þinginu hvort það væri til þess fallið að skapa traust gagnvart aðildarfélögunum og grasrótinni í umræðunni um nýtt vinnumarkaðsmódel að leggja fram gögn þar sem borinn er saman kaupmáttur á Norðurlöndunum og Íslandi, gögn sem ná aðeins til ársins 2014 og hafa ekki verið uppfærð. Formaður spurði líka hvort það væri traustvekjandi að forysta ASÍ upplýsi ekki að kaupmáttur lægstu launa á Íslandi er helmingi hærri en á hinum Norðurlöndunum, en kaupmáttur lægstu launa var að meðaltali rétt yfir 4% á Íslandi á meðan kaupmáttur á Norðurlöndunum var 1,8%.

Formaðurinn gagnrýndi forystu ASÍ harðlega á þinginu fyrir að hafa ekki uppfært samanburðinn við Norðurlöndin til dagsins í dag enda hafa allar forsendur gjörbreyst frá árinu 2014. Nefndi formaður sem dæmi að gengi Evrunnar gagnvar íslensku krónunnihafi lækkað um 21,58%. Gengi norsku krónunnar hefur lækkað um 26,52% og gengi Bandaríkjadollars hefur lækkað um 1,45% gagnvart íslensku krónunni. Þessi breyting á genginu og sú staðreynd að laun á Íslandi hafa hækkað mun meira en á hinum Norðurlöndunum hafa gjörbreytt öllum alþjóðlegum launasamanburði en forysta ASÍ sá enga ástæðu til að upplýsa þingfulltrúa um þessar staðreyndir, sem er gjörsamlega óskiljanlegt.

Það er rétt að vekja athygli á að Samtök atvinnulífsins fjölluðu um þessa breyttu stöðu í frétt á heimasíðu SA 22. október 2015 en þar segir m.a. orðrétt: „Auk mikilla breytinga á gengi gjaldmiðla hafa laun á Íslandi hækkað mun meira en í öðrum ríkjum. Þessar breytingar gerbreyta alþjóðlegum samanburði á launakjörum.“

Formaður Verkalýðsfélags Akraness gangrýndi forystu ASÍ harðlega í ræðum sínum á þinginu fyrir að upplýsa ekki þing ASÍ um þessa breyttu stöðu en ítrekaði samt að allur samanburður í prósentum væri afar blekkjandi. Það er hins vegar rétt að geta þess að forysta ASÍ hefur ítrekað sagt að það skipti ekki máli hversu margar krónur launafólk fær í launaumslagið heldur sé það aukning á kaupmætti sem skipti öllu máli. Formaður VLFA blés á þessi rök og sagði í ræðum sínum að verkafólk færi ekki útí búð og verslaði með prósentum heldur krónum. En ef forysta ASÍ vill halda sig við kaupmáttaraukningarsamanburð þá er ljóst að kaupmáttur lægstu launa á Íslandi er helmingi hærri en á hinum Norðurlöndunum frá árinu 2000.

Formaður fór yfir það á þinginu að það væri með ólíkindum að forysta ASÍ vilji innleiða hér nýtt vinnumarkaðsmódel að norrænni fyrirmynd, enda eru öll módelin á Norðurlöndunum þannig innbyggð að þau skerða og takmarka frjálsan samningsrétt launafólks. Það er bláköld staðreynd sem enginn sem hefur kynnt sér þessi vinnumarkaðsmódel á Norðurlöndunum getur þrætt fyrir. Það liggur líka fyrir að öll vinnumarkaðsmódelin á Norðurlöndunum byggjast á því að samið sé um afar hóflegar launbreytingar og hafa aðilar Salek samkomulagsins nefnt að meðaltals launahækkanir á Norðurlöndum hafi verið 3,5% frá árinu 2000. Rétt er líka að vekja athygli á skýrslu sem aðilar Salek hópsins létu Steinar Holden frá Háskólanum í Noregi gera um nýtt íslenskt vinnumarkaðsmódel en í þeirri 28 blaðsíðna skýrslu koma orðin „hóflegar launahækkanir“ fram 19 sinnum.

