• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
VLFA

VLFA

Big fan of open source and Joomla

Website URL: http://joomlabuff.com

Verkalýðsfélag Akraness hefur gert samkomulag við HB Granda vegna leiðréttingar á netamannshlut til 8 skipverja á Höfrungi AK og náði leiðréttingin tvö ár aftur í tímann.  

Málið laut að því að fyrir nokkrum árum tók fyrrverandi skipstjóri á skipinu ákvörðun um að skipta netmannshlutnum á milli tveggja netamanna en að mati félagsins samræmist slíkt ekki ákvæðum kjarasamnings félagsins við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, enda skýrt kveðið á um að netamaður um borð í frystitogurum fái 1 og 1/8 í sinn hlut.

Eftir að Verkalýðsfélag Akraness hafði gert athugsemdir vegna þessa við fyrirtækið var ákveðið að gera samkomulag um þessa leiðréttingu til umræddra sjómanna og nam leiðréttingin í heildina um 12 milljónum króna. Það var mjög ánægjulegt að sátt náðist um þessa leiðréttingu án þess að koma þurfti til þess að setja málið í lögfræðilega meðferð.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá reynir VLFA ætíð að standa vörð um réttindi sinna félagsmanna og á síðustu tveimur mánuðum hefur félagið náð að leiðrétta laun sinna félagsmanna um tæpar 40 milljónir króna, og það eingöngu vegna ágreinings um það hvort verið sé að greiða eftir gildandi kjarasamningum.  

Það hefur ætíð verið stefna stjórnar félagsins að standa fast fyrir ef um kjarasamningsbrot á okkar félagsmönnum er að ræða. Í dag er félagið með þrjú mál fyrir dómstólum þar sem verið er að krefjast leiðréttingar kjarasamningsbundnum réttindum okkar félagsmanna.

Á fimmtudaginn í síðustu viku var sameiginlegur aðalfundur deilda Verkalýðsfélags Akraness haldinn þar sem farið var, auk venjubundinna aðalfundastarfa. yfir starfsemi félagsins og þau áherslumál sem félagið stendur fyrir. Kosið var í trúnaðaráð félagsins en undir linknum stjórn og trúnaðaráð er hægt að sjá hverjir skipa þau sæti fram að næsta aðalfundi deildanna. 

Formaður fór yfir starfsemi félagsins á liðnu ári og kom fram í máli hans að jafnt félagslega sem fjárhagslega sé Verkalýðsfélag Akraness mjög sterkt enda byggir félagið á sterku félagsvæði þar sem atvinnulífið er öflugt enda drifið áfram af stórum og öflugum útflutningsfyrirtækjum. Formaður fór einnig yfir að félagið hafi ætíð lagt sig í líma við að verja og bæta kjör sinna félagsmann eins og kostur er og nefndi hann sérstaklega árangur félagsins við síðasta kjarasaming við Norðurál þar sem samið var um að laun starfsmanna tæki hækkunum launavístitölu. Slíkt hefur ekki þekkst áður í kjarasamningum verkafólks svo vitað sé. Það er klárt mál að þetta mun skila starfsmönnum góðum ávinningi og nefndi formaður þar að byrjandi í Norðuráli á vöktum sé kominn upp í 575 þúsund krónur með öllu, sem verður að teljast ásættanlegt miðað við launakjör víða á íslenskum vinnumarkaði. En að sjálfsgöðu er baráttunni fyrir bættum kjörum aldrei lokið.

Formaður fór einnig ítarlega yfir eina erfiðustu kjaradeilu sem háð hefur verið á íslenskum vinnumarkaði sem er hið margfræða sjómannaverkfall sem stóð yfir í 10 vikur. Verkalýðsfélag Akraness tók virkan þátt við þá kjarasamningsgerð en félagsmenn VLFA í sjómannadeild eru tæplega eitt hundrað talsins. Kom fram í máli formanns í þessu samhengi að félagið hafi greitt út um 30 milljónir króna í verkfallsbætur á meðan á verkfalli stóð. Hann greindi líka frá því að mörg ágreinismál væru nú fyrir dómsmálum en nýlega vann félagið mál við Norðurál sem skilaði félagsmönnum um 30 milljónum króna. Nokkur mál til viðbótar eru nú eins og áður sagði fyrir dómsmálum og verða tekin fyrir á næstu mánuðum. 

