• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
24
Aug

Jóhann Ársælsson þingmaður Samfylkingarinnar í heimsókn

Jóhann Ársælsson þingmaður Samfylkingarinnar kom í heimsókn á skrifstofu félagsins og átti formaður félagsins um klukkustundar spjall við þingmanninn.  Þau mál sem helst báru á góma voru málefni er líta að erlendu vinnuafli og þau undirboð sem er að eiga sér stað á vinnumarkaðinum samhliða erlendu vinnuafli.   Að sjálfsögðu ræddi formaðurinn við þingmanninn um málefni HB Granda og þann samdrátt sem orðið hefur á starfssemi fyrirtækisins hér á Akranesi og þær áhyggjur sem félagið hefur af þeim samdrætti.

23
Aug

Fundað um málefni Síldar-og fiskimjölsverksmiðjunnar með starfsmönnum og stéttarfélaginu í dag

Forsvarsmenn HB Granda funduðu með starfsmönnum og formanni VLFA um  framtíðarskipan Síldar-og fiskimjölverksmiðjunar í dag.  Fram kom í máli forsvarsmanna HB Granda að verksmiðjan hér á Akranesi er ætlað að gegna veigamiklu hlutverki á loðnuvertíðinni, en því miður kom líka fram að ekki er útlit á að kolmuna verði landað hér á Akranesi eins og gert hefur verið á liðnum árum.  Starfsmenn bræðslunnar voru ófeimnir við að láta í ljós óánægju sína með þá þróun sem átt hefur sér stað hvað varðar löndun á uppsjávarafla fyrirtækisins.  Starfsmenn bentu á að verksmiðjan hér á Akranesi er sú eina sem framleiðir hágæðamjöl.  Um þessar mundir fæst 10% meira fyrir hágæðamjöl miðað við standardmjöl.  Því er það mat félagsins og starfsmanna að það geti verið hagkvæmara að láta skipin sigla með aflann til bræðslu hér á Akranesi þar sem ekki er hægt að framleiða hágæðamjöl á Vopnafirði.   Nú eru aðilar að leita leiða til að halda í þá starfsmenn sem eftir eru í verksmiðjunni, því sú sérþekking sem starfsmennirnir búa yfir er eigendum HB Granda nauðsynlegur til að hægt sé að starfrækja síldarbræðsluna.  Ef eigendur fyrirtækisins ætla að halda í þá starfsmenn sem eftir eru verða þeir að koma til móts við þá með einum eða öðrum hætti.  Verkalýðsfélag Akraness lagði fram tillögu í þeim efnum á fundinum í dag og ætla forsvarsmenn HB Granda að svara þeirri tillögu eftir helgi.

22
Aug

Fundað um starfsemi Síldar-og fiskimjölsverksmiðjunnar á morgun

Forsvarsmenn HB Granda ætla að funda með starfsmönnum síldarbræðslunnar og formanni Verkalýðsfélagsins á morgun.  Tilefni fundarins er sú mikla óánægja starfsmanna með þann samdrátt sem orðið hefur á starfsemi síldarbræðslunnar á liðnu ári.  Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hafa tekjur starfsmanna dregist saman um allt að 56% á milli ára, er það vegna þess að megnið að uppsjávarafla fyrirtækisins hefur verðið landað á Vopnafirði en ekki hér á Akranesi . Nú þegar hafa 5 starfsmenn af 12 hætt störfum og þeir sem eftir eru eru að íhuga einnig að gera það sama.  Sú sérþekking sem starfsmenn Síldar-og fiskimjölsverksmiðjunnar búa yfir er fyrirtækinu afar mikilvæg.  Formaður félagsins og  trúnaðarmaður nefndu því við forsvarsmenn HB Granda á fundinum á miðvikudaginn, að fyrirtækið verði að mæta þeim mikla samdrætti á launum starfsmanna  með einum eða öðrum  hætti.  Væntanlega munu forsvarsmenn fyrirtækisins svara þessari beiðni félagsins á morgun.

22
Aug

Leiga orlofshúsa í vetur

Sumarútleigu orlofshúsa lýkur senn, eða 9. september nk.  Eftir það verða engir orlofspunktar dregnir frá inneign félagsmanna þó þeir taki bústað á leigu hjá félaginu. 

Félagsmenn eru hvattir til að nýta sér orlofshús félagsins í vetur, skella sér í Stykkishólm, Húsafell, Svínadal, Hraunborgir eða Ölfusborgir og hafa það notalegt í skammdeginu.

Sjá nánari upplýsingar um vetrarútleiguna undir flipanum Orlofshús.

