• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

30
Jun

Frábær kynningar- og samstöðufundur í Bíóhöllinni í gær

Það er óhætt að segja að kynningar- og samstöðufundurinn sem Verkalýðsfélag Akraness hélt með starfsmönnum Norðuráls í gær hafi heppnast frábærlega. En um 250 starfsmenn mættu á fundinn, sem er upp undir 50% af starfsmönnum Norðuráls. Það var frábært að finna þann einhug og samstöðu sem ríkti á meðal starfsmanna í þessari kjaradeilu sem félagið á nú í við forsvarsmenn Norðuráls.

Á fundinum rakti formaður félagsins þá stöðu sem nú er upp komin í þessari erfiðu deilu, en eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá rann launaliður samningsins út um síðustu áramót og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafa allar viðræður hingað til verið árangurslausar. Forsvarsmenn fyrirtækisins og Samtök atvinnulífsins sem leiða viðræðurnar fyrir hönd Norðuráls hafa einungis boðið launahækkun í samræmi við hina margfrægu samræmdu launastefnu sem ASÍ og SA gerðu á hinum almenna vinnumarkaði.

Það hefur margoft komið fram í máli formanns að það eru engar forsendur fyrir því að álfyrirtæki eins og Norðurál sem hefur hagnast gríðarlega á undanförnum árum vegna góðra rekstrarskilyrða m.a. vegna gengisfalls íslensku krónunnar sem og stórhækkaðs afurðaverðs komi með kjarabætur í anda samræmdrar launastefnu, enda er ekki hægt að setja álfyrirtæki í sömu stöðu og t.a.m. fyrirtæki í byggingariðnaði sem eiga í bullandi rekstrarerfiðleikum um þessar mundir. Það hefur verið krafa félagsins að þessum ávinningi útflutningsfyrirtækja verði skilað með afgerandi hætti til starfsmanna umræddra fyrirtækja.

Á fundinum í gær fór formaður yfir nýgerðan kjarasamning sem gerður var fyrir starfsmenn Alcoa Fjarðaáls, en sá samningur veitti starfsmönnum umtalsverðar launahækkanir og kynnti formaður á fundinum hver launamunurinn á milli starfsmanna Norðuráls og Fjarðaáls er núna eftir að Fjarðaál gekk frá sínum samningi. En sá launamunur er sláandi. Rétt er að geta þess að vinnutími og vaktafyrirkomulag eru nánast með sama hætti í báðum verksmiðjunum. Með öðrum orðum þá var verið að bera saman epli og epli, ekki epli og appelsínur.

Í kynningunni kom fram að launamunur verkamanna á vöktum er frá 70.000 kr. upp í 80.000 kr. á mánuði eða sem nemur frá 16% upp í tæp 22%, sé miðað við þann launaflokk sem stórum hluta starfsmanna Fjarðaáls var raðað í í nýgerðum samningi, en það er launaflokkur sem kallast Framleiðslumaður 3. Launamunur iðnaðarmanna á vöktum er frá kr. 99.000 upp í 108.000, eða sem 17,5%-18,5%. En flestir iðnaðarmenn röðuðust inn sem iðnaðarmaður 4 í nýgerðum kjarasamningi Fjarðaáls. Launamunur verkamanna í dagvinnu nemur frá tæpum kr. 79.000 upp í 85.000 kr. á mánuði eða frá 26,4% upp í 32,7%. Launamunur iðnaðarmanna í dagvinnu er frá kr. 99.000 upp í 106.000 kr., eða frá 28,4% upp í 29,6%.

Einnig var samið um stóriðjuskóla sem mun hefja starfsemi sína í haust en þar mun starfsmönnum gefast kostur á að fara í nám sem gefur kost á allt að 10% launahækkun til viðbótar að námi loknu. Og sem dæmi þá munu starfsmenn Fjarðaáls, að afloknum stóriðjuskólanum, vera með kr. 111.000 upp í 120.000 kr. hærri laun en verkamenn í Norðuráli á vöktum.

