• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Friday, 04 January 2013 00:00

Leiðrétting upp á tæpar 30 milljónir

Um mitt síðasta ár gerði félagið alvarlegar athugasemdir hjá einu fyrirtæki við það að lausráðið starfsfólk og fólk í sumarafleysingum væri ekki að vinna sér inn frídaga vegna rauðra daga, en starfsmenn í fullri vaktavinnu ávinna sér 72 tíma á ári í frítökurétt vegna vinnu á rauðum dögum. Eftir að Verkalýðsfélag Akraness færði góð og gild rök fyrir því að þessi réttur væri klárlega einnig til staðar hjá lausráðnum og sumarafleysingafólki féllst fyrirtækið á að lagfæra þessi mistök fjögur ár aftur í tímann. 

Sú leiðrétting nam um 23 milljónum og fengu um 300 manns leiðréttingu sem gerði um 76.000 kr. að meðaltali á hvern starfsmann. Verkalýðsfélag Akraness fór síðan yfir þessa útreikninga og komst að því að leiðréttingin hafi ekki verið vaxtareiknuð og gerði því kröfu um að slíkt væri gert og að sjálfsögðu samþykkti fyrirtækið þá kröfu félagsins. Áðurnefndir starfsmenn fengu því reiknaða dráttarvexti og nam sú greiðsla yfir 6 milljónum króna. 

Þessi hagsmunagæsla Verkalýðsfélags Akraness skilaði því félagsmönnum VLFA rétt tæpum 30 milljónum og þetta sýnir hversu mikilvægt það er að launafólk komi til síns stéttarfélags og láti kanna hvort verið sé að greiða eftir þeim kjarasamningum sem í gildi eru.  Þetta sýnir einnig hversu miklivægt það er að stéttarfélögin bregðist skjótt og örugglega við öllum ábendingum um kjarasamningsbrot því miklir fjármunir geta verið í húfi fyrir starfsmenn eins og þetta dæmi sannar.

Published in Fréttir
Wednesday, 02 January 2013 00:00

Félagsskírteini póstlögð til félagsmanna

Rétt fyrir áramót voru póstlögð félagsskírteini til félagsmanna, en gegn framvísun þeirra býðst afsláttur af vörum og þjónustu hjá hinum ýmsu aðilum. Ljóst er að margir félagsmenn hafa nýtt sér þessi sérkjör og þá sérstaklega nú fyrir jól, enda getur afslátturinn numið þúsundum króna. Félagið vill einnig minna félagsmenn á að dagbók ársins 2013 er tilbúin og er hægt að nálgast hana á skrifstofu félagsins eða hafa samband og fá hana senda í pósti.

Eftirtalin fyrirtæki veita félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness afslátt gegn framvísun félagsskírteinis:

Apótek Vesturlands 10% af vörum í búð
Bifreiðaverkstæðið Brautin 7% af vinnu
Bílar og dekk 10% af dekkjum
Dekur snyrtistofa 10%
Gallerí Ozone 10%
Omnis 5-15%
LH bókhald 15%
Model/Ormsson 5-10%
N1 Sjá skilmála
Olís Sjá skilmála
Rafþjónusta Sigurdórs 5-10%
Trésmiðjan Akur 7%
Tryggingafélagið VÍS 5%
Ökukennsla Sigga Trukks 10%

Tæmandi lista yfir samstarfsfyrirtæki, skilmála og fyrirvara má finna hér á heimsíðunni.

Published in Fréttir

Rétt í þessu lauk aðalfundi sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa var samþykkt ályktun þar sem það er harmað innilega að starfsöryggi sjómanna sé ógnað vegna ágreinings útgerðarmanna við stjórnvöld vegna auðlindagjalds. Fram kom í máli fundarmanna að þeir séu verulega óánægðir með að ekki skuli vera búið að ná fram kjarasamningi ennþá og það sé ekki undir neinum kringumstæðum hægt að sætta sig við þann drátt sem orðið hefur á nýjum kjarasamningi en nú eru liðin tvö ár frá því að eldri kjarasamningur rann út.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum:

  

Ályktun

 

Aðalfundur sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness harmar þá óvissu sem upp er komin varðandi kjör og starfsöryggi sjómanna og fiskvinnslufólks vegna ágreinings sjávarútvegsfyrirtækja við stjórnvöld.

Á þeirri forsendu telur aðalfundurinn það afar brýnt að áðurnefndir aðilar leysi þennan ágreining sín á milli þannig að sjávarútvegurinn geti haldið áfram að vaxa og dafna og að sá vöxtur leiði til fjölgunar í greininni  í stað fækkunar eins nú stefnir í. 

Aðalfundurinn skorar á Landssamband útgerðarmanna að ganga tafarlaust frá kjarasamningi við sjómenn því það er með öllu ólíðandi að sjómenn séu búnir að vera samningslausir í heil tvö ár.

