• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Feb

Ákvörðun um hvalveiðar stendur

Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra tilkynnti í sjávarútvegsráðuneytinu í dag að ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar, forvera síns, standi óbreytt fyrir yfirstandandi ár. Á hinn bóginn tók hann af öll tvímæli um að hvalveiðimenn geti ekki gengið að því sem vísu að ákvörðun fyrrverandi ráðherra standi hvað varðar veiðar næstu fjögur ár.

Þetta verða að teljast afar jákvæð tíðindi og ljóst að með þessari ákvörðun mun störfum hér á Vesturlandi fjölga töluvert og ekki veitir af í þeim hremmingum sem atvinnulífið á við að etja þessa daganna.  Það er einnig ljóst að sú harða barátta sem margir hagsmunaaðilar hafa háð að undanförnu hefur skilað árangri. 

18
Feb

Sjávarútvegsráðherra hittir sjávarútvegsnefnd í dag kl. 12:30

Formaður félagsins hefur heimildir fyrir því að Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra muni hitta sjávarútvegsnefnd í dag kl. 12:30.  Væntanlega mun reglugerð sem fyrrverandi sjávarútvegsráherra gaf út 27. janúar um auknar hvalveiðar verða til umræðu á þeim fundi.
 
Það er líklegt að sjávarútvegsráðherra muni tilkynna í kjölfarið hvort hann láti ákvörðun fyrrverandi sjávarútvegsráðherra standa varðandi heimild til aukinnar hvalveiða.
 
Eins fram kom hér á heimasíðunni þá var haldinn opinn bæjarmálafundur þann 5. febrúar sl. um hvalveiðar með öllum þingmönnum NV kjördæmis og einnig mætti sjávarútvegsráðherra á þann fund.  Ekki fór á milli mála að víðtækur stuðningur var á meðal fundarmanna um að reglugerðin frá 27. janúar um auknar hvalveiðar myndi standa óhögguð.
 
Það liggur ljóst fyrir að ef hvalveiðar verða heimilaðar á grundvelli fyrirliggjandi reglugerðar þá mun það verða umtalsverð innspýting inní atvinnulífið hér á Vesturlandi enda er talið að auknar hvalveiðar geti skapað allt að 300 störf og veitir ekki af þegar yfir 500 manns eru án atvinnuá Vesturlandi í dag. 
 
17
Feb

Fimm stéttarfélög á móti frestun á launahækkunum

Í gær fjallaði formannafundur ASÍ um beiðni SA um frestun á endurskoðun kjarasamninga til sumars og þar með frestun launahækkana. Fundurinn var líflegur og stóð í fjórar klukkustundir.  Skoðanir voru skiptar en þó virtist meirihluti fundarmanna vera fylgjandi frestun vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem efnahags- og atvinnumál þjóðarinnar eru í. 

Fjörugar umræður sköpuðust á fundinum og voru það einkum formenn nokkurra félaga á landsbyggðinni sem höfnuðu hugmyndinni um frestun algerlega.  Þeir vildu launahækkanir 1. mars eins og samningar kvæðu á um.  Það var mat þeirra formanna sem voru á móti því að fresta launahækkunum að ekki væri grundvöllur fyrir því að fresta hækkunum til handa þeim sem starfa á lágmarkstöxtum.

Í máli formanns Verkalýðsfélags Akraness á fundinum í gær kom fram að það væri með öllu óviðunandi að lágmarkslaun væru lægri en atvinnuleysisbætur og það væri eitthvað sem þyrfti klárlega að lagfæra við þessa endurskoðun.

Því miður náðu sjónarmið þeirra stéttarfélaga sem vildu fresta umræddum launahækkunum fram að ganga, en eins áður hefur komið fram þá vildi meirihluti þeirra formanna sem sátu fundinn fresta endurskoðun og launahækkunum fram á sumar.

Afstaða stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness kemur skýrt fram í ályktun sem félagið samþykkti á fundi sínum á miðvikudaginn í síðustu viku um þetta mál. Í þeirri ályktun kom meðal annars þetta fram:

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness vill að staðið verði við þau  ákvæði aðalkjarasamninga  er varða launahækkanir 1. mars nk. þó svo að forsendur samningsins er lúta að verðbólgumarkmiði samningsins séu kolbrostnar 

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness krefst þess að Samtök atvinnulífsins standi við þau ákvæði aðalkjarasamninga  er varða launahækkanir 1. mars nk.  Kjarasamningarnir sem undirritaðir voru 17. febrúar sl. voru hófstilltir og skynsamir og voru samningarnir einnig framlag verkafólks til að tryggja stöðugleika í íslensku samfélagi.

Á þeirri forsendu harmar stjórn og trúnaðaráð VLFA það ef Samtök atvinnulífsins taka upp á því að segja samningum upp eins og margt bendir til að verði raunin þessa stundina.

Íslensku verkafólki er fullkunnugt um þá erfiðleika sem íslenskt atvinnulíf á við að etja í kjölfar þeirra hamfara sem riðið hafa yfir Íslenskt efnahagslíf á undanförnum mánuðum.    Það er hins vegar mat stjórnar og trúnaðarráðs VLFA að ekki sé hægt að fresta launahækkunum til handa þeim allra tekjulægstu, einfaldlega vegna þess að þeir einstaklingar sem eru með hvað lægstu launin blæðir hratt út þessa daganna.  Það er ljóst að íslenskt verkafólk getur ekki undir nokkrum kringumstæðum axlað meiri ábyrgð á íslensku efnahagslífi en það gerði í síðustu kjarasamningum.

