• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Sep

Formenn þeirra félaga sem eiga aðild að kjarasamningi við Íslenska járnblendifélagið funda á morgun

Ákveðið hefur verið að formenn þeirra félaga sem eiga aðild að kjarasamningi við Íslenska Járnblendifélagið, hittist á morgun, fundurinn verður í húsakynnum Rafiðnarsambandsins.  Á fundinum verður farið yfir málin sem lúta að GT Tækni, Fangi og Klafa. Öll félögin hafa mikilla hagsmuni að gæta fyrir sína félagsmenn í þessu máli.  

 

Verkalýðsfélag Akraness er mjög uggandi yfir þeirri þróun sem átt hefur sér stað á liðnum árum á Grundartangasvæðinu. 

Það liggur alveg ljóst fyrir hvað vakir fyrir eigendum Íslenska járnblendifélagsins, þeir eru búnir að stofna þrjú dótturfélög utanum eigin starfsemi, með það eitt í huga að reyna að komast hjá því að greiða eftir kjarasamningi Íslenska járnblendifélagsins.  Þess í stað ætla þeir sér að greiða eftir kjarasamningum sem gerðir hafa verið á hinum almenna vinnumarkaði.  Þess má geta að það eru mun lakari kjarasamningar  heldur en kjarasamningur Íslenska járnblendifélagsins.

Lögmaður félagsins segir í lögfræðilegu áliti sem hann gerði fyrir stjórn félagsins vegna þessa máls:

Þá er það almennt vinnuréttarlegt sjónarmið að vinnuveitandi geti ekki komist undan ákvæðum kjarasamninga með því einu að breyta rekstarformi eða aðild að rekstareiningunni.”

Það er einmitt það sem eigendur Íslenska járnblendifélagsins eru að gera og það ætla félögin ekki að líða og munu á fundinum á morgun ræða hvaða aðgerða verður gripið til. 

Þá mun formaður félagsins hitta starfsmenn Fangs og fara yfir málin með þeim.  Þá er það mat eiganda Fangs að samningar við starfsmenn Fangs séu ekki lausir 30. nóvember eins og ráðningarsamningur starfsmanna segir til um.  Eigendur Fangs sem er “Íslenska járnblendifélagið” telja að kjarasamningur á almenna markaðnum sem var undirritaður 1. mars 2004 muni gilda.  Þetta ákvæði settu eigendur Fangs inn í ráðningasamninga starfsmanna algerlega án samráðs við stéttarfélögin.  Að halda því fram að þetta sé heimilt er fásinna.

26
Sep

Stjórnin fær lögfræðilegt álit vegna Klafa ehf. og Fang ehf

Til stjórnarfundar hefur verið boðað  mánudaginn 27. september n.k.  Tilefni fundarins er sú blákalda staðreynd að Klafi ehf. og Fang ehf. hafa bæði hafnað að gera viðræðuáætlun við Verkalýðsfélag Akraness.  Reyndar hafa eigendur Fangs gengið mun lengra og telja að samningar séu ekki lausir og því ekkert til að semja um.  Það er þannig að starfsmenn Fangs eru með ráðningarsamning sem vísar beint í kjarasamning Íslenska járnblendifélagsins og rennur samningur ÍJ út 30. nóvember n.k.

Í ráðningarsamningi sem gerður var við starfsmenn Fangs segir í 4. gr “Um kjör að öðru leyti en í ráðningasamningi þessum greinir fer skv. Kjarasamningi Íslenska járnblendifélagsins.  Sú kjarasamningsviðmiðun fellur niður 30. nóvember 2004 þegar kjarasamningur ÍJ fellur úr gildi.  Frá 1. desember 2004 skulu kjör að öðru leyti fara samkvæmt gildandi samningi við Samtök atvinnulífsins og Verkalýðsfélags Akraness/Harðar í Hvalfirði/Verslunarmannafélags Reykjavíkur.  Persónubundinn kjör lækka ekki nema með að undangenginni uppsögn þessa samnings”

Forsvarsmenn Fangs gerðu ráðningarsamninga við starfsmenn og eins og fram kemur í ráðningarsamningi við starfsmennina mun allt annar kjarasamningur gilda eftir að samningur við Íslenska járnblendifélagið rennur út 30. nóvember.  Ekkert skriflegt finnst um aðkomu Verkalýðsfélags Akraness að þessu máli.

