• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
 • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
Jun

Kjarasamningur Elkem Ísland samþykktur með tæplega 60% atkvæða

Rétt í þessu lauk kosningu um kjarasamning félagsins við Elkem Ísland á Grundartanga og var samningurinn samþykktur með tæplega 60% þeirra sem kusu.

Á kjörskrá voru 103

Þeir sem kusu voru 74 eða 71,84%

Af þeim sem kusu sögðu 44 já eða 59,46%

Af þeim sem kusu sögðu 29 nei eða 39,19

Auður og ógildir voru 1 eða 1,35%

02
Jun

Kjör hjá Snók og Klafa hækka eins og um var samið hjá Elkem

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá gekk félagið frá kjarasamningi við Elkem Ísland fyrir nokkrum dögum en kosningu um kjarasamninginn lýkur í dag.

Það er skemmst frá því að segja að það eru fleiri fyrirtæki sem tengjast kjarasamningnum við Elkem en það eru tvö fyrirtæki sem þjónusta Elkem á Grundartanga sem taka mið af þeim launum og réttindum sem samið er um í samningi við Elkem.

Þetta eru þjónustu- og verktakafyrirtækin Snókur og Klafi en þessi fyrirtæki munu hækka laun sín eins og samið var um í umræddum kjarasamningi við Elkem.

Grunnlaun munu hækka með eftirfarandi hætti hjá Snók og Klafa:

 • 1. janúar 2021 5,8%
 • 1. janúar 2022 5,8%
 • 1. janúar 2023 hækka laun sem nemur 95% af launavísitölunni
 • 1. janúar 2024 hækka laun sem nema 95% af launavísitölunni
 • Orlofs og desemberuppbætur verða í ár 238.923 kr. eða samtals 477.846 kr.

Eins og áður hefur komið fram gildir samningar beggja þessara fyrirtækja afturvirkt frá 1. Janúar 2021 og nemur afturvirkni hjá starfsmönnum um eða yfir 200 þúsund krónum.

Rétt er að geta þess að fjölmörg réttindi í stóriðjusamningunum eru umtalsvert betri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði eins og t.d. áðurnefndar orlofs og desemberuppbætur að ógleymdum veikinda- og slysarétti. Því er mikilvægt að tengja kjör þessara þjónustufyrirtækja sem starfa á iðnaðarsvæðinu við stóriðjusamning.

28
May

Aðalfundur VLFA var haldinn 26. maí

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn miðvikudaginn 26. maí. Í skýrslu stjórnar fór formaður yfir helstu atriði í starfsemi félagsins á liðnu ári og kom fram í máli hans að félagið stendur gríðarlega vel jafnt félagslega sem fjárhagslega.

Rekstrarafgangur samstæðunnar var 133 milljónir og nemur eigið fé félagsins rétt tæpum 1,8 milljarði. Formaður fór yfir hvaða atriði í starfsemi félagsins voru helst til afgreiðslu á síðasta ári og bar þar hæst kjarasamningagerð fyrir Norðurál og Elkem á Grundartanga en báðir þessir samningar eru að skila okkar félagsmönnum umtalsverðum ávinningi.

Það kom einnig fram í skýrslu stjórnar að á síðasta ári vann félagið mál gegn Hval hf. sem skilaði þeim sem áttu hlut að máli samtals uppundir 100 milljónum vegna vanefnda á kjörum samkvæmt ráðningarsamningi. Það kom líka fram að frá árinu 2004 hefur félagið innheimt vegna ágreinings og vanefnda atvinnurekenda 1 milljarð króna og kom fram að nánast útilokað hefði verið að þessir fjármunir hefðu skilað sér til þeirra sem áttu hlut að máli nema með aðkomu og hjálp stéttarfélagsins.

Formaður fór ítarlega yfir húsnæðisbreytingar félagsins en félagið keypti nýtt húsnæði að Þjóðbraut 1 sem er 311 fermetrar að stærð og er framtíðarhúsnæði á besta stað í bænum en gamla húsnæðið að Sunnubraut 13 var sett upp í nýja húsnæðið.

Það kom einnig fram að félagsmenn hafa blessunarlega verið afar duglegir að nýta sér þá þjónustu sem félagið býður þeim upp á enda sýnir öll tölfræði það.

En tölfræðin var með eftirfarandi hætti:

 • 1.091 manns fengu greiðslu úr sjúkrasjóði félagsins
 • 294 einstaklingsstyrkir voru afgreiddir úr menntasjóðunum
 • 292 félagsmenn keyptu veiðikort, útilegukort og gistimiða á hótel
 • 504 bókanir voru í orlofshús félagsins á síðasta ári

Á þessu sést að 82% félagsmanna eru að nýta sér þjónustu félagsins og er það fyrir utan alla þá þjónustu sem félagið sinnir í formi heimsókna og hringinga sem nema tugum á degi hverjum.