Formaður fór yfir það á þinginu að ef verkalýðshreyfingin hefði tekið upp nýtt vinnumarkaðsmódel að norrænni fyrirmynd og samið með sama hætti og gert var á Norðurlöndunum frá árinu 2000 þá væri lægsti launataxti verkafólks 124.089 krónur en ekki 244.517 krónur á mánuði eins og hann er í dag. Formaður benti einnig á að launataxti iðnaðarmanna væri einungis 189.005 krónur ef samið hefði verið að meðaltali um 3,5% frá árinu 2000 eins og gert var á Norðurlöndunum.

Nú hafa launahækkanir kjararáðs verið mikið til umræðu síðustu daga og hefur Verkalýðsfélag Akraness bent á að ef þingmenn hefðu tekið sömu launahækkun og um hefur verið samið á hinum Norðurlöndunum frá árinu 2000 að meðaltali 3,5% þá væri þingfararkaupið í dag einungis 526.872 krónur á mánuði en ekki 1.101.194 krónur. Formaður spyr, vita þingmenn þetta? Það er ljóst að ef nýtt vinnumarkaðsmódel hefði verið tekið upp hér á landi að norrænni fyrirmynd árið 2000 þá væru laun á Íslandi um helmingi lægri en þau eru í dag og eru þau þó lág fyrir.

Á þinginu spurði formaður að því á hvaða vegferð æðsta forysta ASÍ væri í ljósi þess að þetta módel byggist á því að semja ætíð um afar hóflegar launahækkanir og það á sama tíma og lægstu laun duga ekki fyrir framfærsluviðmiðum sem Velferðaráðneytið hefur gefið út og ekki bara það, lægstu laun duga einungis til 15 júlí ár hvert. Hvað gengur forystunni til að ljá máls á því að beisla möguleika launafólks til að fá aukna hlutdeild í góðri afkomu fyrirtækja, en í gær kom fram að heildarhagnaður íslenskra fyrirtækja nam 327 milljörðum í fyrra og á árinu 2014 voru 215 milljarðar greiddir í arðgreiðslur til eigenda fyrirtækja á meðan kostnaður vegna launahækkana nam einungis 35 milljörðum.

Formaður fór líka yfir það að launahækkunum launafólks er ekki um að kenna að hér hefur því miður ríkt óstöðugleiki og töluverð verðbólga á liðnum áratugum. Formaður benti á að húsnæðisbóla á fasteignamarkaði hefur knúið verðbólguna áfram sem nemur um 50% verðbólgunnar og öll gögn sýna að það á bæði við fyrir hrun og eftir hrun. Allt tal um að óstöðugleiki í íslensku efnahagslífi sé íslensku launafólki að kenna stenst ekki nokkra skoðun og því er það grátlegt að forysta ASÍ skuli taka undir hræðsluáróður Seðlabankans, stjórnvalda og Samtaka atvinnulífsins að launahækkanir launafólks séu aðalorsakavaldur óstöðugleika og annarrar óáran sem veldur efnahagslegum óstöðugleika. Formaður benti á að árið 2014 hafi Samtök atvinnulífsins bent á að þróun fasteignaverðs og verðs á leiguhúsnæði er helsta ógnunin við markmið um verðstöðugleika á Íslandi.

Formaður lagði einnig fram spurningu til þingsins um hvernig ætti að lagfæra lægstu laun á íslenskum vinnumarkaði þannig að þau dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út ef ætíð á að semja um hóflegar launahækkanir eins og nýtt vinnumarkaðsmódel gengur útá. Eða hvernig á að lagfæra kynbundinn launamun eða laun lögreglunnar, kennara, slökkviliðsmanna og annarra hópa sem telja sig hafa setið eftir í launamálum. Málið er að nýtt vinnumarkaðslíkan gerir alls ekki ráð fyrir slíkum leiðréttingum eða lagfæringum, en því miður er almennt launafólk ekki upplýst um hvað nýtt vinnumarkaðsmódel gengur út á og formanni finnst eins og það sé gert vísvitandi. Slíkt er alveg óskiljanlegt og formaður spurði á þinginu hvaða hagsmuni sé verið að verja með því að taka upp nýtt vinnumarkaðsmódel sem gengur út á skerðingu á samningsfrelsi launafólks þar sem samið verði um hóflegar launahækkanir. Svar við þeirri spurningu hefur formaður ekki enn fengið og mun ugglaust aldrei fá. Það er mikilvægt fyrir allt launafólk að brjóta þessa fyrirætlan um nýtt vinnumarkaðsmódel á bak aftur enda er þetta módel sem menn hafa í hyggju að taka upp alls ekki til hagsbóta fyrir launafólk svo mikið er víst!

