• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
Sep

Dagsferð með eldri félagsmenn heppnaðist mjög vel

Í dag var farin hin árlega ferð þar sem Verkalýðsfélag Akraness bauð eldri félagsmönnum í dagsferð. Um 108 eldri félagsmenn þáðu boð félagsins og komu með í þessa ferð.  Ferðatilhögun var þannig að byrjað var á því að stoppa í Reykholti þar sem Geir Waage prestur tók á móti okkur, og hélt fyrirlestur um það sem fyrir augu bar.  Þegar Geir Waage hafði farið yfir sögu Reykholts, var snæddur hádegisverður á Hótel Reykholti.

Síðan lá leiðin að Hraunfossum og var gert stutt stopp þar og menn dáðust að þeirri fegurð sem þar er.  Leiðin lá síðan yfir Kaldadal og niður á Þingvöll og var peningagjá skoðuð, þegar því var lokið var skundað á Hótel Vallhöll, þar sem boðið var uppá kaffi og meðlæti.  Þaðan var ekið  í Mosfellsbæ þar sem bæjarstjóri Mosfellsbæjar Ragnheiður Ríkharðsdóttir (skagakona)  tók á móti okkur og hafði bæjarstjórinn fengið kór eldri borgara til að syngja fyrir okkur.  Var þessi móttaka bæjarstjórans frábær og kann Verkalýðsfélag Akraness henni bestu þakkir fyrir.  Leiðsögumaður í þessari ferð var Björn Finsen og verður að segjast alveg eins og er að hann fór á kostum í þessari ferð.  Hér er mikill sagnabrunnur á ferð, gerði hann góða ferð enn betri.  Vill Verkalýðsfélag Akraness þakka Birni kærlega fyrir hans framlag.  Þeir sem voru fulltrúar félagsins í þessari ferð voru Vilhjálmur Birgisson formaður félagsins, Hugrún Olga Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri, Auður Ásgeirsdóttir varaformaður félagsins og Sigríður Sæmundsdóttir í stjórn orlofssjóðs.  Hægt er að skoða myndir úr ferðinni með því að smella á myndir og velja síðan flokk sem heitir Ferð eldri félagsmanna.

15
Sep

Stjórn og trúnaðarráð fundaði í kvöld

Fundur var haldinn í stjórn og trúnaðarráðu félagsins í kvöld.  Á dagskrá fundarins voru um 8 mál til umfjöllunar.  Formaður félagsins boðaði trúnaðarmenn Klafa á fundinn.  Var það gert til að meta stöðuna betur  sem upp er komin eftir að eigendur Klafa neituðu að greiða ágóðahlutdeild til starfsmanna Klafa.  Voru þær umræður afar gagnlegar og er stjórn og trúnaðarráð ákveðið að standa vel við bakið á starfsmönnum í þessu máli.   

80 ára afmæli félagsins sem er 14 október 2004 var líka til umræðu og var upplýst að undirbúningur að dagskrá afmælisins myndi hefjast fljótlega, ýmsar hugmyndir komu fram og mun verða unnið úr þeim.  Formaður félagsins gerði grein fyrir þeim sérkjarasamningum sem félagið hefur  lokið við að gera, eins hvaða kjarasamningum ætti eftir að ljúka, en það eru allar stóriðjurnar. 

13
Sep

Trúnaðarmenn Norðuráls funda með formönnum stéttarfélaganna

Fundur verður haldinn með trúnaðarmönnum Norðuráls og formönnum þeirra félaga sem eiga aðild að kjarasamningi við Norðurál á miðvikudaginn nk.  Á fundinum mun verða farið yfir þá vinnu sem trúnaðarmenn Norðuráls hafa verið að gera að undanförnu.  Ennfremur verður að öllum líkindum ákveðið hverjir munu sitja í samninganefndinni í komandi samningagerð, fyrir hönd stéttafélaganna.  

Eins verður að öllum líkindum fjallað um hvernig skuli staðið kosningu, um hvaða vaktakerfi starfsmenn vilja leggja upp með í komandi samningagerð, valið stendur á milli 12 eða 8 tíma vaktakerfa.  Það er vilji Verkalýðsfélags Akraness að haldinn verði fundur með starfsmönnum og þessi tvö vaktakerfi kynnt vel, og í framhaldi kosið um hvort kerfið menn vilja.  Eins telur félagið að það þurfi á þessum fundi að kynna fyrir starfsmönnum niðurstöðu úr launasamanburði sem gerður var á milli þriggja verksmiðja þ.e Norðurál, Ísal og Íslenska járnblendifélagsins.

