• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Oct

Trúnaðarmenn Verkalýðsfélags Akraness athugið!

Verkalýðsfélag Akraness býður trúnaðarmönnum félagsins uppá trúnaðarmannanámskeið.  Námskeiðið er liður í því að gera trúnaðarmenn hæfari til að takast á við þau verkefni sem tilheyra trúnaðarmönnum.

Námskeiðið byrjar mánudaginn 16. október og lýkur föstudaginn 20. október.  Námskeiðið verður haldið í fundarherbergi félagsins að Sunnubraut 13.

Samkvæmt kjarasamningum á hver trúnaðarmaður rétt á að sækja trúnaðarmannanámskeið einu sinni á ári, án skerðingar á dagvinnulaunum.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness hvetur alla trúnaðarmenn félagsins til að skrá sig fyrir föstudaginn 13. október.  Skráning fer fram á skrifstofu félagsins eða í síma 430-9900 og þar er einnig hægt að fá nánari upplýsingar um námskeiðið.

02
Oct

Formannafundur Starfsgreinasambandsins verður haldinn á Ísafirði 5-6 október

Það ár sem þing SGS er ekki haldið, er boðað til sérstaks formannafundar sambandsins. Að þessu sinni verður fundurinn haldinn á Ísafirði þar sem staða kjara- og efnahagsmála verður ofarlega á baugi.

Kynntar verða niðurstöður kjarakönnunar meðal félagsmanna aðildarfélaga SGS, sem Gallup hefur unnið. Ólafur Darri Andrason forstöðumaður hagdeildar ASÍ mun fjalla um karaþróunina í ljósi efnahagsmálanna og Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur og lektor við HÍ mun viðra skoðun sína á því hvernig bæta megi kjörin, hvað sé mikilvægast fyrir verkafólk á næstunni.

Formenn 26 aðildarfélaga SGS munu sitja fundinn og afgreiða  ályktanir sambandsins m.a. um kjaramál.

29
Sep

Myndir frá ferð eldri félagsmanna komnar á síðuna.

Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni fóru eldri félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness í vel heppnaða dagsferð í boði félagsins á dögunum. Hægt er að skoða myndir úr ferðinni undir liðnum myndir hér vinstra megin á síðunni.

26
Sep

Kjör á ársfund ASÍ

Verkalýðsfélag Akraness hefur ákveðið að kjör fulltrúa á ársfund ASÍ fari fram að viðhafðri allherjar atkvæðagreiðslu. Verkalýðsfélagið á rétt á fjórum fulltrúum á ársfundinn sem haldinn verður í Reykjavík dagana 26. - 27. október 2006. Listum þar sem tilgreind eru nöfn aðal- og varafulltrúa sem skulu einnig vera fjórir skal skila á Skrifstofu félagsins að Sunnubraut 13, eigi síðar en kl. 16:00 miðvikudaginn 4. október 2006. Hverjum framboðslista skal fylgja meðmæli 50 fullgildra félagsmanna.

22
Sep

Verkalýðsfélag Akraness þarf ekki að stefna fiskvinnslufyrirtæki fyrir félagsdóm!

Eins og fram kom hér á heimasíðunni fyrir skemmstu þá var Verkalýðsfélag Akraness búið að ákveða að stefna fiskvinnslufyrirtæki hér í bæ fyrir félagsdóm.  Verkalýðsfélag Akraness taldi fyrirtækið hafa ekki staðið við það samkomulag sem lítur að taxtaviðaukanum sem verkalýðshreyfingin gerði við Samtök atvinnulífsins og tók gildi 1. júlí sl. 

Formaður félagsins reyndi að leysa málið með forsvarsmönnum fyrirtækisins en það tókst ekki.  Í ágúst tilkynnt formaður félagsins forsvarsmönnum fyrirtækisins að VLFA myndi stefna fyrirtækinu fyrir félagsdóm þar sem málið yrði tekið til úrskurðar.  Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa hins vegar tilkynnt það núna að þeir hyggist greiða starfsmönnum eftir umræddum taxtaviðauka með sama hætti og Verkalýðsfélag Akraness lagði til við fyrirtækið í byrjun.  Stjórn Verkalýðsfélags Akraness fagnar þessari ákvörðun forsvarsmanna fyrirtækisins því hér voru umtalsverðir hagsmunir í húfi fyrir starfsmenn. 

Þetta sýnir svo ekki verður um villst hversu mikilvægt það er að vera félagsmaður í öflugu stéttarfélagi.   Það er einu sinni þannig að stjórn Verkalýðsfélags Akraness vílar ekki fyrir sér að fara með mál fyrir félagsdóm ef ekki næst samkomulag við atvinnurekendur og einnig ef grunur leikur á að  brotið sé á okkar félagsmönnum.

19
Sep

Trúnaðarmannanámskeið verður haldið 16 október

Verkalýðsfélag Akraness mun halda trúnaðarmannanámskeið um miðjan október.  Námskeiðið verður auglýst nánar fljótlega og hvetur stjórn félagsins alla trúnaðarmenn félagsins til að skrá sig þegar að því kemur.

Það er markmið stjórnar félagsins að gera trúnaðarmenn eins hæfa  til að gegna sínu starfi eins og kostur og er þetta námskeið einn liður í því.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image