• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Jul

Skaginn 3 X gjaldþrota - 128 starfsmenn missa lífsviðurværi sitt

Enn einn sorgardagurinn í atvinnumálum okkar skagamanna. Skaginn 3 X hefur óskað eftir að fyrirtækið verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Var að koma af fundi rétt í þessu en þessi fundur var vægast sagt gríðarlega erfiður en á þessum fundi tilkynntu forsvarsmenn hátæknifyrirtækisins Skaginn 3 X 128 starfsmönnum að fyrirtækið yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

Þetta gjaldþrot þessa rótgróna fyrirtækis þýðir að 128 fjölskyldur missa lífsviðurværi sitt en um 100 af þessum 128 hafa búa hér á Akranesi og nágrenni en Skaginn 3 X er einn af stærstu vinnustöðum hér á Akranesi. Rétt er að geta þess einnig að fjöldi afleiddra starfa tapast einnig samhliða þessu gjaldþroti.

Til að setja fjölda þeirra sem missa atvinnuna við þetta gjaldþrot í eitthvað samhengi þá væri þetta eins og 2400 manns myndu missa atvinnuna í Reykjavík miðað við höfðatölu.

Rétt er að upplýsa að öllum starfsmönnum Skútunnar sem N1 á og rekur var sagt upp störfum fyrir nokkrum dögum og munu uppsagnir taka gildi frá næstu áramótum en formanni telst til að á þriðja tug starfsmanna séu undir í þeirri uppsögn.

Það er óhætt að segja að þessi tíðindi séu enn eitt þunga höggið sem við Akurnesingar höfum þurft að þola í atvinnumálum á liðnum árum og formanni er það til efs að nokkurt sveitarfélag hafi þurft að þola eins miklar hamfarir í atvinnumálum eins og við skagamenn að undanskildum vinum okkar í Grindavík.

Eins og flestir muna þá er búið að rústa öllum sjávarútvegi hér á Akranesi þökk sé fyrirkomulagi í fiskveiðistjórnarkerfinu. Það er t.d. rétt að rifja upp að árið 2004 voru 250 manns í vinnu hjá fiskvinnslufyrirtækinu Haraldi Böðvarssyni á Akranesi og það ár var landað um 170 þúsund tonnum og fyrirtækið greiddi á þriðja milljarð í laun. Í dag er allt farið!

Fyrir nokkrum dögum var möguleikum okkar á veiðum og vinnslu hvalaafurða á þessari vertíð slátrað með handónýttri og ólöglegri stjórnsýslu stjórnvalda og þrýstingi frá „öfgafólki“. Mitt mat er að núna sé komið nóg og nú verður eitthvað að gerast í atvinnumálum okkar Akurnesinga. Enda morgunljóst að ekkert sveitarfélag getur þrifist án þess að hafa sterkt og öflugt gjaldeyrisskapandi atvinnulíf en það er með slíkum störfum sem öll sveitafélög eflast og styrkjast.

Formaður skora á fyrirtæki að skoða möguleika á að hefja starfsemi hér á Akranesi og við eigum að spyrja öflug fyrirtæki sem vilja skoða þann möguleika að hefja starfsemi hér hvað getum við gert til að þið viljið koma með ykkar starfsemi hingað!

Það blasir við að þrátt fyrir að allir innviðir hér á Akranesi séu til algjörra fyrirmyndar þá hefur okkur alls ekki tekist að efla atvinnulífið hér á Akranesi. Nánast enginn sjávarútvegur er eftir, ekkert hótel sem leiðir til þess að við erum ekki með hvað ferðaþjónustu varðar. Við verðum að fara að opna augun fyrir þessum staðreyndum og krefjast þess að stjórnvöld, bæjarstjórn og við öll ráðumst í eflingu á gjaldeyrisskapandi atvinnutækifærum okkur Akurnesingum til hagsbóta.

Við höfum alla innviði eins og áður sagði frábæra grunnskóla, leikskóla, heilsugæslu og öflugt og gott íþróttastarf. Við höfum allt nema öflugt atvinnulíf og því verður að breyta og það strax og ég biðla til bæjarfulltrúa, stjórnvalda og okkur öll að vakna og opna augun fyrir þessum staðreyndum.

Ef ekkert verður að gert mun atvinnulíf hér á Akranesi blæða endanlega út og því mikilvægt að stöðva þessa slagæðablæðingu og hefja alvöru gjaldeyrisskapandi atvinnuuppbyggingu og það án tafar!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image