• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
VLFA

VLFA

Big fan of open source and Joomla

Website URL: http://joomlabuff.com

Annað kvöld, þriðjudaginn 26. ágúst, mun formaður Verkalýðsfélags Akraness funda með starfsmönnum steypuskála Norðuráls. Fundurinn hefst kl. 20:00 og verður haldinn á Gamla kaupfélaginu.

Ástæða fundarins er það aukna álag sem starfsmenn steypuskála hafa fundið fyrir undanfarna mánuði en fjölmargir þeirra hafa leitað til félagsins og óskað eftir aðstoða vegna þess.

Á fundinum verður meðal annars farið yfir til hvaða aðgerða hægt er að grípa í aðstæðum sem þessum en gríðarlega mikilvægt er að öryggi og velferð starfsmanna sé ætíð í fyrsta sæti.

Verkalýðsfélag Akraness vonast til að sjá sem flesta starfsmenn steypuskálans á þessum áríðandi fundi. Auglýsingu um fundinn má sjá hér til hliðar.

Verkalýðsfélag Akraness hélt fjölmennan fund með starfsmönnum steypuskála Norðuráls á þriðjudaginn síðastliðinn. Tilefni fundarins var umkvörtun starfsmanna yfir stórauknu álagi á undanförnum misserum. Óskuðu starfsmenn eftir aðstoð félagsins við að reyna að koma óánægju þeirra vel á framfæri.

Það liggur fyrir að álag á starfsmenn Norðuráls vítt og breitt um verksmiðjuna hefur aukist á liðnum árum og er það samróma álit þeirra sem þar starfa. Ástæðan er margþætt, meðal annars hefur framleiðsla fyrirtækisins aukist umtalsvert og sem dæmi þá er fyrirtækið að framleiða uppundir 300.000 tonn af áli ár hvert. Á sama tíma og það hefur verið að gerast hefur starfsmönnum á gólfi, ef þannig má að orði komast, fækkað töluvert. Það liggur til dæmis fyrir að launakostnaður Norðuráls vegna verkafólks lækkaði á milli áranna 2012 og 2013 um 3,1% og þegar tekið hefur verið tillit til kjarasamningsbundinna hækkana á tímabilinu þá nemur þessi lækkun 6,6%.

Þetta er einfaldlega vegna þess að starfsmönnum hefur fækkað þrátt fyrir þessa miklu framleiðsluaukningu fyrirtækisins sem síðan kemur fram sem stóraukið álag á þá starfsmenn sem eftir eru. Það var mikill hiti í starfsmönnum steypuskála á fundinum sem töluðu um að þeir væru að bugast undan auknu álagi og voru fundarmenn sammála um að þeir hræðast það að þetta álag muni ógna velferð og auka slysahættu starfsmanna.

Fundurinn samþykkti að fela formanni Verkalýðsfélags Akraness að koma þessum umkvörtunum starfsmanna rækilega á framfæri við yfirstjórn fyrirtækisins og þeir kröfðust þess einnig að teknar verði án tafar upp viðræður um 8 tíma vaktakerfi með sambærilegum hætti og gerist hjá Elkem Ísland. Í dag eru starfsmenn Norðuráls að vinna á 12 tíma vöktum og undir því álagi sem starfsmenn eru tekur slíkt verulega á.

Formaður hefur sent forstjóra, framkvæmdastjóra og starfsmannastjóra fyrirtækisins erindi þar sem þessum áhyggjum og umkvörtunum starfsmanna er komið vel á framfæri og einnig ósk um að hafnar verði viðræður um manneskjulegt vinnufyrirkomulag sem byggist á rótgrónu vaktakerfi Elkem Ísland. Vaktakerfi sem er fjölskylduvænt og fer mun betur með starfsmenn í alla staði en 12 tímavaktakerfi. 

