• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Oct

Enn og aftur ber eftirlit Verkalýðsfélags Akraness árangur með fyrirtækjum sem hafa erlent vinnuafl að störfum !

Enn og aftur bar eftirlit með erlendu vinnuafli árangur hjá Verkalýðsfélagi Akraness.  Fyrir nokkrum vikum fékk félagið ábendingu um að þýskir smiðir væru að störfum við byggingu á fjölbýlishúsi hér á Akranesi og grunur væri um að þeir væru ekki að fá greitt eftir réttum kjarasamningi.  Verkalýðsfélag Akraness fór á vinnustaðinn og kom þá í ljós að ábendingin átti við rök að styðjast.  Í framhaldinu óskaði félagið eftir launaseðlum og ráðningarsamningum af erlendu starfsmönnunum.  Fyrirtækið varð við ósk félagsins og afhenti umrædd gögn.  Kom þá í ljós þegar launaseðlar og ráðningarsamningar höfðu verið yfirfarnir, að ekki var verið að greiða eftir launataxta sem gildir fyrir smiði og vantaði þó nokkuð uppá.  Þýsku smiðirnir fengu greiddar 734 kr. í dagvinnu auk 208 kr. í fastan bónus á hvern dagvinnutíma.  Yfirvinnutímakaup þýsku smiðanna var einungis 1.332 kr. en átti að vera samkvæmt kjarasamningi 1.779 kr.  Það  vantaði  því 34% uppá að farið væri eftir þeim launatöxtum sem gilda fyrir umrædd störf.  Málið leystist í dag með samkomulagi og fá þýsku smiðirnir nú 988 kr. í dagvinnulaun og 1.779 kr. í yfirvinnu eins og kjarasamningur segir til um.  Þetta sýnir enn og aftur hversu mikilvægt það er fyrir verkalýðshreyfinguna að vera á varðbergi gegn þeim undirboðum  sem nú tröllríður íslenskum vinnumarkaði.  Þessi undirboð snúa nær eingöngu að erlendu vinnuafli.  Þetta fjórða tilfellið á stuttum tíma  sem Verkalýðsfélag Akraness kemst að því að íslensk fyrirtæki eru að reyna að komast hjá því að greiða eftir þeim kjarasamningum sem um hefur verið samið í þessu landi.  Sem er algerlega óviðunandi.

17
Oct

Fundað með forstjóra og aðstoðarforstjóra Íslenska járnblendifélagsins um hið nýja bónuskerfi starfsmanna ÍJ

Formaður félagsins og aðaltrúnarmaður Íslenska járnblendifélagsins funduðu á skrifstofu félagsins með forstjóra og aðstoðarforstjóra Íslenska járnblendifélagsins í dag.  Tilefni fundarins var að fara yfir hið nýja bónuskerfi sem tekið var upp samhliða nýjum kjarasamningi.  Nokkrir þættir bónussins hafa ekki verið að gefa það sem samningsaðilar vonuðust eftir.  Einnig var rædd á fundinum um hvernig túlka beri  umhverfisbónusinn en í síðustu úttekt voru atriði sem komu til lækkunar á bónusnum sem starfsmenn voru ekki á eitt sáttir um.  Formaður félagsins minnti á að samningsaðilar hafi verið sammála um þegar gengið var frá hinu nýja bónuskerfi,  að ryk og önnur óhreinindi skyldu ekki hafa áhrif á bónus starfsmanna.  Þessi fundur var afar gagnlegur og voru fundarmenn sammála um að gera allt til að hið nýja bónuskerfi virki sem allra best fyrir báða aðila.  Verkalýðsfélag Akraness mun ásamt aðaltrúnaðarmanni ÍJ funda með starfsmönnum fyrirtækisins fljótlega þar sem farið verður yfir hið nýja bónuskerfi og skoðað hvað hægt er að gera til að bónusinn gefi starfsmönnum sem mest.

14
Oct

Skrifað verður undir nýjan fyrirtækjasamning fyrir starfsmenn Fangs eftir helgi !