Á þessu sést að hér er um sláandi launamun að ræða, en það ber að fagna þessum samningi sem gerður var í Fjarðaáli þar sem skín í gegn að eigendur Alcoa hafa greinilega verið tilbúnir til að skila þeim mikla ávinningi og sínu góða rekstrarumhverfi sem ríkir um þessar mundir hjá álfyrirtækjum með afgerandi hætti til sinna starfsmanna. Á fundinum í gær var algjör einhugur og samstaða um það að það séu ekki nokkrar forsendur fyrir því að starfsmenn Norðuráls njóti lakari kjara en starfsbræður og -systur í Alcoa Fjarðaáli. Krafan á fundinum var skýr: sömu laun fyrir sömu vinnu. Við annað verður ekki unað að mati Verkalýðsfélags Akraness og allra þeirra starfsmanna sem sátu fundinn í gær.

Reyndar vekur það undrun formanns hvað hafi orðið um samræmdu launastefnuna sem öll stéttarfélög innan ASÍ stóðu að nema Verkalýðsfélag Akraness í þessum samningi í Fjarðaáli. Einfaldlega vegna þess að þarna var í sumum tilfellum samið um tugi prósenta, en formaður félagsins vill ítreka það að hann fagnar þessum samningi innilega og óskar starfsmönnum og forsvarsmönnum Alcoa til hamingju með þennan samning sem er algjörlega í anda þess sem formaður VLFA hefur ætíð sagt: að fyrirtæki í útflutningi eigi að skila ávinningnum til sinna starfsmanna með afgerandi hætti. Það hefur gerst hjá Fjarðaáli svo ekki verður um villst.

Boðað hefur verið til fundar í húsakynnum Ríkissáttasemjara á mánudaginn kl. 16:30 og það er alveg ljóst að þessi mikli launamunur sem er orðinn á milli þessara tveggja fyrirtækja verður svo sannarlega til umræðu enda mun krafan byggjast á þessum samningi sem Fjarðaál gerði, eða eins og áður sagði: sömu laun fyrir sömu vinnu. Enda ber formaður þá von í brjósti sér að eigendur Norðuráls vilji meta sína starfsmenn í sömu verðleikum í launakjörum séð eins og er nú að gerast í Fjarðaáli.

30
Jun

Stefnir í hörð átök

Það er óhætt að segja að fundurinn hjá ríksisáttasemjara vegna kjaradeilu Klafa hafi verið árangurslaus enda stóð fundurinn einungis yfir í tæpan hálftíma þó afar stutt sé nú í boðað verkfall starfsmanna. Það hefst eins og áður hefur komið fram á þriðjudaginn næstkomandi.

Aðstoðarríkissáttasemjari sem stýrði þessum fundi kallaði eftir því frá samningsaðilum hvort einhver breyting hefði orðið á deilunni frá síðasta fundi. Kom skýrt fram af hálfu forsvarsmanna Samtaka atvinnulífsins, sem leiða viðræðurnar fyrir hönd Klafa, að engin stefnubreyting væri af hálfu fyrirtækisins varðandi þessa deilu. Þeir hafa boðið eins og áður hefur komið fram að starfsmenn Klafa fái sömu launahækkanir og samið var um á hinum almenna vinnumarkaði í anda hinnar frægu samræmdu launastefnu. Krafa félagsins fyrir hönd stafsmanna er hvellskýr en hún byggist á því að starfsmenn Klafa fái sömu launahækkanir og um var samið við starfsbræður þeirra hjá Elkem Ísland.

Það er algjörlega óásættanlegt að samið sé við starfsmenn Elkem Ísland upp á mjög góðar launahækkanir og eingreiðslu og ætlast til þess að starfsmenn Klafa sem starfa á nákvæmlega sama svæði og borða í sama mötuneyti sé boðið einungis lítið brot af því sem um var samið fyrir áðurnefnda starfsmenn. Þetta er eitthvað sem Verkalýðsfélag Akraness og starfsmenn Klafa geta ekki undir nokkrum kringumstæðum sætt sig við og munu ekki sætta sig við.

