• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Aug

Stjórn VLFA sjálfkjörin

Frestur til að skila inn framboðslistum til stjórnarkjörs rann út á hádegi í dag. Þar sem ekki bárust aðrir listar en sá sem stjórn og trúnaðarráð lagði fram telst sá listi sjálfkjörinn eins og 24. gr. laga félagsins kveður á um..

Umtalsverðar breytingar verða á stjórn félagsins en úr stjórn fara nokkrir stjórnarmenn sem hafa látið af störfum á íslenskum vinnumarkaði sökum aldurs. Rétt er að geta þess að þessir einstaklingar hafa verið í stjórn félagsins allt frá árinu 2004. En þau eru Sigríður Sigurðardóttir, Elí Halldórsson, Sigurður Guðjónsson, Alma M. Jóhannsdóttir og Jóna Á. Adolfsdóttir.

Einnig fór úr stjórn Kristófer Jónsson en hann tilheyrir ekki lengur VLFA sökum þess að hann er orðinn stýrimaður skuttogara og einnig Tómas Rúnar Andrésson en hann lést á síðasta ári.

Stjórn félagsins vill færa þeim kærar þakkir fyrir frábært samstarf og vel unnin störf í þágu félagsins og þátttöku þeirra í þeirri miklu uppbyggingu sem verið hefur á starfsemi félagsins á undanförnum árum.

Nýir í stjórn Verkalýðsfélag Akraness eru Jón Vilhelm Ákason, Katrín Ósk Sigurdórsdóttir, Allan Freyr Vilhjálmsson, Steinunn Guðmundsdóttir, Dagbjört Guðmundsdóttir og Ingibjörg Helga Rögnvaldsdóttir.

Að öðru leyti hafa ekki orðið fleiri mannabreytingar í stjórn. Vill formaður bjóða stjórnarmenn hjartanlega velkomna til starfa með von um að samstarfið verði félaginu áfram jafn farsælt og það hefur verið hingað til.

Það er rétt að geta þess að stjórn Verkalýðsfélags Akraness er eins sú fjölmennasta sem gerist í verkalýðshreyfingunni en í heildina skipa 18 stjórnarmenn stjórn félagsins. 

08
Aug

Stjórnarkjör VLFA 2023

Stjórnarkjör 2023

Samkvæmt 24 gr. laga Verkalýðsfélags Akraness ber að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu um kjör stjórnar.

Framboðslistum til stjórnarkjörs í Verkalýðsfélagi Akraness árið 2023, ásamt meðmælendum skv. reglugerð ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslur, ber að merkja kjörstjórn og skila á skrifstofu félagsins, Þjóðbraut 1 fyrir kl. 12:00 þann 15. ágúst nk. Hvert það framboð er gilt sem fram kemur innan þess tíma og hefur skriflegt samþykki þeirra sem framboðslistann skipa.

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness hefur lagt fram framboðslista til stjórnar sem hægt er að skoða á hér

Berist kjörstjórn ekki aðrir listar telst framboðslisti stjórnar og trúnaðarráðs sjálfkjörinn samkvæmt 24. gr. laga Verkalýðsfélags Akraness.

28
Jul

Lokað vegna sumarleyfa

Dagana 31. júlí til og með 7. ágúst verður skrifstofa félagsins lokuð vegna sumarleyfa.

Við bendum félagsmönnum okkar á að nýta tölvupóstinn þessa daga ef erindi þeirra getur alls ekki beðið.

Netföngin okkar eru : 

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Sumarkveðjur 

Villi, Inga, Elín, Lóa og Dagbjört 

18
Jul

Afmælisgolfmót Samiðnar

Í tilefni af 30 ára afmæli Samiðnar verður meðal annars haldið afmælisgolfmót. Mótið fer fram þann 20. ágúst næstkomandi í Leirunni hjá Golfklúbbi Suðurnesja á Hólmsvelli og eru nánari upplýsingar um skráningu hér. Skráningarfrestur er til 17. ágúst og þátttökugjald er 5.000 kr. Leikin verður punktakeppni með og án forgjafar og veitt verða ýmis verðlaun. Að loknu móti verða glæsilegar veitingar í golfskálanum í boði Samiðnar. Mótanefndin hvetur golfara í aðildarfélögum Samiðnar til að mæta til leiks en hámarksfjöldi þátttakenda er 84 og því best að drífa í að skrá sig.

11
Jul

Gjafabréf í flug nýtast félagsmönnum vel

Í mars síðastliðnum ákvað stjórn Verkalýðsfélags Akraness að bjóða félagsmönnum upp á þá nýjung að geta keypt gjafabréf hjá flugfélögunum á afslætti og er skemmst frá því að segja að þessari nýjung hefur svo sannarlega verið vel tekið. Uppundir 250 gjafabréf hafa verið seld á fyrstu 3 mánuðunum og með því er heildarsparnaður félagsmanna ein og hálf milljón vegna þess afsláttar sem félagið býður upp á. Þetta virkar þannig að félagsmenn geta keypt allt að 5 gjafabréf á ári á 19.000 kr.stykkið en virði gjafabréfsins er 25.000 kr. þannig að hver félagsmaður er að spara sér 30.000 kr. séu öll 5 gjafabréfin nýtt. 

Það er ánægjulegt að sjá þegar félagið býður upp á nýjungar að það skuli heppnast jafn vel og raun ber vitni í þessu tilfelli enda er það markmið félagsins að veita félagsmönnum eins góða þjónustu og kostur er og þetta var einn liður í þeirri vegferð. 

