• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
VLFA

VLFA

Big fan of open source and Joomla

Website URL: http://joomlabuff.com
Tuesday, 27 May 2014 00:00

Dagskrá Sjómannadagsins á Akranesi

Næstkomandi sunnudag verður Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur um allt land. Eins og undanfarin ár verður boðið upp á hefðbundna hátíðardagskrá sem kostuð er af Verkalýðsfélagi Akraness, en því til viðbótar mun Björgunarfélag Akraness sjá um fjölskylduskemmtun sem er í boði Akraneskaupstaðar og Verkalýðsfélags Akraness. Eru sjómenn, fjölskyldur þeirra og bæjarbúar allir hvattir til að taka þátt í hátíðarhöldunum og njóta dagskrárinnar sem verður á þessa leið:

-Kl 10:00 - Athöfn við minnisvarða um drukknaða og týnda sjómenn í kirkjugarðinum að Görðum.

-Kl. 11:00 - Hátíðarguðsþjónusta í Akraneskirkju þar sem sjómaður verður heiðraður fyrir ævistarf sitt.

-Kl. 13:00 til 16:00 - Akranesviti verður opinn gestum. Vert að vekja athygli á því að Sigurbjörg Þrastardóttir, bæjarlistamaður Akraness, opnar sýningu í Akranesvita laugardaginn 31. maí sem opin verður að hluta til sumarlangt. Sigurbjörg sýnir  ljóð um hafið og fleira í vitanum.

-Kl. 13:30 til 17:00 - Hið hefðbundna sjómannadagskaffi í Jónsbúð í umsjón Slysavarnardeildarinnar Lífar.
-Kl. 13.00 – 17.00 - Fjölskylduskemmtun á og við Akraborgarbryggjuna. Boðið verður upp á hoppukastala, koddaslag yfir sjó, kassaklifur og fleira. Þyrla kemur í heimsókn um klukkan 16.00 til að sýna björgun úr sjó með fyrirvara um að hún sé ekki upptekin í björgunarverkefni. Sérstök keppni verður fyrir ofurhuga, en hún felst í því að hoppa í sjóinn fram af Akraborgarbryggjunni. Dómnefnd fylgist með og verðlaun verða veitt. Hægt verður að fara í siglingu auk þess sem það verður kynning á kajökum og allir bátar Björgunarfélagsins verða til sýnis; Margrét Guðbrandsdóttir, Axel S. og Jón M.
-Vert er að geta þess að frítt er í sund í Bjarnarlaug alla helgina vegna 70 ára afmælis laugarinnar þann 4. júní og verður boðið upp á akstur á milli Bjarnalaugar og hafnarinnar á björgunarsveitarbíl. Opnunartími Bjarnalaugar laugardaginn 31. maí og 1. júní er kl. 09:00-17:00.

Klukkan þrjú í nótt var skrifað undir nýjan kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi eftir 10 vikna verkfall.  Á þeirri forsendu boðar sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness til mjög svo áríðandi kynningarfundar um nýgerðan kjarasamning í dag kukkan 17:00 á Gamla kaupfélaginu.

Á fundinum mun formaður fara ítarlega yfir nýgerðan kjarasamning og eftir fundinn geta fundarmenn kosið um hann.

Það er afar mikilvægt að sem flestir sjómenn sjái sér fært að mæta á kynningarfundinn!

****Uppfært kl. 16:00

Kjarasamningurinn er nú aðgengilegur hér.

Kaupskráin er aðgengileg hér.

Í gær voru atkvæði vegna kosningar um kjarasamning sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi talin í húsakynnum Ríkissáttasemjara. Það er skemmst frá því að segja að samningurinn var samþykktur naumlega, en 52,6% samþykktu samninginn á meðan 46,9% höfnuðu honum.

Það er rétt að geta þess að það er aldrei gott að niðurstaða kosningar sé með þeim hætti að tæpur helmingur þeirra sem kjósa eru ekki sáttir við niðurstöðuna. En það er hins vegar eitthvað sem þarf að vinna með, lýðræðislegur meirihluti er alltaf sá sem ræður og í þessu tilfelli samþykkti meirihluti sjómanna samninginn.

