• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Jul

Félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness athugið !

5,5% launaþróunartrygging  


Samkvæmt samkomulagi forsendunefndar ASÍ og SA skal starfsmanni sem er í starfi í júní byrjun 2006 og hefur starfað samfellt hjá sama vinnuveitanda í a.m.k. 12 mánuði tryggð að lágmarki 5,5% launahækkun á þeim tíma. Hafi launahækkun starfsmannsins verið minni á tímabilinu skulu laun hans hækka frá 1. júlí 2006 um þá upphæð sem á vantar til að 5,5% hækkun sé náð.

15.000 kr. taxtaviðauki


Verkalýðshreyfingin hefur samið við Samtök atvinnulífsins um 15.000 kr. taxtaviðauka sem bætist við alla mánaðarlaunataxta kjarasamninga þessara aðila og gildir sú hækkun frá 1. júlí 2006. Þessi 15.000 kr. taxtaviðauki myndar grunn fyrir yfirvinnu- og vaktaálag.

Hafi starfsmaður viðbótargreiðslur umfram kjarasamning þá má lækka þær viðbótargreiðslur um allt að því jafn háa fjárhæð og taxtaviðaukanum nemur, að undanskildum bónusum hjá fiskvinnslufólki.

Taxtaviðaukinn gildir fyrir alla kjarasamninga sem félagið hefur gert við Samtök atvinnulífsins.

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að hafa samband við skrifstofu félagsins til að fá nánari upplýsingar um samkomulagið sem gert var við Samtök atvinnulífsins.

10
Jul

Réttindi úr sjúkrasjóði Verkalýðsfélags Akraness stórlega bætt

Sjúkrasjóður Verkalýðsfélags Akraness vill minna félagsmenn sína á að ný reglugerð sjóðsins tók gildi 1. júlí.  Nýja reglugerðin veitir félagsmönnum mun víðtækari og betri réttindi heldur áður hefur gerst hjá sjúkrasjóði félagsins.  Hægt er að skoða nýju reglugerðina með því að smella á lög og reglugerðir og síðan á reglugerð sjúkrasjóðs

06
Jul

Formaður Verkalýðsfélags Akraness átti mjög góðan fund með forsvarsmönnum HB Granda í gær

Formaður félagsins átti góðan fund með forsvarsmönnum HB-Granda í gær.  Tilefni fundarins var að fara yfir þann samdrátt sem átt hefur sér stað hér á Akranesi að  

undanförnu. Einnig vildi félagið fá svör við því hvort frekari samdráttur væri fyrirhugaður á næstunni.

Þeir sem sátu fundinn auk formanns Verkalýðsfélags Akraness voru Eggert Guðmundsson forstjóri, Vilhjálmur Vilhjálmsson deildarstjóri uppsjávardeildar og Torfi Þorsteinsson framleiðslustjóri.

Formaður félagsins lýsti yfir vonbrigðum sínum með þann samdrátt sem átt hefur sér stað frá því HB sameinaðist Granda.  Eins og fram hefur komið fram hér á heimasíðunni þá hafa um 60 störf tapast frá sameiningu.  Formaður félagsins óskaði eftir skýrum svörum frá forsvarmönnum HB Granda um hver framtíðaráform fyrirtækisins séu hér á Akranesi.

Fram kom í máli forsvarsmanna HB Granda að frekari samdráttur sé ekki fyrirhugaður.  Einnig sögðu þeir að samdráttur í loðnuveiðum hefði gert það að verkum að fækka hefði þurft starfsfólki í síldarbræðslunni stórlega og einnig hefði þurft að leggja loðnuskipinu Víkingi Ak 100 af þeim sökum.  Það kom skýrt fram hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins að bæði Víkingur Ak og síldarbræðslan munu verða keyrð á fullu gasi aftur ef það kemur til góðrar loðnuvertíðar.  Þetta telur formaður félagsins afar jákvætt

Forsvarsmenn HB Granda sögðu varðandi landvinnsluna að hún gengi nokkuð vel.  Frystihúsið hefur verið að sérhæfa sig í vinnslu á þorski og engar breytingar væru fyrirhugaðar í þeim efnum.

