• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
Nov

Atvinnurekendur halda áfram að níðast á erlendu vinnuafli!

Eftirlit með atvinnurekendum sem eru með erlent vinnuafl í sinni þjónustu heldur áfram að skila árangri fyrir hina varnarlausu erlendu starfsmenn sem hingað koma til að starfa.  Félagið hefur verið að vinna að máli fyrir pólskan verkamann sem hingað kom til starfa í maí sl.  

Pólski verkamaðurinn hafði frétt af því að Verkalýðsfélag Akraness væri afar virkt í því að gæta hagsmuna fyrir erlent verkafólk.  Hann sagðist ekki hafa þorað að koma fyrr en hann var búinn að láta af störfum hjá fyrirtækinu af ótta við að missa starfið.  Hann sagði einnig að samlandar sínir væru afar tregir til að leita réttar síns til stéttarfélagsins af ótta við að verða vísað úr vinnu og jafnvel úr landi. Óskaði Pólverjinn eftir því að farið yrði yfir launaseðla hans frá því hann hóf störf hjá fyrirtækinu.  Í þeirri skoðun kom í ljós að það vantaði 174.126 kr. uppá að laun hans næðu þeim lágmarkslaunum sem kjarasamningar kveða á um og var hér einungis um þriggja mánaða tímabil að ræða.

Til dæmis vann Pólverjinn 360 tíma í júní og var einungis með jafnaðarkaup uppá 800 kr. á tímann. Hann vann sem sagt 187 yfirvinnutíma í þeim mánuði.  Í þessum mánuði er verið að kolbrjóta á réttindum mannsins.  Verkalýðsfélag Akraness hefur haft samband við atvinnurekandann og hefur hann fallist á að greiða umræddum Pólverja mismuninn.  Hann taldi sig hins vegar vera að gera vel við starfsmanninn og nefndi jafnframt að hann hefði heyrt að mjög algengt væri að atvinnurekendur væru að greiða erlendum verkamönnum jafnaðarkaup frá 700 og uppí rétt rúmar 1000 kr.  

Formaður Verkalýðsfélags Akraness er sannfærður um að þetta er rétt hjá umræddum atvinnurekanda. Það er verið að þverbrjóta á réttindum erlendra starfsmanna út um allt.  Formaður félagsins hefur einnig vitneskju um að einstaka atvinnurekendur sendi Vinnumálastofnun ráðningarsamninga þar sem lágmarks kjarasamningar eru uppfylltir, en gera upp við erlendu starfsmennina á allt öðrum kjörum en ráðningasamningar sem sendir eru til Vinnumálastofnunar segja til um.  Það er gríðarlega erfitt að hafa eftirlit með því hvort atvinnurekendur séu að brjóta á erlendum starfsmönnum eða ekki og sér í lagi eftir að lögin um frjálst flæði launafólks frá hinum nýju aðildarríkum EES tóku gildi 1. maí sl.

Það er engin spurning að sú sprenging sem orðið hefur á innflutningi á erlendu vinnuafli frá hinum fátæku ríkum Austur - Evrópu hefur nú þegar stórskaðað það markaðslaunakerfi sem hér hefur verið við lýði áratugum saman.  Það er ekki bara það að erlent vinnuafl er oftar en ekki sett á lágmarkskjör, heldur er líka verið að greiða þessu fólki langt undir gildandi samningum eins mýmörg dæmi sanna.  Framferði þeirra atvinnurekenda sem brjóta á réttindum erlends vinnuafls getur hæglega gert það að verkum að áratuga löng barátta íslenskrar verkalýðshreyfingar fyrir bættum kjörum verði að engu.   

Eitt er víst að Verkalýðsfélag Akraness mun beita sér af alefli fyrir því að á þessum málum verði tekið í næstu kjarasamningum af fullri hörku þannig að það verði ekki ávinningur fyrir atvinnurekendur að ráða hér ódýrt vinnuafl á smánarlaunum.  Krafan verður einfaldlega að vera sú að lágmarkslaun verði hækkuð til að ná þeim markaðslaunum sem verið er að greiða vítt og breitt í samfélaginu og þar af leiðandi verður mun minni ávinningur fyrir óprúttna atvinnurekendur að ná sér í ódýrt erlent vinnuafl. 