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fundaði með framkvæmdastjóra Fangs í gær útaf nýjum fyrirtækjasamningi fyrir starfsmenn Fangs.  Framkvæmdastjóri  Fangs tilkynnti að eigendur fyrirtækisins hafa gengið að þeim kröfum sem ágreiningur hafi staðið um, ef það yrði til þess að hægt væri að ganga frá nýjum samningi.  Skrifað verður undir nýjan fyrirtækjasamning strax eftir helgi.  Í nýjum fyrirtækjasamningi verða atriði eins og launatafla,vinnutími,matar og kaffitímar,fæði og fatnaður,launalaus leyfi,ferðapeningar,og orlofs og desemberuppbætur sem verða hvor um sig 96.704.   Þessi samningur er á mjög svipuðum nótum og kjarasamningur Íslenska járnblendifélagsins og Klafa hvað varðar kostnaðaráhrifin á samningstímanum sem er um 21% á samningstímanum. Einnig mun koma eingreiðsla til starfsmanna sem eru í fullu starfi.  Formaður félagsins mun funda með starfsmönnum á þriðjudaginn 18. október og kynna nýja fyrirtækjasamninginn.  Verkalýðsfélag Akraness er nokkuð sátt við þennan nýja fyrirtækjasamning og telur að báðir samningsaðilar geti verið vel sáttir. 

12
Oct

Trúnaðarmenn Þorgeirs og Ellerts óttast um starfsöryggi sitt vegna undirboða sem fylgja erlendum starfsmönnum sem hingað koma til starfa í gegnum erlendar starfsmannaleigur !

Trúnaðarmenn Þorgeirs og Ellerts óskuðu eftir því að funda með Verkalýðsfélagi Akraness og Félag iðn- og tæknigreina í dag.  Vildu trúnaðarmennirnir upplýsa stéttarfélögin um þær áhyggjur sem þeir og starfsmenn fyrirtækisins hafa vegna þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað að undanförnu og lítur að erlendu vinnuafli.  Þeir telja að starfsöryggi sínu sé illilega ógnað vegna þeirra undirboða sem fylgt hafa starfsmönnum sem koma hingað koma  til starfa,  í gegnum erlendar starfsmannaleigur.  Trúnaðarmennirnir segja réttilega, að þeirra fyrirtæki sé ekki samkeppnishæft við þau fyrirtæki sem eru með erlent vinnuafl og hafi þeirra fyrirtæki því orðið undir í útboðum að undanförnu.  Trúnaðarmennirnir  krefjast þess að stéttarfélögin kanni ítarlega hver launin séu hjá þeim erlendu starfsmönnum sem eru að störfum hér á okkar félagssvæði og hvort þeir séu með þá iðnmenntun sem til þarf.  Fram kom í máli trúnaðarmannanna að ef ekki verður hægt að fá upplýsingar um kaup og kjör þessara erlendu starfsmanna, þá verði stéttarfélögin að grípa til einhverja róttækra aðgerða. Verklýðsfélag Akraness mun klárlega fylgja þessu máli eftir af fullum þunga því starfsöryggi íslensks verkafólks og íslenskra iðnaðarmanna er í húfi.

10
Oct

Fundað um nýjan fyrirtækjasamning fyrir starfsmenn Fangs

Samningafundur var haldinn í morgun um nýjan fyrirtækjasamning fyrir starfsmenn Fangs.  Þetta var þriðji samningafundurinn sem haldinn er um nýjan fyrirtækjasamning.  Það eru örfá kjaraatriði sem útaf standa og ekki ólíklegt að gengið verði frá nýjum samningi í þessari viku.  Þau kjaraatriði sem liggja nú þegar fyrir í hinum væntanlega fyrirtækjasamningi eru atriði eins og launatafla, vinnutími, matar og kaffitímar,ferðapeningar,orlofs og desemberuppbætur.  Það sem stendur einna helst fyrir því að ekki sé hægt að ganga frá nýjum fyrirtækjasamningi er krafa starfsmanna um að sá bónus sem nú er í greiddur starfsmönnum haldi sér í nýjum samningi.  En það er skýlaus krafa stéttarfélagsins og starfsmanna að bónusinn verði tryggður með einum eða öðrum hætti í hinum nýja fyrirtækjasamningi. 

08
Oct

Formaður Verkalýðsfélags Akraness kjörinn varaformaður Matvælasviðs sambandsins

Vilhjálmur Birgisson formaður Verklýðsfélags Akraness var kjörinn varaformaður Matvælasviðs Starfsgreinasambands Íslands á ársfundi sambandsins sem haldinn var á Akureyri 6. og 7. október.  Formaður Matvælasviðs var kjörinn Aðalsteinn Baldursson. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image