• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

28
Sep

Stjórnarkjör 2015

Samkvæmt 29. gr.laga Verkalýðsfélags Akraness ber að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu um kjör stjórnar.

Framboðslistum til stjórnarkjörs í Verkalýðsfélagi Akraness árið 2015, ásamt meðmælendum skv. reglugerð ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslur, ber að merkja kjörstjórn og skila á skrifstofu félagsins, Sunnubraut 13 fyrir kl. 12:00 þann 15. október nk. Hvert það framboð er gilt sem fram kemur innan þess tíma og hefur skriflegt samþykki þeirra sem framboðslistann skipa.

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness hefur lagt fram framboðslista til stjórnar. Listann er hægt að skoða með því að smella hér.

Berist kjörstjórn ekki aðrir listar telst framboðslisti stjórnar og trúnaðarráðs sjálfkjörinn til næstu tveggja ára.

24
Sep

Kjarasamningur við ríkið að fæðast

Margt bendir til þess að hugsanlega sé kjarasamningur að verða til á milli Starfsgreinasambands Íslands og ríkisins og eru umtalsverðar líkur á að skrifað verði undir nýjan kjarasamning í næstu viku. Drög að þessum samningi eru í anda þess sem samið var um við Samtök atvinnulífsins í kjarasamningnum á hinum almenna vinnumarkaði. Í þeim samningi var samið um sérstaka hækkun til þeirra sem voru að vinna á lægstu töxtunum og drögin við ríkið taka að sjálfsögðu mið af því.

Þeir sem vinna eftir kjarasamningum við ríkið og tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness eru að stærstum hluta starfsmenn á Heilbrigðisstofnun Vesturlands eða með öðrum orðum á Sjúkrahúsi Akraness.

Hinsvegar er ekki sömu sögu að segja gagnvart sveitarfélögunum, þar hefur lítið sem ekkert þokast og er farið að gæta verulegrar óþreyju hjá stéttarfélögunum í garð sveitarfélaganna. Ef ekki fer að sjást til lands í þeim samningum er allt eins líklegt að deilunni verði áður en langt um líður vísað til ríkissáttasemjara.

24
Sep

Formaður með erindi í Háskóla Íslands

Formaður félagsins hélt erindi fyrir nemendur Gylfa Dalmanns í Háskóla Íslands í gær en þeir eru í meistaranámi í vinnumarkaðsfræði. Þetta er í fjórða sinn sem formaður heldur erindi fyrir nemendur Gylfa en erindið fjallaði um íslenska verkalýðshreyfingu og málefni henni tengd.

Í gær fór formaður um víðan völl í máli sínu og ræddi meðal annars fréttir sem berast þessa dagana af Selek hópnum en þær fréttir eru reyndar afar óljósar enda liggur fyrir að fulltrúar ASÍ í þessum hópi eru umboðslausir til að ganga frá einhverjum samningum fyrir hönd stéttarfélaganna. Formaður fór yfir að hann hræðist þær umræður um að breyta eigi hér vinnumarkaðslíkaninu í þá átt að það verði fámennur hópur sem taki ákvörðun um hvernig launabreytingar verða og tók hann fram að hann myndi aldrei samþykkja breytingar á vinnulöggjöf sem væru fólgnar í að umboð væri tekið af stéttarfélögum við kjarasamningsgerð.

Einnig fór hann yfir samræmdu launastefnuna sem var við lýði 2011 og 2013 og hvaða afleiðingar hún hefði haft fyrir félagsmenn VLFA ef félagið hefði fylgt henni eftir. Sagði hann meðal annars frá því að laun í stóriðjunum á Grundartangasvæðinu væru uppundir einni milljón króna lakari en þau eru í dag ef samræmdu launastefnunni hefði verið fylgt eftir. Hann fór einnig yfir að það væri hans mat að prósentuhækkanir í kjarasamningum væru aflgjafi misskiptingar og óréttlætis enda virka prósentuhækkanir með þeim hætti að þeir tekjuhæstu fá ætíð hæstu krónutöluna í sitt umslag. Hann nefndi þá staðreynd að íslenskt verkafólk getur ekki farið í verslanir og verslað með prósentum, það eru krónur sem eðli málsins samkvæmt gilda allstaðar!

18
Sep

Formaður kynnti réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði á fiskvinnslunámskeiði

Í morgun lauk formaður við sinn hluta í kennslu á fiskvinnslunámskeiði en þar fór hann yfir réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði ásamt því að upplýsa um alla þá starfsemi sem tengist stéttarfélögunum. Þetta fiskvinnslunámskeið var haldið fyrir starfsmenn Vignis G. Jónssonar og starfsmenn frystihússins HB Granda en samtals voru yfir 70 manns á námskeiðinu.

