• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Oct

Áhöfn Víkings AK 100 skorar á áhöfn Sólbaks EA að fara eftir gildandi samningum

Verkalýðsfélagi Akraness barst fax frá áhöfninni á Víkingi AK 100.  Óskaði áhöfnin eftir því að skrifstofa félagsins kæmi áskoruninni sem skipverjar voru búnir að samþykkja til fjölmiðla og áhafnar á Sólbaki EA.  Áskorunin hljóðar svona:

Áhöfn Víkings AK 100 skorar á áhöfn Sólbaks EA að fara að gildandi samningum og hunsa sérsamninga Brims sem eru í óþökk okkar allra.  Við sjómenn verðum að standa vörð um hag okkar "

Sendist til fjölmiðla,

og áhafnar Sólbaks EA                       Áhöfnin á Víkingi Ak 100

Áhöfnin á Haraldi Böðvarsyni AK hefur einnig sent frá sér stuðningsyfirlýsingu við sjómannasamtökin.

Í yfirlýsingu frá skipverjum á Haraldi Böðvarssyni AK segir að ef Sólbakssamningurinn gangi eftir þá sé ekkert annað eftir en lögleiða þrælahald.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness er stolt af sínum sjómönnum sem styðja sjómannasamtökin  í þessari erfiðu deilu við forsvarsmenn Brims.  Takk kærlega fyrir. 

08
Oct

Formaður félagsins heimsótti starfsmenn Íslenska járnblendifélagsins í gærkveldi

Formaður félagsins fór í vinnustaðaheimsókn til Íslenska járnblendifélagsins í gærkveldi.  Formaðurinn fór til að sjá starfsmenn að störfum og við hvaða aðstæður þeir vinna við.  Heimsóknin var afar áhugaverð og menn ræddu hin ýmsu mál, t.d. komandi kjarasamninga en kjarasamningur Íslenska járnblendifélagsins verður laus 30. nóvember nk.  Það er og verður stefna stjórnar félagsins að vera í góðu sambandi við sína félagsmenn og er þessi heimsókn einn liður í þeirri stefnu.

07
Oct

Formaður og framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins komu í heimsókn í dag

Halldór Björnsson formaður Starfsgreinasambands Íslands og Skúli Thoroddsen framkvæmdastjóri SGS komu í heimsókn í dag á skrifstofu félagsins.  Tilefni heimsóknarinnar var að heyra í stjórn félagsins og fara yfir komandi ársfund Starfsgreinasambandsins sem verður haldinn  14. og 15. október n.k.  Menn fóru yfir þá alvarlegu atburði sem hafa verið að gerast í málefnum Brims og hvernig best væri að bregðast við. 

Formaður félagsins fór yfir hvað hefur verið að gerast og hvað hefur áunnist í starfsemi félagsins frá því ný stjórn tók við 19. nóvember 2003.  Sagði formaður VLFA að miðað við þær hremmingar sem félagið hefur gengið í gegnum á liðnum árum hafi stjórn félagsins tekist að færa margt til betri vegar og starfsemi félagsins hefur tekið algjörum stakkaskiptum á þessu tæpa ári frá því ný stjórn tók við.  Stjórn félagsins bauð þeim félögum Halldóri og Skúla upp á súpu og nautapottrétt sem menn voru afar ánægðir með.  Halldór Björnsson mun láta af formennsku í Starfsgreinasambandinu á ársfundinum 14. október, af því tilefni gaf Verkalýðsfélag Akraness Halldóri bókina um sögu Akraness í þakklætisskyni fyrir það góða samstarf sem hann hefur átt við Verkalýðsfélag Akraness á liðnum árum, og óskaði formaður félagsins Halldóri alls hins besta á komandi árum.

06
Oct

Viðræður um nýjan kjarasamning við Norðurál hefjast 18. október

Haldinn var fundur í dag með forsvarsmönnum Norðuráls, fundinn sátu allir formenn þeirra félaga sem eiga aðild að samningnum, ásamt aðaltrúnaðarmanni Norðuráls.  Á fundinum voru lögð fram drög að viðræðuáætlun.  Þá var tekin ákvörðun um  að hefja samningaviðræður vegna nýs kjarasamnings mánudaginn 18. október kl. 10:00.  Aðilar voru sammála um að byrja að ræða gildisvið samningsins og einnig vaktafyrirkomulag. 

05
Oct

Stuðningsyfirlýsing við aðgerðir gegn Brimi

Stjórn Verkalýðsfélag Akraness lýsir yfir fullum stuðningi við forystumenn sjómannasamtakanna í þeim aðgerðum sem nú standa yfir gegn forsvarsmönnum Brims.

Jafnframt hvetur stjórn Verkalýðsfélags Akraness verkalýðshreyfinguna í heild sinni til lýsa yfir stuðningi við aðgerðir forystumanna sjómannasamtakanna í málefnum Brims.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness telur að það þurfi að svara þessari árás forsvarsmanna Brims á skipulagða verkalýðshreyfingu af  fullri hörku.

 

04
Oct

Fiskvinnslunámskeið fyrirhugað um miðjan nóvember

Hafinn er undirbúningur að halda fiskvinnslunámskeið um miðjan nóvember.  Verkalýðsfélag Akraness mun auglýsa þetta námskeið vel, því það er til töluverðs að vinna, því að afloknu námskeiði hækkar starfsmaðurinn um tvo launaflokka.  Námskeiðið verður unnið í fullri samvinnu við atvinnurekendur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image