Að lokum fór formaður yfir að það er stefna stjórnar VLFA að standa þétt við bakið á sínum félagsmönnum og berjast af alefni fyrir bættum kjörum og réttindum sinna félagsmanna og verður hvergi kvikað frá í þeirri baráttu og ljóst að þeirri baráttu líkur aldrei eins og áður sagði.

Friday, 17 March 2017 15:13

Nýkjörinn formaður VR heimsækir VLFA

Þegar þau ánægjulegu tíðindi bárust nýverið að Ragnar Þór Ingólfsson hefði náð kjöri sem formaður VR ávað formaður Verkalýðsfélags Akraness að bjóða honum í heimsókn og í dag kom Ragnar Þór á skrifstofu félagsins og átti góðan fund með formanni og stjórn félagsins.

Það liggur fyrir að hér er um að ræða afar mikilvægan bandamann í baráttunni fyrir hinum ýmsu réttindamálum launafólks, enda hafa baráttumál Ragnars Þórs í gegnum tíðina átt góða samleið með áherslum stjórnar Verkalýðsfélags Akraness. Nægir að nefna í því samhengi fjölmargar tillögur og ályktanir sem VLFA hefur lagt fram á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar og á þingum Alþýðusambandsins, en þær hafa notið stuðnings Ragnars Þórs til dæmis á þingum ASÍ. Það er því mjög ánægjulegt og mikilvægt að fá svo öflugan baráttumann í forystu hjá stéttarfélagi af þeirri stærðargráðu sem VR er til að berjast fyrir mikilvægum áherslumálum, til dæmis höfnun á svokölluðu Salek-samkomulagi, samkomulagi sem gengur út á að skerða og takmarka samningsfrelsi launafólks. Sem og áherslum um afnám verðtryggingar og að tekið sé á okurvöxtum fjármálakerfisins ,svo ekki sé talað um aukið lýðræði í stjórnum lífeyrissjóðanna og að lífeyrissjóðirnir taki þátt í samfélagslegum verkefnum án þess að gera kröfu um gríðarlega arðsemi af slíkum verkefnum.

Þetta var afar ánægjuleg heimsókn, enda eru sterk tengsl á milli nýkjörins formanns VR og fulltrúa Verkalýðsfélags Akraness, en þessi bönd hafa ætíð verið sterk og myndast í gegnum árin meðal annars á þingum Alþýðusambands Íslands.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness er ekki í neinum vafa um að kjör nýs formanns VR mun hafa gríðarlega jákvæða breytingu í för með sér fyrir verkalýðspólitíkina í heild sinni, enda liggur fyrir að formaður í stærsta félaginu innan ASÍ hefur mikið vægi á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar í heild sinni. Þetta gefur íslensku launafólki von um að betri tímar séu framundan í baráttu fyrir bættum kjörum, til dæmis hækkun launa meðal annars þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi, svo ekki sé talað um þá okurvexti sem íslenskum neytendum er boðið upp á. Þetta verða klárlega baráttumál sem nýkjörinn formaður VR mun beita sér fyrir af fullum þunga og ekki mun standa á Verkalýðsfélagi Akraness frekar en áður að leggja þeirri baráttu lið.