Fjölmargar spurningar vöknuðu hjá þeim sem sátu námskeiðið en formaður fór ítarlega yfir hversu mikilvægt það er fyrir launafólk að vera vel meðvitað um öll sín réttindi, ekki eingöngu þau sem tengjast kjarasamningum heldur einnig allt sem stéttarfélögin bjóða sínum félagsmönnum. Nú hafa þeir einstaklingar sem lokið hafa þessu námskeiði áunnið sér tveggja flokka launahækkun og eru flestir sem sátu þetta námskeið komnir í 9. launaflokk. Þeir sem hafa starfað í 7 ár eða lengur hjá sama fyrirtæki eru komnir í launaflokk 11 þannig að hér getur verið um töluverðan ávinning að ræða fyrir starfsfólkið.  

16
Sep

Sólarkísilverksmiðjan verður að veruleika - 450 ný störf!

Það er óhætt að segja að bjart sé yfir atvinnulífi hér á Akranesi og í Hvalfjarðasveit eftir að  Terry Jester, forstjóri og stjórnarformaður Silicor, greindi frá því á hátíðarfundi á Hótel Glym í Hvalfjarðarsveit rétt í þessu að fjármögnun og samningagerð vegna fyrri hluta byggingar umhverfisvænnar sólarkísilverksmiðju Silicor á Grundartanga væri lokið og áætlað væri að fjármögnun seinni hluta yrði lokið um mitt ár 2016.

Þetta eru gríðarlega jákvæðar fréttir fyrir okkur Akurnesinga og Hvalfjarðarsveit og reyndar samfélagið allt því okkur vantar gjaldeyrisskapandi störf, meðal annars til að geta rekið okkar grunnstoðir eins og heilbrigðis- og menntakerfið.

Það er afar ánægjulegt að vita til þess að Silicor materials á Grundartanga verður samkvæmt óháðum aðila umhverfisvænasta stóriðja á Íslandi, enda hefur hún það markmið að framleiða sólarkísil sem meðal annars er notaður í sólarrafhlöður, sem síðan eru notaðar í framleiðslu á endurnýjanlegum orkugjafa. Það mun þurfa um 600 til 700 manns til starfa við uppbyggingu á verksmiðjunni en þegar verksmiðjan verður komin í fulla framleiðslu þá munu varanleg vel launuð og gjaldeyrisskapandi störf verða um 450 talsins. Ekki má gleyma margfeldiáhrifunum af þessari vistvænu verksmiðju í formi afleiddra starfa sem jafnvel geta skipt hundruðum.

Væntanlega munu Faxaflóahafnir hefja vegaframkvæmdir að athafnasvæðinu á næstu vikum og um áramótin mun jarðvegsvinna hefjast af fullum krafti sem og uppbyggingin en áætlað er að framleiðslan verði komin á fullt skrið árið 2018.

Til að átta sig á hversu jákvæð áhrif þetta hefur á þjóðarbúið í heild sinni þá er áætlað að Silicor materials muni skila íslensku þjóðarbúi útflutningstekjum sem nema um 50 milljörðum ár hvert sem jafnast á við tvær makrílvertíðir.

Það er gríðarlega mikilvægt að við Akurnesingar verðum tilbúnir til að mæta þeirri miklu uppbyggingu sem verður í okkar samfélagi strax í upphafi. Því skiptir miklu máli að bæjaryfirvöld búi sig vel undir þá miklu fjölgun sem getur orðið hér á Akranesi og í nágrenninu. Formaður veit að Ólafur Adolfsson, forseti bæjarstjórnar, bæjarstjórinn og bæjarstjórnin í heild sinni hefur unnið gríðarlega vel í þessu máli og ætla að láta innviði bæjarfélagsins vera í stakk búna til að taka við þessari jákvæðu fjölgun og uppbyggingu sem verður í kjölfarið á þessari vistvænu stóriðju.

08
Sep

Kynning fyrir nemendur um réttindi og skyldur

Í dag mun formaður félagsins kynna fyrir nemendum við Fjölbrautaskóla Vesturlands hin ýmsu atriði er lúta að réttindum og skyldum á hinum íslenska vinnumarkaði. Einnig mun formaðurinn fara yfir alla þá margvíslegu þjónustu sem félagið veitir félagsmönnum sínum en gríðarlega mikilvægt er að unga fólkið sé vel upplýst um réttindi sín og fyrir hvað stéttarfélögin standa.

Það liggur fyrir að leikurinn á milli launamannsins og vinnuveitandans getur oft á tíðum verið afar ójafn þegar kemur að hinum margvíslegu kjarasamningsbrotum og því getur það skipt sköpum fyrir launafólk að vera aðili að öflugu stéttarfélagi. Sem dæmi þá hefur Verkalýðsfélag Akraness  innheimt fyrir félagsmenn sína yfir 300 milljónir vegna hinna ýmsu kjarasamningsbrota á 15 árum. En á þessum tölum sést hversu gríðarlega mikilvægt það er að vera aðili að góðu og sterku stéttarfélagi.

Þessi kynning fyrir nemendur er einn liður í því að fræða og upplýsa þá um réttindi þeirra og þá þjónustu sem félagið veitir félagsmönnum sínum.  Síðar í þessari viku verður formaður síðan með kynningu vegna fiskvinnslunámskeiðs þar sem farið er mjög ítarlega yfir öll réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði.

