• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

25
Apr

Formaður VLFA gagnrýndi nýtt vinnumarkaðslíkan harðlega á þingi Samiðnar

Þing Samiðnar, sem er landssamband iðnaðarmanna, var haldið föstudaginn 21. apríl og laugardaginn 22. apríl. Meginþema þessa þings var nýtt vinnumarkaðslíkan byggt á svokölluðu Salek samkomulagi sem og lífeyrismál. Fulltrúar á þinginu fyrir hönd iðnsveinadeildar Verkalýðsfélags Akraness var formaður félagsins ásamt Guðmundi Rúnari Davíðssyni. Þetta var í fyrsta sinn sem formaður sá ástæðu til að fara á þetta þing í ljósi þeirra miklu hagsmunamála sem undir voru á þinginu en það er mat formanns félagsins að nýtt vinnumarkaðslíkan sé ein mesta vá sem íslenskt launafólk hefur staðið frammi fyrir nánast frá stofnun verkalýðshreyfingarinnar. 

Formaður tók tvisvar sinnum til máls á þinginu og fór yfir áhyggjur Verkalýðsfélags Akraness af þessu nýja vinnumarkaðslíkani en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá byggist það á því að stofnað verði þjóðhagsráð sem muni ákvarða hverjar hámarkslaunabreytingar megi vera útfrá einhverju efnahagslegu líkani sem farið verður eftir. Formaður fór yfir í ræðu sinni að Seðlabankinn, Fjármálaráðuneytið og Samtök atvinnulífsins hafi ætíð sagt þegar kemur að því að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði, bæði fyrir iðnaðarmenn og verkafólk, eru lausir að svigrúmið sé í kringum 2-3,5%. Þetta þýðir á mannamáli að æði margt bendi til þess að þetta nýja þjóðhagsráð muni byggja sínar ályktanir útfrá þessum staðreyndum - að hámarkslaunabreytingar séu ætíð í kringum 2-3,5%. Þetta þýðir líka á mannamáli að verið sé að taka og skerða samningsrétt stéttarfélaganna enda kemur skýrt fram í Salek samkomulaginu að stéttarfélögin þurfi að semja innan þess svigrúms sem þjóðhagsráð ákveður á hverjum tíma fyrir sig. 

Forseti ASÍ hélt erindi á þessu þingi og kom fram í máli hans að mikilvægt væri að auka kaupmátt launafólks og því væru hófstilltar launahækkanir leiðin að þvi marki með sambærilegum hætti og gert er á hinum Norðurlöndunum. Forseti ASÍ sagði og vitnaði þar í kynningarefni sem aðilar Salek samkomulagsins gáfu út, að frá árinu 2000 til ársins 2014 hafi kaupmáttaraukning á Norðurlöndunum verið 1,7% en einungis 0,8% á Íslandi. Í ljósi þess að þessir aðilar vilja tala um prósentur og kaupmáttaraukningu þá er mjög undarlegt að þeir skuli nota þetta viðmiðunartímabil því að inni í þessu tímabili er sjálft hrunið þar sem verðbólgan fór hér í hæstu hæðir eða uppundir 20%. Þannig að það yrði fróðlegt að sjá hvernig staðan yrði ef efnahagshrunið mikla væri ekki inni í þessum samanburði. Forseti ASÍ var heldur ekki að segja frá því að launataxtar bæði verkafólks og iðnaðarmanna hafa hækkað gríðarlega, í prósentum takið eftir, og nemur sú hækkun hjá iðnaðarmönnum frá árinu 2000 199% en á sama tíma hækkaði neysluvísitalan um 122% þannig að kaupmáttaraukning iðnaðarmanna sem taka laun eftir töxtum er 77% á umræddu tímabili. Einhverra hluta vegna sleppa forseti ASÍ og talsmenn Salek samkomulagsins þessum staðreyndum. 