Formaður vonast til að fá jákvætt svar frá forsvarsmönnum fyrirtækisins og átti hann meðal annars gott samtal við forstjóra fyrirtækisins í gær sem lofaði að kynna sér þessi mál vel og rækilega enda kom fram í máli hans að það skipti Norðurál miklu máli að starfsmenn séu ánægðir í starfi og öll fyrirtæki þurfi að hafa jákvæða og ánægða starfsmenn til að ná árangri. Það liggur fyrir að starfsmenn Norðuráls eru orðnir þreyttir á þessu álagi og það er mikilvægt fyrir Norðurál að átta sig á því að ef ekki verður tekið á þessu aukna álagi getur það haft alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtækið þegar atvinnuástand á vinnumarkaði lagast.

Það er til að mynda morgunljóst í huga formanns að ef þetta mikla álag og 12 tíma vaktakerfi muni ekki lagast þá muni margir núverandi starfsmenn Norðuráls horfa hýru auga á nýjan 400 manna vinnustað sem hugsanlega rís við hliðina á Norðuráli á Grundartanga. En eins og flestir vita stefnir í að sólarkísilverksmiðjan Silicor hefji framkvæmdir á haustmánuðum sem skapa eins og áður sagði allt að 400 ný störf og því er mikilvægt að yfirstjórn Norðuráls hlusti af athygli á þessar sem og aðrar umkvartanir starfsmanna og bregðist við þeim því annars getur farið illa.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá vísaði Verkalýðsfélag Akraness kjaradeilu félagsins við launanefnd sveitarfélaga, vegna starfsmanna þeirra sem starfa við Akraneskaupstað, til Ríkissáttasemjara. Vísunin átti sér stað 24 .júní síðastliðinn og í kjölfarið boðaði Ríkissáttasemjari deiluaðila til fundar og var sá fundur haldinn í húsakynnum hans þann 1. júlí síðastliðinn.

Á þeim fundi lagði launanefnd sveitarfélaga fram drög að nýjum kjarasamningi til eins árs og er félagið nú með þessi drög til skoðunar. Það er ljóst að félagið er ekki tilbúið til að skrifa undir þennan samning fyrr en gengið hefur verið frá nokkrum atriðum er lúta að sérákvæðum Verkalýðsfélags Akraness við Akraneskaupstað.

Á miðvikudaginn síðastliðinn átti formaður fund með Ólafi Adolfssyni forseta bæjarstjórnar og Regínu Ásvaldsdóttur, bæjarstjóra þar sem þessi mál og önnur mál er lúta að hagsmunum félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness voru til umræðu. Er skemmst frá því að segja að þetta var mjög góður fundur og eru bæjaryfirvöld nú með erindi félagsins varðandi áðurnefnd sérákvæði til skoðunar og fær félagið væntanlega svar um miðja næstu viku. Það er ljóst eins og áður sagði að forsenda fyrir því að VLFA skrifi undir þennan samning er að gengið verði frá þessum sérákvæðum og eins og staðan er í dag og eftir þennan fína fund með forseta bæjarstjórnar og bæjarstóra er formaður bara nokkuð vongóður.

Rétt í þessu skrifaði Verkalýðsfélag Akraness undir kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga vegna félagsmanna sem starfa hjá Akraneskaupstað.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hefur formaður unnið að því við forsvarsmenn Akraneskaupstaðar að ná inn frekari kjarabótum í gegnum sérákvæði. Í gær samþykkti bæjarráð Akraness nokkur atriði sem félagið hafði farið fram á í sérákvæðum og ber hæst að nefna í því samhengi að allir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness sem starfa hjá Akraneskaupstað munu fá svokallaða sumaruppbót að andvirði tæplega 30.000 kr. Einnig fá þeir sem hafa hvað lengstan starfsaldur hjá Akraneskaupstað svokallaða sérstaka júníuppbót sem er 6% af launum júnímánaðar ár hvert.