Friday, 11 November 2016 00:00

Formaður með erindi hjá SÁÁ

Það er nokkuð algengt að hin ýmsu félaga- og góðgerðasamtök óski eftir að formaður Verkalýðsfélags Akraness komi og haldi erindi um verkalýðshreyfinguna og þá hagsmunabaráttu sem VLFA stendur fyrir á hverjum degi.

Í gær hélt formaður erindi fyrir svokallaða Heiðurmenn SÁÁ að Efstaleiti 7 en það er hópur manna sem hittist annan hvern fimmtudag.  Áður en formaður hélt sitt erindi þá var farið yfir sögu SÁÁ og þá starfsemi sem þar er innt af hendi.

Það er algerlaga morgunljóst að það er verið að vinna gjörsamlega frábært starf hjá SÁÁ við að hjálpa fólki sem haldið er þeim slæma sjúkdómi sem alkóhólmisti er. Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það að SÁÁ er búið að bjarga svo mörgum mannslífum með sinni starfsemi í gegnum árin og áratugina að þeim verður seint þakkað nægilega fyrir það. Fram kom í ræðu frá starfsmanni SÁÁ að Verkalýðsfélag Akraness væri eina stéttarfélagið á Íslandi sem hefði stutt SÁÁ fjárhagslega.

Formaður byrjaði erindi sitt á þakka fyrir að hafa verið boðið og einnig þakkaði hann fyrir frábært starf sem unnið væri af hálfu SÁÁ enda eru fáar fjölskyldur sem eiga ekki einhvern ættingja eða vin sem hefur glímt við áfengis- eða fíkniefnavandamál. Formaður sagði líka að honum fyndist það undarlegt og hálf skammarlegt að Verkalýðsfélag Akraness væri eina stéttarfélagið sem hafi veitt SÁÁ fjárhagslegan stuðning.

Í erindi sínu fór formaður yfir mikilvægi stéttarfélaganna og nefndi sem dæmi að frá því ný stjórn tók við Verklýðsfélagi Akraness árið 2004 hafi félagið innheimt uppundir 400 milljónir vegna hina ýmsu kjarasamningsbrota á félagsmönnum. Hann kom líka að því að barátta fyrir bættum hag félagsmanna lykki aldrei og sem dæmi þá er VLFA með 4 mál fyrir dómstólum þar sem verið er að láta reyna á réttindi félagsmanna.

Formaður fór líka yfir það að verkalýðsbarátta er lýðheilsumál og sagði hann að þegar lágtekjufólk nær ekki að framfleyta sér og börnum sínum þá getur það eðlilega leitt til kvíða, þunglyndis og annarrar andlegrar vanlíðunar. Því miður erum við núna með lágmarkslaun og launataxta fyrir verkafólk sem ekki duga fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út og til að verkafólk geti haldið mannlegri reisn. Á þessari forsendu er stéttarfélagsbarátta m.a. lýðheilsumál!

Það var mjög ánægjulegt að hitta þessa Heiðursmenn SÁÁ og var ekki annað á þeim að heyra en þeir væru mjög ánægðir með erindi formanns.

Monday, 11 May 2015 16:42

Sannleikurinn um tilboð SA

Samtök atvinnulífsins hafa á opinberum vettvangi sagt að það tilboð sem Starfsgreinasambandi Íslands hefur verið gert sé eitt það besta sem samtökin hafi lagt fram síðustu ár, ef ekki áratugi. Eðlilega fáum við spurningar frá okkar félagsmönnum um innihald tilboðsins, í ljósi þeirra frétta sem koma frá Samtökum atvinnulífsins um það hversu æðislegt þetta tilboð sé. Spurningarnar sem félagsmenn spyrja okkur snúa aðallega að því í hverju er þetta tilboð fólgið sem á að vera það besta sem samtökin laga lagt fyrir verkafólk?