Á þeirri forsendu hafa starfsmenn og stéttarfélagið nú hafið fullan undirbúning að þeirri vinnustöðvun sem mun hefjast á þriðjudaginn næstkomandi en það eru fjölmargir verkþættir sem munu stöðvast samdægurs þegar verkfallið skellur á. Það eru undanþágur í samningnum um að halda ofnum í Elkem heitum í allt að þrjár vikur og að sjálfsögðu munu starfsmenn og stéttarfélagið uppfylla þessar undanþágur en það kom fram á fundinum í morgun að fyrirtækið muni óska eftir þessari undanþágu. Þó svo að þessi undanþága sé til staðar þá mun þetta hafa gríðarleg áhrif á starfsemi Elkem Ísland ef verkfallið verður að veruleika sem fátt virðist í raun geta komið í veg fyrir.

Ríkissáttasemjari boðaði til næsta sáttafundar á mánudaginn kl. 16 en þá verður einungis tæpur sólarhringur þar til þessi vinnustöðvun skellur á af fullum þunga. Það er morgunljóst að það er engan bilbug að finna á starfsmönnum né Verkalýðsfélagi Akraness í þessari deilu og mun verkfallssjóður styðja sína félagsmenn í hvívetna ef til átaka mun koma.

30
Jun

Fundað hjá ríkissáttasemjara vegna Klafa

GrundartangasvæðiðGrundartangasvæðiðRíkissáttasemjari hefur boðað til fundar í kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins vegna kjarasamnings Klafa ehf. og fundurinn hefst kl. 9:30 í dag. Klafi er eins og áður hefur komið fram þjónustufyrirtæki á Grundartanga sem sér um allar út- og uppskipanir á Grundartangasvæðinu. Klafi er í eigu tveggja stórra og öflugra útflutningsfyrirtækja, Norðuráls og Elkem Ísland.

Eins og kom fram hér á heimasíðunni þá hafa starfsmenn Klafa boðað til verkfalls sem hefst þriðjudaginn 5. júlí kl. 12 á hádegi. Það er alveg ljóst að tíminn er að renna út til að leysa þessa deilu en á þessari stundu ber mikið í milli hjá deiluaðilum. Krafa starfsmanna er að þeir njóti sömu launahækkana og um var samið við starfsbræður þeirra í verksmiðjunni Elkem Ísland en rétt er að geta þess enn og aftur að starfsmenn Klafa eru fyrrverandi starfsmenn Elkem á Grundartanga.

29
Jun

Gríðarlega mikilvægur fundur í kvöld fyrir starfsmenn Norðuráls

Verkalýðsfélag Akraness minnir á gríðarlega mikilvægan fund sem haldinn verður fyrir starfsmenn Norðuráls í Bíóhöllinni í kvöld kl. 20:30.

Á fundinum verður kynntur afar fróðlegur launasamanburður milli starfsmanna Norðuráls annars vegar og starfsmanna Fjarðaráls hins vegar en þeir síðarnefndu gengu nýverið frá nýjum kjarasamningi.

Afar mikilvægt er að allir starfsmenn Norðuráls, sem mögulega hafa tök á, mæti á fundinn og sýni þannig samstöðu í þeirri erfiðu baráttu sem nú stendur yfir. Á fundinum verður einnig lögð fram tillaga að nýrri kröfugerð sem mun taka mið af samningi Fjarðaráls. Sýnum samstöðu í verki og mætum öll!