Helstu atriði kjarasamningsins eru eftirfarandi:

  • Samningstíminn er eitt ár og gildir hann frá 1. maí 2014 til 30. apríl 2015. Þetta þýðir á mannamáli að starfsmenn munu fá leiðréttingu á sínum launum aftur til 1. maí síðastliðins.
  • Laun starfsmanna hækka samkvæmt nýrri launa- og tengitöflu þann 1. maí 2014 og aftur 1. janúar 2015 og laun félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness hækka á samningstímabilinu um að meðaltali rúm 9%. Þó eru dæmi um að einstakir hópar hækki um rúm 10%.
  • Desemberuppbót á árinu 2014 hækkar um 15,9% og fer úr 80.700 kr. í 93.500 kr.
  • Lágmarkslaun frá 1. maí 2014 verða 229.549 kr.
  • Framlag í starfsmenntasjóði starfsmanna hækkar um 0,1%.
  • Gerðar verða breytingar á reglum um ráðningarsamninga starfsmönnum í hag.

Þetta eru helstu atriði samningsins en þar sem samningurinn er nokkuð flókinn þá hvetur formaður starfsmenn til að kynna sér vel innihald samningsins. Kynningargögn verða send félagsmönnum eftir helgi ásamt kjörgögnum og hægt verður að kjósa um samninginn til 28. júlí. Einnig mun félagið vera með kynningarfund sem auglýstur verður síðar.

Formaður vill þakka bæjarstjóra Akraneskaupstaðar og bæjaryfirvöldum fyrir að vinna að lausn á þessari deilu. Það er ljóst að það hefði ekki tekist nema í gegnum þessi sérákvæði og greinilegt að bæjaryfirvöld hafa fullan skilning á stöðu þeirra tekjulægstu sem starfa hjá sveitarfélaginu. Það birtist meðal annars í þessum sérákvæðum sem gerð voru. Það var einnig rætt að hefja undirbúning að næstu viðræðum strax í haust enda gildir þessi samningur eins og áður sagði einungis til 30. apríl á næsta ári. Var ánægjulegt að finna að skilningur er hjá bæjaryfirvöldum á að lagfæra þurfi kjör þeirra tekjulægstu enn frekar.

Það er morgunljóst að þessi samningur er töluvert betri en samið var um í svokölluðum ASÍ samningi á hinum almenna vinnumarkaði. Nægir að nefna að meðaltals launahækkun starfsmanna er í kringum 20.000 kr. á mánuði en hækkunin á hinum almenna vinnumarkaði var einungis 9.750 kr.

Það er í raun og veru með ólíkindum að núna hafi verið hægt að semja við sveitarfélögin vítt og breitt um landið um 20.000 kr. hækkun að meðaltali. Fyrir samskonar kröfu var formaður Verkalýðsfélag Akraness kallaður lýðskrumari af sumum forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar þegar hann lagði hana fram á hinum almenna vinnumarkaði fyrr í vetur. Já, það er skrýtið að hægt sé að ná fram um og yfir 20.000 kr. hækkun handa ófaglærðu fólki hjá sveitarfélögunum en slíka kröfu hafi ekki mátt gera gagnvart fyrirtækjum sem voru með rekstrarafgang upp á allt að 50 milljarða eins og sjávarútvegsfyrirtæki.

Enn og aftur hvetur formaður félagsins starfsmenn Akraneskaupstaðar til að hafa samband við sig til að fá nánari útskýringar á þessum kjarasamningi.  

Kjörgögn vegna póstatkvæðagreiðslu um nýgerðan kjarasamning milli Verkalýðsfélags Akraness og Sambands íslenskra sveitarfélaga,vegna starfsmanna Akraneskaupstaðar og Höfða, voru póstlögð í gærdag og ættu því að berast félagsmönnum í dag og á morgun. Berist kjörgögn ekki í vikunni til félagsmanns sem telur sig hafa atkvæðsrétt um samninginn, er viðkomandi félagsmanni bent á að hafa samband við skrifstofu félagsins svo hægt sé að bregðast við því.


Atkvæðagreiðslu lýkur mánudaginn 28. júlí kl. 14:00 og þurfa atkvæðaseðlar að hafa borist kjörstjórn félagsins, Sunnubraut 13, 300 Akranesi fyrir þann tíma. Póststimpill gildir ekki og eru félagsmenn því beðnir um að koma kjörseðli tímanlega í póst, en til að auðvelda það má í kjörgögnum finna umslag sem setja má ófrímerkt í póst.

