• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
Aug

Formaður fundaði með framkvæmdastjóra Fangs í dag vegna nýs fyrirtækjasamnings

Formaður félagsins fundaði með framkvæmdastjóra Fangs ehf. í dag.  Tilefni fundarins var að  ræða hugsanlega útfærslu á fyrirtækjasamningi fyrir starfsmenn Fangs .  Fundurinn í dag var mjög góður og er félagið nokkuð bjartsýnt á að lausn finnist vonbráðar.  Formaður félagsins gerðir þó grein fyrir þeim kröfum sem starfsmenn og stéttarfélagið telja að þurfi klárlega að vera í nýjum fyrirtækjasamningi svo hægt sé að ganga frá nýjum samningi.  Eins og áður sagði þá finnur Verkalýðsfélag Akraness fyrir miklum samnings vilja hjá forsvarsmönnum Fangs.  Verkalýðsfélag Akraness mun samt sem áður standa fast á þeim kjaraatriðum sem skipta starfsmenn hvað mestu máli.  Einnig að almennar kauphækkanir verði með sambærilegum hætti og gerður voru í kjarasamningum Íslenska járnblendifélagsins og Klafa.

31
Jul

Verkalýðsfélag Akraness innheimti vangreidd laun upp á 1.5 milljón króna fyrir fyrrverandi starfsmenn Knarrar ehf

Fyrrverandi starfsmenn Knarrar ehf leituðu til Verkalýðsfélags Akraness  vegna vangreiddra launa, en fyrirtækið var tekið til gjaldþrotaskipta í desember 2004.  Óskuðu starfsmennirnir eftir aðstoð stéttarfélagsins við að ná launum sínum út hjá fyrirtækinu.  Ekki reyndust neinar eignir vera í þrotabúi Knarrar ehf.  Verkalýðsfélag Akraness gerði því kröfu á ábyrgðarsjóðlauna fyrir hinum vangreiddu launum starfsmanna.  Á föstudaginn barst  síðan greiðsla frá ábyrgðarsjóðlauna til fyrrverandi starfsmanna Knarrar og náði stéttarfélagið að koma greiðslum til allra starfsmanna fyrir verslunarmannahelgi.  Voru starfsmenn afar þakklátir stéttarfélaginu fyrir þessa þjónustu sem félagið býður upp á.  Þjónustan er starfsmönnunum Knarrar að sjálfsögðu að kostnaðarlausu.  Það getur skipt miklu máli að vera í öflugu stéttarfélagi, eins og dæmin sanna !

28
Jul

Eigendur Fangs hafa óskað eftir því við Verkalýðsfélag Akraness að hefja viðræður um nýjan fyrirtækjasamning

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá var Verkalýðsfélag Akraness búið að ákveða að vísa ágreiningi við eigendur Fangs fyrir félagsdóm.  Ágreiningurinn byggðist á því að starfsmenn Fangs hafa unnið eftir sérkjarasamningi Íslenska járnblendifélagsins, en sá samningur rann út 30. nóvember 2004.  Eigendur Fangs halda því fram að kjarasamningur á hinum almenna vinnumarkaði sem undirritaður var 7. mars 2004 gildi fyrir starfsmenn Fangs eftir að sérkjarasamningurinn rann út.   Þessu hefur Verkalýðsfélag Akraness alfarið hafnað og talið fráleitt.  Því ákvað félagið í samráði við starfsmenn að fara með málið fyrir félagsdóm þar sem eigendur fyrirtækisins höfnuðu að ræða við stéttarfélagið um nýjan kjarasamning.  Nú hafa forsvarsmenn Fangs óskað eftir því við Verkalýðsfélag Akraness að ágreiningurinn fari ekki fyrir félagsdóm. Heldur vilja forsvarmenn fyrirtækisins að deiluaðilar setjist niður og reynt verði að ná niðurstöðu sem stéttarfélagið og starfsmenn geta sætt sig við.

27
Jul

Pólverjarnir sem starfa hjá Spútnik bátum hækka um 196.2% í launum !