Þeir sleppa því líka að á síðustu 12 mánuðum hefur launavísitalan hækkað um rúm 13% á meðan verðbólgan er einungis 1,5% sem þýðir að kaupmáttaraukning síðustu 12 mánaða samkvæmt launavísitölu er 11,5%. Þeir sleppa því líka að segja að kaupmáttaraukning hjá iðnaðarmönnum hafi verið rúm 18% frá síðustu samningum. Á sama tíma hækkuðu laun til dæmis í Noregi um 2,5% og verðbólgan var einnig 2,5% þannig að í Noregi var engin kaupmáttaraukning á meðan kaupmáttaraukningin hér var hjá iðnaðarmönnum rúm 18%. Nei, það hentar ekki þessum ágætu mönnum að segja allan sannleikann en ekki þar fyrir utan að þá hefur formaður VLFA ekki verið mikið fyrir að tala í prósentum enda fer enginn launamaður og verslar með prósentum heldur beinhörðum íslenskum krónum. 

Þessi blekkingarleikur þessara aðila er mjög alvarlegur og formaður ítrekar það að hér er um mestu vá að ræða sem íslenskt launafólk hefur staðið frammi fyrir ef þeim tekst að taka samningsréttinn með einum eða öðrum hætti af stéttarfélögunum og færa hann yfir til þjóðhagsráðs. Enda hefur frelsi stéttarfélaganna til samningsgerðar verið hornsteinn íslenskrar stéttarfélagsbaráttu á liðnum árum og áratugum. Formaður kom þessum skilaboðum rækilega til skila á þinginu og afstaða Verkalýðsfélags Akraness er hvellskýr hvað þetta mál varðar.  

13
Apr

Sumar 2016 - Úthlutun lokið

Nú er lokið fyrri úthlutun vegna dvalar í orlofshúsum félagsins sumarið 2016. Allir þeir sem sóttu um eiga nú von á bréfi þar sem fram kemur hvort þeir hafi hlotið viku, og þá um hvaða viku ræðir. Þeir sem eru með skráð netfang í kerfi félagsins eiga auk þess að hafa fengið sendan tölvupóst þess efnis. Félagsmenn eru beðnir að athuga það á Félagavefnum hvort rétt netfang er skráð þar, það auðveldar og flýtir fyrir samskiptum. Einnig er hægt að nálgast bréf um afgreiðslu úthlutunar á Félagavefnum (undir Skjöl). Hafi félagsmaður fengið úthlutað er nú tilbúin bókun fyrir hann á Félagavef (Undir Orlofshús-Bókunarsaga) og þar getur hann gengið frá greiðslu leigu með korti. 

Þeir sem fengu úthlutað hafa frest til 2. maí að greiða leiguna og eftir það verða ógreiddar bókanir felldar niður. Það er því mikilvægt að greiðsla komist örugglega til skila, og er þá öruggast að greiða með korti á Félagavef. Sé greitt með millifærslu verður greiðandi að vera sá sami og er skráður fyrir bókuninni, annars er ekki tryggt að hægt sé að para saman bókun og greiðslu og tekur starfsfólk félagsins enga ábyrgð á því.

Þeir sem ekki fengu úthlutað eru sjálfkrafa með í endurúthlutun sem fer fram þann 6. maí. Í endurúthlutun er úthlutað þeim vikum sem ekki gengu út í fyrri úthlutun, auk þeirra sem ekki voru greiddar á eindaga. Á hádegi þann 6. maí verður svo hægt að bóka lausar vikur og gildir þá reglan fyrstur kemur-fyrstur fær.

11
Apr

Félagsmenn - munið að skila orlofshúsaumsóknum!

Við minnum á að frestur til að skila inn umsóknum um dvöl í orlofshúsum félagsins sumarið 2016 rennur út á morgun! Hægt er að nota heimsend umsóknareyðublöð, eða þá skila umsókn á Félagavefnum (undir Orlofshús - Umsóknir).