28
Jun

Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér

Verkalýðsfélag Akraness vill minna félagsmenn sína sem starfa hjá Norðuráli á gríðarlega mikilvægan kynningar- og samstöðufund sem haldinn verður í Bíóhöllinni á morgun, miðvikudaginn 29. júní kl. 20:30. Þar mun formaður félagsins fara ítarlega yfir þá alvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu félagsins við Norðurál. Einnig mun formaður kynna launasamanburð við Fjarðaál sem unninn hefur verið á skrifstofu félagsins en eins og flestir vita var gengið frá samningi við starfsmenn Fjarðaáls fyrir nokkrum dögum síðan.

Þegar launakjör starfsmanna Fjarðaáls og Norðuráls eru borin saman kemur í ljós að gríðarlegur launamunur er á milli þessara fyrirtækja. Þessi launamunur nemur mörgum tugum þúsunda á mánuði en rétt er að geta þess að vakta- og vinnutími í þessum verksmiðjum er nánast eins. Það er alveg ljóst að Verkalýðsfélag Akraness og starfsmenn Norðuráls geta ekki undir nokkrum kringumstæðum sætt sig við að fyrirtæki sem einungis hefur verið starfrækt í fjögur ár eins og Fjarðarál, borgi langtum hærri laun en Norðurál greiðir fyrir sömu vinnu. Á þeirri forsendu vinnur félagið nú að nýrri kröfugerð sem mun taka mið af sömu launahækkunum og um var samið fyrir starfsmenn Fjarðaáls.

Formaður félagsins trúir ekki öðru en að eigendur Norðuráls muni taka tillit til þess samnings sem gerður var hjá Fjarðaáli enda er Fjarðarál greinilega að skila þeim mikla ávinningi sem fyrirtækið hefur notið vegna gengisfalls íslensku krónunnar og stórhækkaðs afurðaverðs með afgerandi hætti til starfsmanna. Félagið vill ítreka að það er gríðarlega mikilvægt að allir starfsmenn Norðuráls sem hafa tök á, fjölmenni nú og sýni samstöðu um að það er ekki við það unað að greidd séu mun hærri laun í öðrum álverksmiðjum heldur en hjá Norðuráli. Orðatiltækið sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér, hefur aldrei átt betur við heldur en einmitt núna. Oft er þörf en nú er algjör nauðsyn.

24
Jun

Tugþúsunda launamunur á milli starfsmanna Fjarðaráls og Norðuráls

Nú er komið að ykkur að fá launahækkanirNú er komið að ykkur að fá launahækkanirVerkalýðsfélag Akraness hefur boðað félagsmenn sína sem starfa hjá Norðuráli til kynningar- og samstöðufundar í Bíóhöllinni á Akranesi, miðvikudaginn 29. júní kl. 20:30 vegna þeirrar alvarlegu kjaradeilu sem nú er uppi við forsvarsmenn Norðuráls. Er þetta annar kynningarfundurinn sem er haldinn á stuttum tíma með félagsmönnum VLFA. Um 100 manns mættu á síðasta fund en nú er algjör skyldumæting og er því krafa formanns félagsins að Bíóhöllin verði kjaftfull á þessum fundi.

Á þessum fundi mun formaður fara yfir nýgerðan kjarasamning sem gerður var við starfsmenn Fjarðaráls en samkvæmt skoðun formanns á þessum samningi er orðið ljóst að þetta nýja fyrirtæki sem einungis hefur verið starfrækt í fjögur ár er komið fleiri tugum þúsunda fram úr launakjörum starfsmanna Norðuráls og mun formaður sýna nákvæmlega á fundinum hver hinn raunverulegi launamunur er í krónum talið en skrifstofa félagsins hefur lagt töluverða vinnu í að reikna út þennan launamun.