Það skal þó tekið fram að það eru alls ekki allir atvinnurekendur sem níðast á erlendu vinnuafli.  En því miður sýna dæmin það að þeir eru alltof margir sem það gera.

01
Nov

Gífurleg fjölgun erlendra félagsmanna í Verkalýðsfélagi Akraness

Samkvæmt félagaskrá Verkalýðsfélags Akraness hefur orðið gífurleg fjölgun á erlendum félagsmönnum á síðasta ári.  Í heildina eru 200 erlendir starfsmenn sem tilheyra félaginu eða sem nemur 9% af fullgildum félagsmönnum.  Reyndar telur formaður félagsins að mun fleiri erlendir starfsmenn séu að starfa á okkar félagssvæði en þeir séu einfaldlega ekki tilkynntir til Vinnumálastofnunar.  Félagið reynir að halda úti reglulegu eftirliti með þeim fyrirtækjum sem hafa erlenda starfsmenn í sinni þjónustu.  En eftir að takmörkunum á frjálsu flæði launafólks var aflétt 1. maí sl. hefur reynst afar erfitt að sinna þessu eftirliti.

Langflestir erlendu starfsmennirnir koma frá Póllandi eða 120 manns, 40 koma frá Litháen, 22 frá Portúgal og síðan dreifast 18 erlendir félagsmenn nokkuð jafn á önnur lönd.

Það er alveg ljóst að það er hart sótt að því markaðslaunakerfi sem hefur verið við lýði hér á landi á undanförnum árum og áratugum með þessu gífurlega flæði ódýrs vinnuafls frá Austur-Evrópu. 

30
Oct

Fundur um réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði fyrirhugaður í nóvember

Stóriðjudeild Verkalýðsfélags Akraness mun standa fyrir opnum fundi um réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði seinni part nóvember mánaðar.

Undirbúningur fyrir fundinn er nú þegar hafinn og hefur félagið t.d. fengið Magnús Norðdahl deildarstjóra lögfræðideildar ASÍ til að fara ítarlega yfir réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði.  

Fundurinn verður auglýstur þegar nær dregur.  

28
Oct

Ársfundi ASÍ lauk í gær

Ársfundi ASÍ lauk í gær.  Eins fram hefur komið hér á heimasíðunni þá var megin þema þessa fundar hnattvæðingin og íslenskur vinnumarkaður. 

Einnig voru fleiri mál til umræðu eins og t.d breytingar á skipulagi hjá Alþýðusambandi Íslands.  Tillagan gekk út það að  fjölgað yrði úr 15 manna miðstjórn í 31, reiknað var með að miðstjórn kæmi saman fjórum sinnum á ári.  Einnig var í tillögunum gert ráð fyrir að stofnuð yrði 11 manna framkvæmdastjórn sem yrði skipuð forseta, varaforseta, formönnum landssambanda og þriggja stærstu aðildarfélaga.

Ef þessi tillaga hefði verið samþykkt þá hefði einungis einn landsbyggðar fulltrúi átt sæti í framkvæmdastjórn ASÍ og aðeins ein kona.  Það var að mati fulltrúa þeirra félaga sem komu af landsbyggðinni algerlega óásættanlegt.  

Einnig var í tillögunni búið að eyrnamerkja þá aðila sem áttu að eiga sæti í framkvæmdastjórn Alþýðusambandsins.  Fannst mörgum það ekki beint lýðræðislegt að í lögum ASÍ væri nánast búið að ákveða hverjir eigi sæti í framkvæmdastjórn sambandsins.  

Það kom því fulltrúum Verkalýðsfélags Akraness ekki mikið á óvart að áðurnefndar lagabreytingar skyldu hafa verið felldar.

Það þýðir samt sem áður ekki svo að menn sé á eitt sáttir með það skipulag sem nú er við lýði hjá ASÍ, þó svo að þessar skipulagsbreytingar hafi verið felldar.   