06
Apr

Aðalfundur VLFA - félagið stendur vel félagslega sem fjárhagslega

Í gær var haldinn aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness og það er óhætt að segja að félagið standi gríðarlega vel jafnt félagslega sem fjárhagslega. Formaður fór yfir skýrslu stjórnar yfir liðið starfsár og kom meðal annars fram í skýrslunni sá mikli árangur sem félagið náði við kjarasamningsgerð á síðasta ári en sumir samningar sem félagið gerði voru langt umfram það sem um var samið á hinum almenna vinnumarkaði. Nægir að nefna í því samhengi að félagið gerði við HB Granda á síðasta ári sérstakan bónussamning og í heildina skilaði hann fiskvinnslufólki um 27,5% launahækkun. Því til viðbótar gekk félagið frá algjörum tímamótasamingi við Norðurál með tengingu við launavísitölu ásamt 300.000 kr. eingreiðslu til handa öllum starfsmönnum. Sá samningur gaf á fyrsta árinu uppundir 17% launahækkun. Það sem af er þessu ári hefur launavísitalan hækkað um 4% sem mun koma til hækkunar 1. janúar á næsta ári en eins og fram kom í skýrslunni þá eru 10 mánuðir eftir í mælingu á launavísitölunni þannig að það er ljóst að starfsmenn Norðuráls munu fá umtalsverða launahækkun á næsta ári. Einnig kom fram í skýrslu stjórnar að gerðir voru samningar fyrir hliðgæslumenn á Grundartangasvæðinu sem nú eru orðnir starfsmenn Faxaflóahafna en laun þeirra hækkuðu um allt að 150.000 kr. á mánuði við gerð nýs fyrirtækjasamnings. Einnig gerði félagið feikilega góðan samning við verktakafyrirtækið Snók á Grundartanga sem skilaði starfsmönnum þar 70-80.000 kr. hækkun á mánaðarlaunum. Þannig að árangur VLFA hvað kjarasamninga varðar var mjög góður á síðasta ári. 

Það kom líka fram í skýrslu stjórnar hvað kjarasamninga varðar að farið var í verkfall á hinum almenna vinnumarkaði 6. og 7. maí á síðasta ári og það var ánægjulegt að geta greint fundarmönnum frá því að Verkalýðsfélag Akraness var eitt félaga sem tók ákvörðun um að greiða verkfallsbætur fyrir báða dagana en eftir bestu vitneskju forsvarsmanna VLFA veit félagið ekki til þess að önnur félög hafi gert slíkt. Félagið greiddi um 6 milljónir í verkfallsbætur til félagsmanna vegna þessa 2 daga verkfalls. 

Formaður fór yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin varðandi hugmyndir um nýtt vinnumarkaðslíkan í anda þess sem búið er að teikna upp í gegnum svokallað Salek samkomulag og kom fram í máli hans að þetta væri mesta vá sem íslenskt launafólk hefur staðið frammi fyrir. Þetta nýja vinnumarkaðslíkan gengur út á að taka frjálsan samningsrétt af stéttarfélögunum og færa hann yfir til svokallaðs þjóðhagsráðs sem mun ákvarða hverjar hámarkslaunabreytingar megi vera. Það kom skýrt fram í skýrslu stjórnar að frjáls samningsréttur er hornsteinn íslenskrar stéttarfélagsbaráttu og foru fundarmenn sammála því að félagið myndi beita sér af alefli fyrir því að þessi frjálsi samningsréttur yrði ekki skertur eins og menn hafa í hyggju að gera. 

Það kom líka fram í skýrslu stjórnar að félagið er nú með 3 mál fyrir dómstólum þar sem verið er að láta reyna á réttindi félagsmanna enda er það skylda stéttarfélaga að standa vörð um kjör og réttindi sinna félagsmanna. Félagið horfir ekki í krónur og aura hvað þessa réttindabaráttu varðar enda er leikurinn afar ójafn oft á tíðum milli launamanna og atvinnurekanda og því skiptir höfuðmáli að hafa sterkt og öflugt stéttarfélag að baki sér. 