Það er óhætt að segja að í gær hafi verið svartur dagur í sögu okkar Akurnesinga hvað atvinnumál svæðisins varðar. En í gær boðaði forstjóri HB Granda formann stéttarfélagsins og trúnaðarmenn til fundar í frystihúsinu hér á Akranesi þar sem hann tilkynnti áform fyrirtækisins um að hætta landvinnslu á Akranesi. Kom fram í máli hans að þessi ákvörðun myndi snerta upp undir 100 starfsmenn og tilkynnti hann formanni og trúnaðarmönnum að þessi fundur væri meðal annars haldinn til að uppfylla lög um hópuppsagnir, enda er fyrirtækinu óheimilt að segja upp þetta mörgum starfsmönnum án þess að hefja samráð við stéttarfélagið um það.

Eins og gefur að skilja er þetta gríðarlegt áfall fyrir samfélagið hér á Akranesi. Það er ekki aðeins og 93 störf í landvinnslu muni líklega tapast, heldur mun þetta hafa áhrif á önnur afleidd störf sem tengjast rekstrinum. Má fastlega gera ráð fyrir að þetta muni snerta upp undir 150 manns með einum eða öðrum hætti. Rétt er að benda á það að fyrirtækið Haraldur Böðvarsson, sem sameinaðist Granda árið 2004, var stofnað 1906 og hefur í einhverri mynd starfað óslitið síðan þá. Og þegar HB og co sameinaðist Granda árið 2004 þá lögðum við Skagamenn 23 þúsund þorskígildistonn inn í þá sameiningu á móti 24 þúsund tonnum Granda. Því er það dapurlegt að núna 13 árum síðar eigi að leggja niður landvinnslu á bolfiski hér á Akranesi og að fiskvinnsla bæjarins standi eftir berstrípuð.

Á fundinum í gær gerði formaður VLFA forstjóra HB Granda grein fyrir því að stéttarfélagið myndi ekki undir nokkrum kringumstæðum láta þessa ákvörðun fyrirtækisins átölulaust, enda mun hún hafa gríðarlega neikvæð áhrif á samfélagið allt með margvíslegum hætti. Formaður minnti forstjórann einnig á þá samfélagslegu ábyrgð sem hvílir á herðum þeirra sem halda um stjórnartaumana í sjávarútvegsfyrirtækjum sem hafa tímabundin umráðarétt yfir auðlindinni, bæði gagnvart þeim byggðalögum sem þau starfa í svo og starfsmönnum þeirra.

Formaður kallaði ennfremur eftir skýringum á því hvers vegna ráðist væri í þessa aðgerð, í ljósi þess að HB Grandi er að opna nýja landvinnslu á Vopnafirði sem hefur kostað hundruði milljóna króna að koma upp, á sama tíma og þeir segja landvinnsluna ganga illa um þessar mundir. Einnig kallaði formaður eftir svörum við því hvaða hagræði væri fólgið til dæmis í því að landa uppsjávaraflanum að miklu leyti á Vopnafirði þegar stór hluti hans er veiddur hér við suðurströndina. Nægir að nefna síldina sem er veidd úti á Breiðafirði þaðan sem einungis 4-5 tíma sigling er til Akraness. Hins vegar kjósa forsvarsmenn HB Granda að sigla frekar með aflann hringinn í kringum landið til Vopnafjarðar og landa þar. Forsvarsmenn fyrirtækisins verða að vera samkvæmir sjálfum sér þegar þeir færa rök fyrir nauðsyn þess að grípa til aðgerða til hagræðingar eins og þeir gera núna, þau rök hljóta að gilda alls staðar en ekki bara gagnvart okkur Akurnesingum.

Í gærkvöldi var svo haldinn fundur með bæjaryfirvöldum og þingmönnum Norðvesturkjördæmis þar sem farið var yfir þessa alvarlegu stöðu og þar biðlaði formaður VLFA til Alþingismanna að skapa hér lagaramma sem komi í veg fyrir að einstaka útgerðir geti farið eins og skýstrókar um byggðir landsins og skilið þær eftir í sárum og fólkið án lífsviðurværis. Á þessu vandamáli verður að taka og það er í raun og veru Alþingi eitt sem gæti markað stefnu til að koma í veg fyrir að svona lagað gerist enn og aftur.