26
Oct

Ársfundur ASÍ hófst í morgun

Ársfundur Alþýðusambands Íslands hófst í morgun með ávarpi frá forseta ASÍ, Grétari Þorsteinssyni.  Einnig flutti Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra ávarp.  Verkalýðsfélag Akraness hefur rétt á fjórum fulltrúum á ársfundinn og eru þeir Vilhjálmur Birgisson, Þórarinn Helgason, Tómas Rúnar Andrésson og Björgólfur Einarsson.

Megin þema þessa ársfundar er Ísland og hnattvæðingin.  Á fundinum verður farið yfir þau áhrif sem hnattvæðingin hefur haft á íslenskt samfélag.  Það er alveg ljóst að hnattvæðingin hefur bæði kosti og galla hér á landi.  

Íslenskir launþegar hafa svo sannarlega orðið varir við áhrif hnattvæðingarinnar hér á landi, en hún birtist okkur í stórauknu flæði erlends verkafólks frá hinum ýmsu ríkum.

Hnattvæðingin hefur gert það að verkum að aðgengi atvinnurekanda að ódýru erlendu vinnuafli hefur stóraukist.  Því miður hafa sumir atvinnurekendur og reyndar alltof margir nýtt sér bága stöðu þessa fólks.  Sagan sýnir okkur að það er verið að brjóta á erlendu verkfólki út um allt land, bæði hvað varðar laun sem og önnur starfkjör.  

Verkalýðshreyfingin verður í heild sinni að skera upp herör gegn þeim atvinnurekendum sem vísvitandi brjóta á réttindum erlends vinnuafls sem hingað kemur til starfa.  Verkalýðshreyfingin getur ekki horft uppá það að áratuga löng barátta fyrir bættum réttindum og kjörum íslenskra verkamanna, verði gjaldfelld með auknu aðgengi að ódýru erlendu vinnuafli.    

25
Oct

Þjóðarhagsmunir í húfi að Íslendingar ráði sjálfir yfir sínum auðlindum!

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fagnar þeirri ákvörðun íslenskra stjórnvalda að heimila hvalveiðar í atvinnuskyni að nýju eftir 17 ára hlé.

Vísindamenn Hafrannsóknastofnunar hafa árlega mörg undanfarin ár lagt til veiðar á langreyði og hrefnu og gert tillögu um veiðikvóta fyrir þessi dýr.  Það er mat formanns félagsins að við Íslendingar getum á engan hátt sætt okkur við það að utanaðkomandi aðilar stjórni því hvernig við nýtum okkar eigin auðlindir.  Er þetta mat formannsins byggt á grundvelli þeirra staðreynda að vísindamenn Hafrannsóknarstofnunar telja stofnstærð bæði hrefnu sem og langreyðar þoli umtalsverðar veiðar.

Hin ýmsu náttúruverndarsamtök hafa náð að telja almenningi í trú um að hvalir séu í verulegri útrýmingarhættu en það er þvert á það sem vísindamenn Hafrannsóknastofnunar hafa sagt.  Við Íslendingar getum ekki á nokkurn hátt látið kúga okkur til þess að nýta ekki þær auðlindir sem við eigum á forsendum sem eru klárlega rangar og ekki byggðar á nokkrum vísindalegum rökum.

Formaður félagsins spyr sig líka hvað ef náttúrusinnar myndu fara að halda því ranglega fram að aðrir nytjastofnar okkar Íslendinga væru í útrýmingarhættu t.d þoskurinn, ýsan, síldin og jafnvel loðnan. Ættum við Íslendingar að láta undan náttúruverndarsinnum og hætta veiðum á ofangreindum fiskistofnum.  Nei, það er mat formanns félagsins að hér sé um þjóðarhagsmuni okkar Íslendinga að ræða. Það verður að vera ákvörðun okkar hvernig við nýtum okkar auðlindir en að sjálfsögðu á sú ákvörðun að vera byggð á vísindalegum rökum.

Það er afar mikilvægt að ríkisstjórn Íslands fari í þá vinnu af fullum krafti að upplýsa umheiminn um að hér eru ekki hafnar veiðar á dýrum sem eru í útrýmingarhættu, heldur veiðar sem byggðar eru á faglegu mati færustu vísindamanna á þessu sviði.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image