Það er ótrúlegt til þess að vita að álfyrirtæki sem hóf starfsemi fyrir einungis fjórum árum síðan skuli vera búið að umbuna sínum starfsmönnum með jafn afgerandi hætti og gert var í þessum samningi sem samþykktur var í Fjarðaráli í gær í ljósi þess að starfsemi Norðuráls er búin að vera við lýði frá árinu 1998 eða í ein 13 ár. Sem dæmi þá hefur barátta Verkalýðsfélags Akraness verið í síðustu samningum að ná inn stóriðjuskóla sem veitir starfsmönnum umtalsverða umbun að afloknu námi. Það hefur ekki tekist hingað til þó vissulega hafi verið samþykkt bókun um starfsnám í síðustu samningum sem ekki hefur verið uppfyllt eins og samningurinn kvað á um. En rétt er að geta þess að í samningnum við Fjarðarál var samþykkt að setja á laggirnar stóriðjuskóla sem mun veita starfsmönnum allt að 10% launahækkun að afloknu námi og einnig hefur verið starfræktur skóli í Alcan í Straumsvík í áraraðir sem hefur skilað starfsmönnum umtalsverðum ávinningi.

Verkalýðsfélag Akraness er eitt félaga hér á landi sem hefur hafnað samræmdri launastefnu og bent á að það séu engar forsendur fyrir því að álfyrirtækin séu sett undir sama hatt er lítur að launahækkunum og önnur fyrirtæki sem eiga í rekstrarerfiðleikum. Reyndar spyr formaður sig að því hvað hafi orðið um samræmdu launastefnuna þegar samið var við Fjarðarál. En rétt er að geta þess að Fjarðarál er að hluta til í Samtökum atvinnulífsins og reyndar eru þau félög sem eiga aðild að þessum samningi innan ASÍ og hafa þau stutt samræmda launastefnu í gegnum ASÍ. Því vekur þessi samningur Fjarðaráls undrun formanns í ljósi þessara staðreynda en að sjálfsögðu fagnar Verkalýðsfélag Akraness þessum samningi innilega, samningi sem gefur starfsmönnum launahækkun upp á allt að 80 þúsund krónum á mánuði, samningi sem er metinn á tugi prósenta. Þetta er ákkurat málið sem Verkalýðsfélag Akraness hefur verið að benda á, það eru þessi fyrirtæki sem geta svo sannarlega skilað ávinningnum til sinna starfsmanna eins og þarna var gert.

Viðræður við forsvarsmenn Norðuráls hafa engan árangur borið enda hafa þeir einungis boðið það sama og um var samð á hinum almenna vinnumarkaði sem er algjörlega út í hött í ljósi þeirra staðreynda að álfyrirtækin hafa hagnast gríðarlega vegna gengisfalls íslensku krónunnar og stórhækkaðs álverðs. Forsvarsmenn Fjarðaráls voru hins vegar tilbúnir til að skila þessum ávinningi til sinna starfsmanna og er það virðingarvert. Á þeirri forsendu trúir formaður Verkalýðsfélags Akraness því ekki að það sama muni ekki gilda fyrir það frábæra starfsfólk sem leggur sig fram af alúð og eljusemi fyrir Norðurál.

Einnig mun verða á fundinum á miðvikudaginn lögð fram tillaga að nýrri kröfugerð, kröfugerð sem byggist á sömu launahækkunum og um var samið hjá Fjarðaráli enda mun Verkalýðsfélag Akraness og reyndar starfsmenn Norðuráls allir, ekki sætta sig við þessa mismunun öllu lengur. Það er ekki hægt að láta það átölulaust að bæði Alcan í Straumsvík og Fjarðarál borgi umtalsvert hærri laun heldur en Norðurál. Við Íslendingar eigum að skoða það gaumgæfilega þegar að erlendir eignaraðilar að álfyrirtækjum óska eftir að hefja starfsemi sína hér á landi hvað þeir eru tilbúnir til að borga starfsmönnum í laun og þau stóriðjufyrirtæki sem eru tilbúin til að skila hér á landi sem mestum ávinningi í formi launagreiðslna til sinna starfsmanna eiga að hafa forgang að þeirri raforku sem við Íslendingar eigum öll saman.