Aðalfundur sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness vill að það komi skýrt fram að það mun aldrei koma til greina að sjómenn taki á sig lækkun á sínum kjörum vegna ágreinings  útgerðarmanna við stjórnvöld vegna auðlindagjaldsins og vill fundurinn minna útgerðarmenn á að stjórnvöld hafa ráðist á kjör sjómanna með því að afnema sjómannaafsláttinn í áföngum á liðnum árum.  Það er því morgunljóst að sjómenn munu krefjast þess að þeim verði m.a bætt upp það fjárhagstjón sem þeir hafa orðið fyrir vegna skerðingar á sjómannaafslættinum.

Published in Fréttir

Hinn árlegi jólafundur stjórnar- og trúnaðarráðs var haldinn í gær en á dagskrá fundarins var farið yfir starfsemi liðins árs. Fundarmenn byrjuðu á því að rísa úr sætum og minnast Jóhanns Arnar Matthíassonar sem gegnt hafði stjórnarmennsku í félaginu í áratugi og það af stakri snilld en hann féll frá í ágústmánuði á þessu ári.

Formaður fór yfir starfsemi félagsins og kom fram að rekstur félagsins hefur gengið mjög vel á öllum sviðum og hefur orðið fjölgun í félaginu á liðnum mánuðum. Mikið hefur gengið á í hinum ýmsu baráttumálum hjá félaginu og fór hann meðal annars ítarlega yfir málsóknina gegn verðtryggingunni en þingfest verður í því máli strax eftir áramót. Það kom einnig fram í máli hans að frá því að ný stjórn tók við þann 19. nóvember 2003 hefur félagið innheimt vegna hinna ýmsu kjarasamningsbrota fyrir félagsmenn yfir 200 milljónir króna. Félagið hefur verið reist upp frá rústum ef að þannig má að orði komast, jafnt félagslega sem fjárhagslega á þessum 9 árum enda var félagið rekið á yfirdrætti þegar núverandi stjórn tók við síðla árs 2003.

Það kom fram í máli stjórnar- og trúnaðarráðsmanna að þeir væru stoltir af starfsemi félagsins enda hefur félagið verið áberandi í allri þjóðfélagsumræðu er lýtur að hinum ýmsu hagsmunamálum fyrir félagið og almenning í þessu landi.

Published in Fréttir

Formaður Verkalýðsfélags Akraness var valinn Vestlendingur ársins 2012 af lesendum héraðsblaðsins Skessuhorns en um 24 aðilar fengu tilnefningu og samkvæmt upplýsingum frá Skessuhorni fékk formaður félagsins langflest atkvæði.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness lítur á þetta sem viðurkenningu fyrir þá miklu baráttu sem félagið hefur staðið í er lítur að hinum ýmsu hagsmunamálum fyrir íslenska launþega sem og skuldsett heimili. Verður þetta kjör að teljast nokkuð athyglisvert í ljósi þess að verkalýðshreyfingin hefur verið að mælast í svokölluðum ruslflokki slag í slag í þeim könnunum sem gerðar hafa verið enda hefur gríðarleg gjá verið á milli hins almenna félagsmanns innan ASÍ og forystu hreyfingarinnar. Þetta sýnir að sú stefna sem Verkalýðsfélag Akraness hefur tekið í til dæmis verðtryggingarmálum og leiðréttingu á skuldum heimilanna nýtur mikils stuðnings á meðal almennings í þessu landi. Einnig hefur barátta félagsins fyrir auknu lýðræði í lífeyrissjóðunum átt mikinn stuðning á meðal almennings og ugglaust hafa allir þessir þættir spilað saman þegar fólk hefur tekið ákvörðun um hvern skyldi kjósa í þessu kjöri um Vestlending ársins.

Formaður vill ítreka það að hann lítur á þetta sem viðurkenningu fyrir starfsmenn félagsins, stjórn þess og í raun og veru fyrir Verkalýðsfélag Akraness allt eins og það leggur sig.

Published in Fréttir
Friday, 21 December 2012 00:00

Opnunartími skrifstofu um jól og áramót

Opnunartími skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness  yfir jól og áramót verður sem hér segir:

24. desember Aðfangadagur - lokað
25. desember Jóladagur - lokað
26. desember Annar í jólum - lokað

27. desember - opið kl. 12:00 - 16:00

28. desember - opið kl. 08:00 - 16:00

31. desember Gamlársdagur - lokað
1. janúar Nýársdagur - lokað
2. janúar - opið kl. 12:00 - 16:00

Styrkir og aðrar greiðslur úr sjóðum félagsins verða greiddar föstudaginn 28. desember. Umsóknir og öll gögn þurfa því að hafa borist skrifstofu í lok dags 27. desember til að ná útborgun fyrir áramót.

Published in Fréttir

Félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness finnst greinilega eftirsóknarvert að fara út úr bænum og dvelja í orlofshúsi yfir jól og áramót. Þótt eitthvað sé laust um næstu helgi þá er uppbókað í öllum bústöðum félagsins frá aðfangadegi og fram yfir áramót og komust færri að en vildu.

Nýtingin á orlofshúsunum hefur reyndar verið einstaklega góð í allt haust og sárasjaldan sem leiga hefur fallið niður um helgi.