Það er afar ánægjulegt að heyra að félagsmenn séu ánægðir og stoltir af félaginu sínu og almennt mjög ánægðir með þá þjónustu sem félagið býður upp á.

Eins og alltaf þá er það regla stjórnar að láta félagsmenn njóta góðs af góðri afkomu félagsins og í ár var engin undantekning þar á. En vegna góðrar afkomu var heilsueflingarstyrkurinn hækkaður úr 30 þúsundum í 40 þúsund og heilsufarskoðunarstyrkurinn hækkaður úr 25 þúsundum í 30 þúsund. Þessu til viðbótar ákvað stjórn félagsins að bjóða félagsmönnum endurgreiðslu vegna gistingar á hótelum og tjaldsvæðum að fjárhæð 10 þúsund í sumar.

26
May

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness er í kvöld!

Félagsmenn athugið aðalfundur Verklaýðsfélags Akraness verður haldinn í kvöld og hefst fundurinn klukkun 17:00 og er hann haldinn á Gamla kaupfélaginu.

 

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn miðvikudaginn 26. maí kl. 17:00 á Gamla Kaupfélaginu, Kirkjubraut 11

Dagskrá:

 • Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
 • Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.
 • Kosningar sem þurfa að fara fram á aðalfundi samkvæmt 28. grein laga félagsins.
 • Önnur mál.

Á aðalfundi verða ekki afgreiddar með atkvæðagreiðslu aðrar tillögur og ályktanir en þær sem borist hafa til skrifstofu félagsins 5 dögum fyrir aðalfund eins og 28. grein laga félagsins kveður á um. Ársreikningur félagsins mun liggja frammi á skrifstofu félagsins 7 dögum fyrir aðalfund. Komi tillögur eða ályktanir fram þá munu þær liggja frammi á skrifstofu félagsins og verða einnig kynntar á heimasíðu félagsins.

Rétt er að vekja athygli á aðalfundurinn verður haldinn með þeim skilyrðum og takmörkunum sem sóttvarnaryfirvöld kveða á um þegar fundurinn verður haldinn.

Boðið verður upp á kvöldverð eftir fundinn.

25
May

Kosningar um nýjan kjarasamning við Elkem Ísland

Kosningar um nýgerðan kjarasamning við Elkem Ísland hefjast klukkan 12:00 þriðjudaginn 25. maí og standa yfir til klukkan 12:00 2. júní.

Verkalýðsfélag Akraness stendur fyrir tveimur kynningarfundum í dag 25. maí og verður fyrri fundurinn haldinn í matsal Elkem á Grundartanga og hefst hann klukkan 13:30 og síðari fundurinn verður klukkan 19:00 25. maí eða nánar tiltekið í dag og verður hann haldinn á Gamla kaupfélaginu.

Hér er hægt að sjá kynningu um samninginn

Hér er hægt að sjá undirritaðan kjarasamning

21
May

Kynningarfundir um nýgerðan kjarasamning

Kynningafundir á nýjum kjarasamningi fyrir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness við Elkem Ísland verða tveir og báðir verða þriðjudaginn 25. maí. Fyrri fundurinn verður haldinn í matsal Elkem Ísland á Grundartanga og hefst klukkan 13:30 og síðari fundurinn verður sama dag og hefst klukkan 19:00 og verður hann á Gamla Kaupfélaginu.

Á fundunum mun formaður félagsins fara ítarlega yfir kjarasamninginn og hvaða áhrif hann hefur á kjör starfsmanna. Einnig mun formaður gera ítarlega grein fyrir viðauka við kjarasamninginn sem mun einungis gilda fyrir félagsmenn VLFA og lýtur að auknu vali félagsmanna til að ráðstafa 3,5% af iðgjaldi í lífeyrissjóð.

Kosið verður sameiginlega um kjarasamninginn en fimm stéttarfélög eiga aðild að samningnum og verður kosningin með rafrænum hætti í gegnum island.is. Kosningin hefst klukkan 12:00 þriðjudaginn 25. maí og lýkur klukkan 12:00 miðvikudaginn 2 júní.

Hægt er að skoða kjarasamninginn hér og eftir fundina mun öll kynningin koma inn á heimasíðu félagsins. Rétt er að geta þess að slóð verður inni á heimasíðum stéttarfélaganna sem starfsmenn Elkem geta smellt á og þá opnast kosningin fyrir þá eftir að þeir hafa skráð sig inn með rafrænum skilríkjum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image