Almennt eru félagsmenn duglegir að nýta réttindi sín og má geta þess að á fyrstu 6 mánuðum þessa árs hafa greiðslur úr sjúkrasjóði aukist um 16,5%. Afar ánægjulegt er að fæðingarstyrkir hafa aukist um 26% á fyrstu 6 mánuðunum en hver fullgildur félagsmaður á rétt á 155.000 kr. fæðingarstyrk og ef báðir foreldrar eru félagsmenn þá nemur styrkurinn 310.000 kr. Einnig hefur fjöldi þeirra sem nýta sér heilsufarsskoðunarstyrkinn aukist um 22% og er afar ánægjulegt að sjá hversu vel meðvitaðir félagsmenn VLFA eru um sín réttindi.  

23
Jun

Húsfyllir á fundi um ákvörðun matvælaráðherra

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá tók matvælaráðherra ákvörðun um að fresta hvalveiðum til 1. september. Sú ákvörðun var tekin 5 mínútum áður en hvalavertíðin átti að hefjast með þeim skelfilegu afleiðingum að 150 manns misstu möguleika á miklum tekjum vegna vertíðarinnar. Á grundvelli þessarar ákvörðunar gat Verkalýðsfélag Akraness ekki annað en farið af fullum krafti í að mótmæla þessum gerræðislegu vinnubrögðum. Á þeirri forsendu ákvað félagið að boða til fundar með afar skömmum fyrirvara þar sem þessi ákvörðun matvælaráðherra yrði til umfjöllunar. 

Á fundinn voru boðaðir allir þingmenn norðvesturkjördæmis ásamt matvælaráðherra og formönnum þingflokka sem eiga sæti á Alþingi Íslendinga. Þrátt fyrir að boðað hafi verið til fundarins með skömmum fyrirvara þá troðfylltist salurinn og hefði vart verið hægt að koma fyrir flugu í fundarsalnum. Fundinum var einnig streymt á visir.is og höfðu því mun fleiri möguleika á að fylgjast með og var sá möguleiki svo sannarlega vel nýttur. Formaður vill þakka Stöð 2/Vísi og visi.is fyrir að hafa streymt þessum fundi en samkvæmt upplýsingum sem hann hefur aflað sér hafa yfir 20.000 manns nú þegar horft á fundinn. Það var frábært framtak hjá þessum aðilum að gefa landsmönnum tækifæri til að sjá fundinn í beinni útsendingu eins og raunin varð.

Fundurinn var gríðarlega góður, hann var málefnalegur og fólk var kurteist þrátt fyrir að málefnið sé viðkvæmt og hafi haft afar slæmar afleiðingar fyrir 150 fjölskyldur sem ætluðu að byggja lífsafkomu sína á þessari vertíð. 

Formaður opnaði fundinn og kom fram í hans máli að heildar launatekjur sem starfsmenn Hvals hf. eru að verða af vegna ákvörðunar matvælaráðherra nemi um 1,2 milljarði og er það fyrir utan launatengd gjöld og áhrifin af þeim fjölmörgu afleiddu störfum sem verða til á meðan á vertíð stendur. Þetta er gríðarlega alvarlegt mál, að ráðherra geti tekið svona gerræðislega ákvörðun þar sem meðalhófi og andmælarétti er sturtað niður í holræsið. Formaður spurði sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hvað þeir ætluðu að gera þegar Hvalur hf. myndi stefna ríkissjóði til bótaskyldu, jafnvel upp á milljarða, ef þessi ákvörðun fengi að standa óhögguð. Ástæðan fyrir þeiri spurningu er sú að það kom fram í máli meðal annars þingmanna Sjálfstæðisflokksins að þessi ákvörðun stæðist ekki lagalega skoðun. Og ekki bara það heldur hefur matvælaráðherra látið hafa eftir sér að hún hafi ekki haft lagalegar heimildir til að afturkalla veiðileyfið þegar skýrsla Matvælastofnunar kom út. Matvælaráðherra hefur sagt að hún hafi skipt um skoðun eftir að fagráð sem er pólitískt skipað af henni sjálfri skilaði niðurstöðu sinni á rúmlega einu A4 blaði. En það kom ekkert fram í þessu áliti sem ekki hafði áður komið fram í skýrslu Matvælastofnunar á sínum tíma. 

Það kom einnig fram á fundinum að Hvalur hf. hefur verið að vinna að nýjum búnaði sem byggist upp á svokölluðu rafstuði en hvorki fagráð né matvælaráðuneytið höfðu samband við Hval hf. til að kanna þennan nýja búnað eða afla sér upplýsinga um hann. Þetta eru stjórnsýsluvinnubrögð sem eru gjörsamlega ólíðandi með öllu, að einn ráðherra skuli geta gengið gegn stjórnarskrárvörðum atvinnurétti með þessum hætti er eitthvað sem ekki er hægt að láta átölulaust og verður ekki látið átölulaust. 

Verkalýðsfélag Akraness mun reyna að fylgja þessu máli eftir af fremsta megni og vonast til þess að ráðherra sjái að sér en hvatti hinsvegar Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn til að slíta þessu stjórnarsamstarfi ef ákvörðunin fær að standa.  

Hér má sjá bréf sem Verkalýðsfélag Akraness sendi á matvælaráðherra, forsætisráðherra, fjármálaráðherra, atvinnu- og nýsköpunarráðherra og formann atvinnumálanefndar.

Glærur formanns Verkalýðsfélags Akraness frá fundinum má sjá hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image