Í ljósi þessara staðreynda hafði félagið samband við lögmann félagsins og bað um álit á málefnum Klafa og Fangs, hvort þessi framkvæmd stæðist lög.  Lögmaður félagsins skilaði 5 síðna álitsgerð um þessi mál og kemur fram hjá honum að þetta standist ekki lög að hans mati. 

Lögmaðurinn segir á einum stað í áliti sínu orðrétt.

“Fang ehf. hefur í ráðningarsamningi sínum tekið fram að samningurinn við Íslenska járnblendifélagið falli úr gildi 1. des 2004 og skuli frá þeim tíma gilda aðrir kjarasamningar.  Ljóst er að Fang ehf. getur ekki einhliða ákveðið þessa breytingu.  Orðalag í ráðningarsamningi skiptir þar engu máli.  Nægir þar að vísa til 7. gr. laga nr. 80/1938 þar sem tekið er fram að samningar einstakra  verkamanna  við atvinnurekendur eru ógildir að svo miklu leyti sem þeir fara í bága við samninga stéttarfélagsins við atvinnurekandann, enda hafi félagið ekki samþykkt þá.”

Það  liggur alveg orðið ljóst fyrir hvað eigendur þessara umræddu fyrirtækja ætla sér, það er að komast hjá því að greiða eftir kjarasamningi Íslenska járnblendifélagsins og þess í stað að greiða eftir samningum sem gerðir hafa verið á hinum almenna vinnumarkaði, sem eru umtalsvert lakari en þau kjör sem eru í kjarasamningi Íslenska járnblendifélagsins.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness mun á fundinum á mánudaginn fara yfir álit lögmannsins og ákveða í framhaldinu hver næstu skref verða.   Það eru töluverðar líkur á að þessu máli verði vísað til félagsdóms.

Lögmaður VLFA lítur þetta mál mjög alvarlegum augum og sagði við formann félagsins að stéttarfélag sem léti svona mál afskiptalaust væri ekki að sinna sínum skyldum.

24
Sep

Fundað með starfsmönnum Íslenska járnblendifélagsins

Undirbúningur að kjarasamningi við Íslenska járnblendifélagið hófst af fullum krafti í gær.  Samningurinn rennur út 30. nóvember 2004.  Formaður félagsins ásamt trúnaðarmanni ÍJ Jóni Karli Halldórssyni munu funda með öllum vaktamönnum ÍJ á næstu dögum.  Fyrsti fundurinn var haldinn í gær og þá kom A vaktin til að fara yfir komandi kjarasamningsgerð, mikil samstaða ríkti á fundinum og telja starfsmenn að margt þurfi að færa til betri vegar.    Ætla starfsmenn að nota næstu daga til að móta kröfugerðina.

Eins og kemur fram í viðræðuáætluninni sem gerð hefur verið, þá á að vera búið að kynna meginmarkmið fyrir komandi samningsgerð eigi síðar en 15. október.  Sérmál önnur en kaupliðir verði búið að kynna fyrir 1. nóvember, og kaupliðina verði byrjað að ræða um eigi síðar en 15. nóvember.  Hafi samningar ekki tekist fyrir 30. nóvember er hvorum aðila heimilt að vísa málinu til ríkisáttasemjara.  Næsti fundur verður með C og E vakt verður hann haldinn þriðjudaginn 28. september, fundurinn verður haldinn að Kirkjubraut 40.

21
Sep

Fundur með starfsmönnum Íslenska járnblendifélagsins

Verkalýðsfélag Akraness mun ásamt trúnaðarmanni Íslenska járnblendifélagsins halda fund með þeim starfsmönnum sem starfa við vaktavinnu hjá ÍJ.  Fundurinn verður haldinn  fimmtudaginn 23. september að Kirkjubraut 40.  Tilefni fundarins er að fara yfir komandi samningagerð við Íslenska járnblendifélagið, og eins hvaða kjaraatriði menn vilja leggja mestu áherslu á í komandi kjarasamningum.

