• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
VLFA

VLFA

Big fan of open source and Joomla

Website URL: http://joomlabuff.com

Formaður félagsins var í umræðuþættinum Eyjunni hjá Birni Inga Hrafnssyni á föstudaginn þar sem kjaramálin, vaxtamál bankanna og önnur hagsmunamál íslensks verkafólks voru til umræðu. Þar kom skýrt fram hjá formanni að krafa verkafólks í komandi kjarasamningum sé sanngjörn, eðlileg og réttlát enda byggist hún á því að stigin verið jöfn, þétt og ákveðin skref í átt til þess að dagvinnulaun verkafólks dugi fyrir framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út og að verkafólk geti haldið mannlegri reisn. 

Formaður kom inn á okurvexti bankanna og nefndi hann að bankarnir hefðu fengið lánasöfn heimilanna með miklum afslætti úr gömlu bönkunum á sínum tíma og væru nú að rukka heimilin upp í topp og enn héldu bankarnir áfram að níðast á neytendum í formi okurvaxta. Hann nefndi að hagnaður bankanna frá hruni sé 370 milljarðar en á síðasta ári nam hagnaðurinn 80 milljörðum. Hagnaður bankanna einungis vegna þjónustugjalda nam 30,6 milljörðum sem er  meiri hagnaður heldur en hagnaður þriggja stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna á Íslandi. 

Formaður vék einnig að þeirri gríðarlegu launahækkun sem forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur hefur fengið á síðustu 4 árum en laun hans hafa hækkað um 1 milljón króna á þessum tíma eða að meðaltali um 250.000 kr. á ári. Eins og allir vita greip Orkuveita Reykjavíkur til gríðarlegra aðhaldsaðgerða og gjaldskrárhækkana í kjölfar hrunsins enda kom fram hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins að verið væri að berjast fyrir að halda fyrirtækinu lifandi og að herða þyrfti ólina allhressilega eins og fram kom hjá núverandi forstjóra fyrirtækisins þegar hann tók við. 

Allir muna þegar að 65 starfsmönnum Orkuveitunnar var sagt upp í október 2010 og viðskiptavinir Orkuveitunnar hafa svo svannarlega fengið að finna fyrir gjaldskrárhækkunum enda liggur fyrir að gjaldskrár fyrirtækisins hafa hækkað um 50-60% eins og til dæmis rafmagn og heita vatnið. Það er greinilegt að forstjórinn hefur hert ólina vel að starfsmönnum og viðskiptavinum Orkuveitunnar en sleppt sjálfum sér svo um munar. Formaður spyr sig reyndar að því í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að Orkuveita Reykjavíkur er í eigu Reykjavíkurborgar og Akraneskaupstaðar og að þessi sveitarfélög lögðu til ábyrgð upp á 10-12 milljarða til að bjarga fyrirtækinu á sínum tíma hvort að þessi 80% launahækkun forstjórans sé gerð með samþykki borgarstjórnar Reykjavíkur og bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar.  

Tuesday, 03 March 2015 15:10

Samningafundur hjá Norðuráli í dag

Í dag verður haldinn samningafundur hjá ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings Norðuráls. Nú eru liðnir heilir 2 mánuðir frá því að kjarasamningurinn rann út og þrátt fyrir umtalsverðar tilraunir til að ná fram viðunandi nýjum samningi þá hefur það ekki tekist til þessa. Enn ber töluvert á milli deiluaðila og ekki er útilokað að það muni draga til tíðinda á fundinum í dag því væntanlega munu forsvarsmenn fyrirtækisins leggja fram tilboð til lausnar þessari deilu. 