Til að fylgjast með lausum orlofshúsum er best að hafa aðgang að Félagavefnum (sjá rauðan hnapp hér til hægri). Hægt er að sækja um aðgang á skrifstofu félagsins eða á sjálfum Félagavefnum. Einnig er hægt að fá upplýsingar og bóka laus orlofshús á skrifstofu félagsins Sunnubraut 13 eða í síma 4309900. Svo er ekki verra að vera áskrifandi að síðu félagsins á Facebook, þar eru settar inn tilkynningar ef forföll verða.

Published in Fréttir

Því miður náðist ekki að þingfesta dómsmálið um ólögmæti verðtryggingarinnar fyrir jól eins og til stóð. Ástæðan er sú að málið er mjög yfirgripsmikið, en að höfðu samráði við lögmann þá var það sameiginleg niðurstaða að bíða með þingfestinguna þar til strax eftir áramót. Gerð stefnunnar er langt komin og mun hún verða þingfest að öllum líkindum þann 4. janúar næstkomandi.

Eins og áður hefur komið fram þá snýr stefnan að því hvort löglegt sé að lána flókna fjármálagerninga, svokallaðar afleiður, til einstaklinga og heimila eða hvort slíkt stangist á við MiFid reglurnar. Fjölmargir hafa styrkt málareksturinn, en eðli málsins samkvæmt er gríðarlega dýrt að fara með svona mál í gegnum bæði dómsstigin og er áætlað að kostnaðurinn verði á þriðju milljón króna. En sem betur fer hafa fjölmörg stéttarfélög og einstaklingar stutt Verkalýðsfélag Akraness í þessu  máli, en þau stéttarfélög sem hafa stutt félagið nú þegar eru:

  • Framsýn stéttarfélag
  • Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur
  • Sjómannafélag Íslands
  • Verkalýðsfélag Snæfellinga
  • Félag Málmtæknimanna Akureyri
  • Stéttarfélagið Samstaða
  • Verkalýðsfélag Grindarvíkur
  • Verkalýðsfélag Þórshafnar

Það er alveg ljóst að hér er um gríðarlega mikla hagsmuni að ræða fyrir skuldsett heimili þessa lands en eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðu félagsins þá hefur verðtryggingin leikið skuldsett hemili skelfilega á liðnum árum og áætlað er að skuldir heimilanna hafi hækkað um 400 milljarða frá 1. jan 2008 vegna hennar. Og á síðustu 12 mánuðum hafa verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað um 60 milljarða króna.

Published in Fréttir

Jólaúthlutun til þeirra sem eiga í fjárhagslegum erfiðleikum fer víða fram um þessar mundir. Myndin er frá Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur.Í lok árs 2005 gerði stjórn Verkalýðsfélags Akraness mjög góðan samning við Landsbankann á Akranesi um öll bankaviðskipti félagsins. Í einu ákvæði samningsins er kveðið á um að Landsbankinn greiði í sérstakan styrktarsjóð Verkalýðsfélags Akraness sem nota á til að styrkja góðgerðamál á félagssvæði VLFA.

Á grundvelli þessa samnings við Landsbankann ákvað stjórn félagsins á fundi sínum á þriðjudag að styrkja Mæðrastyrksnefnd Akraness og styrktarsjóð Akraneskirkju um sambærilega upphæð og undanfarin ár. Séra Eðvarð Ingólfsson sóknarprestur okkar Skagamanna mun sjá um að útdeila þeim fjármunum sem runnu til styrktarsjóðs Akraneskirkju til fjölskyldna sem eiga í fjárhagsvandræðum.  Verkalýðsfélag Akraness hefur frá árinu 2005 styrkt hin ýmsu góðgerðasamtök hér á Akranesi um tæpar 5 milljónir króna í gegnum þennan samning sem félagið gerði við Landsbankann á Akranesi.

Stjórn félagsins er afar ánægð með að geta komið þessum góðgerðasamtökum til hjálpar með þessu framlögum. 

Það er alveg ljóst að gríðarlegur fjöldi fólks á um sárt að binda fjárhagslega um þessar mundir sökum þess ástands sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi. Á þeirri forsendu er jákvætt að geta aðstoðað einhverja sem eiga í tímabundnum erfiðleikum fjárhagslega við að halda gleðilega jólahátíð.

Published in Fréttir

Félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness hafa verið mjög duglegir að nýta sér réttindi sín, en það sem af er þessu ári hafa styrkir úr sjúkrasjóði aukist um 29% miðað við sama tímabil í fyrra. Mestu munar um hækkun Fæðingarstyrks, en um síðustu áramót var hann tvöfaldaður og hækkaði hann úr 35.000 krónum upp í 70.000 krónur. Alls hafa útgjöld vegna fæðingarstyrks á þessu tímabili aukist um 129%. Útgjöld vegna annarra styrkja hafa einnig aukist umtalsvert.

Verkalýðsfélag Akraness hefur ávallt reynt að kynna félagsmönnum réttindi þeirra eins vel og kostur er bæði hér á heimasíðunni, í blöðum og með auglýsingum. Miðað við þessa aukningu er greinilegt að þetta er að skila sér og félagsmenn eru betur meðvitaðir um það sem þeim býðst hjá sínu stéttarfélagi.

Published in Fréttir

Fréttir

Nýjar fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image