Það liggur líka orðið nokkuð ljóst fyrir að tryggja þarf að kjarasamningur Íslenska járnblendifélagsins gildi sem lágmarkskjör á svæðinu, því sagan segir okkur að margt er að varast í þeim efnum, og er það vægt til orða tekið.  Ekki þarf nema að skoða hvað hefur verið að gerast á okkar athafnasvæði á undanförnum árum.  Eigendur ÍJ eru að reyna  að komast hjá því að greiða eftir kjarasamningi ÍJ með því að úthýsa hinum ýmsu störfum sem unnin hafa verið af starfsmönnum ÍJ árum saman, og stofna ný fyrirtæki utan um þessi störf, og ætla síðan að láta kjarasamning milli SGS og SA frá því 1. mars 2004 gilda fyrir starfsmenn, en ekki kjarasamning Íslenska járnblendifélagsins  .  Launamunur á milli þessara tveggja kjarasamninga er gríðarlegur og mun Verkalýðsfélag Akraness gera allt til að þær fyrirætlanir gangi ekki upp hjá eigendum Íslenska járnblendifélagsins.

16
Sep

Dagsferð með eldri félagsmenn heppnaðist mjög vel

Í dag var farin hin árlega ferð þar sem Verkalýðsfélag Akraness bauð eldri félagsmönnum í dagsferð. Um 108 eldri félagsmenn þáðu boð félagsins og komu með í þessa ferð.  Ferðatilhögun var þannig að byrjað var á því að stoppa í Reykholti þar sem Geir Waage prestur tók á móti okkur, og hélt fyrirlestur um það sem fyrir augu bar.  Þegar Geir Waage hafði farið yfir sögu Reykholts, var snæddur hádegisverður á Hótel Reykholti.

Síðan lá leiðin að Hraunfossum og var gert stutt stopp þar og menn dáðust að þeirri fegurð sem þar er.  Leiðin lá síðan yfir Kaldadal og niður á Þingvöll og var peningagjá skoðuð, þegar því var lokið var skundað á Hótel Vallhöll, þar sem boðið var uppá kaffi og meðlæti.  Þaðan var ekið  í Mosfellsbæ þar sem bæjarstjóri Mosfellsbæjar Ragnheiður Ríkharðsdóttir (skagakona)  tók á móti okkur og hafði bæjarstjórinn fengið kór eldri borgara til að syngja fyrir okkur.  Var þessi móttaka bæjarstjórans frábær og kann Verkalýðsfélag Akraness henni bestu þakkir fyrir.  Leiðsögumaður í þessari ferð var Björn Finsen og verður að segjast alveg eins og er að hann fór á kostum í þessari ferð.  Hér er mikill sagnabrunnur á ferð, gerði hann góða ferð enn betri.  Vill Verkalýðsfélag Akraness þakka Birni kærlega fyrir hans framlag.  Þeir sem voru fulltrúar félagsins í þessari ferð voru Vilhjálmur Birgisson formaður félagsins, Hugrún Olga Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri, Auður Ásgeirsdóttir varaformaður félagsins og Sigríður Sæmundsdóttir í stjórn orlofssjóðs.  Hægt er að skoða myndir úr ferðinni með því að smella á myndir og velja síðan flokk sem heitir Ferð eldri félagsmanna.

15
Sep

Stjórn og trúnaðarráð fundaði í kvöld

Fundur var haldinn í stjórn og trúnaðarráðu félagsins í kvöld.  Á dagskrá fundarins voru um 8 mál til umfjöllunar.  Formaður félagsins boðaði trúnaðarmenn Klafa á fundinn.  Var það gert til að meta stöðuna betur  sem upp er komin eftir að eigendur Klafa neituðu að greiða ágóðahlutdeild til starfsmanna Klafa.  Voru þær umræður afar gagnlegar og er stjórn og trúnaðarráð ákveðið að standa vel við bakið á starfsmönnum í þessu máli.   

80 ára afmæli félagsins sem er 14 október 2004 var líka til umræðu og var upplýst að undirbúningur að dagskrá afmælisins myndi hefjast fljótlega, ýmsar hugmyndir komu fram og mun verða unnið úr þeim.  Formaður félagsins gerði grein fyrir þeim sérkjarasamningum sem félagið hefur  lokið við að gera, eins hvaða kjarasamningum ætti eftir að ljúka, en það eru allar stóriðjurnar. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image