• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

02
Jan

Umsóknir um styrk úr vinnudeilusjóði VLFA vegna verkfalls sjómanna

Umsóknareyðublað vegna styrks úr vinnudeilusjóði vegna launataps í verkfalli sjómanna er nú aðgengilegt á skrifstofu félagsins á Sunnubraut 13, og á heimasíðu félagsins undir Eyðublöð. Hægt er að senda útfylltar umsóknir í tölvupósti á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it., í pósti á Sunnubraut 13, 300 Akranes, eða koma þeim á skrifstofu félagsins á annan hátt.

Verkfallsstyrkur greiðist frá og með deginum í dag, 2. janúar 2017 svo lengi sem verkfall varir. Greiddar verða 10.800 kr. fyrir hvern virkan dag, sem er ígildi kauptryggingar háseta. Greitt verður út á tveggja vikna fresti, fyrst mánudaginn 16. janúar 2017. 

Sem betur fer er fátítt að það komi til verkfalls hjá félagsmönnum VLFA. Verkfallssjóður Verkalýðsfélags Akraness er því sterkur og mun vel geta staðið undir greiðslum til félagsmanna komi til langtímaverkfalls.

30
Dec

Gleðilegt ár!

Verkalýðsfélag Akraness óskar félagsmönnum sínum gleðilegs nýs árs.

Athygli er vakin á því að við opnum á hádegi mánudaginn 2. janúar 2017

30
Dec

Þingfarakaupið hækkað langt um meira en lægsti launataxti verkafólks

Í gær var hinn árlegi jóla stjórnar-og trúnaðarráðsfundur Verkalýðsfélags Akraness haldin en á þeim fundi fer formaður yfir það helsta sem gerst hefur í starfsemi félagsins á árinu sem er að líða.

Formaður kom víða við í sinni yfirferð. Sem dæmi má nefna þá kjarasamninga sem félagið hefur gert á árinu en fram kom að félagið gekk frá kjarasamningi við Samband íslenskra sveitafélaga eftir harðvítugar deilur við sambandið vegna kröfu þeirra síðarnefndu um að svokallað Salek samkomulag þyrfti að vera fylgiskjal með samningum. Þessu hafnaði Verkalýðsfélag Akraness algjörlega og neitaði þess vegna að ganga frá samningnum á sínum tíma ef sambandið myndi standa fast á því að gera kröfu um að SALEK yrði fylgiskjal. Þessi ágreiningur endaði með því að VLFA stefndi Sambandi íslenskra sveitafélaga fyrir Félagsdóm vegna þess að sambandið sagðist verða skuldbundið því að fylgja Salek samkomulaginu en fyrir Félagsdómi drógu fulltrúar Sambands íslenskra sveitafélaga það til baka og var málinu því vísað frá dómi. Í framhaldi af því gekk VLFA frá kjarasamningi við sambandið eftir að þeir féllu frá þeirri kröfu um að Salek samkomulagið yrði fylgiskjal með samningnum.

Formaður fór einnig yfir þá alvarlegu kjaradeilu sem sjómenn eiga nú í við útgerðamenn en eins og flestir vita hafa sjómenn í tvígang fellt kjarasamning og því ljóst að þessi deila er gríðarlega erfið viðfangs enda ber mikið á milli deiluaðila. Fram kom í máli formanns að hann sé kominn inn í samninganefnd sjómanna og muni leggja sitt að mörkum til þess að leysa þá deilu sem í gangi er enda miklir hagsmunir í húfi.

Formaður fór einnig yfir þá misskiptingu sem átt hefur sér stað í íslensku samfélagi og gerði það að umtalsefni að lágmarkstaxtar verkafólks séu alltof lélegir enda eru þeir langt frá þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út. Fram kom í máli formanns að þegar hækkun þingfarakaups er borið saman við hækkun lágmarkstaxta verkafólks þá komi fram að þingfarakaupið hafi hækkað um 464% en lægsti taxti verkafólks um 306% frá árinu 1996. Fyrir 20 árum var þingfarakaupið 195.000 kr. á mánuði en lægsti launataxti verkafólks var á sama tíma 60.000 kr. Í dag er lágmarkstaxti verkafólks kominn upp í 244.000 kr. en þingfarakaupið er hins vegar komið upp í 1.100.000 króna á mánuði. Þingfarakaupið hefur sem sagt hækkað um 905 þúsund á mánuði á meðan lægsti launataxti verkafólks hækkaði um 184 þúsund. Svo segja áhrifamenn í íslensku samfélagi að lagmarkslaun verkafólks hafi ætíð hækkað sérstaklega umfram aðra hópa samfélagsins. Þessar staðreyndir um þingfarakaupið gagnvart lægsta taxta verkafólks sýnir að það er rakalaus þvæla!