Í ljósi þess að SA segir að þetta sé svo gríðarlega frábært tilboð, þá sér VLFA sig nauðbeygt til að upplýsa félagsmenn um það í hverju tilboðið er í raun og veru fólgið. Til upplýsingar, þá liggur fyrir að Samtök atvinnulífsins hafa boðið verkafólki launahækkanir með eftirfarandi hætti:

- 1. maí 2015 - 6% almenn hækkun 
- 1. maí 2016 - 4,5% hækkun 
- 1. maí 2017 - 3% hækkun

Einnig bjóða samtökin prósentuhækkanir í skiptum fyrir lengingu á dagvinnutímabili og lækkun yfirvinnuprósentu sem er með eftirfarandi hætti:

- Frá 1. maí 2015 verði dagvinnutímabil yrði frá 6 að morgni til 18 að kveldi. Það yrði sem sagt lengt sem nemur tveimur klukkustundum og fyrir þetta kæmi 2% launahækkun til viðbótar áðurnefndum hækkunum. 
- Frá 1. maí 2016 yrði dagvinnutímabilið lengt aftur og yrði frá 6 að morgni til 19 að kveldi og samhliða því yrði yfirvinnuálag lækkað úr 80% niður í 60%. 
- Þann 1. maí 2017 yrði yfirvinnuálagið lækkað enn frekar, eða niður í 50% álag á dagvinnu og samhliða því kæmi þá 2% launahækkun.

En hvað þýðir þetta? Ef við byrjum á almennum launahækkunum, þá myndi lægsti taxti hækka úr 201.317 krónum í 213.396 krónur. Eða sem nemur 12.079 krónum. Árið 2016 kæmu 4,5% og þá myndi lægsti taxti hækka um 9.602 og væri þá kominn upp í 222.998. 1. maí 2017 kæmi 3% hækkun, sem er 6.689 króna hækkun og væri þá lægst taxti komin í 229.689 krónur. Samtals gerir þessi hækkun 28.372 eða 14,09%.

En til að gæta alls sanngirnis, þá eru þeir að bjóða áðurnefndar breytingar á yfirvinnuálagi og dagvinnutímabili og ef þær hækkanir eru teknar með, þá þýðir það að dagvinnulaun myndu á fyrsta ári fara upp í 217.422, en takið eftir að fyrir þessa hækkun kæmi lenging á dagvinnutímabilinu. Síðan árið 2016 kæmu 4%, og þá færi lægsti taxti upp í 235.903 krónur. Fyrir þá hækkun myndi yfirvinnuálagið lækka um 20%, eða niður í 60% af dagvinnukaupi. Og á lokaárinu 2017 kæmi 2% hækkun til viðbótar og þá yrði lægsti taxti kominn upp í 247.698, en þá væri yfirvinnuálagið líka komið niður í 50%. Heildarhækkun lægsta taxta á þessu þriggja ára tímabili væri því rétt rúmar 46 þúsund krónur, en með þessari kvöð sem er fólgið í því að yfirvinnuálag lækkar og dagvinnutímabil lengist umtalsvert. Þetta í raun og veru þýðir það að verkafólk sem er með 35 yfirvinnutíma á mánuði, kemur í raun og veru út á jöfnu þar sem fólk er að kaupa sína launahækkun með breytingu á yfirvinnuálagi og lengingu á dagvinnutímabili. 

Þetta er nú sannleikurinn um hið glæsilega tilboð Samtaka atvinnulífsins og því miður er alls ekki hægt á þessum grunni að ganga. En ugglaust er hægt að þróa og slípa til þá agnúa sem á þessu tilboði eru. En það er morgunljóst að frá samningsborðinu verður ekki staðið upp ef lágmarkslaun ná ekki 300.000 innan þriggja ára. Að sjálfsögðu má vel skoða aðkomu stjórnvalda til að liðka til við samningsgerðina, meðal annars með hækkun persónuafsláttar sem klárlega kemur þeim tekjulægstu hvað best. En að halda því fram að þetta tilboð sé ígildi 23% launahækkunar er glórulaus blekking, enda liggur fyrir að verkafólk á landsbyggðinni er að meðaltali með tæpa 11 fasta yfirvinnutíma á mánuði og bara það eitt og sér leiðir það af sér að hluti af þeirri hækkun sem boðin er, er verkafólk að kaupa sjálft.

