• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

08
May

Þolinmæði smábátasjómanna á þrotum

Það er óhætt að segja að þolinmæði smábátasjómanna sé löngu þrotin en þeir eru eina starfsstéttin hér á landi sem ekki nýtur þeirra lágmarksmannréttinda að hafa kjarasamning sem tryggir þeim hin ýmsu réttindi og kjör eins og allir kjarasamningar gera. Rétt er að geta þess að smábátasjómenn hafa aldrei haft í gildi kjarasamning sem er verkalýðshreyfingunni, smábátaeigendum og samfélaginu öllu til ævarandi skammar. Eins og áður sagði þá eru smábátasjómenn orðnir æfir yfir því hversu hægt gengur að semja um kjarasamning fyrir þá og þeir geta ekki stundinni lengur sætt sig við að hafa ekki gildandi kjarasamning.

Fjölmargir smábátasjómenn hafa haft samband við Verkalýðsfélag Akraness að undanförnu og líst vanþóknun sinni á þeim seinagangi sem viðgengst hjá Landssambandi smábátaeigenda og Sjómannasambandi Íslands en þessir aðilar hafa verið í viðræðum í marga mánuði án nokkurs árangurs. Það voru uppundir 40 smábátasjómenn sem óskuðu eftir inngöngu í sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness fyrir nokkrum mánuðum síðan og óskuðu eftir að félagið myndi aðstoða þá við að ganga frá nýjum kjarasamningi. VLFA óskaði eftir viðræðum við Landssamband smábátaeigenda og hafði í hyggju að afturkalla samningsumboðið frá SSÍ. En þar sem Landssamband smábátaeigenda hafnaði viðræðum á meðan þeir væru í viðræðum við SSÍ var ekki grundvöllur fyrir félagið að draga samningsumboðið til baka að svo stöddu.

Íslensk stjórnvöld eiga að sjá til þess að smábátaeigendur fái alls ekki úthlutað aflaheimildum á næsta fiskveiðiári sem tekur gildi 1. september næstkomandi ef ekki verður kominn á samningur á milli aðila. Á fundi sem formaður VLFA sat með Steingrími J. Sigfússyni atvinnumálaráðherra, lýsti hann þessum áhyggjum sínum vegna samningsleysis smábátasjómanna og hvatti Steingrím til að tryggja í núverandi frumvarpi með afgerandi hætti að ekki kæmi til úthlutunar aflaheimilda til smábátaeigenda ef ekki væri búið að ganga frá kjarasamningi. Það var að heyra á ráðherranum að það væri algjörlega óásættanlegt að ekki væri í gildi kjarasamningur og nefndi Steingrímur það að ef ekki tækist að semja um nýjan kjarasamning þá væri ekkert annað í stöðunni fyrir stjórnvöld en að setja lög sem tryggja meðal annars skiptaprósentur smábátasjómanna.

Sumir smábátasjómenn segja að það eina sem smábátaeigendur geti komið sér saman um sé hvað eigi ekki að greiða smábátasjómönnum. Ugglaust koma flestir smábátaeigendur vel fram við sína sjómenn en það er bláköld staðreynd að innan um í þessari grein sem og öðrum eru bikasvartir einstaklingar sem víla sér ekki við að kolbrjóta á sínum starfsmönnum. Það er einnig ömurlegt til þess að vita að smábátasjómönnum er stundum tilkynnt þegar þeir fara á sjó að búið sé að breyta skiptaprósentu og öðrum kjörum og vegna þess að þeir hafa engan kjarasamning í gildi þá geta þeir lítið sem ekkert sagt og ef að þeir segja eitthvað þá eru meiri en minni líkur á því að viðkomandi þurfi að taka pokann sinn. Það er alveg ljóst að Sjómannasamband Íslands verður að hysja upp um sig buxurnar í þessum samningaviðræðum og ef þeir ekki treysta sér til þess að klára kjarasamning þá verða þeir að hleypa öðrum að samningaborðinu. Og það er einnig gríðarlega mikilvægt að smábátasjómennirnir sjálfir sýni sterka samstöðu við að láta þetta grímulausa óréttlæti, sem birtist í því að hafa ekki kjarasamning eins og allir aðrir íslenskir launþegar, yfir sig ganga.

04
May

Endurúthlutun orlofshúsa er lokið

Endurúthlutun orlofshúsa er nú lokið. Af þeim 53 vikum sem lausar voru eftir fyrri úthlutun, gengu 33 vikur út í endurúthlutun. Sömu úthlutunarreglur gilda í báðum úthlutunum, ef fleiri en einn sækja um sömu vikuna fær sá úthlutað sem á fleiri punkta.