Í yfirferð formanns kom einnig fram að Verkalýðsfélag Akraness hefur staðið í ströngu við hagsmunagæslu fyrir sína félagsmenn og nefndi hann í því samhengi að félagið hafi verið með fimm dómsmál vegna ágreinings um túlkun kjarasamninga og innheimtumála vegna vangoldinna launa. Niðurstaða sé komin í tvö af þessum fimm dómsmálum en félagið vann tvö mál fyrir Félagsdómi gegn Norðuráli þar sem ágreiningur var um túlkun á ávinnslu á orlofs-og desemberuppbótum sem og túlkun á ávinnslu á starfsaldri.  Bæði þessi mál vann Verkalýðsfélag Akraness og munu þessir dómar hafa mikla fjárhagslega þýðingu fyrir þá sem heyra undir niðurstöðu dómsins. Einnig hafa þessir dómar umtalsvert fordæmisgildi enda mun Norðurál þurfa að leiðrétta kjör fjölmargra starfsmanna fjögur ár aftur í tímann.

Fram kom í máli formanns að félagið hafi ætíð staðið þétt við bakið á sínum félagsmönnum við að verja réttindi og kjör sín og nefndi formaður að frá árinu 2004 til dagsins í dag sé félagið búið að innheimta tæpar 400 milljónir króna vegna hina ýmsu kjarasamningsbrota fyrir sína félagsmenn. Það kom fram í máli formanns að bara á þessu ári hafi félagið innheimt laun og önnur réttindi sem nemur rúmum 30 milljónum króna. Sem dæmi um það náði VLFA samkomulagi við Akraneskaupstað um að endurgreiða skólaliðum sveitarfélagsins álag vegna aðalhreingerninga sem starfsmenn inna af hendi ári hvert fjögur ár aftur í tímann eða 5,7 milljónir króna í heildina.

Í yfirferðinni kom skýrt fram hjá formanni að félagið stendur mjög vel bæði fjárhagslega og félagslega og mun reyna að halda áfram að berjast fyrir auknum réttindum og kjörum sinna félagsmanna. Það er stefna félagsins að hvika hvergi frá því að verja réttindi okkar félagsmanna og mun félagið alls ekki horfa í krónur og aura við að verja þau réttindi.  

30
Dec

Aðalfundur sjómanna haldinn í gær í skugga verkfalls

Aðalfundur sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í gær en auk venjubundinna aðalfundastarfa þá var verkfall og kjaradeila við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi að sjálfsögðu aðalumræðuefnið.

Eins og allir vita liggur nú fyrir að sjómenn hafa fellt tvo kjarasamninga sem gerðir voru og því morgunljóst að innhald í nýjum kjarasamningi þarf að vera mun innihaldsríkara en síðasti samningur sem felldur var með 80% atkvæða.

Sjómenn í sjómannadeild Verkalýðsfélagi Akraness hafa samþykkt að leggja áherslu á 5 atriði til að hægt verði að ná í gegn nýjum kjarasamningi en þau atriði sem um ræðir eru:

 

°              Sjómannaafslátturinn komi aftur inn

°              Olíuviðmiði verði breytt

°              Fæði sjómanna verði frítt

°              Hlífðarfatnaður verði sjómönnum að kostnaðarlausu

°              Netkostnaður verði lækkaður verulega

 

Þetta eru þau atriði sem sjómenn telja mikilvægt að náist fram til að hægt verði að ganga frá nýjum samningi og er það mat formanns að útgerðarmenn eigi alveg að geta komið til móts við þessar kröfur sjómanna.

Það er ríkir mikil samstaða á meðal sjómanna um að ná viðunandi kjarasamningi en það er hins vegar mikilvægt að almenningur átti sig á því mikilvæga og fórnfúsa starfi sem sjómenn þessa lands vinna og það oft á tíðum við mjög erfiðar aðstæður.