Kynningarfundur vegna þessa samnings verður haldinn á Gamla Kaupfélaginu á morgun fimmtudag kl. 18:00 og eru félagsmenn sem starfa eftir þessum samningi, það er að segja starfsmenn Akraneskaupstaðar og Höfða, eindregið hvattir til að mæta. Einnig er hægt að hafa samband við skrifstofu félagsins og fá kynningu og nánari upplýsingar.

Sjálfan samninginn má finna hér. Samningurinn er nokkuð flókinn þar sem sumir eru að flytjast til í launatöflunni og hækka um nokkra launaflokka. Í kjörgögnum er meðal annars kynningarhefti þar sem tiltekin eru dæmi um áhrif samningsins á helstu starfahópa, en finni félagsmenn sig ekki í þeim dæmum geta þeir óskað eftir nákvæmum upplýsingum um áhrif nýs samnings á kjör þeirra og veitir formaður félagsins fúslega þær upplýsingar á skrifstofu félagsins.

Kynningarfundur vegna nýgerðs kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga verður haldinn í kvöld, 17. júlí kl. 18:00 á Gamla Kaupfélaginu, Akranesi og eru þeir félagar sem starfa eftir samningnum eindregið hvattir til að mæta. Þetta á við starfsmenn Akraneskaupstaðar og Höfða. Einnig er hægt að hafa samband við skrifstofu félagsins og fá kynningu og nánari upplýsingar.

Kosið verður um samninginn með póstatkvæðagreiðslu og hafa kjörgögn þegar verið póstlögð ásamt kynningarefni. Atkvæðagreiðslu lýkur mánudaginn 28. júlí og þurfa atkvæðaseðlar að hafa borist kjörstjórn félagsins, Sunnubraut 13, 300 Akranesi fyrir kl. 14:00 þann dag. Póststimpill gildir ekki og eru félagsmenn því beðnir að koma kjörseðlum tímanlega í póst.

Berist kjörgögn ekki til félagsmanns sem telur sig hafa atkæðisrétt um samninginn, er viðkomandi félagsmanni bent á að hafa samband við skrifstofu félagsins hið fyrsta.

Nýgerður kjarasamningur Verkalýðsfélags Akraness við Samband íslenskra sveitarfélaga, sem gildir fyrir starfsmenn Akraneskaupstaðar og starfsmenn Dvalarheimilisins Höfða, var kynntur fyrir félagsmönnum í gær á Gamla Kaupfélaginu. Á kynningarfundinum fór formaður yfir helstu atriði samningsins og þau sérákvæði sem félagið náði í samningaviðræðum við bæjaryfirvöld hér á Akranesi, en að teknu tilliti til þeirra sérákvæða er samningurinn að gefa starfsmönnum rétt rúm 9%.

Þeir sem ekki komust á fundinn, geta skoðað glærur frá kynningunni hér.

Almennt var að heyra að starfsmenn væru nokkuð sáttir, sérstaklega í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að kjarasamningurinn á hinum almenna vinnumarkaði sem undirritaður var 21. desember 2013 gaf verkafólki einungis 2,8%, eða að hámarki kr. 9.750. Það er ljóst að þessi samningur gefur umtalsvert meiri launahækkanir en kjarasamningur á hinum almenna vinnumarkaði gerði, enda er meðaltalshækkunin um og yfir 20.000 krónur á mánuði. Því til viðbótar gildir þessi samningur í 12 mánuði en ekki í 14 mánuði eins og samningurinn á hinum almenna vinnumarkaði.

Formaður fór yfir það á fundinum í gær að það væri með ólíkindum að nú hefði verkalýðshreyfingin samið við sveitarfélögin um launahækkun upp á um 20.000 krónur, sem er akkúrat sú upphæð sem Verkalýðsfélag Akraness vildi að samið yrði um á hinum almenna vinnumarkaði í vetur, en þá krafðist forysta ASÍ þess að krafan yrði lækkuð um helming. Enda kom á daginn að samið var einungis um 2,8% eða 9.750 krónur eins og áður hefur komið fram og voru nokkrir forystumenn hjá landsbyggðafélögum kallaðir lýðskrumarar fyrir að hafa gert kröfu um 20.000 króna hækkun til handa verkafólki á almennum vinnumarkaði. Er það grátbroslegt í ljósi þess að núna var hægt að semja við sveitarfélögin um 20.000 króna launahækkun, en ekki til dæmis handa fiskvinnslufólki sem margt hvert starfar hjá fyrirtækjum sem skila milljarða hagnaði ár eftir ár.