Það eru því 20 vikur eftir í pottinum og um þær gildir hér eftir reglan: Fyrstur kemur, fyrstur fær. Eindagi endurúthlutunar er 15. maí. Eftir þann tíma verða ógreiddar bókanir felldar niður og bætast í pottinn.

Hægt er að bóka lausar vikur á skrifstofu félagsins og á FÉLAGAVEFNUM.

02
May

Frábær þátttaka í 1. maí hátíðarhöldum á Akranesi

Um 200 manns tóku þátt í hátíðarhöldum vegna 1. maí á Akranesi í gær. Dagskráin hófst með kröfugöngu kl. 14:00, og annaðist Skólahljómsveit Akraness hljóðfæraleik í göngunni af miklum myndarskap.

Að göngu lokinni safnaðist fólk saman á Kirkjubraut 40, þar sem hátíðar- og baráttufundur var settur. Ræðumaður dagsins, Vilhjálmur Birgisson, kom víða við í sinni ræðu og féll hún vel í kramið hjá fundargestum. Kvennatríóið Stúkurnar sá um tónlistarflutning og sungu nokkur lög. Að venju sameinuðust fundargestir í fjöldasöng í lok dagskrár og sungu Maístjörnuna og Internasjónalinn. Það var Lionsklúbburinn Eðna sem sá um glæsilegar kaffiveitingar sem fundargestum var boðið upp á að dagskrá lokinni.

Hægt er að lesa ræðu Vilhjálms Birgissonar með því að smella hér.

30
Apr

1. maí hátíðarhöld á Akranesi

Hátíðarhöld á Akranesi vegna 1. maí verða með hefðbundnum hætti.

Safnast verður saman við Kirkjubraut 40 kl. 14:00 og genginn hringur á neðri-Skaga. Að göngu lokinni verður hátíðardagskrá í sal Verkalýðsfélags Akraness á 3ju hæð Kirkjubrautar 40. Ræðumaður dagsins er Vilhjálmur Birgisson. Kvennatríóið Stúkurnar munu syngja nokkur lög og boðið verður upp á veglegar kaffiveitingar.

Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna og taka þátt í dagskránni.

27
Apr

Fréttabréf Verkalýðsfélags Akraness er komið út

Fréttabréf Verkalýðsfélags Akraness er komið út og verður því dreift á öll heimili á Akranesi og í nágrenni í dag og á mánudaginn. Þeir félagsmenn sem búa utan póstnúmera 300 og 301 fá fréttabréfið sent heim til sín.

Meðal efni blaðsins er viðtal við Sigurð Guðjónsson, formann Iðnsveinadeildar VLFA, pistill um sögu 1. maí og ýmsar upplýsingar um þjónustu og starfsemi félagsins.

Hægt er að lesa fréttabréfið með því að smella hér. Undir hnappinum "Fréttabréf" hér hægra megin á síðunni má sjá öll Fréttabréf Verkalýðsfélags Akraness frá upphafi.

26
Apr

Félagsmanni dæmdar 320.000 vegna kjarasamningsbrots

Í dag féll dómur í Héraðsdómi Vesturlands í máli félagsmanns Verkalýðsfélags Akraness vegna brota á hvíldarákvæði í kjarasamningi. Málavextir voru þeir að starfsmaður sem var að vinna á veitingastað hér í bæ árið 2009 leitaði til félagsins vegna brota á hvíldarákvæðum. Eftir að félagið hafði farið yfir málið og reynt að ná niðurstöðu við eiganda veitingastaðarins án árangurs var málinu vísað til lögmanns félagsins.

Krafa lögmannsins fyrir hönd starfsmannsins var að hún fengi greidda hvíldartímana eins og kjarasamningar kveða á um og nam sú krafa rúmum 256 þúsund krónum. Það er skemmst frá því að segja að dómurinn tók kröfur lögmanns félagsins allar til greina og voru starfsmanninum dæmdar rúmar 256 þúsund krónur auk dráttarvaxta sem þýðir að starfsmaðurinn mun fá rúmar 320 þúsund krónur greiddar vegna þessa brota fyrirtækisins. Einnig var rekstraraðili veitingastaðarins dæmdur til að greiða málskostnað starfsmannsins að fjárhæð 650 þúsund krónur.

Það er stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að fara í öll mál af fullri hörku þegar um kjarasamningsbrot er að ræða gagnvart okkar félagsmönnum. Og það var gert í þessu máli, eftir að búið var að leita allra leiða til að ná sátt við viðkomandi atvinnurekanda án árangurs eins og áður sagði. Það er líka morgunljóst að félagið mun ekki horfa í krónur og aura þegar réttindi okkar félagsmanna eru í húfi.