Það er alveg ljóst að það er harður slagur framundan í þessari kjaradeilu en sem betur fer ríkir gríðarlegur einhugur á meðal starfsmanna um að launamunur á milli Norðuráls og annarra stóriðjufyrirtæki verði jafnaður og það í eitt skipti fyrir öll.

23
Jun

Yfir 100 milljónir í verkfallssjóði verða nýttar ef til verkfalls kemur

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá boðaði ríkissáttasemjari til fundar vegna kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins vegna Klafa ehf og hófst fundurinn kl. 8 í morgun í húsakynnum ríkissáttasemjara. Eins og einnig hefur komið fram hér á heimasíðunni þá hafa starfsmenn kosið um að hefja vinnustöðvun 5. júlí næstkomandi og er skemmst frá því að segja að þessi fundur sem var haldinn í morgun gefi litlar vonir til þess að sátt náist fyrir þann tíma.

Það kom skýrt fram í máli forsvarsmanna Samtaka atvinnulífsins og Klafa að engin stefnubreyting hefur orðið af hálfu eigenda Klafa í þessari deilu en eigendur fyrirtækisins eru Elkem Ísland og Norðurál. Þeir bjóða að starfsmenn Klafa fái sömu launahækkanir og um var samið á hinum almenna vinnumarkaði. Sú sanngjarna krafa félagsins fyrir hönd starfsmanna er hins vegar að þeir fái sömu launahækkanir og eingreiðslu og um var samið handa starfsmönnum Elkem Ísland þann 19. apríl síðastliðinn.

Það er gríðarlega mikilvægt að menn átti sig á því að starfsmenn Klafa eru flestir fyrrverandi starfsmenn Elkem Ísland, borða í sama mötuneyti og starfsmenn Elkem Ísland og eru að vinna á sama starfssvæði. Það er því þyngra en tárum taki að verða vitni að því að starfsmenn við eitt matarborðið í mötuneyti Elkem Íslands er án samnings á meðan 99% starfsmanna í verksmiðjunni hafa fengið sína launahækkun og það allverulega. Verkalýðsfélag Akraness og starfsmenn Klafa geta ekki undir nokkrum kringumstæðum horft upp á þessa ósanngirni og óbilgirni af hálfu eigenda Klafa og á þeirri forsendu mun félagið og starfsmenn Klafa fylgja sínum kröfum eftir af fullum þunga og nýta verkfallsheimildina ef ekki næst samkomulag fyrir 5. júlí.

Það kom einnig fram á fundinum í morgun af hálfu forsvarsmanna Norðuráls, sem er annar eigandi Klafa, að þeir telji að starfsmenn Klafa eigi að taka laun samkvæmt kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði. Hér er einmitt kjarni málsins á ferð, laun á Grundartangasvæðinu sem tengjast stóriðjunum hafa hingað til verið ívið betri heldur en kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði hvað varðar hin ýmsu réttindamál og launakjör enda er hér um verksmiðjustörf að ræða sem oft á tíðum geta verið krefjandi og hættuleg. Á þeirri forsendu þarf að verja þessi kjör á stóriðjusvæðinu með kjafti og klóm til að forðast það að þessi störf verði gjaldfelld eins og nú virðist vera gerð tilraun til að gera.

Hins vegar er það orðin staðreynd að launakjör í stóriðjunum á Grundartanga eru alls ekki orðin eins góð og þau voru gagnvart almenna vinnumarkaðnum hér á árum áður þegar störf í stóriðjum voru afar eftirsóknarverð.  Nægir að nefna í því samhengi að grunnlaun byrjanda hjá Norðuráli eru einungis 175.000 kr. hjá Klafa er byrjandinn með 180.031 kr. og hjá Elekm Ísland eru byrjanda grunnlaun 194.611 kr.  Það er hlutverk Verkalýðsfélags Akraness að verja starfskjör á svæðinu með kjafti og klóm og sjá til þess að launakjör annara stóriðja séu ekki langtum hærri.  Því er rétt að geta þess að Fjarðarál gekk frá samningi við sína starfsmenn fyrir nokkrum dögum sem gerir það að verkum að tugþúsunda launamunur er nú á milli Norðuráls og Fjarðaráls. 