Það kom t.d. fram á fundinum í gær að sjómenn þurfi jafnvel að greiða allt að 100.000 kr. á mánuði fyrir það eitt að vera um borð í fiskiskipi.  Þessar 100.000 krónur liggja í fæðiskostnaði, hlífðarfatnaði og netkostnaði en það eru ekki margar starfsstéttir sem þurfa að greiða slíkar upphæðir fyrir það eitt að mæta í vinnuna!

Það má heldur ekki gleyma því að árið 2009 voru kjör sjómanna rýrð um 30 þúsund krónur eða yfir 300 þúsund á ári þegar sjómannaafslátturinn var afnumin í þrepum.  Um það ríkir mikil óánægja á meðal sjómanna og benda þeir t.d. á að þegar eftirlitsmenn frá Fiskistofu koma með þeim í túra þá fá þeir greidda skattfrjálsa dagpeninga.

Það liggur fyrir að djúpstæður ágreiningur er á milli sjómanna og útgerðamanna í þessari kjaradeilu og allt eins líklegt að þetta verkfall geti orðið nokkuð langvinnt en næsti fundur hefur verið boðaður af ríkissáttasemjara þann 5. janúar næstkomandi.     

28
Dec

Aðalfundur sjómannadeildar VLFA á morgun kl. 14

Sjómenn athugið að aðalfundur sjómannadeildar VLFA verður haldinn á morgun á Gamla Kaupfélaginu kl. 14. Sjómenn eru eindregið hvattir til að fjölmenna!

27
Dec

Lausn fannst á ágreiningi við Hvalfjarðasveit

Í október leituðu ófaglærðir starfsmenn Heiðarskóla til Verkalýðsfélags Akraness vegna ágreinings um uppsögn á 6% umframkjörum sem 6 starfsmenn skólans höfðu haft frá 1. júní 2011.  En sveitastjórn Hvalfjarasveitar hafði tilkynnt umræddum starfsmönnum að þessum umframkjörum yrði sagt upp frá og með 1. desember síðastliðnum.

Ástæður fyrir uppsögn á umframkjörum þeirra starfsmanna sem um ræðir væru þær að hugmyndum um sveigjanleika í starfi hafi ekki komið til framkvæmda en einnig vildi sveitafélagið eyða launamisrétti á meðal almennra starfsmanna á grundvelli jafnræðis.

Formaður félagsins átti marga fundi með starfsmönnum Heiðarskóla til að finna lausn á málinu sem og fulltrúum sveitafélagsins.  Á þessum fundum kom fram að þessi uppsögn á þessum 6% umframkjörum væri alls ekki sparnaðaraðgerð heldur liður í að gæta jafnræðis á meðal almennra starfsmanna.  Formanni var tjáð af fulltrúum sveitafélagsins að Hvalfjarðasveit væri að greiða 16 þúsund krónur á mánuði til ófaglærðra í leik-og grunnskóla sveitafélagsins umfram kjarasamninga.

Verkalýðsfélag Akraness skrifaði sveitastjórn Hvalfjarðasveitar bréf 1. desember sl. þar sem lögð var fram tillaga að sátt í málinu sem laut að því að hækka þessar greiðslur úr 16 þúsundum í 22 þúsund krónur á mánuði til ófaglærðra starfsmanna í leik- og grunnskóla Hvalfjarðasveitar.  Rök VLFA laut að því að ekki yrði um kostnaðarauka fyrir Hvalfjarðasveit að ræða enda yrði sparnaðurinn sem hlytist af því að segja upp 6% umframkjörum hjá þessum 6 starfsmönnum notaður til að hækka þessar mánaðargreiðslur hjá öllum ófaglærðum starfsmönnum sveitafélagsins.  Þessa tillögu lagði VLFA fram á grundvelli þess að uppsögnin á umframkjörum var ekki sparnaðaraðgerð heldur gerð til eða eyða launamisrétti.

Það ánægjulega er að sveitastjórn Hvalfjarðasveitar féllst á þessa tillögu Verkalýðsfélags Akraness og munu því mánaðarlegar eingreiðslur sem ófaglærðs starfsfólks í leik-og grunnskóla Hvalfjarðasveitar hækka úr 16.000 krónum á mánuði í 22.000 krónur á mánuði frá og með 1. janúar 2017 og munu því 20 ófaglærðir starfsmenn hækka um 6.000 krónur á mánuði eða sem nemur 72.000 krónur á ársgrundvelli.