Friday, 11 November 2016 00:00

Sjómenn komnir í verkfall

Eins og fram hefur komið í fréttum þá slitnaði upp á viðræðum Sjómannasambands Íslands við Samtök fyrirækja í sjávarútvegi í gærkvöldi og því skall á verkfall sjómanna klukkan 23:00 það sama kvöld.

Verkalýðsfélag Akraness hefur mikilla hagsmuna að gæta hér, enda er félagið með um 100 sjómenn í sínu félagi, en flestir þeirra starfa á skipum HB Granda. Þessu til viðbótar getur verkfallið haft áhrif á hátt í 300 félagsmenn sem starfa í fiskvinnslu.

Það er ósköp eðlilegt að töluverð harka sé í þessum kjaraviðræðum, enda hafa sjómenn verið kjarasamningslausir frá 1. janúar 2011. En eðli málsins samkvæmt er slíkt algjörlega óviðunandi. Og krafa sjómanna er skýr, það er að ná viðunandi samningi þar sem gengið er að þeirra helstu kröfum er lúta að þeirra réttindum og kjörum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem formaður VLFA hefur aflað sér náðu samninganefndir viðunandi niðurstöðu í nokkrum málum sem djúpur ágreiningur hefur verið um, áður en upp úr viðræðunum slitnaði, en þau mál eru:

  • Verðlagsmál 80% af fiskmarkaðsverði
  • Nýsmíðaálag, en tillaga var um að það myndi fjara út á jafnlöngum tíma og það hefur verið við lýði
  • Kauptrygging hækki umtalsvert
  • Bættur orlofsréttur
  • Ákvæði um sundurliðun á fjarskiptakostnaði sjómanna komi inn


Það eru hins vegar mál sem ennþá standa útaf og það sem viðræðurnar strönduðu á voru mönnunarmál á uppsjávarskipunum meðal annars. En það hefur verið skoðun sjómanna og stéttarfélaganna að sú fækkun sem hefur átt sér stað á þessum skipum sé farin að ógna illilega öryggi þeirra um borð í skipunum. Þetta er mál sem er mjög mikilvægt að finnist lausn á, því það er ekki hægt að láta það átölulaust að fækkun skipverja um borð í skipum stefni öryggi þeirra í tvísýnu.

Formaður ber von í brjósti um að á þessu finnist lausn sem báðir aðilar geti verið ásáttir um, en fyrst verða menn að vera sammála um að þessi mikla fækkun sé að leiða til þess að áðurnefndu öryggi skipverja sé stefnt í hættu. Sjómenn og stéttarfélögin eru eins og áður sagði ekki í neinum vafa um að svo sé.

Síðan er gríðarlega mikilvægt að ákvörðun um verðmyndun á uppsjávarafla sé hafin yfir allan vafa, en því miður hafa sumir útgerðarmenn ekki hagað sér með eðlilegum hætti þegar ákvörðun hefur verið tekin um verð á uppsjávarafla. Sem dæmi þá hafa útgerðir í sumum tilfellum ákveðið einhliða hvert verðið eigi að vera og það þrátt fyrir skýrt sé kveðið á um það í kjarasamningum að sjómenn kjósi um það hvort þeir séu sáttir við það verð sem útgerðin er tilbúin að greiða. Þetta framferði útgerða hefur valdið skipverjum á uppsjávarskipum eðlilega mikilli gremju, og því mikilvægt að á þessu máli sé tekið í þeim kjarasamningi sem nú er verið að vinna að.

Einnig þarf að hækka fatapeninga handa sjómönnum, en ekki var komið endanleg niðurstaða í það mál þegar uppúr slitnaði og einnig var krafa frá stéttarfélögunum um að sjómenn nytu þeirra sjálfsögðu réttinda eins og annað launafólk hér á landi að fá orlofs- og desemberuppbætur. Það er mikilvægt að menn setjist niður sem fyrst og reyni að finna flöt á þessum atriðum sem útaf standa. Hagsmunir okkar allra eru í húfi, enda græðir enginn á langtímaverkfalli og því ábyrgð okkar mikil að finna viðunandi lausn, en sú lausn þarf að vera með þeim hætti að sjómenn geti við unað.