Verkalýðsfélag Akraness á yfir 100 milljónir í verkfallssjóði sem munu klárlega koma vel til nota ef verkfallið dregst á langinn enda mun félagið að sjálfsögðu styðja starfsmenn af fullum þunga þannig að þeir verði fyrir eins litlu tjóni og hugsast getur ef til verkfalls kemur. Ríkissáttasemjari hefur boðað til næsta fundar fimmtudaginn 30. júní kl. 9:30 og bera formaður félagsins og starfsmenn Klafa þá von í brjósti sér að forsvarsmenn fyrirtækisins sjái að sér og komi til móts við þá sanngjörnu launakröfu sem starfsmenn hafa sett fram.

22
Jun

Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar í fyrramálið

GrundartangasvæðiðGrundartangasvæðiðEins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá samþykktu starfsmenn Klafa að hefja verkfall 5. júlí nk. Það er alveg óhætt að segja að starfsmenn Klafa séu orðnir sárir og reiðir yfir þeirri framkomu sem þeim er ætíð sýnd þegar kemur að því að semja um kaup kjör þeirra. Eins og fram hefur komið þá eru það Elkem og Norðurál sem eiga Klafa til helminga en Klafi var stofnaður árið 2000, en starfsmenn Klafa voru flestir fyrrverandi starfsmenn Elkem Ísland.

Þegar núverandi starfsmönnum Klafa var tilkynnt árið 2000 að það ætti að stofna nýtt þjónustufyrirtæki undir heitinu Klafi þá var þeim tjáð að það myndi ekki hafa nein áhrif á launakjör þeirra hvorki í nútíð né framtíð. Því miður hefur þetta loforð margoft verið svikið. 

Krafa starfsmanna er að fá sömu launahækkanir og fyrrverandi starfsbræður þeirra hjá Elkem fengu en því hefur alfarið verið hafnað og lítur út fyrir að það séu forsvarsmenn Norðurlás sem leggist gegn slíkum samningi ekki forsvarsmenn Elkem.  Frá þessari kröfu munu starfsmenn ekki kvika enda er engin sanngirni í öðru.

Nú hefur ríkissáttasemjari boðað til fundar kl. 08.15 í fyrramálið og það verður að segjast alveg eins og er að formaður félagsins er alls ekki bjartsýnn á jákvæð tíðindi af þessum fundi og það nema síður sé.   

21
Jun

Verkfall hefst 5. júlí hjá starfsmönnum Klafa

Rétt í þessu var að ljúka kosningu um verkfall hjá starfsmönnum Klafa og er skemmst frá því að segja að það ríkti mikill einhugur hjá starfsmönnum enda var verkfallsboðunin samþykkt með 100% greiddra atkvæða, en kosningaþátttaka var 79%.

Verkfallið mun hefjast 5. júlí næstkomandi kl. 12 á hádegi og standa í ótilgreindan tíma. Það er alveg ljóst að verkfall þetta mun geta haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir Elkem Ísland en því miður er ekki hægt að beita verkfallsvopninu gegn Norðuráli þar sem undanþága í kjarasamningi frá árinu 2000 kveður á um að ekki megi raska framleiðslu Norðuráls.

Rétt er að geta þess að Klafi er þjónustufyrirtæki sem sér um alla upp- og útskipun á Grundartangasvæðinu, bæði fyrir Norðurál og Elkem Ísland enda er Klafi í 100% eigu þessara tveggja fyrirtækja. Það er þyngra en tárum taki að þurfa að beina aðgerðum sínum gegn Elkem Ísland einvörðungu vegna þess að starfsmenn og félagið skynja vilja hjá forsvarsmönnum Elkem um að ganga frá kjarasamningi fyrir starfsmenn Klafa. Það er rétt að geta þess að starfsmenn Klafa eru fyrrverandi starfsmenn Elkem Ísland en árið 2000 var þetta þjónustufyrirtæki stofnað í eigu áðurnefndra aðila og þegar fyrirtækið Klafi var stofnað var starfsmönnum lofað því að það myndi hvorki hafa áhrif á launakjör þeirra í nútíð né framtíð.