Forsvarsmenn Norðuráls hafa nýverið opnað á að miða launahækkanir við launavísitölu heildarlauna sem birtist einu sinni á ári.  Formaður félagsins hefur verið að skoða þennan möguleika en hefur hafnað því að miða við þessa launavísitölu enda birtist hún einungis einu sinni á ári og því til viðbótar er hún að gefa mun minna en launavísitala launa sem Hagstofan birtir í hverjum mánuði.  Formaður hefur komið þeim skilaboðum til forsvarsmanna Norðuráls að ef það á að miðja við launavísitölu þá verði það að vera sú sem birtist í hverjum mánuði en alls ekki þessi sem birtist einu sinni á ári.  Núna er því boltinn hjá forsvarsmönnum Norðuráls en þeir hafa ekki tekið vel í að miða við launavísitölu launa sem birtist í hverjum mánuði og hafa sagt að ef það yrði gert þyrfti að miða við ca 80% af launavísitölunni því inní launavísitölu launa sem birtist í hverjum mánuði séu starfsaldurshækkanir og annað slíkt þeir geta því ekki sætt sig við að miða við 100% af launavísitölunni.  Formaður hefur hafnað að miða einungis við 80% því það sé ljóst að starfsaldurshækkanir séu alls ekki 20% af launavísitölunni.  Með öðrum orðum þá hefur VLFA hafnað því að miða við þessa launavísitölu heildarlauna enda gefur hún minna og einnig hefur félagið hafnað að miða við 80% af launavístölu launa sem birtist í hverjum mánuði, en vonandi náum við að komast í gegnum þennan ágreining en eins og staðan er núna getur brugðið til beggja vona.  En VLFA mun standa fast fyrir nú sem hingað til.

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags á Húsavík, kom í heimsókn á skrifstofu félagsins síðastliðinn þriðjudag ásamt Kristbjörgu Sigurðar, fv. varaformanni Framsýnar, en mjög náið og gott samstarf hefur verið með þessum tveimur stéttarfélögum í gegnum árin.

Það liggur fyrir að mikill samhljómur hefur verið í áherslum og baráttu fyrir bættum hag alþýðunnar hjá þessum félögum. Í þessari heimsókn var mikið rætt um komandi kjarasamninga og morgunljóst að bæði þessi félög vilja að látið verði sverfa til stáls ef atvinnurekendur sjá ekki að sér og ganga að afar sanngjarnri kröfu stéttarfélaganna um að launataxtar verkafólks dugi fyrir lágmarksframfærslu sem hið opinbera hefur gefið út.

Mjög annasamt hefur verið á skrifstofu félagsins að undanförnu í verkefnum sem tengjast hagsmunagæslu fyrir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness og fjölmörg mál hafa verið til skoðunar. 

Í gær náðist sátt um eitt málið, en það laut að kauptryggingu skipverja á togara þegar skipið fór í slipp í einn mánuð. Útgerðin ákvað að greiða skipverjum einungis 50% af kauptryggingu en ekki 100% eins og kjarasamningar kveða á um. Að sjálfsögðu gerði Verkalýðsfélag Akraness alvarlega athugsemdir við þessa afgreiðslu útgerðarinnar, en eftir umræður við forsvarsmenn útgerðarinnar féllust þeir á rök félagsins og ákváðu að greiða skipverjum fulla kauptryggingu.

Einnig náði félagið sátt í máli sem varðaði veikindalaun skipverja, en sú hagsmunagæsla skilaði skipverjanum hundruðum þúsunda króna. Einnig gerði félagið athugasemdir við lokauppgjör hjá verkamanni, en þar vantaði ýmsar greiðslur eins orlof, fasta yfirvinnu og fleira og skilaði þessi vinna félagsmanninum vel á annað hundrað þúsund krónum.

Þessu til viðbótar er félagið nú með nokkur stór mál til skoðunar sem klárlega skipta milljónum króna fyrir þá félagsmenn sem um ræðir.

Verkalýðsfélag Akraness skorar á félagsmenn sína að fylgjast vel með launaseðlum sínum og hika ekki við að hafa samband við skrifstofu félagsins ef minnsti grunur leikur á að verið sé að brjóta á réttindum.

Thursday, 05 February 2015 15:06

Verður loðnuvertíðinni stefnt í hættu?

Aukningu loðnukvóta og þeirri búbót sem hann færir þjóðinni ber að fagna innilega og ef allt væri eðlilegt þá ætti þessi búbót að auðvelda gerð kjarasamninga verkafólks verulega. Rétt er að benda á að Hafrannsóknarstofnun leggur nú til að loðnukvótinn á yfirstandandi vertíð verði hvorki meira né minna en 580.000 tonn og er það 320.000 tonna aukning frá fyrstu tillögu og meira en þreföldun frá kvóta síðasta árs. Fram hefur komið í fréttum að þessi aukning á loðnukvótanum muni skila þjóðarbúinu 25 til 28 milljörðum í auknum útflutningstekjum. 