13
Sep

Góð samstaða hjá starfsmönnum Klafa

Formaður  fundaði með starfsmönnum Klafa í dag þar sem farið var yfir þá staðreynd að eigendur Klafa hafna alfarið að greiða sambærilega bónusgreiðslu og starfsmenn Íslenska járnblendifélagsins fengu í ágúst sl.  Það var eðlilega afar þungt hljóðið í starfsmönnum Klafa.  En góð samstaða var hjá starfsmönnum um að leita réttar síns í máli þessu.

Það er skoðun starfsmanna að hér sé klárlega verið að brjóta á kjarasamningi sem gerður hefur verið við þá.  Formaður félagsins hefur boðað trúnaðarmenn Klafa á fund með stjórn og trúnaðarráði félagsins sem haldinn verður á miðvikudaginn 16 september nk.  Þar verður farið yfir málið í heild sinni og kynnt verður álit lögmanns félagsins á því hvað hann telur að gera eigi í þessari stöðu sem upp er komin.  Eitt er alveg víst að þessi afstaða hjá eigendum Klafa að greiða ekki umrædda bónusgreiðslu mun ekki auðvelda komandi kjarasamningagerð sem er framundan er, nema síður sé.

09
Sep

Klafi hafnar að greiða starfsmönnum bónusgreiðslu

Verkalýðsfélag Akranes hefur fengið svar við bréfi sem lögmaður félagins sendi forsvarsmönnum Klafa.  Félagið hafði krafist að starfsmenn Klafa fengu sömu eingreiðslu og starfsmenn Íslenska járnblendifélagsins fengu í ágúst, en þar fékk hver starfsmaður um 80 þúsund krónur eftir að Verkalýðsfélag Akraness hafði krafið forsvarsmenn ÍJ um að standa við bókun frá árinu 1998, bókunin veitti starfsmönnum rétt til ágóðahlutdeildar. 

Í svarbréfinu kemur fram að Klafi hafni með öllu að greiða starfsmönnum álíka greiðslu og starfsmenn ÍJ fengu, þeir telja sig ekki vera bundnir af bókun stjórnar ÍJ frá 1998.  Þegar starfsmenn Klafa voru ráðnir var gert samkomulag við Verkalýðsfélag Akraness  og Verkalýðsfélagið Hörður um hver launakjör starfsmanna skyldu vera.   Í því samkomulagi segir að kjarasamningur Íslenska járnblendifélagsins skuli gilda hvað varðar öll kjaraatriði.  Á grundvelli þessa samkomulags krafðist Verkalýðsfélag Akraness Klafa um sambærilega greiðslu til handa starfsmönnum Klafa.  Formaður félagsins fundaði með trúnaðarmanni Klafa í dag og voru þeir í sambandi við lögmann félagsins og voru þeir að meta stöðuna.  Ákveðið var að formaður félagsins fundi með starfsmönnum  mánudaginn 13. september og farið verði yfir stöðu mála.  Ekki er útilokað að félagið vísu þessu máli til dómstóla.  Sé einhver vafi á því að verið sé að brjóta á okkar félagsmönnum, þá mun stjórn félagsins gera allt sem í hennar valdi stendur til að fá þeim vafa eytt.  

07
Sep

Vetrarleigan að hefjast

Vetrarleiga orlofshúsa félagsins er nú að hefjast.  Þeir bústaðir sem leigðir eru út um helgar í vetur eru í Húsafelli, Svínadal, Hraunborgum, Hlíð og Ölfusborgum.

Helgin kostar kr. 7.500 fyrir félagsmenn og er þá miðað við þrjár nætur, þ.e. frá föstudegi til mánudags, nema í Hlíð, þar þarf að skila á hádegi á sunnudegi.  Tekið er við pöntunum á skrifstofu félagsins í alla bústaðina nema í Ölfusborgum.  Gert er ráð fyrir að leigutakar gangi frá leigusamningi og greiði leigugjaldið í síðasta lagi þremur dögum fyrir brottför.  Lyklar eru afhentir á skrifstofu félagsins, nema að Hlíð, þeir eru afhentir á bænum gegn framvísun leigusamnings.

Þeir sem óska eftir að fá bústað leigðan í Ölfusborgum panta hann hjá Afgreiðslu Ölfusborga í síma 483-4260 og fá nánari upplýsingar þar um fyrirkomulag greiðslu og afhendingu lykla.  Verðið fyrir helgina þar er kr. 8.500.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image