Það er óhætt að segja að þetta sé ein erfiðasta kjaradeila sem háð hefur verið á íslenskum vinnumarkaði í marga áratugi og einnig sú langvinnasta í sögu ríkissáttasemjara sem spannar ein 37 ár.

Það er alveg ljóst að þessi kjarasamningur skilar íslenskum sjómönnum umtalsverðum ávinningi. Mörg brýn réttindamál náðust í gegn og mun kjarasamningurinn á fyrsta ári skila íslenskum sjómönnum um eða yfir 2 milljörðum. En það er alltaf þannig í allri kjarasamningsgerð að menn vilja gera betur. Menn vilja ná meiru og það er eðlilegt. En málið er með íslenska verkalýðsbaráttu að henni lýkur aldrei, menn munu halda áfram að berjast fyrir réttindum og bættum kjörum íslenskra sjómanna á komandi árum. Það eru fjölmörg atriði sem enn liggja óbætt hjá garði og munu sjómenn og sjómannaforystan leggja sig í líma við að halda áfram vinnu við að lagfæra það sem sjómenn eru ekki á eitt sáttir með.

Formaður félagsins ítrekar að fjölmörg atriði í þessum kjarasamningi eru til mikilla hagsbóta fyrir íslenska sjómenn. Hann ítrekar það líka eins og áður hefur komið fram að menn hefðu svo sannarlega viljað geta náð meiru í þessum samningi. Formaður hefur einnig greint frá því á opinberum vettvangi að aðkoma stjórnvalda í þessari deilu var íslenskri stjórnsýslu ekki til sóma. Það er dapurlegt til þess að vita að forystumönnum sjómanna hafi verið stillt upp við vegg á ögurstundu vegna þeirrar sjálfsögðu kröfu að sjómenn yrðu meðhöndlaðir með sambærilegum hætti og annað launafólk á íslenskum vinnumarkaði þegar kemur að skattameðferð á dagpeningum vegna fæðiskostnaðar. Sjómenn voru búnir að semja við útgerðamenn um greiðslu á dagpeningum sem nam 2.350 kr., en þeir fjármunir áttu að fara í að greiða fyrir allan fæðiskostnað. Það eina sem sjómenn voru að biðja um var að vera meðhöndlaðir með sambærilegum hætti og annað launafólk. 

Sjávarútvegsráðherra lagði fram sáttatilboð, en greindi forystumönnum sjómanna jafnframt frá því að lög á deiluna væru tilbúin. Hún tók skýrt fram að þetta væri ekki "hótun", en bað sjómannaforystuna jafnframt að svara sér fyrir miðnætti því ef sjómenn myndu hafna þessari sáttatillögu þá þyrfti ráðherrann að hafa samband við forseta Alþingis, væntanlega til að undirbúa lagasetningu á verkfall sjómanna. Skýrari verður hótun í garð forystumanna sjómanna ekki. En það alvarlega í þessu máli var að í þessu sáttatilboði varðandi skattahagræði vegna fæðishlunninda var kveðið skýrt á um að allir þeir sem dveldur skemur en 48 klukkustundir fjarri heimili sínu nytu þess ekki. Þetta þýddi að 40% allra íslenskra sjómanna hefðu ekki fengið neitt. Með þessu var verið að reka fleyg í raðir sjómanna, því það kom aldrei til greina hjá samninganefnd sjómanna að skilja 40% af félögunum eftir án þess að þeir fengju neitt. Á þessari forsendu hafnaði sjómannaforystan þessu svokallaða sáttatilboði, því þetta sáttatilboð setti samninganefndina í gríðarlega erfiða og ógeðfellda stöðu.