Afkoma félagsins var mjög góð og var meðal annars aukning á iðgjaldatekjum félagsins vegna góðra kjarasamninga og fjölgunar félagsmanna. Nam hækkun iðgjaldatekna félagsins tæpum 20% milli ára en félagsmönnum fjölgaði um 117 á sama tíma. Allir sjóðir félagsins skiluðu rekstrarafgangi og nam heildar rekstrarhagnaður félagsins 108 milljónum. Það er stefna stjórnar félagsins að láta félagsmenn ætíð njóta góðs af góðri afkomu félagsins og var tilkynnt á aðalfundinum að 3 af 15 styrkjum félagsins yrðu hækkaðir. Sem dæmi þá hækkar fæðingarstyrkurinn úr 70.000 kr. á félagsmann upp í 85.000 kr. og ef báðir foreldrar eru félagsmenn nemur þessi styrkur 170.000 kr. Einnig voru heilsueflingar- og heilsufarsskoðunarstyrkir hækkaðir úr 20.000 kr. í 25.000 kr. Það er eins og áður sagði stefna stjórnar félagsins að láta félagsmenn njóta góðs af góðum árangri félagsins.  

Það er jafnframt stefna stjórnar VLFA að halda áfram að berjast fyrir réttindum sinna félagsmanna og auka réttindi á öllum sviðum eins og kostur er og að Verkalýðsfélag Akraness verði áfram eitt af sterkustu stéttarfélögum á íslenskum vinnumarkaði. 

05
Apr

Félagsmenn munið aðalfundinn í kvöld kl. 17:30!

Félagsmenn munið áður auglýstan aðalfund í kvöld kl. 17:30!

Vegna ófyrirsjáanlegra ástæðna er ekki hægt að halda fundinn á Gamla Kaupfélaginu þar sem eigendaskipti hafa átt sér stað. Þess í stað verður fundurinn haldinn í Golfskála Leynis. Starfsmaður félagsins mun beina þeim sem mæta á Gamla Kaupfélagið á réttan fundarstað, auk þess sem tilkynning verður hengd upp, þannig að enginn komi að luktum dyrum.

Eftir fundinn verður boðið upp á kvöldverð og eru félagsmenn hvattir til að fjölmenna.

24
Mar

Orlofshús - Sumar 2016

Nú eru umsóknir um orlofshús sumarið 2016 á leiðinni heim til félagsmanna og síðar í dag verður opnað fyrir umsóknir á Félagavefnum. Umsóknarfrestur er til 12. apríl og mun úthlutun fara fram þann 13. apríl.

Auk orlofshúsa sem félagið á í Húsafelli, Svínadal, Kjós, Ölfusborgum, Hraunborgum og á Akureyri verður boðið upp á dvöl í húsi í Vestmannaeyjum eins og síðustu ár. Því til viðbótar mun VLFA hafa húsaskipti við Framsýn stéttarfélag eins og í fyrra og geta félagsmenn VLFA dvalið í orlofshúsi á Illugastöðum í Fnjóskadal. Í staðinn geta félagsmenn Framsýnar dvalið í Bláskógum í Svínadal.

Úthlutun fer þannig fram að allar umsóknir eru skráðar inn í tölvukerfi félagsins. Kerfið raðar öllum umsóknum í röð eftir punktastöðu, þ.e. þeir umsækjendur sem flesta hafa punktana eru fremstir í röðinni og svo koll af kolli. Ef punktar tveggja eru jafnir fær sá úthlutað sem fyrr sótti um. Kerfið vinnur sig síðan í gegnum umsóknirnar og úthlutar vikum eftir punktastöðu. Þeir sem ekki fá úthlutað í fyrri úthlutun lenda sjálfkrafa í endurúthlutun þar sem þeim vikum er úthlutað sem ekki voru greiddar á eindaga fyrri úthlutunar. Leyfilegt er að breyta umsóknum og leggja inn nýjar fyrir endurúthlutun.