Verkalýðsfélag Akraness gekk frá samningi við Faxaflóahafnir í fyrradag vegna hafnargæslumanna á Grundartanga. Samningurinn var aðallega fólginn í því að þeir starfsmenn sem sjá um hafnargæslu á Grundartangasvæðinu færðust frá Securitas sem sá um þessa gæslu og yfir til Faxaflóahafna en Securitas var undirverktaki hjá Faxaflóahöfnum og sá um gæsluna. Nú eru þessir hafnargæslumenn orðnir starfsmenn Faxaflóahafna eins og áður sagði. 

Formaður félagsins er afar ánægður með þennan samning og þá staðreynd að starfsmennirnir tilheyri núna Faxaflóahöfnum. Það er ljóst að Verkalýðsfélag Akraness hefur gert marga góða samninga í gegnum tíðina en þessi samningur er einn af þeim eftirminnilegri sem félagið hefur gert enda nokkuð innihaldsríkur fyrir á sem eiga hlut að máli og það er jú það sem skiptir máli.

Umræddir hafnargæslumenn eru í raun og veru hjartað á  Grundartangasvæðinu því allt hráefni sem kemur frá verksmiðjunum og aðföng fara í gegnum þetta hlið og skráningar og því töldu forsvarsmenn Faxaflóahafna mikilvægt að engir hnökrar mættu verða á þessari starfsemi og vildu því yfirtaka starfsemina. Slíkt voru allir aðilar, bæði stéttarfélagið og starfsmenn, mjög ánægðir með.   

Annar dagur allsherjarverkfalls stendur nú sem hæst á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness sem og annarra aðildarfélaga SGS á landsbyggðinni. Heilt yfir hefur verkfallið gengið vel fyrir sig þó nokkur dæmi séu um verkfallsbrot og eitt af þeim er að vegna tungumálaörðugleika var einn af leikskólum bæjarins ræstur fyrir misskilning en það er ræstingarfyrirtækið Hreint ehf sem um ræðir þar. Ábyrgðin liggur algjörlega hjá atvinnurekandanum að upplýsa sína erlendu starfsmenn um hvað er í gangi á íslenskum vinnumarkaði um þessar mundir. Ræstingarfyrirtækið Hreint ehf. hefur fengið lokaaðvörun um að virða þær leikreglur sem gilda á íslenskum vinnumarkaði þegar um verkföll er að ræða og sjá til þess að slíkt komi ekki fyrir aftur.  

Það ánægjulega í þessu er að fjöldi atvinnurekenda hefur komið á skrifstofu félagsins og óskað eftir því að ganga frá samningi þar sem farið verður í hvívetna eftir þeirri kröfugerð sem fyrir liggur fyrir verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði. Félagið hefur gert á annan tug slíkra samninga en í öllum tilfellum er um fyrirtæki að ræða sem ekki eru aðilar að Samtökum atvinnulífsins. Félagið vill virða þær leikreglur sem gilda á íslenskum vinnumarkaði og hefur því bent þeim fyrirtækjum sem eru innan SA og hafa óskað eftir að ganga frá samningi um að sækja um leyfi hjá samtökunum og þrýsta á Samtök atvinnulífsins að ganga frá kjarasamningum á grundvelli þeirrar kröfugerðar sem fyrir liggur. Allir eiga þessir aðilar það sammerkt að finnast kröfugerð okkar sanngjörn, réttlát og eðlileg og segjast hafa fulla burði til að hækka laun sinna starfsmanna um sem nemur um 33.000-35.000 kr. á mánuði. 

Formaður situr í samningaráði SGS en næsti fundur hefur verið boðaður á morgun kl. 13:30 í húsakynnum ríkissáttasemjara. Því miður er fátt sem bendir til þess að það dragi til stórra tíðinda á þeim fundi. En það er mikilvægt að Samtök atvinnulifsins fari að nálgast þetta viðfangsefni af skynsemi og raunsæi og gangi frá kjarasamningi sem tryggir að lágmarkslaun verði orðin 300.000 kr. innan þriggja ára svo það sé möguleiki hjá íslensku verkafólki að geta haldið mannlegri reisn á sínum launum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image