Einnig er rétt að rifja upp að Elkem Ísland gekk frá mjög góðum samningi fyrir sína starfsmenn þann 19. apríl síðastliðinn, samningi sem gaf starfsmönnum allt að 26% launahækkun.

Því er krafa starfsmanna Klafa sú að þær launahækkanir og eingreiðslur sem um var samið hjá Elkem verði með sambærilegum hætti enda stenst annað ekki nokkra skoðun. En því miður virðist það vera með þeim hætti að Norðurál sé ekki tilbúið að ganga frá samningi á þessum nótum og á þeirri forsendu er málið komið í þann farveg sem hér hefur verið rakinn.

Til upplýsinga þá eru grunnlaun starfsmanna Klafa einungis 180.031 kr. og heildarlaun byrjanda losa rétt 260.000 kr. þannig að það er ljóst að hér er ekki um hálaunastörf að ræða. Því miður er verkfallsvopnið eina vopnið sem starfsmenn hafa eftir að hafa reynt samningaleiðina árangurlaust í 6 mánuði og því verður beitt af fullum þunga ef þörf krefur.

20
Jun

Verkalýðsfélag Akraness skorar á HB Granda

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum að undanförnu þá hafa nokkur sjávarútvegsfyrirtæki, eins og til dæmis Samherji og Brim, ákveðið að tvöfalda þær eingreiðslur sem um var samið í kjarasamningunum á hinum almenna vinnumarkaði. Það er ekki bara að þessi tvö fyrirtæki hafi tekið þessa jákvæðu ákvörðun fyrir starfsfólk sitt heldur greiddu þau einnig út eingreiðslu í desember sem nam 260 þúsund krónum á hvern starfsmann. Samtals virðast því þessi fyrirtæki hafa greitt sínum starfsmönnum á fjórða hundrað þúsund krónur umfram það sem samið hefur verið um í kjarasamningum. Þessu fagnar formaður Verkalýðsfélags Akraness innilega.

Á þessari forsendu sendu trúnaðarmenn HB Granda hér á Akranesi, í Reykjavík og fyrir austan forstjóra fyrirtækisins, Eggerti Guðmundssyni, bréf þar sem þess var farið á leit að HB Grandi myndi greiða sambærilegar greiðslur og áðurnefnd sjávarútvegsfyrirtæki. Því miður hafnaði forstjóri fyrirtækisins þessari beiðni trúnaðarmannanna og kom fram hjá honum að fyrirtækið umbuni sínu starfsfólki með launum sem þeir geri ráð fyrir að séu samkeppnishæf. Einnig kom fram í svari forstjórans að fyrirtækið fari eftir þeim kjarasamningum sem eru í gildi á hverjum tíma.

Formanni Verkalýðsfélags Akraness er kunnugt um að margir starfsmenn séu sárir og svekktir yfir þessu svari enda er HB Grandi eitt sterkasta og öflugasta sjávarútvegsfyrirtækið hér á landi og starfsmönnum finnst það grátlegt að verið sé að greiða slíkar greiðslur umfram kjarasamninga hjá öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum eins og til dæmis Samherja og Brim en því sé alfarið hafnað af hálfu HB Granda.

Á þeirri forsendu skorar Verkalýðsfélag Akraness á HB Granda að endurskoða ákvörðun sína og greiða sínu frábæra starfsfólki sambærilegar eingreiðslur og önnur öflug sjávarútvegsfyrirtæki hafa verið að gera.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image