• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Sep

Formaður félagsins fór í eftirlitsferð í þau fyrirtæki sem eru með erlenda starfsmenn í sinni þjónustu

Formaður félagsins fór og heimsótti þau fyrirtæki á Akranesi sem hafa erlenda starfsmenn í sinni þjónustu.  Að þessu sinni voru aðallega byggingarfyrirtæki sem eru með erlenda starfsmenn til skoðunar.

Það er alveg ljóst að umfjöllun Blaðsins undanfarið um kennitöluleysi, réttindi og aðbúnað erlends vinnuafls hefur gert það að verkum að atvinnurekendur eru að taka við sér hvað þessa þætti varðar.

Verkalýðsfélag Akraness er nú að vinna úr þeim upplýsingum sem fengust í þessum vinnustaðaheimsóknum og er m.a. að athuga hvort fyrirtækin hafa tilkynnt starfsmennina til vinnumálastofnunar eins og lög kveða á um.    

01
Sep

Vel heppnuð ferð eldri félagsmanna farin í gær

Í gær fóru um 100 eldri félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness í dagsferð í boði félagsins. Í þetta sinn var farið um Reykjanesið og heppnaðist ferðin afskaplega vel. Veðrið lék við ferðalangana sem í fylgd Jóhönnu Þórarinsdóttur leiðsögumanns skoðuðu sig um á svæðinu.

 

Steinunn Kolbeinsdóttir við myndina

Þegar leiðsögumaðurinn var komin upp í rútuna í Keflavík var ekið sem leið lá yfir Miðnesheiði. Fyrsti áfangastaður var Hvalsneskirkja þar sem fróðleikur var fenginn um kirkjuna sjálfa og Hallgrím Pétursson sem var prestur þar um tíma. Síðan var ekið um Romshvalanes í gegnum Sandgerði út í Garð þar sem Byggðasafnið á Garðsskaga var skoðað. Þar er einnig mikið vélasafn sem vakti athygli margra. Sérstaklega er skemmtilegt að minnast þess að á byggðasafninu rákust ferðalangarnir óvænt á málverk af Steinunni Kolbeinsdóttur sem einmitt var með í för. Málverkið var gert árið 1940 eftir ljósmynd af Steinunni þar sem hún situr við rokkinn sinn.

Eftir áhugavert stopp á Garðsskaga var ekið til Keflavíkur þar sem boðið var upp á hádegisverð á veitingastaðnum Ránni. Að hádegisverði loknum var farið Reykjaneshringinn, ekið um Hafnir, Álfubrúin, Reykjanesviti og Valahnúkur skoðaður og stoppað við Gunnuhver. Þaðan var ekið framhjá Grindavík og í Bláa Lónið þar sem boðið var upp á kaffi og meðlæti áður en lagt var af stað upp á Skaga.

Myndir frá ferðinni verða settar inn á síðuna von bráðar.

30
Aug

Verkalýðsfélag Akraness styrkir unglingastarf SÁÁ um 100.000 kr

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness samþykkti á stjórnafundi í gærkveldi að styrkja unglingastarf SÁÁ um 100.000 kr. 

Rökin fyrir því að Verkalýðsfélag Akraness skuli telja sér það skylt að styðja við bakið á unglingastarfi SÁÁ blasa raunar allstaðar við.  Tugir einstaklinga af okkar félagssvæði sem hafa átt um sárt að binda sökum ofneyslu áfengis eða fíkniefna hafa notið aðstoðar og hjálpar SÁÁ .

Stjórn Verklýðsfélags Akraness er stolt af því að geta lagt unglingastarfi SÁÁ lið í því góða starfi sem þar er unnið. 

28
Aug

Ekki vandamál þótt það taki sex vikur að fá nýja kennitölu fyrir erlenda starfsmenn segir skrifstofustjóri Þjóðskrár!

Skúli Guðmundsson skrifstofustjóri Þjóðskrár segir í Fréttablaðinu í dag að afgreiðsla á nýjum kennitölum fyrir erlenda starfsmenn sé ekki vandamál.  Skúli segir vandann vera þann að vinnuveitendur skili ekki inn ráðningarsamningum til Vinnumálastofnunar eins og lög kveða á um.  

Vissulega er það rétt að töluverður hluti vandamálsins við eftirlit með skráningu á erlendu vinnuafli liggur í því að atvinnurekendur tilkynna ekki þá erlendu starfsmenn sem þeir hafa í sinni þjónustu.

Hins vegar er það með ólíkindum að Skúli Guðmundsson skrifstofustjóri Þjóðskrár skuli ekki telja það vandamál að það skuli taka sex vikur að fá afgreidda nýja kennitölu fyrir erlenda starfsmenn.  

Einnig má nefna það að Verkalýðsfélag Akraness óskaði eftir upplýsingum frá Þjóðskrá um það hvort búið væri að sækja um kennitölur fyrir nokkra Pólverja sem hingað komu til starfa í byrjun júlí.  Svarið frá Þjóðskrá var að það væri ekki hægt að sjá hverir væru búnir að sækja um nýja kennitölu þar sem engin forskráning færi fram hjá Þjóðskrá, einungis væri hægt að sjá hverir væru búnir að fá kennitölu afgreidda.  Ef þetta flokkast ekki undir vandamál þá veit formaður félagsins ekki hvað eigi að flokkast undir slíkt.

Það er algjört lykilatriði að þeir aðilar sem eiga að sjá um eftirlit með erlendu vinnuafli viðkenni vandann, ef það er ekki gert verður erfitt að leysa hann. 

24
Aug

Laust í Ölfusborgum í næstu viku vegna forfalla!!

Vegna forfalla er næsta vika, frá 25. ágúst til 01. september, laus í sumarbústað félagsins í Ölfusborgum. Vikuna er hægt að bóka á skrifstofu félagins.

Athygli er vakin á því að undir liðnum orlofshús hér vinstra megin er nú hægt að skoða hvaða helgar eru lausar í orlofshúsunum í vetur.

23
Aug

Fundað um nýjan kjarasamning við Orkuveitu Reykjavíkur

Á þriðjudaginn kemur er fyrirhugað að funda með forsvarsmönnum Orkuveitu Reykjavíkur um nýjan kjarasamning fyrir þá starfsmenn sem starfa hjá Orkuveitunni og tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness.

Ljóst er að horft verður til þeirra kjarasamninga sem Orkuveitan hefur gert bæði við Starfsmannafélag Reykjavíkur sem og við stéttarfélagið Eflingu við gerð nýs kjarasamnings.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image