Hægt er að lesa dóminn með því að smella hér.

26
Apr

Atvinnu- og nýsköpunarhelgi á Akranesi

Nú um helgina, 27. til 29. apríl, fer fram svokölluð Atvinnu- og nýsköpunarhelgi á Akranesi í húsnæði Fjölbrautaskóla Vesturlands. Tilgangurinn með þessum viðburði er að hjálpa hugmyndum fólks að verða að veruleika. Umsjónaraðili verkefnisins er Innovit nýsköpunar- og frumkvöðlasetur og er viðburðurinn haldinn í samstarfi við Akraneskaupstað.

Viðburðurinn er að erlendri fyrirmynd sem reynst hefur vel og eru viðlíka helgar haldnar um allan heim. Markmið helganna er að virkja fólk til athafna og er hver helgi hugsuð sem vettvangur fyrir þá sem langar að koma eigin viðskiptahugmynd í framkvæmd eða taka þátt í uppbyggingu hugmynda annarra. Viðburðirnir standa yfir frá föstudegi til sunnudags og þar fá þátttakendur tækifæri til að vinna að hugmyndum sínum og njóta leiðsagnar og innblásturs frá sérfróðum aðilum.  

Vegleg verðlaun verða veitt fyrir bestu verkefnin,  enginn kostnaður er við þátttöku og  aldurstakmark er 18 ára. Á viðburðunum fá þátttakendur tækifæri til þess að vinna saman að frumgerð vöru eða þjónustu sem síðar getur orðið að fullvaxta fyrirtæki. Þetta er því kjörið tækifæri fyrir þá sem langar að koma hugmynd sinni í framkvæmd og fá til þess aðstoð sér að kostnaðarlausu.

Hér má sjá auglýsingu um atvinnu- og nýsköpunarhelgina.

25
Apr

Aðalfundur félagsins haldinn í gær

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í gær og er óhætt að segja að afkoma félagsins á síðasta ári hafi verið mjög góð en rekstrarafgangur var á félaginu sem nemur 73 milljónum króna. Félagstekjur jukust um tæp 7% á milli ára sem má að hluta til rekja til þess að fjöldi fólks vítt og breitt um landið hefur gengið í félagið á síðastliðnu ári. 

Formaður rifjaði það upp að þegar ný stjórn tók við Verkalýðsfélagi Akraness þann 19. nóvember 2003 þá var félagið fjárvana og í algjörri tilvistarkreppu. Sem dæmi var félagssjóður rekinn á 2,5 milljóna króna yfirdrætti eða með öðrum orðum, félagssjóður átti ekki fyrir daglegum rekstri. Sem betur fer hefur nýrri stjórn tekist að byggja félagið upp fjárhagslega sem félagslega því ekkert stéttarfélag getur veitt góða þjónustu nema vera fjárhagslega og félagslega sterkt.

Þessi góða afkoma hefur verið notuð í að bæta þjónustu við félagsmenn og auka hin ýmsu réttindi þeirra. Þetta birtist meðal annars í 9 nýjum styrkjum úr sjúkrasjóði frá því núverandi stjórn tók við ásamt fjölmörgum öðrum réttindum sem félagsmönnum nú býðst. Einnig fjárfesti félagið í nýjum og glæsilegum bústað í Kjós í Hvalfirði vegna fjölgunar félagsmanna og er óhætt að segja að þessi nýi bústaður hefur fallið vel í kramið hjá félagsmönnum enda afar glæsilegur eins og áður sagði.

Formaður gerði grein fyrir starfseminni á síðasta ári en óhætt er að segja að síðasta ár hafi verið afar yfirgripsmikið enda voru allir kjarasamningar félagsins lausir á síðasta ári. Gríðarleg barátta var vegna margra þeirra samninga sem félagið var með og nægir að nefna í því samhengi að félagið lét kjósa um verkfallsheimild í tveimur þessara samninga en það var annars vegar í Síldarbræðslunni og hins vegar hjá starfsmönnum Klafa á Grundartanga. Einnig voru mikil átök við kjarasamningsgerðina fyrir starfsmenn Elkem Ísland og Norðurál. Formaður fór á fundinum yfir samræmdu launastefnuna sem mótuð hafði verið hjá Samtökum atvinnulífsins og ASÍ, launastefnu sem byggðist á því að samið yrði um sömu launahækkanir fyrir alla launþega, algjörlega óháð getu hverrar atvinnugreinar fyrir sig. Það kom fram í máli formanns að vegna samræmdu launastefnunnar hafi félagið slitið sig alfarið frá kjarasamningsgerð með ASÍ með því að taka samningsumboðið til félagsins. Sem betur fer náðist að brjóta samræmdu launastefnuna á bak aftur hvað varðar stóriðjufyrirtækin á Grundartanga en hins vegar tókst það ekki á hinum almenna vinnumarkaði. Það kom einnig fram í máli formanns að það sé nöturlegt til þess að vita að ASÍ skuli hafa lagt stein í götu þess að lagfæra og leiðrétta laun fiskvinnslufólks á grundvelli sterkrar stöðu útgerðarinnar vegna gengisfalls íslensku krónunnar. En á þeim bænum vildu menn að fiskvinnslufólk yrði inni í svokallaðri samræmdri launastefnu.