Helstu dagssetningar:

12. apríl - Frestur til að skila inn umsóknum um orlofshús

13. apríl - Fyrri úthlutun fer fram, allir umsækjendur fá svarbréf í pósti (einnig er hægt að sjá strax hvort bókun hafi myndast inni á félagavefnum í lok dags)

02. maí - Eindagi fyrri úthlutunar, þeim vikum sem ekki eru greiddar á eindaga er úthlutað aftur

06. maí - Endurúthlutun fer fram, þeir sem fá úthlutað fá það staðfest með bréfi

06. maí - Kl. 12:00 - Fyrstir koma, fyrstir fá! Þeir sem fyrstir koma geta bókað lausar vikur (athugið að eftir eindaga endurúthlutunar getur lausum vikum fjölgað)

13. maí - Eindagi endurúthlutunar

23
Mar

Verkalýðsfélag Akraness stendur vel fjárhagslega sem félagslega

Eins og fram hefur komið hér á heimsíðu félagsins þá verður aðalfundur félagsins haldinn 5. apríl næstkomandi. Undirbúningur fyrir aðalfundinn stendur nú yfir en í gær komu allar stjórnir sjóða félagsins saman og undirrituðu ársreikninginn eftir að endurskoðandi félagsins hafði farið ítarlega yfir hann.

Það er óhætt að segja að Verkalýðsfélag Akraness standi gríðarlega vel ekki bara félagslega heldur einnig fjárhagslega en heildarsamstæða félagsins var jákvæð samkvæmt ársreikningi um rétt tæpar 110 milljónir og jukust iðgjöld félagsins um rétt tæp 20% á milli ára. En það endurspeglast af því að félagið náði mjög góðum kjarasamningum til handa sínum félagsmönnum á síðasta ári og sem dæmi þá hækkuðu laun fiskvinnslufólks sem starfar hjá HB Granda um 27,5% á síðasta ári og laun stóriðjumanna hjá Norðuráli um 16%. Það sem einnig hefur áhrif á tekjur félagsins er að félagsmönnum hefur fjölgað jafnt og þétt og á síðasta ári fjölgaði þeim um 5% og er heildarfjöldi félagsmanna rétt tæplega 3000.

Verkalýðsfélag Akraness greiddi uppundir 70 milljónir á síðasta ári í hina ýmsu styrki úr sjúkrasjóði félagsins og einnig er rétt að geta þess að VLFA var nánast eina félagið innan Starfsgreinasambands Íslands sem greiddi félagsmönnum sínum verkfallsbætur vegna tveggja daga verkfalls á síðasta ári en félagið greiddi um 6 milljónir í verkfallsbætur.

Það er stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að láta félagsmenn ætíð njóta þess þegar afkoma félagsins er góð og á þeirri forsendu ákvað stjórn félagsins að hækka þrjá af styrkjum félagsins myndarlega eða um rúm 20%.  Eftir 5. apríl þá mun fæðingarstyrkurinn hækka um 21% og verður 85.000 kr. og ef báðir foreldrar eru félagsmenn þá er styrkurinn samanlagður 170.000 kr.  Einnig munu heilsueflingar-og heilsufarsskoðunarstyrkirnir hækka hvor um sig um 20% og verða 25.000 kr. hvor fyrir sig eftir 5. apríl.

Það er einnig óhætt að segja að gríðarlegur viðsnúningur hafi átt sér stað frá því núverandi stjórn tók við 19. nóvember 2003 en á þessum árum hefur félagið tekið algjörum stakkaskiptum og sem dæmi þá var félagssjóður rekinn á yfirdrætti og peningalegar innistæður annarra sjóða félagsins voru afar takmarkaðar en í dag er félagið mjög fjárhagslega sterkt og tilbúið að takast á við mörg brýn hagsmunamál sem oft á tíðum kosta mikil fjárútlát. Í dag er félagið t.d. með þrjú mál fyrir dómstólum þar sem verið er að láta reyna á ágreining við atvinnurekendur um túlkun á kjarasamningum og einnig mál  vegna vangreiddra launa.

Það er og verður stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að vera það félag sem reynir ætíð að bjóða félagsmönnum sínum bestu réttindi og þjónustu sem í boði er á meðal stéttarfélaga hér á landi.