Það er ljóst að formaður VLFA mun halda áfram að berjast fyrir því réttlætismáli að íslenskir sjómenn verði meðhöndlaðir með sambærilegum hætti og annað launafólk þegar kemur að greiðslu dagpeninga vegna fæðiskostnaðar. Þeirri vinnu er ekki lokið, þeirri baráttu mun halda áfram. Formaður skorar á Alþingi að allt þetta mál sem lýtur að sjávarútvegsráðuneytinu verði skoðað og rannsakað, því þetta inngrip og þessi vinnubrögð eru íslenskri stjórnsýslu hvorki til framdráttar né sóma.

Eins og áður sagði hefur þetta verið löng, ströng og erfið kjarabarátta sem fer í reynslubanka allra þeirra sem í henni tóku þátt. Flestir lögðu sig alla fram til að ná góðri niðurstöðu, en í samninganefndinni sátu margir venjulegir sjómenn sem svo sannarlega lögðu mikið af mörkum til að hægt væri að ná eins góðri niðurstöðu og kostur var. Vill formaður VLFA þakka þessum mönnum sérstaklega fyrir samstarfið sem er væntanlega ekki lokið, því vonandi eru menn tilbúnir að halda áfram vinnunni við að lagfæra og bæta réttindi og kjör íslenskra sjómanna.

Það hefur sýnt sig svo ekki verður um villst hversu gríðarlega mikilvægur sjávarútvegurinn er fyrir íslenskt þjóðarbú, enda hefur komið fram að ríki og sveitarfélög hafa orðið af 3,5 milljörðum í tekjum vegna verkfallsins. Það vita líka allir sem vita vilja að íslensk þjóð byggi ekki við þau lífsgæði sem hún gerir í dag ef ekki væri fyrir íslenskan sjávarútveg síðastliðin 100 ár eða svo með íslenska sjómenn og íslenskt fisvinnslufólk í broddi fylkingar. Þessum starfsstéttum þarf að sýna virðingu.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá stefndi Verkalýðsfélag Akraness Norðuráli fyrir Félagsdóm vegna ágreinings um túlkun á kjarasamningi vegna tveggja atriða í kjarasamningnum. Annað atriðið laut að útreikningi til ávinnslu orlofs- og desemberuppbóta. Hitt atriðið var ávinnsla á starfsaldri hjá fyrirtækinu, en VLFA hafði gert athugsemdir við fyrirtækið vegna þessa tveggja atriða án árangurs og voru aðilar sammála um að vera ósammála og því fór málið til Félagsdóms til úrlausnar.

Það er skemmst frá því að segja að Verkalýðsfélag Akraness hafði rétt fyrir sér í báðum málunum, en dómur féll í Félagsdómi 1. desember á síðasta ári. Á morgun mun koma til greiðslu vegna þessa dóms og mun sú endurgreiðsla, eða leiðrétting, ná til 260 starfsmanna sem hafa starfað hjá fyrirtækinu við  og ná fjögur ár aftur í tímann, eða nánar til getið frá 1. janúar 2013.

Eins og áður sagði mun leiðréttingin vegna orlofs- og desemberuppbóta ná til 260 starfsmenn sem unnið hafa tímbundið og/eða við sumarafleysingar og nemur hún samkvæmt upplýsingum formanns um 26 milljónum króna með dráttarvöxtum. Og vegna seinna málsins sem laut að starfsaldurshækkunum nær sú leiðrétting í það minnsta til fjögurra starfsmanna og nemur á þriðju milljón króna.

Þannig að þessi hagsmunagæsla Verkalýðsfélags Akraness er að skila félagsmönnum tæpum 30 milljónum og er félagið stolt af því hvernig þetta mál fór, enda var félagið sannfært um að það hefði rétt fyrir sér í þessu máli. Það er stefna félagsins að standa ætíð fast fyrir þegar kemur að hagsmunagæslu fyrir félagsmenn, enda er félagið óhrætt við að láta á slík mál reyna fyrir dómsstólum ef félagið telur minnsta vafa leika á að verið sé að brjóta á réttindum okkar félagsmanna.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni og flestir landsmenn vita þá lauk rúmlega 10 vikna verkfalli sjómanna sunnudaginn 19. febrúar síðastliðinn.