Það er ljóst að þessi ágreiningur var gríðarlega erfiður og tók mjög á þá starfsmenn sem áttu hlut að máli en miðað við aðstæður þá var þetta farsæl lausn í mjög svo erfiðu máli.

22
Dec

Gleðileg jól

Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness óskar félagsmönnum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Hefðbundinn opnunartími verður yfir hátíðarnar, nema hvað skrifstofa félagsins verður lokuð á morgun, Þorláksmessu. Opnum á ný þriðjudaginn 27. desember kl. 8.

Ef áríðandi mál koma upp er hægt að ná í formann félagsins í síma 8651294.

21
Dec

Gríðarleg samstaða meðal sjómanna

Rétt í þessu var að ljúka kynningar- og samstöðufundi félaga í Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness, en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni skall verkfall sjómanna á þann 14. desember sl.

Formaður fór ítarlega yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og niðurstöðu fundar deiluaðila hjá Ríkissáttasemjara í gær, en eins og fram hefur komið í fréttum er himinn og haf á milli deiluaðila í þessum kjarasamningaviðræðum og lýsti formaður yfir miklum áhyggjum af því að þetta verkfall gæti orðið langt og strangt.

Á fundi sjómanna í dag fór þó ekki á milli mála að mikil samstaða er í hópnum og var það afar ánægjulegt að finna. Fundurinn veitti formanni fullt umboð til að leiða þessar viðræður fyrir hönd þeirra sjómanna sem tilheyra Sjómannadeild VLFA og var formaður nestaður með nokkrum atriðum sem sjómenn telja að þurfi að koma til, svo hægt sé að ganga frá nýjum kjarasamningi sjómönnum til heilla.

Formaður þakkaði sjómönnum traustið og fór yfir mikilvægi þess að menn stæðu saman og lofaði því að halda sjómönnum vel upplýstum um gang viðræðna og greindi frá því að ef svo kynni að það sæist til lands með nýjan kjarasamning, þá myndi formaður koma með hann til kynningar áður en skrifað yrði undir slíkan samning. En eins og staðan er í dag er ljóst að fátt bendir til þess að deilan leysist á næstu vikum. Til þess þurfa útgerðarmenn að brjóta odd af oflæti sínu og hlusta á sanngjarnar kröfur sjómanna.

19
Dec

Sjómenn - áríðandi fundur á miðvikudaginn kl. 14:00 á Gamla Kaupfélaginu

Eins og komið hefur fram hér á heimasíðunni og allir sjómenn vita þá hófst ótímabundið verkfall hjá sjómönnum 14. desember síðastliðinn. Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness boðar sjómenn til fundar á Gamla kaupfélaginu miðvikudaginn 21. desember og hefst fundurinn klukkan 14:00.

Dagskrá fundarins er að fara yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaraviðræðum sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi eftir að kjarasamningur sjómanna hefur verið felldir í tvígang. Á fundinum mun formaður félagsins fara yfir stöðuna en rétt er að geta þess að fyrsti fundurinn með forsvarsmönnum Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi verður haldinn á morgun og mun formaður greina frá niðurstöðu þess fundar.

Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það að það er himinn og haf sem skilur á milli deiluaðila í þessum kjaraviðræðum og því mikilvægt að sjómenn mæti á fundinn til að fara yfir stöðuna.

16
Dec

Stefnir í gríðarleg átök við útgerðamenn

Eins og alþjóð veit þá kolfelldu sjómenn í vikunni nýgerðan kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi með um 80% atkvæða. Rétt er að geta þess að þetta var í annað sinn á árinu sem sjómenn fella kjarasamning við útgerðamenn en í júní felldu sjómenn samning með 66% atkvæða.

Það er því morgunljóst að skollið er á grjóthart verkfall á milli sjómanna og útgerðamanna og staðan grafalvarleg. Krafa sjómanna er hvellskýr, að útgerðamenn komi fram við þá af virðingu og hlustað sé á þeirra sanngjörnu kröfur. Það liggur fyrir að sjómenn sem hafa verið kjarasamningslausir frá 1. janúar 2011 eða í ein 6 ár krefjast þess að tekið verði tillit til þeirra hófværu kröfugerðar.