Sjávarútvegsráðherra hafði samband við formann félagsins í gær til að forvitnast um þær afleiðingar sem þessi áform myndu hafa á samfélagið og okkar félagsmenn og ítrekaði formaður þetta við ráðherra og hvatti til þess að stjórnvöld myndu taka á þessum málum, því hér á landi mun aldrei ríkja sátt um sjávarútvegsmál á meðan útgerðarmenn geta komið svona fram við sitt starfsfólk og samfélagið sem þeir starfa í eins og þeir hafa nú gert hér á Akranesi og hafa í gegnum tíðina víða gert í hinum dreifðu byggðum landsins. Ráðherra lýsti áhyggjum sínum af stöðunni og tilkynnti að hún hygðist taka málið upp á ríkisstjórnarfundi í dag.

Verkalýðsfélag Akraness mun ásamt bæjaryfirvöldum reyna allt til þess að þessari ákvörðun verði breytt. Við Akurnesingar höfum verið stolt af þessu glæsilega fyrirtæki sem HB Grandi er og viljum svo sannarlega áfram vera hluti af þessari sterku keðju. Og nú þarf að kalla eftir því hjá forsvarsmönnum HB Granda, hvað er það nákvæmlega sem þarf að gera til að fá þá til að hverfa frá þeirri ákvörðun að hætta landvinnslu á Akranesi? Þeirri spurningu geta forsvarsmenn HB Granda einir svarað, en félagið mun gera sitt til að þessi áform verði ekki að veruleika.

Rétt í þessu lauk fundi Verkalýðsfélags Akraness og trúnaðarmanna HB Granda með forsvarsmönnum HB Granda. VLFA og trúnaðarmenn lögðu til við forsvarsmenn fyrirtækisins að þeir myndu fresta áformum um að hætta landvinnslu á Akranesi og hefja viðræður við bæjaryfirvöld á Akranesi á grundvelli viljayfirlýsingar sem bæjaryfirvöld gáfu út í gær. Það er skemmst frá því að segja að forsvarsmenn fyrirtækisins tóku jákvætt í þessa hugmynd og voru tilbúnir til að hefja viðræður við Akraneskaupstað á grundvelli viljayfirlýsingarinnar. Í sameiginlegri yfirlýsingu sem aðilar gáfu út kemur fram að ef þessar viðræður við Akraneskaupstað, Faxaflóahafnir og aðra aðila sem tengjast málinu munu ekki verða með jákvæðum hætti að mati fyrirtækisins, þá muni landvinnsla á Akranesi hætta 1. september á þessu ári.

Það má segja að hér sé um hálfgerðan varnasigur að ræða, því við stóðum frammi fyrir því að fá uppsagnir nú um mánaðarmótin og því er það jákvætt að fyrirtækið sé tilbúið að hefja þessar viðræður við bæjaryfirvöld á grundvelli þess að lagfæra hér höfnina og annað sem til þarf til að hægt sé að efla starfsemi HB Granda á Akranesi. Eftir samráðsfundinn með forsvarsmönnum HB Granda var haldinn fundur með starfsmönnum fyrirtækisins og sagði formaður VLFA þar að þetta væru jákvæð tíðindi, en hann ítrekaði að hann vildi ekki vekja upp of miklar vonir hjá starfsmönnum því tíminn yrði að leiða í ljós hvort þau áform sem bæjaryfirvöld hafa um að uppfylla kröfur fyrirtækisins muni verða næginleg til að ekki þurfi að koma til þessara uppsagna.