Þessi kjaradeila sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi er ein erfiðasta kjaradeila sem háð hefur verið á íslenskum vinnumarkaði síðustu áratugina eða svo, enda liggur t.d. fyrir núna að þessi deila er sú lengsta í 37 ára sögu ríkissáttasemjara.

Eitt af hlutverkum stéttarfélaga þegar það á í erfiðum vinnudeilum við atvinnurekendur sem leiða tilverkfalls er að standa þétt við bakið á sínum félagsmönnum og koma þá verkfallsjóðir félaganna til sögunnar.

Það skiptir því miklu máli að stéttarfélögin séu fjárhagslega sterk og með góða og öfluga verkfallssjóði þegar farið er í erfiðar vinnudeilur við atvinnurekendur. Sem betur fer stendur Verkalýðsfélag Akraness vel fjárhagslega og gat því stutt sína félagsmenn sem tilheyrðu sjómannadeild félagsins allan tímann sem verkfallið stóð.

Verkfallsbætur voru greiddar út hálfsmánaðarlega og síðast þann 15. febrúar. Á morgun fer fram lokauppgjör til þeirra sjómanna sem áttu rétt á verkfallsstyrk frá félaginu en þá verða greiddir út síðustu dagar verkfallsins. Í heildina greiddi verkfallssjóður Verkalýðsfélags Akraness á þriðja tug milljóna úr verkfallssjóðnum.

Formaður vill koma á framfæri þakklæti fyrir hönd stjórnar félagsins til sjómanna fyrir samstöðuna og stuðninginn í þessari erfiðu kjaradeilu, en baráttunni fyrir bættum réttindum og kjörum sjómanna og launafólks lýkur aldrei.

Umsóknareyðublað vegna styrks úr vinnudeilusjóði vegna launataps í verkfalli sjómanna er nú aðgengilegt á skrifstofu félagsins á Sunnubraut 13, og á heimasíðu félagsins undir Eyðublöð. Hægt er að senda útfylltar umsóknir í tölvupósti á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it., í pósti á Sunnubraut 13, 300 Akranes, eða koma þeim á skrifstofu félagsins á annan hátt.

Verkfallsstyrkur greiðist frá og með deginum í dag, 2. janúar 2017 svo lengi sem verkfall varir. Greiddar verða 10.800 kr. fyrir hvern virkan dag, sem er ígildi kauptryggingar háseta. Greitt verður út á tveggja vikna fresti, fyrst mánudaginn 16. janúar 2017. 

Sem betur fer er fátítt að það komi til verkfalls hjá félagsmönnum VLFA. Verkfallssjóður Verkalýðsfélags Akraness er því sterkur og mun vel geta staðið undir greiðslum til félagsmanna komi til langtímaverkfalls.

Formaður félagsins var nú í hádeginu viðstaddur þegar þau stórtíðindi gerðust að undirrituð var viljayfirlýsing á milli bandaríska sólarkísilfyrirtækisins Silicor materials og Faxaflóahafna um að fá úthlutað lóð undir verksmiðjuhús fyrirtækisins á Grundartanga.

Þetta eru gríðarlega jákvæð tíðindi fyrir atvinnulífið hér á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit enda er hér um að ræða fyrirtæki sem mun veita allt að 420 manns atvinnu og þar af uppundir 150 sérmenntuð störf. Þessi verksmiðja flokkast sem umhverfisvæn enda er sáralítil ef nokkur mengun af þessari starfsemi. Með öðrum orðum hér er um græna og vistvæna stóriðju að ræða. Það er morgunljóst að þetta mun hafa gríðarlega jákvæð áhrif á samfélagið hér í kring enda skiptir höfuðmáli fyrir íslenskt samfélag að til verði vel launuð gjaldeyrisskapandi störf. Með gjaldeyrisskapandi störfum náum við að halda úti því velferðarsamfélagi sem við viljum búa í.