Því ber að fagna að afkoma sjávarútvegsfyrirtækja sé mjög góð en jafnframt skal gera þá skýlausu kröfu að fiskvinnslufólk fái hlutdeild í þessari gríðarlegri hagsæld sem ríkt hefur í sjávarútvegnum um allanga hríð. Það liggur fyrir að útgerðin hefur verið að skila tugmilljarða hagnaði síðustu ár og sem dæmi þá nam hagnaðurinn um 53 milljörðum árið 2013. 

Það verður ekki látið átölulaust að ofsagróði útflutningsfyrirtækja eins og  t.d. í sjávarútvegsfyrirtækja sé ekki skilað að einhverju leyti til þeirra sem starfa í greinunum í gegnum hækkun launa og bónusa. Ef við leikum okkur að tölum og skoðum allt fiskvinnslufólk sem SGS semur fyrir þá eru það um 3.300 manns og kostnaður við að verða við kröfum SGS til handa fiskvinnslufólki væri í kringum 4 milljarða á ársgrundvelli.

Það eru því hjáróma raddir sem segja að allt fari á hliðina í samfélaginu ef atvinnulífið greiðir fólki dagvinnulaun sem nægja fyrir framfærslu. SGS hefur lagt áherslu á að hækka laun í gjaldeyrisskapandi greinum, fiskvinnslan er þar efst á blaði. Það er alls ekki ólíklegt að stéttarfélög innan SGS muni  beina sjónum sínum að loðnubræðslunni og hrognatöku ef kemur til verkfallsaðgerða á næstu vikum.

Verður núverandi loðnuvertíð jafnvelstefnt í hættu vegna þess að SA hefur algerlega hunsað kröfur stéttarfélagana og er ekki tilbúið að láta fiskvinnslufólks njóta góðs af ofsagróða útgerðarinnar? Ábyrgð Samtaka atvinnulífsins er gríðarleg hvað þessa kjaradeilu við verkafólk varðar. Ætlar SA virkilega að stefna núverandi loðnuvertíð jafnvel í hættu með því að hunsa algerlega sanngjarnar og eðlilegar kröfur SGS að dagvinnulaun dugi fyrir lágmarksframfærslu? 

Gríðarlegar fjárhæðir gætu verið í húfi ef ekki tekst að semja um leiðréttingu á kjörum verkafólks og eins og fram hefur komið í fréttum, nemur bara viðbótin 25-28 milljörðum í auknar útflutningstekjur til handa þjóðarbúinu.

Wednesday, 17 December 2014 00:00

VLFA lætur gott af sér leiða

Verkalýðsfélag Akraness hefur í ár eins og undanfarin ár útdeilt styrkjum úr styrktarsjóði félagsins. Þessi styrktarsjóður er þannig til kominn að Landsbankinn greiðir VLFA 800.000 kr. á ári vegna viðskipta og félagið lætur þá upphæð síðan renna til hinna ýmsu góðgerðarmála.

Hinsvegar hefur félagið á þessu ári útdeilt hærri upphæð en þessum 800.000 kr. og er það gert í ljósi þess að félagið átti 90 ára afmæli 14. október síðastliðinn.

Þau verkefni sem Verkalýðsfélag Akraness styrkti á því ári sem nú er senn á enda eru eftirfarandi:

 

Kaup á sneiðmyndatæki á Heilbrigðisstofnun Vesturlands (2,3 milljónir)

Mæðrastyrksnefnd

Akraneskirkja

Körfuknattleiksfélag Akraness

Bjargir - forvarnir og fræðsla

Hollvinasamtök Heilbrigðisstofnunar Vesturlands


Samtals voru þeir styrkir sem félagið veitti að upphæð 3.120.000 kr.