22
Mar

Kjarasamningur Norðuráls svínvirkar

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá gekk Verkalýðsfélag Akraness frá tímamótasamningi við Norðurál á síðasta ári en sá samningur byggðist meðal annars á því að tengja launahækkanir starfsmanna við hækkun launavísitölu. En á fyrstu 12 mánuðum samningsins hækkuðu laun starfsmanna Norðuráls um 16% en auk þess fékk hver og einn starfsmaður 300.000 kr. eingreiðslu. 

Næsta hækkun mun koma 1. janúar 2017 og er óhætt að segja að fyrstu 2 mánuðirnir lofi góðu hvað varðar launahækkunina enda hefur launavísitalan á fyrstu tveimur mánuðum ársins hækkað um rétt tæp 4% en í síðasta mánuði hækkaði hún um 3,5%. Þannig að nú þegar eru starfsmenn Norðuráls búnir að tryggja sér tæp 4% sem munu koma 1. janúar 2017 og það þrátt fyrir að 10 mánuðir séu enn eftir í mælingu launavísitölunnar. Það er alveg morgunljóst að hér var um algjöran tímamótasamning að ræða sem mun koma starfsmönnum Norðuráls mjög vel og hann verður töluvert yfir þeim væntingum sem menn reiknuðu með að hann myndi gefa. Það góða við tengingu við launavísitölu er að allt launaskrið sem verður á íslenskum vinnumarkaði hefur VLFA tryggt starfsmönnum Norðuráls.   

18
Mar

Mikið annríki á skrifstofu VLFA undanfarna viku

Það er óhætt að segja að það sé búið að vera líf og fjör á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness í þeirri viku sem nú er senn á enda. Vikan byrjaði með látum þar sem þriggja daga trúnaðarmannanámskeið var haldið í fundarsal félagsins. 9 trúnaðarmenn tóku þátt til að fræðast og gera sig hæfari til að geta gegnt því viðamikla verkefni sem er að vera trúnaðarmaður á sínum vinnustað. Í þessari viku er einnig búið að vera mikið að gera við skattframtalsaðstoð en eins og undanfarin ár hefur félagið boðið félagsmönnum sinum aðstoð við gerð skattframtals. Hafa fjölmargir félagsmenn nýtt sér þessa þjónustu og meirihlutinn eru félagsmenn sem hafa íslensku ekki að móðurmáli. 

Undirbúningur hefur verið á fullu fyrir aðalfund félagsins sem haldinn verður 5. apríl en verið er að ganga frá reikningum félagsins og öðrum undirbúningi sem lýtur að aðalfundi en eins og undanfarin ár er Verkalýðsfélag Akraness gríðarlega sterkt, bæði fjárhagslega sem og félagslega. Hefur félagsmönnum fjölgað á árinu, í heildina eru uppundir 3.000 manns í félaginu en þeim fjölgaði um 5% milli ára. Félagið vinnur nú að því að láta reyna á réttindi félagsmanna fyrir dómstólum og undirbýr stefnu á hendur Norðuráli vegna túlkunar á kjarasamningi. Að öllum líkindum mun stefnan verða klár um eða eftir páska. Það er stefna félagsins að ef ágreiningur er á milli atvinnurekanda og félagsins um túlkun á kjarasamningi og ekki næst sátt við atvinnurekendur að félagið láti skýlaust á slikt reyna fyrir dómstólum. Það er og hefur verið stefna Verkalýðsfélags Akraness að berjast í hvívetna fyrir bættum kjörum sinna félagsmanna og verja þau réttindi sem félagsmenn hafa með öllum þeim tiltæku ráðum sem félagið hefur. 

Þessu til viðbótar er nú unnið að því að senda út orlofsbæklinga og umsóknir til félagsmanna vegna sumarsins. Boðið verður upp á sambærilega valkosti og í fyrra, meðal annars munu Framsýn á Húsavík og VLFA aftur skipta á bústöðum, VLFA fær Illugastaði af Framsýn og Framsýn fær í staðinn Bláskóga í Svínadal af VLFA. Jafnframt verður áfram boðið upp á sumarhús í Vestmannaeyjum en það nýtur mikilla vinsælda hjá félagsmönnum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image