Komi hins vegar til þess að forsendunefndin telji í ljósi þungra aðstæðna í efnahagslífi að unnt sé að ná samkomulagi um frestun á endurskoðunarákvæðinu sem telja megi til hagsbóta fyrir félagsmenn, þá er afar mikilvægt að fram fari allsherjaratkvæðagreiðsla á meðal félagsmanna sem vinna eftir umræddum kjarasamningum.

 Á fundinum í gær lögðu Verkalýðsfélag Akraness, Framsýn á Húsavík, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Afl - starfsgreinafélag Austurlands og Drífandi í Vestmannaeyjum fram tillögu um að ef gert yrði samkomulag við Samtök atvinnulífsins um frestun á hækkun launa 1. mars nk. þá skyldi sú frestun lögð til atkvæðagreiðslu á meðal allra félagsmanna sem vinna eftir þeim samningum sem um ræðir.  Því miður taldi forseti ASÍ fundinn ekki geta afgreitt umrædda tillögu og var tillögunni því vísað til samninganefndar ASÍ.

Það verður því fróðlegt að sjá hvort samninganefnd ASÍ afgreiðir þessa frestun án þess að leggja hann í atkvæðagreiðslu á meðal félagsmanna sem starfa eftir þeim samningum sem um ræðir.

17
Feb

Minnum á fundinn með Vilhjálmi Bjarnasyni formanni félags fjárfesta

Minnum á fundinn á morgunMinnum á fundinn á morgunStjórn félagsins minnir á fræðslufund um efnahagsmál og framtíðarhorfur í íslensku samfélagi sem haldinn verður á morgun miðvikudaginn 18. febrúar í safnaðarheimilinu Vinaminni á Akranesi kl 20:00. 

Vilhjálmur Bjarnason formaður félags fjárfesta flytur erindi en hann mun fjalla um efnahagsmál þjóðarinnar - stöðuna, tilurðina og horfurnar.  Einnig mun Stefán Einar Stefánsson guðfræðingur og viðskiptasiðfræðingur flytja erindi er hann nefnir: Mammon, Guð og manneskjan.

Að loknum erindum gefst tóm til fyrirspurna og almennra umræðna.

Fundarstjórar verða Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og sr. Þorbjörn Hlynur Árnason prófastur.

Það eru Borgarfjarðarprófastsdæmi og Verkalýðsfélag Akraness sem efna til þessa fræðslufundar um efnahagsmál og horfur á Íslandi og er fundurinn öllum opinn.

16
Feb

Formenn ASÍ funda í dag

Eins fram hefur komið hér á heimasíðunni þá verður haldinn fundur með formönnum aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands. Aðalmálið sem verður til umfjöllunar er hugmynd miðstjórnar og forseta ASÍ um að fresta endurskoðun kjarasamninga og þeim launahækkunum til félagsmanna á hinum almenna vinnumarkaði sem eiga að koma til 1. mars nk.

Nú liggur fyrir að mjög skiptar skoðanir eru um þessa hugmynd og hafa fjölmörg félög innan Starfsgreinasambands Íslands ályktað um að krafa sé um að atvinnurekendur standi við gerða samninga og hafnar því algerlega að fresta endurskoðun og hækkun á launalið samninganna.

Þau félög sem hafa gagnrýnt þessa hugmynd harðlega eru t.d. Verkalýðsfélag Akraness, Framsýn á Húsavík, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Afl - starfsgreinafélag Austurlands og Drífandi í Vestmannaeyjum.

Það er ljóst að á fundinum í dag verður tekist á um þetta atriði, en afstaða áðurnefndra félaga er skýr, það er að atvinnurekendur standi við þá samninga sem við þá hafa verið gerðir enda er ekki hægt að þeir sem eru með hvað lægstu launin verði af þeim hækkunum sem um hefur verið samið.

Væntanlega mun verða tekin afstaða til þessar hugmyndar ASÍ á fundinum og verður fjallað ítarlega um þá niðurstöðu hér á heimasíðunni á morgun.

13
Feb

Vilhjálmur Bjarnason formaður félags fjárfesta verður á fundi í Vinaminni á miðvikudaginn n.k.

Vilhjálmur BjarnasonVilhjálmur BjarnasonFræðslufundur um efnahagsmál og framtíðarhorfur í íslensku samfélagi verður haldinn miðvikudaginn 18. febrúar í safnaðarheimilinu Vinaminni á Akranesi kl 20:00. 

Vilhjálmur Bjarnason formaður félags fjárfesta flytur erindi en hann mun fjalla um efnahagsmál þjóðarinnar - stöðuna, tilurðina og horfurnar.  Einnig mun Stefán Einar Stefánsson guðfræðingur og viðskiptasiðfræðingur flytja erindi er hann nefnir: Mammon, Guð og manneskjan.

Að loknum erindum gefst tóm til fyrirspurna og almennra umræðna.

Fundarstjórar verða Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og sr. Þorbjörn Hlynur Árnason prófastur.

Það eru Borgarfjarðarprófastsdæmi og Verkalýðsfélag Akraness sem efna til þessa fræðslufundar um efnahagsmál og horfur á Íslandi og er fundurinn öllum opinn.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image