Stefnt er að því ef engin ljón verða í veginum að framkvæmdir við byggingu verksmiðjunnar hefjist strax í október á þessu ári og verði lokið um mitt ár 2016. Síðari áfangi verði síðan tilbúinn síðari hluta árs 2017. Ef allar áætlanir um uppbyggingu ganga eftir mun framleiðsla vera komin í fullan gang um mitt ár 2017. Hér er um fjárfestingu að ræða við byggingu verksmiðjunnar og tækjakaup sem nemur allt að 80 milljörðum íslenskra króna.

Á þessu sést að hér er um alvöru verkefni að ræða og þetta mun skipta íslenskt verkafólk gríðarlega miklu máli enda liggur fyrir að störf í stóriðjum hafa sem betur fer verið betur launuð heldur en almenn verkamannastörf á hinum almenna vinnumarkaði. Þetta mun ugglaust líka leiða til þess að þegar svona stór vinnustaður kemur inn á atvinnusvæðið okkar þá mun myndast samkeppni um gott vinnuafl og til að vera samkeppnishæf þurfa fyrirtæki að greiða viðunandi laun.

Formaður félagsins fagnar þessum tímamótum innilega enda er þetta merki og vísbending um enn bjartari tíma fyrir okkur Akurnesinga og íbúa Hvalfjarðarsveitar því það skiptir höfuðmáli fyrir öll sveitarfélög að hafa styrkar og sterkar stoðir þegar kemur að atvinnutækifærum. Það er ekkert sem bendir til annars en að þetta fyrirtæki uppfylli öll þau skilyrði.

Formaður félagsins getur einnig ekki annað en hrósað Gísla Gíslasyni, hafnarstjóra Faxaflóahafna, fyrir hans þátttöku í þessu máli enda hefur hann lagt sig allan fram við að láta þetta verkefni verða að veruleika á Grundartanga. Það var ekkert sjálfgefið að Grundartangi yrði fyrir valinu, þess vegna skiptir máli að menn vinni ötullega að því að fá góð, öflug og vistvæn fyrirtæki á Grundartanga og allt bendir til þess að hafnarstjóranum hafi tekist vel til í þeim efnum núna. Hér má sjá myndir frá því að viljayfirlýsingin var undirrituð í dag.

Það verður að segjast alveg eins og er að grein sem birtist í gær eftir framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um að sjómenn séu með hærri laun en læknar hafi valdið gríðarlegri reiði á meðal sjómanna. Í greininni er sagt að meðallaun sjómanna árið 2014 hafi verið 2,1 milljón á mánuði og á árinu 2015 hafi meðallaun sjómanna verið komin uppí 2,3 milljónir. 

Þessi samanburður er með svo miklum ólíkindum að það nær ekki nokkru tali enda eru þessi meðallaun í engu samræmi við þau laun sem hásetar t.d. á ísfisktogurum og frystiskipum hafa. Í greininni er framkvæmdastjórinn að tala um meðaltal tekjuhæstu sjómanna landsins og inní þessu meðaltali eru t.d. skipstjórar, yfirvélstjórar og aðrir yfirmenn á fiskiskipum sem eru ekki einu sinni verkfalli. Í greininni er ýjað að því að þetta séu meðallaun háseta sem eru í verkfalli og vinnubrögð af þessu tagi eru til skammar og gera ekkert annað en að hleypa illu blóði í sjómenn og það eðlilega.

Verkalýðsfélag Akraness gerði stutta athugun á iðgjaldaskrá félagsins og skoðaði hver meðallaun háseta á ísfisktogurum og frystiskipum hafi verið á þessum árum. Þá kemur í ljós að meðallaun háseta á þessum tveimur útgerðaflokkum árið 2014 voru 1,1 milljón á mánuði en ekki 2,1 milljón eins og framkvæmdastjóri SFS gaf í skyn. Árið 2015 voru meðallaun háseta á þessum skipum 1,2 milljónir en ekki 2,3 milljónir eins og framkvæmdastjóri SFS ýjaði að. Á árinu 2016 eru hásetar á ísfisks- og frystitogurum að meðaltali með 994 þúsund á mánuði!