Það er alveg ljóst að þegar kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði renna út í byrjun næsta árs, þá verður verkalýðshreyfingin í heild sinni að krefjast alvöru leiðréttingar til handa verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði því þessu óréttlæti og ósanngirni sem blasir ætíð við þeim tekjulægstu á hinum almenna vinnumarkaði verður að linna í eitt skipti fyrir öll. Það er nöturlegt til þess að hugsa að oft og tíðum sé það forysta verkalýðshreyfingarinnar sem leggi línurnar um þessa láglaunastefnu sem ríkt hefur á hinum almenna vinnumarkaði, láglaunastefnu sem hefur verið gefið nafnið samræmd launastefna. En þegar á hólminn er komið þá gildir þessi láglaunastefna einungis fyrir þá tekjulægstu, enda hafa nánast allir hópar fengið langum hærri launahækkanir en verkafólk á almennum vinnumarkaði fékk í síðustu samningum.

Félagsmenn sem starfa eftir þessum kjarasamningi eru minntir á póstatkvæðagreiðsluna sem er í fullum gangi, atkvæðið þarf að vera komið í hús fyrir kl. 14 mánudaginn 28. júlí (eftir rúma viku).

Vegna forfalla er laust í orlofshús félagsins við Efstaás í Svínadal vikuna 8. til 15. ágúst. Tilvalið að skella sér í berjamó, fara í sund að Hlöðum, golf á Þórisstöðum og veiða í vötnunum í Svínadal.

Fyrstur kemur - fyrstur fær!

Uppfært 21.07.2014 kl. 15:00 - Vikan er bókuð og ekki laus lengur.

Engum þeim sem eitthvað hafa fylgst með fréttum ætti að geta dulist hið grafalvarlega ástand sem nú ríkir á Gaza-svæðinu. Formaður Verkalýðsfélags Akraness tekur undir kröfur friðar- og mannréttindasamtaka víða um heim og krefst þess að mannréttindi séu virt á svæðinu og fordæmir það ofbeldi og ofsóknir sem saklausir borgarar hafa þurft að þola á svæðinu, enda getur slíkt aldrei verið réttlætanlegt.

Félagið Ísland-Palestína, með stuðningi fjölmargra annarra félagasamtaka, gengst fyrir útifundi á Ingólftorgi kl. 17 á morgun, miðvikudaginn 23. júlí. Ræðumaður er Dagur B. Eggertsson borgarstjóri en auk hans koma fram nokkrir listamenn. Fundurinn verður haldin undir kjörorðunum:

„Stöðvum blóðbaðið, alþjóðlega vernd"

"Burt með herkvína, niður með hernámið“ og

„Frjáls Palestína“

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hvetur félagsmenn og landsmenn alla til að mæta á útifundinn og mótmæla þeim grimmilegu mannréttindabrotum sem eiga sér stað á Gaza-svæðinu.

Starfsmenn Akraneskaupstaðar og Höfða eru minntir á að koma atkvæðaseðli sínum til skila fyrir klukkan 14. næstkomandi mánudag, en allir félagsmenn sem eru að vinna eftir nýgerðum kjarasamningi Verkalýðsfélags Akraness og Sambands íslenskra sveitarfélaga eiga að hafa fengið kjörgögn vegna póstatkvæðagreiðslunnar heimsend.

Póststimpill gildir ekki, atkvæðið þarf að komast í hús á Sunnubraut 13 fyrir klukkan 14 á mánudaginn. Atkvæði sem berast eftir þann tíma teljast ekki með. Hægt er að skila atkvæðaseðlum inn um póstlúgu bakdyramegin á Sunnubraut 13 um helgina, eða skila því á mánudaginn fyrir kl. 14.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image