En hvaða atriði vilja sjómenn ná fram í nýjum kjarasamningi og eru þetta ósanngjarnar kröfur? Förum yfir nokkur atriði sem sjómenn hafa farið fram á:

Tekið verði strax á mönnunarmálum á uppsjávarskipum og ísfisktogurum: Af hverju vilja sjómenn taka á þessum mönnunarmálum? Jú, vegna þess að sjómenn telja að búið sé að fækka það mikið um borð t.d. í uppsjávarskipum að það sé farið að ógna öryggi þeirra við sín störf. Vissulega er rétt að geta þess að búið var að setja saman nefnd sem á að rannsaka þessi mönnunarmál, en sjómenn vilja að tekið sé á þessu strax því öryggi þeirra er í húfi.

Tekið verði á fæðiskostnaði sjómanna: Hvaða hemja er það að sjómenn þurfi að greiða sjálfir fæði um borði í skipum þar sem þeir eru innilokaðir? Fjölmörg fyrirtæki í landi greiða fæðiskostnað sinna starfsmanna og sem dæmi þá fá allir starfsmenn í stóriðjunum á Íslandi frítt fæði því starfsmenn komast ekkert heim í mat, en þeir borga hinsvegar fæðisskatt sem nemur um 450 krónum á dag.

Nýsmíðaálag verði endurskoðað: Í dag þurfa sjómenn að vissum skilyrðum uppfylltum að greiða allt að 10% af sínum launum í nýsmíðaálag í 7 ár eftir að nýtt skip er smíðað. Í samningum sem var felldur var gert ráð fyrir að þetta nýsmíðaálag myndi fjara út á 14 árum, en eðlilega sætta sjómenn sig ekki við að þurfa að greiða þetta álag enda sjá allir viti bornir menn hversu ósanngjarnt það er að láta sjómenn taka þátt í slíkum kostnaði. Því er krafan skýr: að þetta nýsmíðaálag verði endurskoðað og komið verði meira til móts við sjómenn hvað þetta álag varðar.

Endurskoða þarf olíugjaldið: Í dag eru 30% af aflaverðmæti dregin frá vegna olíugjaldsins og því standa eftir 70% til skipta til áhafnar. Það er skýlaus krafa sjómanna að þessi viðmið verði endurskoðuð.

Sjómannaafsláttur komi inn: Það var þyngra en tárum taki þegar ríkisstjórnin sem var við stjórnartaumanna árið 2009 tók þá ákvörðun að afnema sjómannaafsláttinn í þrepum, en í árslok 2014 féll hann endanlega út. Árið 2010 nam sjómannaafslátturinn 987 kr. á dag eða sem nam tæpum 30 þúsund krónum á mánuði. Þetta var tekið af sjómönnum með einu pennastriki án þess að nokkuð kæmi í staðinn. Rétt er að geta þess að flestar þjóðir sem við viljum bera okkur saman við umbuna sínum sjómönnum með sjómannaafslætti. Það er því ljóst að aðkoma stjórnvalda að lausn þessarar deilu þarf að vera í formi þess að sjómenn fái aftur einhvern sjómannaafslátt eins og aðrir sjómenn í þeim löndum við viljum bera okkur saman við.

Þetta eru nokkur af þeim atriðum sem sjómenn telja nauðsynleg til að hægt verði að ganga frá nýjum kjarasamningi og íslenskir sjómenn eiga það skilið að hafa góð laun og komið sé fram við þá af virðingu. Það á að vera öllum ljóst að sjómenn vinna oft og títt við afar erfiðar, krefjandi og hættulegar aðstæður þar sem allra veðra er von og það víðsfjarri sinni fjölskyldu og sínum nánustu.

Það er viss fórn að vera sjómaður við Íslandsstrendur enda liggur fyrir að sjómenn hafa mun minni möguleika að taka þátt í uppeldi barna sinna og horfa á þau vaxa úr grasi.

Það er mikilvægt að almenningur átti sig á þessari fórn sem sjómenn færa við sín störf eins t.d. að vera staddir úti á rúmsjó þegar alvarlegir atburðir gerst í fjölskyldu sjómanna. Dæmi eru um sjómenn sem hafa misst einhvern nákomin og það tekur kannski einhverja daga að komast heim til fjölskyldunnar. Svona dæmi hafa svo sannarlega gerst, eins og til dæmis sjómaður sem tilheyrir sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness. Hann var á kolmunnaveiðum við Færeyjar þegar hann fékk tilkynningu um að dóttir hans hefði látist í bílslysi og það tók sjómanninn um tvo sólarhringa að komast heim í faðm fjölskyldu sinnar.