Rétt er að geta þess sérstaklega að inní þessum launum er orlof sem þýðir að meðalmánaðarlaun háseta á árinu 2016 án orlofs voru 865 þúsund á mánuði. Það líka rétt að geta þess að frá þessum launum dragast síðan fæðis-, fata- og netkostnaður sem getur numið tugum þúsunda í hverjum mánuði!  

Á þessu sést að þessi grein framkvæmdastjóra SFS er með ólíkindum, enda munar meira en helmingi á þeim meðallaunum sem SFS ýjar að því að hásetar í verkfalli séu með, og niðurstöðu skoðunar VLFA á meðallaunum háseta innan raða sjómannadeildar félagsins.

Það er fórn að vera sjómaður við Íslandsstrendur enda vinna sjómenn við hættulegar, krefjandi og erfiðar aðstæður. Það liggur t.d. fyrir að sjómenn þurfa eðlilega að láta af störfum mun fyrr en starfsfólk sem vinnur í landi. Ástæðan fyrir þessu er að sjómannsstarfið er erfitt og krefjandi og kallar algerlega á að sjómenn séu vel á sig komnir líkamlega.

Það er líka rétt að geta þess  að sjómenn hafa mun minni möguleika á að taka þátt í uppeldi barna sinna og horfa á þau vaxa úr grasi. Það er mikilvægt að almenningur átti sig á þessari fórn sem sjómenn færa við sín störf eins t.d. að vera staddir úti á rúmsjó þegar alvarlegir atburðir gerast í fjölskyldu sjómanna. Dæmi eru um sjómenn sem hafa misst einhvern nákomin og það tekur kannski einhverja daga að komast heim til fjölskyldunnar. Svona dæmi hafa svo sannarlega gerst, eins og til dæmis sjómaður sem tilheyrir sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness. Hann var á kolmunnaveiðum við Færeyjar þegar hann fékk tilkynningu um að dóttir hans hefði látist í bílslysi og það tók sjómanninn um tvo sólarhringa að komast heim í faðm fjölskyldu sinnar.

Fórn sjómanna birtist víðar, eins og í öryggismálum því það er ekkert grín að veikjast alvarlega eða slasast um borð í skipi úti á ballarhafi víðsfjarri allri læknisþjónustu. Við slíkar aðstæður þurfa sjómenn að reiða sig algerlega á kraftaverkamennina sem starfa á þyrlum Landhelgisgæslunnar, enda eru þyrlurnar lífæð sjómanna ef einhver vá á sér stað um borð í fiskiskipum. Þessar fórnir íslenskra sjómanna eru blákaldar staðreyndir sem ekki á að gera lítið úr og því mikilvægt að kjör og aðbúnaður sjómanna sé með þeim hætti að sómi sé af.

Að þessu öllu sögðu þá sér allt vitiborið fólk að laun sjómanna, sem eru núna þetta í kringum 865 þúsund á mánuði fyrir utan orlof, eru laun sem ekki er hægt að tala um sé góð miðað við þær fórnir sem þeir leggja á sig. Fyrir það eitt að mæta til skips greiða þeir auk þess tugi þúsunda í fæðis- fata- og netkostnað.

Það er morgunljóst að sjómenn munu hvergi hvika frá sanngjörnum kröfum sínum og eru svo sannarlega tilbúnir að taka þann slag alla leið!

Rétt í þessu lauk formaður félagsins við að heimsækja alla leikskólana á Akranesi sem eru Akrasel, Garðasel, Teigasel og Vallarsel. Tilefni heimsóknanna var Sjómannadagurinn sem er næstkomandi sunnudag en það er hefð hjá Verkalýðsfélagi Akraness að heimsækja öll leikskólabörn og gefa þeim harðfisk í tilefni dagsins.

Stjórn félagsins er það mikill heiður að geta glatt leikskólabörn á Akranesi með þessum hætti og minnt þau á mikilvægi sjómannsstarfsins. Það skein mikil gleði úr hverju andliti og kunnu börnin svo sannarlega að þakka fyrir sig því sum þeirra tóku lagið fyrir formanninn sem honum leiddist svo sannarlega ekki. Myndir frá deginum má sjá hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image