Verkalýðsfélagi Akraness finnst gott og gagnlegt að geta stutt hin ýmsu góðgerðarmál enda skiptir það gríðarlega miklu máli fyrir samfélagið í heild sinni að félagasamtök létti undir til dæmis hjá þeim sem minna mega sín í íslensku samfélagi.

Varðandi sneiðmyndatækið þá er hér um heilsufarslegt öryggi að ræða fyrir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness að ræða enda skiptir máli fyrir félagsmenn að til staðar sé öflug heilbrigðisþjónusta með góðum tækjakosti því það illkynja sjúkdómar séu greindir snemma getur oft skilið á milli lífs og dauða.  

Friday, 06 February 2015 15:05

Páskar 2015

Rétt í þessu var að ljúka samningafundi með forsvarsmönnum Norðuráls vegna kjarasamnings starfsmanna en eldri samningur rennur út nú um áramótin. Fyrir nokkrum vikum lagði samninganefnd stéttarfélaganna fram ítarlega og vel rökstudda kröfugerð sem byggðist á því að laun starfsmanna Norðuráls myndu verða lagfærð allverulega. Ein af grunnkröfunum var einnig sú að tekið yrði upp nýtt fjölskylduvænt vaktakerfi með sambærilegum hætti og gerist hjá Elkem Ísland. Með öðrum orðum að horfið yrði frá 12 tíma vöktum og farið yfir í 8 tíma vaktakerfi. En eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni var það ríkur meirihluti vaktavinnufólks sem vildi taka upp slíkt kerfi. 

Því verður að segja að það er þyngra en tárum taki að hafa tekið við því tilboði sem barst frá forsvarsmönnum Norðuráls í dag. Í fyrsta lagi var 8 tíma vaktakerfi algjörlega hafnað og í öðru lagi hljóðaði tilboðið einungis upp á skitin 2,5% ásamt hugmynd að eingreiðslu til handa starfsmönnum. Það þarf svosem ekki að fara neitt ítarlega yfir þetta tilboð ef tilboð skyldi kalla. Þetta eru gríðarleg vonbrigði og það er morgunljóst að það ber himinn og haf á milli samningsaðila. Formaður fór yfir það með forsvarsmönnum fyrirtækisins að það væri hans mat og reyndar annarra í samninganefndinni að menn væru að leika sér að eldinum með því að leggja svona tilboð fram. Því það er alveg hvellskýrt að þetta tilboð mun valda mikilli úlfúð og gremju á meðal starfsmanna.

Á grundvelli þessa mikla ágreinings var samninganefnd stéttarfélaganna algjörlega einróma í því að þetta tilboð væri alls ekki grundvöllur til frekari viðræðna. Á þeirri forsendu var forsvarsmönnum fyrirtækisins gerð grein fyrir því að viðræður á þessum grunni væru tilgangslausar og samþykkti samninganefndin að deilunni skyldi vísað til ríkissáttasemjara vegna þess hversu gríðarlega langt er á milli deiluaðila.

Það liggur algjörlega fyrir að væntingar starfsmanna Norðuráls vegna komandi kjarasamnings eru miklar. Fyrirtækinu hefur gengið mjög vel í gegnum árin og hefur ætíð skilað góðri afkomu til sinna eigenda. Nú er komið að því að starfsmenn vilji fá hlutdeild í þessari góðu afkomu enda hafa allflest útflutningsfyrirtæki notið þess þegar krónan féll allverulega í kjölfar hrunsins.

Það er einnig skoðun formanns Verkalýðsfélags Akraness að það eigi að skapa íslenskum fyrirtækjum góð rekstarskilyrði til að laða hér að öflug og stór fyrirtæki og þessum góðu rekstarskilyrðum á síðan að skila til þeirra sem starfa hjá þessum fyrirtækjum. Því er það óþolandi þegar fyrirtækjum eru sköpuð góð rekstarskilyrði af hálfu hins opinbera að það skuli ekki skila sér í betri launakjörum til handa þeim sem starfa í þeim greinum. Við vitum til dæmis að álfyrirtæki hafa fengið í gegnum tíðina jákvæða orkusamninga þó vissulega séu blikur á lofti með framhald á því en í ljósi þessara jákvæðu samninga þarf það að skila sér til starfsmanna í auknum launahækkunum enda skila launahækkanir starsfmanna sér beint til sveitarfélaga og ríkis í formi aukinna skattgreiðslna starfsmanna.