08
Sep

Íbúðir til leigu á Akureyri - hentugar fyrir skólafólk

Til leigu eru tvær íbúðir VLFA í Furulundi á Akureyri, fullbúnar húsgögnum og borðbúnaði. Leigutímabil er frá september 2015 til maí 2016 og henta þær því vel skólafólki eða öðrum sem þurfa tímabundið húsnæði á Akureyri. Tvö svefnherbergi, þvottavél á baði. Upplýsingar í síma 4309900 eða This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

04
Sep

Dagsferð heldri deildar VLFA

Í gær bauð Verkalýðsfélag Akraness félagsmönnum sínum 70 ára og eldri ásamt mökum í dagsferð um Reykjanes. Slíkar dagsferðir eru farnar árlega og eru ómissandi þáttur í starfsemi félagsins. Yfir 100 manns skráðu sig í ferðina í ár og eins og oft áður var leiðsögumaður í ferðinni Björn Ingi Finsen.

Ferðin var vel heppnuð í alla staði og verður ferðasagan sögð hér á heimasíðunni um leið og ritun hennar lýkur. Myndir úr ferðinni eru hins vegar komnar á sinn stað hér á heimasíðunni og er hægt að skoða þær með því að smella hér.

25
Aug

Orlofshús í Kjós laust 28. ágúst

Vegna forfalla er orlofshús félagsins í Kjós laust vikuna 28. ágúst til 4. september. Hægt er að bóka á skrifstofu félagsins, með tölvupósti á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða í síma 4309900.

19
Aug

Tryggja verður kjör í stóriðjum

GrundartangasvæðiðGrundartangasvæðiðEins og fram hefur komið í fréttum hafa stéttarfélögin sem eiga aðild að kjarasamningi Alcan í Straumsvík átt í harðvítugri kjaradeilu við eigendur fyrirtækisins en ein af kröfum eigenda fyrirtækisins er að fá að stórauka verktakavæðingu inni á svæðinu sem nemur allt að 100 störfum. Rétt er að geta þess að VLFA á ekki aðild að þessum kjarasamningi en fá stéttarfélög á Íslandi hafa fleiri félagsmenn sem starfa í stóriðjum heldur en Verkalýðsfélag Akraness. Á þeirri forsendu fylgist félagið grannt með því sem gerist í Straumsvík en það liggur fyrir að forsvarsmenn Alcan vilja auka verktöku inni á svæðinu með það að markmiði að ná niður rekstrarkostnaði með því að láta verktakana taka laun eftir kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði. Eins og allir vita þá eru kjör og réttindi í stóriðjum umtalsvert betri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði.

Sem betur fer hefur Verkalýðsfélag Akraness ekki þurft að hafa áhyggjur af þessu því í fyrsta lagi er ekki mikið um að verktakar sinni daglegum störfum í stóriðjunum á Grundartanga og í öðru lagi að í þeim tilfellum sem verktakar sinna daglegum störfum þá hefur VLFA gengið frá því að laun og réttindi séu þau sömu og kveðið er á um í stóriðjusamningunum. Nægir að nefna í þessu samhengi að VLFA gerði fyrir nokkrum mánuðum síðan kjarasamning við verktakafyrirtækið Snók þar sem öll laun og kjör kjarasamnings Elkem gilda fyrir starfsmenn Snóks. Þetta gerir það að verkum að VLFA gerir engar athugasemdir þegar Snókur sækir um verkefni inni á Grundartangasvæðinu vegna þeirrar staðreyndar að starfsmenn njóta sömu kjara og gilda inni á stóriðjusvæðinu.

Þetta er grundvallaratriðið þegar talað er um að auka verktakavæðingu. Það er að starfsmenn verktakafyrirtækisins njóti þeirra kjara og réttinda sem gilda í stóriðjunum en ekki kjara sem gilda á hinum almenna vinnumarkaði því í sumum tilfellum eru himinn og haf á milli launa og annarra réttinda. Félagið hefur átt í góðu samstarfi við verktakafyrirtækið Snók og sem dæmi þá eru grunnlaun þeirra sem hafa starfað hvað lengst hjá fyrirtækinu komin yfir 300.000 kr. á mánuði sem eru nákvæmlega sömu grunnlaun og hjá framleiðslumönnum Elkem Ísland.

Á þeirri forsendu þurfa stéttarfélögin að standa fast í lappirnar og tryggja að eigendum Alcan takist ekki að mylja undan þeim ávinningi sem náðst hefur í gerð stóriðjusamninga með því að verktakavæða fjölda starfa og krefjast þess að kjör á hinum almenna vinnumarkaði gildi þar. Það er allavega hægt að láta aukningu á verktakavæðingu átölulausa ef tryggt er að öll réttindi sem gilda í kjarasamningum stóriðjufyrirtækja haldi sér. Um það snýst þessi hagsmunabarátta og því verður að tryggja með öllum tiltækum ráðum að kjör í stóriðjum verði ekki skert.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image