En formaður vill vera bjartsýnn á að þessari viðræður eigi að geta skilað jákvæðri niðurstöðu, því sóknarfærin hér á Akranesi til að efla fiskvinnslu eru gríðarmörg. Hér er mikill mannauður og verkþekking sem skiptir hvert fyrirtæki greíðarlega miklu máli. Nú er bara að vona að þessar viðræður milli Akraneskaupstaðar, Faxaflóahafna og forsvarsmanna HB Granda verði okkur Akurnesingum til heilla, en tíminn einn mun geta leitt það í ljós. Niðurstaðan á að liggja fyrir í lok júní á þessu ári.

Félagsskírteini VLFA veitir félagsmönnum þess ýmis sérkjör og afslætti eins og sjá má hér á heimasíðunni. Meðal þeira sérkjara sem félagsmönnum bjóðast eru kaup á  ársmiðum sem gilda á alla heimaleiki Skagamanna í fyrstu deildinni í sumar. Hægt er að velja um þrennskonar ársmiða - Brons, Silfur og Gull. Ársmiðarnir gilda allir á alla heimaleiki en misjafnt er hvað er innifalið þess utan. Innifalinn í öllum ársmiðunum er stuðningsmannafundur með þjálfara liðsins, leikmönnum og stjórn. Þegar komið er yfir í Silfurmiðann bætist til dæmis við kaffi og meðlæti í öllum hálfleikjum en með Gullmiðanum fylgir einnig aðgangur að VIP fundum fyrir leiki þar sem þjálfari liðsins fer yfir leikinn og tölfræðina og núverandi og fyrrverandi leikmenn mæta á svæðið.

Félagsmenn VLFA geta fengið afslátt af ársmiðunum gegn framvísun félagsskírteinis og eru miðarnir til sölu á skrifstofu KFÍA sem og í gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og í síma 4331109.

Afsláttur fyrir félagsmenn er sem hér segir:

 

Brons

Silfur

Gull

Pepsideild kvenna

Félagsmenn VLFA

9.000

16.000

30.000

5.000

Almennt verð

11.000

20.000

40.000

7.000

VLFA hvetur félagsmenn sína til að mæta á völlinn í sumar og styðja við bakið á Skagamönnum.

Nú liggur fyrir að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa hunsað fyrirmæli frá ríkissáttasemjara frá fundinum í gær um að algert fjölmiðlabann skyldi ríkja og deilendur mættu ekki upplýsa hvað fram færi á samningafundum.  Sjá hér.

Að sjálfsögðu kom ekki til greina hjá sjómannaforystunni að hunsa þessi fyrirmæli frá ríkissáttasemjara um fjölmiðlabann en í ljósi þess að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa rofið þetta fjölmiðlabann þá telur formaður Verkalýðsfélags Akraness mjög mikilvægt að sjómenn sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness og sjómenn almennt fái upplýsingar um hvað þessi bókun sem lögð var fram á fundinum í gær snérist um.

Þessi bókun laut að því að samningsaðilar yrðu sammála um að leitað yrði skýringa á því hvers vegna erlend uppsjávarskip sem landa makríl, síld og loðnu t.d. í Noregi virðast ætíð fá hærra fiskverð en greitt er til íslenskra sjómanna.

Bókunin laut líka að því að samningsaðilar væru sammála um mikilvægi þess að skipa fjögurra manna óháða nefnd sem hefur það hlutverk að rannsaka í hverju mismunurinn á fiskverði á makríl, síld og loðnu hér og í Noregi liggur.

Hún laut líka að því að samningsaðilar væru sammála um að eyða þurfi þeirri tortryggni og vantrausti sem ríkt hefur um verðmyndun á uppsjávarafla og væri þessi fjögurra manna óháða nefnd einn liður í þeirri vinnu.

Þetta er nú þessi svakalega „krafa“ sem samtök fyrirtækja í sjávarútvegi skilja bara ekkert í og segja í fréttabréfi til sinna félagsmanna að þessi bókun sjómannasamtakanna sýni í verki algert viljaleysi til að ná farsælli lendingu í kjaraviðræðum sem eru á viðkvæmu stigi.