Verkalýðsfélag Akraness hefur verið að aðstoða eigendur Spútnik báta við að sækja um dvalar og atvinnuleyfi fyrir Pólverjana fimm.  Félagið gekk frá ráðningarkjörum fyrir Pólverjana í gær og verður tímakaupið í dagvinnu 948 krónur og tímakaupið í yfirvinnunni verður 1.587.  Eins fram hefur komið hér á heimasíðunni þá var haft eftir Pólverjunum sjálfum að þeir væru með 320 kr. á tímann að jafnaði.  Með þessum nýja ráðningarsamningi við eigendur Spútnik báta hækka Pólverjarnir um 196.2% í launum.  Er Verkalýðsfélag Akraness afar stolt af því hvernig mál þetta endaði.  Einnig vill félagið þakka Ingólfi Árnasyni stjórnarmanni Spútnik báta fyrir að hafa viljað leysa málið jafn vel og raunin varð.   Það er og verður stefna Verkalýðsfélags Akraness að verja hagsmuni okkar félagsmanna eins og kostur er, ekki mun verða horft í tíma né aura í þeirri hagsmunagæslu.

25
Jul

Verkalýðsfélag Akraness gerði samkomulag við Spútnik báta ehf vegna Pólsku verkamannanna

Samkomulag náðist í dag á milli eigenda Spútnik báta og Verkalýðsfélags Akraness um erlendu starfsmennina sem hafa starfað hér á landi að undanförnu án atvinnuleyfis.  Samkomulagið gengur út á það að sótt verður um atvinnuleyfi fyrir Pólverjanna fimm og þeim greitt eftir íslenskum kjarasamningum.  Einnig eru samningsaðilar sammála um að þetta sé eina leiðin til að tryggja að Pólverjarnir fái greitt lögbundinn starfskjör samkvæmt íslenskum kjarasamningum.   Með þessu samkomulagi munu Pólverjarnir greiða skatta og aðrar skyldur til okkar samfélags.  Verkalýðsfélag Akraness er afar ánægt með samkomulagið og er ekki í nokkrum vafa að hagsmunum Pólverjana eru vel tryggðir með þessu samkomulagi.  Hægt er að lesa samkomulagið með því að smella á meira. 

Fréttatilkynning frá Verkalýðsfélagi Akraness og Spútnik bátum ehf.

Verkalýðsfélag Akraness og Sputnik bátar ehf. hafa að undanförnu deilt um heimild Sputnik báta ehf. til að fá til starfa erlenda verkamenn á grundvelli þjónustusamnings við erlenda starfsmannaleigu. 

Sputnik bátar ehf. hafa borið fyrir sig að sá langi tími sem almennt tekur að fá atvinnuleyfi neyði fyrirtæki til að nýta sér þessa þjónustu. Verkalýðsfélag Akraness hefur hins vegar talið að umræddir verkamenn séu í þessu tilviki launþegar Sputnik báta ehf. og lúti því alfarið íslenskum lögum. 

Málsaðilar hafa unnið að lausn málsins  með hagsmuni hinna erlendu starfsmanna að leiðarljósi og samkomulag er nú um að Sputnik bátar ehf. sæki um tímabundið atvinnuleyfi fyrir starfsmennina og þeim verði tryggð lágmarkskjör á grundvelli viðkomandi kjarasamninga með skriflegum ráðningarsamningi. Eru aðilar sammála um að  þetta sé eina leiðina til að tryggja hinum erlendu starfsmönnum  lögbundinn starfskjör samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Verkalýðsfélag Akraness hefur á grundvelli  þessa dregið til baka kæru vegna málsins 

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Ingólfur Árnason stjórnarformaður Sputnik báta.

25
Jul

Verkalýðsfélag Akraness kynnir fyrir 16 ára unglingum hver séu réttindi og skyldur þeirra á hinum almenna vinnumarkaði

Verkalýðsfélag Akraness hélt kynningarfund í samráði við vinnuskólann fyrir 16 ára unglinga um réttindi og skyldur á vinnumarkaðinum.  Formaður félagsins fór yfir hin ýmsu réttindi sem eru í kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði. Þá gerði formaðurinn unglingunum grein fyrir þeim skyldum sem launþeginn hefur gagnvart sínum atvinnurekanda.   Einnig fór formaðurinn yfir starfsemi Verkalýðsfélags Akraness og hvað félagsmönnum stæði til  boða ef þeir væru  fullgildir félagsmenn.  Verkalýðsfélag Akraness er ekki í nokkrum vafa um mikilvægi þess að kynna fyrir unglingum réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði.  Þegar kynningunni var lokið bauð félagið uppá grillaðar pylsur og gos með.  Hægt er að skoða myndir frá kynningunni með því að smella á myndir og síðan á kynning fyrir 16 ára unglinga.   

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image