Formaður félagsins spurði hvort ekki væri tryggt að landanir úr frystitogurum yrðu áfram hér á Akranesi og kváðu þeir að þær yrðu áfram með sama sniði og verið hefur.

Að lokum spurði formaður félagsins hvort einhverjar breytingar væru fyrirhugaðar á skipastól fyrirtækisins sem tengist okkur Skagamönnum þ.e Ingunni Ak, Höfrungi Ak, Helgu Maríu Ak og Sturlaugi Ak.  Það kom skýrt fram hjá forsvarsmönnum HB Granda að engar breytingar væri fyrirhugaðar á rekstri umræddra skipa.

Heilt yfir var þetta mjög góður og gagnlegur fundur sem gefur vonir um að samdrætti sé lokið að minnsta kosti í bili.

04
Jul

Formaður félagsins óskaði eftir að funda með Eggerti Guðmundssyni, forstjóra HB Granda

Formaður félagsins óskaði eftir að funda með Eggerti Guðmundssyni, forstjóra HB Granda vegna þess samdráttar sem átt hefur sér stað hér á Akranesi á undanförnum árum eða allt frá sameiningu HB við Granda.  Við þeirri ósk varð forstjóri Granda góðfúslega .  Ljóst er að formaðurinn mun óska eftir skýrum svörum um hver séu framtíðaráform fyrirtækisins hér á Akranesi og hvort frekari samdráttur sé fyrirhugaður hér á Akranesi.

Það liggur alveg fyrir að um töluverðan samdrátt hefur verið að ræða hér á Akranesi frá því HB sameinaðist Granda fyrir nokkrum árum, en um 60 störf hafa tapast frá sameiningu.  Það liggur líka fyrir að samfélagið hér á Akranesi hefur orðið af umtalsverðum tekjum vegna þessa samdráttar. 

Það sem Verkalýðsfélag Akraness gerir kröfu um er afar einfalt, þ.e að sanngirni ríki á milli þeirra starfsstöðva sem eru í eigu HB Granda.  Formanni félagsins hefur fundist að verulega hafi hallað á okkur Skagamenn í þeim efnum sé horft á þær bláköldu staðreyndir að hjá HB Granda á Akranesi hefur fækkað um 60 störf á liðnum misserum. 

03
Jul

Stjórn og trúnaðarráð fundaði á fimmtudaginn sl.

Stjórn og trúnaðarráð félagsins kom saman til fundar á fimmtudaginn var.  Tilefni fundarins var fyrst og fremst að fara yfir samkomulagið sem verkalýðshreyfingin gerði við Samtök atvinnulífsins á dögunum.  Voru fundarmenn almennt ánægðir með samkomulagið

29
Jun

Niðurskurðurinn hjá HB-Granda hér á Akranesi ætlar engan enda að taka.

Niðurskurðurinn hjá HB-Granda hér á Akranesi ætlar engan enda að taka.  Rétt í þessu var verið að segja tveimur starfsmönnum síldarbræðslunnar upp störfum vegna hagræðingar í rekstri eins og segir í uppsagnarbréfi til starfsmannanna.  Fyrir sameiningu störfuðu um 25 manns í síldarbræðslunni.  Núna er einungis einn starfsmaður eftir, en það er verksmiðjustjórinn. 

Það er alveg orðið óhætt að segja að sameining Haraldar Böðvarssonar við Granda á sínum tíma sé að breytast í martröð fyrir okkur Skagamenn.  Formanni félagsins sýnist fljótt á litið að ekki undir 60 störf hafi tapast frá því HB sameinaðist Granda.  

Það er sorglegt að sjá hvernig störf tengd Haraldi Böðvarssyni, fyrirtæki sem við Skagamenn höfum byggt upp frá árinu 1906, flæða í burtu úr sveitarfélaginu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image