Fórn sjómanna birtist í fleiri þáttum eins og öryggismálum því það er ekkert grín að veikjast alvarlega eða slasast um borð í skipi út á ballarhafi víðsfjarri allri læknisþjónustu. Við slíkar aðstæður þurfa sjómenn að reiða sig algerlega á kraftaverkamennina sem starfa á þyrlum Landhelgisgæslunnar, en núna eru meira að segja blikur á lofti með að sjómenn geti stólað á þá þjónustu vegna fjárskorts hjá Landhelgisgæslunni. Það er með ólíkindum að Alþingi tryggi ekki Landhelgisgæslunni þá fjármuni svo að hægt sé að tryggja fulla þjónustu hjá þyrlusveitum Landhelgisgæslunnar, enda eru þyrlunar lífæð sjómanna ef einhver vá á sér stað um borð í fiskiskipum. Þessar fórnir íslenskra sjómanna eru blákaldar staðreyndir sem ekki á að gera lítið úr og því mikilvægt að kjör og aðbúnaður sjómanna sé með þeim hætti að sómi sé af.

Oft heyrist að kjör sjómanna sé gríðarlega góð og já, vissulega hafa kjör sjómanna verið blessunarlega góð og þá sérstaklega eftir hrun þegar krónan veiktist mikið. En slíku er ekki til að dreifa í dag enda hefur ekki aðeins krónan styrkst mikið að undanförnu heldur hefur afurðaverð einnig lækkað umtalsvert og hefur þetta gríðarleg neikvæð áhrif á kjör sjómanna. Að sjálfsögðu vita sjómenn að þeir eru á hlutaskiptum og kjör þeirra geta sveiflast upp og niður. Þannig hefur það alltaf verið.

En það breytir samt ekki þeirri staðreynd að þeir hafa verið kjarasamningslausir í 6 ár og vilja að komið sé fram við þá af virðingu og störf þeirra séu metin að verðleikum og hlustað sé á þeirra kröfur sem eru þegar allt er á botninn hvolft sanngjarnar, réttlátar og hóflegar.

Það er gríðarlega mikilvægt að almenningur átti sig á því að það er íslenskur sjávarútvegur með sjómenn og fiskvinnslufólk í broddi fylkingar sem hefur gert það að verkum að okkur hefur tekist að byggja upp þá innviði samfélagsins sem við búum nú við. Án sjómanna og sjávarútvegs væri okkar samfélag ekki í þeim gæðaflokki sem við þekkjum og teljum sjálfsagt. Það vita allir að sjómenn hafa í gegnum áratugina skapað langmestu gjaldeyristekjurnar fyrir íslenskt þjóðarbú sem hefur gert okkur kleyft að byggja upp heilbrigðis- mennta- og okkar velferðakerfi. Ábyrgð útgerðamanna er mikil við að leysa þessu deilu og þeir verða að fara að láta af þessum hroka, virðingaleysi og skilningsleysi sem þeir sýna sjómönnum og þeir verða að ganga að sanngjörnum kröfum sjómanna því mikið er í húfi fyrir þjóðfélagið allt.

Við Alþingismenn vil formaður Verkalýðsfélags Akraness segja: látið ykkur ekki detta í hug að setja lög á þessa kjaradeilu sjómanna við útgerðamenn enda væri það stórundarlegt ef svo myndi gerast í ljósi þess að læknar og heilbrigðisstarfsmenn voru í löngu verkfalli fyrir nokkrum misserum síðan án þess að fá á sig lög þrátt fyrir að mannslíf væru jafnvel í hættu. Formaður VLFA segir þetta því sjómenn hafa oft þurft að búa við það að fá á sig lög. Hins vegar er mikilvægt að Alþingi komi að þessari alvarlegu deilu með því að skila til baka þeirri kjaraskerðingu sem Alþingi framkvæmdi árið 2009 þegar sjómannaafslátturinn var tekinn af sjómönnum.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness er nú kominn í samninganefnd Sjómannasambandsins og hann mun klárlega leggja sig allan fram við að reyna að leysa þessa deilu með sínum samherjum með hagsmuni sjómanna að leiðarljósi. Það er þó ljóst að framundan eru gríðarlega átök ef útgerðamenn verða ekki tilbúnir að brjóta odd af oflæti sínu og mæta réttlátum kröfum sjómanna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image