Við forystumenn Norðuráls vill formaður segja: Þið tókuð mikla áhættu með þessu tilboði ykkar og eins og kom fram á fundinum í dag var beðið eftir að einhver myndi spretta fram og segja "þetta er falin myndavél, djók!" Því miður er margt sem bendir til að þetta sé ekki djók en það liggur alveg fyrir að samstaða og einhugur er ríkjandi í samninganefndinni og ekki spillir fyrir að starfsmenn Norðuráls standa þétt á bakvið samninganefndina því það liggur fyrir að menn ætla að landa góðum samningi til handa starfsmönnum Norðuráls og það verður gert með góðu eða illu.  

Síðastliðinn föstudag héldu forsvarsmenn Silicor Materials kynningarfund í bæjarþingsalnum á Akranesi um hið gríðarstóra verkefni sem fyrirtækið vinnur nú að, en fyrirhugað er að reisa öfluga sólarkísilverksmiðju á Grundartanga. Um er að ræða mjög stóra verksmiðju á íslenskan mælikvarða, sem gæti framleitt um 19 þúsund tonn af kísil á ári og mun verksmiðjan skapa gríðarlegan fjölda nýrra starfa, en áætlað er að um 450 manns muni starfa í verksmiðjunni þegar starfsemin verður komin á fulla ferð.

Fundinn sátu sveitarstjórnarmenn, þingmenn norðvestur-kjördæmis auk fleiri hagsmunaaðila. Á fundinum fór Davíð Stefánsson talsmaður fyrirtækisins yfir stöðuna og kom fram að allt væri samkvæmt áætlun og afar fátt sem getur komið í veg fyrir það að framkvæmdir hefjist á vormánuðum. Það kom fram í kynningu Stefáns að fyrirtækið hefur lagt gríðarlega vinnu í undirbúning verkefnisins og til dæmis liggur fyrir að þeir sem standa að þessu verkefni munu leggja til 40% eiginfjárhlutfall sem sýnir hversu gríðarlega trú menn hafa á þessu verkefni.

Það er morgunljóst að þessi nýja sólarkísilverksmiðja mun verða gríðarlega mikilvæg fyrir samfélögin hér í kring og mun styrkja atvinnustoðir samfélaganna en frekar. Það er ekki aðeins um 450 gjaldeyrisskapandi störf að ræða, heldur hafa óháðar rannsóknir sýnt fram á að þessi sólarkísilverksmiðja verði ein umhverfisvænasta á landinu.

Það er morgunljóst að mörg sveitafélög öfunda okkur Akurnesinga og Hvalfjarðasveit af þeirri gróskumiklu starfsemi sem finnst á Grundartanga og ekki mun það skemma fyrir að fá þetta öfluga fyrirtæki sem Silicor Materials er, enda skapar það eins og áður sagði 450 ný störf.

Monday, 22 December 2014 00:00

Opnunartími um jól og áramót

Opnunartími skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness yfir jól og áramót verður með eftirfarandi hætti:

23. desember Þorláksmessa - Opið kl. 8:00-12:00

24. desember Aðfangadagur - Lokað

25. desember Jóladagur - Lokað

26. desember Annar í jólum - Lokað

29. desember - Opið 8:00-16:00

30. desember - Opið 8:00-16:00

31. desember Gamlársdagur - Lokað

1. janúar Nýársdagur - Lokað

2. janúar - Lokað vegna starfsdags

Þeir félagsmenn sem eiga bókaða bústaði þurfa að sækja samninga og annað á ofangreindum opnunartíma. Þeir sem eiga bókaðan bústað yfir jólin þurfa því að koma í síðasta lagi fyrir hádegi 23. desember og þeir sem eiga bókað um áramót í síðasta lagi fyrir kl. 16 þriðjudaginn 30. desember.

Styrkir verða greiddir út þann 30. desember og þurfa gögn í tengslum við þá að hafa borist fyrir kl. 16 mánudaginn 29. desember.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image