• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
03
Oct

Trúnaðarmannanámskeið

Dagana 2. og 3. október stendur yfir trúnaðarmannanámskeið á vegum Verkalýðsfélags Akraness og fer það fram í húsnæði Símenntunar Vesturlands á Smiðjuvöllum. Námskeiðið sitja 8 trúnaðarmenn félagsins en námskeið sem þessi skiptast í mismunandi hluta og því misjafnt hversu marga hluta hver trúnaðarmaður hefur tekið.

Í kjarasamningum er kveðið á um að trúnaðarmönnum skuli gefinn kostur á að sækja námskeið sem miða að því að gera þá hæfari í starfi og er það Félagsmálaskóli Alþýðu sem stendur fyrir fræðslustarfseminnni í samstarfi við stéttarfélögin. Trúnaðarmannanámskeiðin eru kennd samkvæmt námsskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og þá oftast haldin á svæði þess félags sem býður upp á námskeiðin hverju sinni.

Það er mikilvægt að þeir sem starfa sem trúnaðarmenn fái tækifæri til að bæta við þekkingu sína og verða þannig öflugri í sínu hlutverki. Meðal þess sem farið er yfir í mismunandi hlutum trúnaðarmannanámskeiða er hlutverk stéttarfélaga og sambanda á vinnumarkaði, innihald og uppbygging kjarasamninga, lestur launaseðla og góð samskipti á vinnustað. Það er hverju stéttarfélagi mikilvægt að eiga öflugan hóp trúnaðarmanna sem eru mikilvæg tenging inn á vinnustaðina til félagsmanna.

27
Sep

Fimm stjórnarmeðlimir kvaddir í gær

Á stjórnarfundi Verkalýðsfélags Akraness í gær voru fimm stjórnarmeðlimir kvaddir eftir langt og farsælt starf. Þetta eru þau Alma María Jóhannsdóttir, Elí Halldórsson, Jóna Ágústa Adolfsdóttir, Sigríður Sigurðardóttir og Sigurður Guðjónsson. Þau hafa öll starfað í núverandi stjórn frá því hún tók við árið 2003 og hafa því tekið þátt í að byggja upp félagið í öllum þeim áskorunum sem upp hafa komið á þeim tíma. Formaður félagsins þakkaði þeim fyrir gott samstarf og tók fram hversu mikilvægt það er að hafa fólk í stjórninni sem er tilbúið að leggja sig fram í baráttunni og gefa af sér í starfinu. Jafnframt þökkuðu fráfarandi stjórnarmeðlimir fyrir samstarfið og óskuðu nýjum meðlimum alls hins besta í sínu starfi. Á meðfylgjandi mynd má sjá Sigríði Sigurðardóttur (Systu), Elí Halldórsson, Sigurð Guðjónsson, Jónu Á. Adolfsdóttur og Vilhjálm Birgisson.

27
Sep

Kjarasamningur við sveitafélögin samþykktur

Atkvæðagreiðslu um nýjan kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga er lokið. Niðurstöður liggja nú fyrir og var samningurinn samþykktur með rúmlega 78% þeirra sem greiddu atkvæði.

Atkvæðagreiðslan var rafræn og sameiginleg hjá 18 aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins. Stóð hún yfir frá 14. til 26. september. Á kjörskrá voru 5.950 manns og var kjörsókn 14,62%. Já sögðu 684 eða 78,62%. Nei sögðu 144 eða 16,55%. 4,83% tóku ekki afstöðu.

Samningurinn gildir frá 1. október 2023 til 31. mars 2024 og tekur til allra félagsmanna aðildarfélaga SGS sem starfa hjá sveitarfélögum. Kjarasamninginn má nálgast hér.  

Eftirtalin félög eiga aðild að samningnum: AFL Starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Stéttarfélag Vesturlands, Stéttarfélagið Samstaða, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Verkalýðsfélagið Hlíf, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis og Verkalýðsfélag Þórshafnar.

21
Sep

Tveggja daga kjötiðnaðarnámskeið 30. sept og 1. okt. 2023

Símenntun á Vesturlandi kynnir tveggja daga kjötiðnaðarnámskeið 30. sept - 1. okt. 2023

Nánari upplýsingar www.simenntun.is 

kjötiðnaðarnámsk. símenntun sept2023

15
Sep

Kynningarfundur um nýgerðan kjarasamning SGS við Samband íslenskra sveitafélaga

Verkalýðsfélag Akraness heldur opinn kynningarfund um framlengdan kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands við Samband íslenskra sveitafélaga í golfskálanum á Akranesi mánudaginn 18. september og hefst kynningin kl 17:00

 

Þeir félagsmenn sem tilheyra undir viðkomandi kjarasamning starfa hjá Akraneskaupsstað, Hvalfjarðasveit og Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Höfða.

 

Félagsmenn sem starfa samkvæmt þessum samningi eru eindregið hvattir til að mætta.

14
Sep

Kosning um samning SGS og Sambands íslenskra sveitarfélaga

Rafræn atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning SGS og Sambands íslenskra sveitarfélaga hefst í dag 14. september kl. 12. Atkvæðagreiðslan er sameiginleg hjá þeim 18 aðildarfélögum sem eru aðilar að samningnum og lýkur henni þann 26. september kl. 9:00.

Félagið hvetur alla þá sem starfa eftir þessum samningi til að samþykkja hann enda um stuttan samning að ræða sem þó felur í sér ýmsar jákvæðar breytingar. Hér má skoða glærur um samninginn og jafnframt er kynningarefni aðgengilegt inni á heimasíðu Starfsgreinasambandsins.

 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image