Þessi bókun um að skipa fjögurra manna óháð rannsóknarnefnd er liður í að eyða því vantrausti og tortryggni sem ríkt hefur um áratugaskeið um verðmyndun á uppsjávarafla til íslenskra sjómenna.  Hvernig í ósköpunum stendur á þessium ofsafengu viðbrögð frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi í ljósi þess að útgerðamenn segja að verðmyndun á uppsjávarafla sé í alla staði eðlileg og þeir hafi ekkert að fela.

Ef svo er þá ætti að vera afar auðvelt fyrir útgerðamenn að samþykkja þessa bókun sem er einungis liður í að eyða vantrausti og tortryggni við verðmyndun á uppsjávarafla.  Við í sjómannaforystunni spyrjum okkur að sjálfsögðu að því hví í ósköpunum eru útgerðamenn á móti þessari bókun í ljósi þess að útgerðin segir að ekkert sé við verðlagningu á uppsjávarafla að athuga?  Er kannski eitthvað við verðlagningu á uppsjávarafla að athuga sem ekki getur litið dagsins ljós? Að sjálfsögðu velta sjómenn því fyrir sér í ljósi þessara viðbragða.

Formaður VLFA vill koma því skýrt á framfæri að það stóð aldrei til að hunsa fyrirmæli um fjölmiðlabann frá ríkissáttasemjara en í ljósi þess að SFS gerði það þá varð að upplýsa sjómenn um hvað þessi svokallaða „krafa“ laut að.

Bara þannig að því sé til haga haldið þá eru sjómenn svo sannarlega tilbúnir til að ganga frá nýjum kjarasamningi enda telja sjómenn að þær kröfur sem liggja nú fyrir útgerðamönnum séu sanngjarnar,réttlátar og hóflegar

Núna eru liðnir rétt rúmlega tveir mánuðir síðan verkfall hófst hjá sjómönnum, en það var eins og flestir muna þann 14. desember á síðasta ári. Frá því verkfall hófst hefur linnulaust verið reynt að ná kjarasamningi til handa sjómönnum, en þeir hafa verið samningslausir frá 1. janúar 2011 eða í rétt rúm 6 ár.

Kröfur sjómanna til lausnar þessarar deilu voru mótaðar inni í aðildarfélögum Sjómannasambands Íslands og meðal annars hefur Verkalýðsfélag Akraness haldið fjóra kynningar- og stöðufundi þar sem ákvarðanir hafa verið teknar um ýmis atriði er lúta að kröfugerðinni sem og önnur mál sem komið hafa upp í þessarar kjaradeilu. Þau atriði sem um ræðir eru eftirfarandi:

- Bætur vegna afnáms sjómannaafsláttar
- Breyting á olíuviðmiði
- Frítt fæði
- Frír vinnufatnaður
- Lækkun á net- og fjarskiptakostnaði

Það er skemmst frá því að segja að síðustu þrjú atriðin hafa þokast ágætlega áfram, en eftir standa hins vegar tvö efstu atriðin en þeim hafa útgerðarmenn til þessa ekki verið tilbúnir að mæta. 

Samninganefnd sjómanna lagði fram hugmynd um að útgerðamenn greiddu sjómönnum dagpeninga, en til að það gæti gengið upp þá þurfa stjórnvöld að vera tilbúin að veita sambærilegar skattaívilnanir og annað launafólk nýtur þegar það starfar víðs fjarri sínu heimili. Lengi vel höfnuðu sjávarútvegs- og fjármálaráðherrar þessu alfarið en formaður félagsins hefur gagnrýnt þá ákvörðun harðlega í fjölmiðlum undanfarið. Það var því afar ánægjulegt að sjá í fréttum í gær og í morgun að stefnubreyting er að verða hjá stjórnvöldum hvað þetta varðar, því það er réttindamál að sjómenn njóti sömu réttinda og annað launafólk í formi þess að fá dagpeninga frádráttarbæra frá skatti vegna fæðiskostnaðar. Mikilvægt er að það komi fram að sjómenn eru ekki að biðja um neina ölmusu, heldur er krafa gerð á útgerðirnar um greiðslu dagpeninganna, og að þeir dagpeningar verði síðan meðhöndlaðir á sama hátt og hjá öðru launafólki vegna fæðiskostnaðar sem þeir þurfa að bera.