18
Aug

Kristinn H Gunnarsson þingmaður Framsóknarflokksins hefur óskað eftir að funda með formanni Verkalýðsfélags Akraness

Kristinn H Gunnarsson þingmaður Framsóknarflokksins hefur óskað eftir að funda með formanni Verkalýðsfélags Akraness.  Ákveðið hefur verið að fundurinn verði á mánudaginn kemur og hefst hann kl. 10:00.   Formaður félagsins mun gera þingmanninum grein fyrir helstu málefnum sem félagið er að vinna að þessa stundina.  Að sjálfsögðu verður málið í kringum HB Granda það mál sem helst verður til umræðu á þessum fundi og þeim áhyggjum sem stéttarfélagið hefur af því máli.  Einnig ætlar formaðurinn að ræða við þingmanninn um  veggjaldið í Hvalfjarðagöngum en það er mat félagsins að hér sé um afar ósanngjarna skattheimtu um að ræða sem bitnar hvað harðast á Vestlendingum.   Það verður að segjast alveg eins og er að Verkalýðsfélag Akraness er afar ánægt með þann mikla áhuga sem þingmenn kjördæmisins sína Verkalýðsfélagi Akraness og starfsemi þess.  En í fyrradag voru þingmenn Frjálslyndaflokksins á fundi með formanni félagsins þar sem farið var yfir stöðu atvinnumála á okkar félagssvæði.

17
Aug

Víkingur Ak 100 fær að fara á síldveiðar !

Fundur sem Verkalýðsfélag Akraness óskaði eftir með forsvarsmönnum HB Granda var haldinn í morgun í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík.   Á fundinum voru fyrir hönd HB Granda Eggert B Guðmundsson  forstjóri,Vilhjálmur Vilhjálmsson  deildarstjóri uppsjávardeildar og Guðmundur Páll Jónsson starfsmannastjóri.  Frá Verkalýðsfélagi Akraness voru Vilhjálmur Birgisson formaður, Hjörtur Júlíusson trúnaðarmaður Víkings AK og Björgólfur Einarsson trúnaðarmaður síldarbræðslunnar.  Formaður félagsins fór yfir í hverju  áhyggjur starfsmanna síldarbræðslunnar og skipverja Víkings Ak væru fólgnar.  Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hafa tekjur starfsmanna bræðslunnar minkað um allt að 56% á milli ára, er það vegna þess að stórum hluta af uppsjávarafla fyrirtækisins hefur verið landað annarstaðar en á Akranesi.  Nú þegar hafa 5 af 12 starfsmönnum síldarbræðslunnar hætt störfum vegna þessa samdráttar og ljóst að þeir sem eftir eru munu hugsa sinn gang vel ef ekki verður einhver breyting á.  Forsvarsmenn HB Granda lýstu því yfir á fundinum í morgun að þeir vildu fyrir alla muni halda í þá starfsmenn síldarbræðslunnar sem eftir væru.  Því ljóst er að sú mikla þekking starfsmanna á þeim flókna búnaði verksmiðjunnar er fyrirtækinu nauðsynlegur.  Ákveðið var að funda með starfsmönnum  Síldar-og fiskimjölsverksmiðjunnar í næstu viku á þeim fundi verður farið yfir stöðuna eins og hún er í dag.  Það kom skýrt fram í máli forsvarsmanna fyrirtækisins að fullur vilji sé til að halda rekstri Síldar-og fiskimjölsverksmiðjunnar áfram á Akranesi.  Það sem var einna ánægjulegast við þennan fund í morgun var að forsvarsmenn HB Granda tilkynntu að þeir hefðu breytt fyrri ákvörðun sinni um að senda Víking Ak ekki til síldveiða.  Forsvarsmenn HB Granda tilkynntu hins vegar að  Víkingur muni halda til síldveiða í byrjun október og hefur heimild til að veiða um 3500 tonn, og er fyrirhugað að vinna allan þann afla til manneldis.

 Formaður félagsins sagði forsvarsmönnum HB Granda að stéttarfélagið hefði verulegar áhyggjur af þeirri þróun sem átt hafi sér stað að undanförnu.  Búið sé að leggja ísfisktogaranum Haraldi Böðvarssyni en 15 skipverjar voru á skipinu, búið sé að loka smíðaverkstæðinu, loka vélaverkstæðinu og setja rafmagnsverkstæðinu í verktöku.  Það eru  gríðarlega miklir hagsmunir í húfi fyrir allt samfélagið hér á Akranesi að ekki komi til frekari samdráttar heldur orðið er.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness sagði við forsvarsmenn HB Granda að stéttarfélagið myndi fylgjast vel með hvernig málin muni þróast hér á Akranesi og verður óspart á að láta í sér heyra ef hagsmunum okkar félagsmanna verður ógnað. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image