Það var afar ánægjulegt fyrir starfsmenn og stjórn félagsins að heyra þau hlýju orð sem fundarmenn létu falla í garð félagsins enda gerir slíkt ekkert annað en að hvetja okkur enn frekar til dáða við að bæta réttindi og hagsmunagæslu fyrir okkar félagsmenn enda er það stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að vera það stéttarfélag sem býður félagsmönnum sínum upp á bestu þjónustu sem völ er á.

20
Apr

Aðalfundur 2012

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn þriðjudaginn 24. apríl kl. 18:00 á Gamla Kaupfélaginu, Kirkjubraut 11, Akranesi, eins og áður hefur verið auglýst.

Dagskrá:

1.      Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár. 

2.      Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu. 

3.      Kosningar sem þurfa að fara fram á aðalfundi samkvæmt 28. grein laga félagsins.

4.      Ákvörðun félagsgjalda.

5.      Breytingar á grein 12.4 í reglugerð sjúkrasjóðs.

6.      Breytingar á 1. og 2. gr. laga félagsins

7.      Önnur mál.

 

Á aðalfundi verða ekki afgreiddar með atkvæðagreiðslu aðrar tillögur og ályktanir en þær sem borist hafa til skrifstofu félagsins 5 dögum fyrir aðalfund eins og 28. grein laga félagsins kveður á um. 

Ársreikningur félagsins mun liggja frammi á skrifstofu félagsins viku fyrir aðalfund. Komi tillögur eða ályktanir fram þá munu þær liggja frammi á skrifstofu félagsins og verða einnig  kynntar á heimasíðu félagsins.

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að mæta.

Boðið verður upp á kvöldverð eftir fundinn.

18
Apr

Er atvinnuöryggi fiskvinnslufólks og sjómanna stefnt í hættu?

Notum svigrúmið sem útgerðin hefur til að lagfæra launakjör fiskvinnslufólks.Notum svigrúmið sem útgerðin hefur til að lagfæra launakjör fiskvinnslufólks.Stjórn Verkalýðsfélags Akraness getur ekki undir nokkrum kringumstæðum stutt lagafrumvörp um stjórn fiskveiða og um veiðileyfagjald á meðan ekki hefur farið fram ítarleg rannsókn á hvaða áhrif þessi frumvörp hafa á atvinnuöryggi og kjör fiskvinnslufólks, sjómanna og síðast en ekki síst á byggðir þessa lands.

Rétt er geta þess að hundruð félagsmanna VLFA starfa í sjávarútvegsgreinum bæði til sjós og lands og því eru miklir hagsmunir í húfi fyrir félagsmenn VLFA að ekki sé verið að gera þannig breytingar á stjórnun fiskveiða að þær ógni atvinnuöryggi þeirra sem starfa í greininni. 

Því ítrekar stjórn VLFA það að félagið getur ekki stutt þessi frumvörp og telur það í raun og veru ámælisvert að leggja þau fram án þess að kanna hver áhrifin eru á atvinnuöryggi og kjör þeirra sem starfa í greininni.

Það er mat félagsins að það svigrúm sem útgerðin hefur, verði notað til að lagfæra og leiðrétta launakjör fiskvinnslufólks, en þau eru verkalýðshreyfingunni, Samtökum atvinnulífsins og útgerðinni til ævarandi skammar.

Rétt er að upplýsa að heildarlaun sérhæfðs fiskvinnslumanns  eftir 15 ára starf eru einungis 230.000 kr.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness veltir því fyrir sér hvort fyrirhugað auðlindagjald sé af sama meiði og kolefnisskatturinn sem átti m.a að leggja á Elkem Ísland fyrir áramót, en sú skattlagning stefndi atvinnuöryggi þeirra sem þar störfuðu í algjöra óvissu eins og frægt var.

Að þessu sögðu þá krefst félagið þess að fram fari ítarleg óháð rannsókn á því hver áhrifin af þessum frumvörpum verða á atvinnuöryggi og kjör fiskvinnslufólks og sjómanna í byggðum þessa lands.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image