Þann 9. febrúar kom samninganefnd sjómanna síðast saman með útgerðarmönnum, en sá fundur var árangurslaus. Mánudaginn 13. febrúar ákvað samninganefnd sjómanna að leggja fram lokatilboð til útvegsmanna og var það algjörlega klárt að hér væri um lokatilboð að ræða og ekki yrði hvikað frá því tilboði. Var þetta viðleitni samninganefndar sjómanna til að sýna þá ábyrgð að finna lausn á deilunni, en því miður virðist vera sem útvegsmenn hafi slegið á þá sáttahönd. Það er aldrei gagnlegt til árangurs að leggja fram gagntilboð við lokatilboði, en það gerðu útvegsmenn hins vegar seinnipartinn í gær. Þessu gagntilboði var hafnað snarlega af samninganefnd sjómanna og ítrekað enn og aftur að með lokatilboðinu hefðu sjómenn hefðu sett strik í sandinn hvað varðar frekari viðræður um þau atriði sem í því komu fram.

Staðan er því núna í þessum töluðu orðum þannig að boltinn er hjá útgerðarmönnum. Það er þeirra að taka ákvörðun um að ganga að lokatilboði sjómanna og er því morgunljóst að ábyrgð útvegsmanna á lausn þessarar deilu liggur öll hjá þeim því eins og áður kom fram þá kemur ekki til greina hjá sjómönnum að hvika frá lokatilboðinu sem lagt var fram mánudaginn 13. febrúar.

Wednesday, 14 May 2014 00:00

Laus orlofshús í sumar

Enn er hægt að fá leigða viku í orlofshúsi í sumar, en þegar þetta er skrifað er um 26 lausar vikur að ræða. Mest eru þetta vikur í byrjun sumars og í lok ágúst, ekkert er laust í júlímánuði. Lista yfir lausar vikur er að finna hér og geta áhugasamir bókað á Félagavefnum, eða haft samband við skrifstofu félagsins.

Uppfært 15. maí kl. 14:00 - Enn eru 19 vikur lausar, nýjan listi yfir lausar vikur er að finna hér.

Uppfært 19. maí kl. 08:00 - Nýjan lista yfir lausar vikur er að finna hér.

Þessa dagana stendur yfir fiskvinnslunámskeið hjá þeim starfsmönnum HB Granda sem áttu eftir að taka námskeiðið en þessi námskeið veita starfsmönnum tveggja flokka launahækkun. Í morgun hélt formaður erindi á þessu námskeiði þar sem hann fór yfir réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði og öll þau réttindi og þjónustu sem Verkalýðsfélag Akraness veitir sínum félagsmönnum. Uppundir 20 manns sátu á þessu námskeiði og á morgun mun formaður einnig vera með sambærilega kynningu. Í heildina eru þetta á milli 40 og 50 manns sem nú sitja fiskvinnslunámskeið á vegum HB Granda.

Það er einn liður í starfsemi félagsins að halda kynningar af þessu tagi. Sem dæmi þá hélt formaður sambærilega kynningu fyrir nemendur í Fjölbrautaskóla Vesturlands í byrjun maí þar sem hann fór yfir starfsemi félagsins og hin ýmsu réttindi sem starfsmenn eiga á hinum íslenska vinnumarkaði.

Það er gríðarlega mikilvægt að launafólk sé meðvitað um öll þau réttindi og reyndar skyldur sem gilda á íslenskum vinnumarkaði og kynni sér ávalt vel öll þau réttindi sem þeim standa til boða hjá sínu stéttarfélagi.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image