• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Jun

Átt þú rétt á orlofsuppbót ?

Starfsfólk sem áunnið hefur sér fullan orlofsrétt og er í starfi síðustu vikuna í apríl eða fyrstu vikuna í maí á rétt á orlofsuppbót. Fullt starf á orlofsárinu er 45 unnar vikur eða 1800 vinnustundir. Fyrir hlutastarf eða starfstíma skal greiða hutfallslega. Hafi starfsmaður látið af störfum á orlofsárinu þá er meginreglan sú að hann þarf að hafa náð 12 vikna samfeldu starfi til að eiga rétt á hlutfallsuppbót. Þetta er
þó breytilegt eftir kjarasamningum

Orlofsuppbót skal greiða þegar starfsmaður fer í sumarleyfi, en í síðasta lagi 15. ágúst.  Samkvæmt kjarasamningum sveitarfélaga skal þó greiða uppbótina 1. maí og samkvæmt samningum ríkisins 1. júní. Margir aðrir launagreiðendur greiða uppbótina 1. júní.

Hægt er að sjá hver orlofsuppbótin er eftir kjarasamningum með því að smella á meira.

Samningur SA og Starfsgreinasambandsins  22.400 kr.

 

Akraneskaupstaður og Ríkissamningur          22.400 kr.

Íj, Klafi, Fang og Norðurál                               99.605 kr.

 

Kjarasamningur Samiðnar (trésmiðir)           22.400 kr.

07
Jun

12 þúsund króna hækkun er einfaldlega of lítið

Starfsgreinasamband Íslands hélt formannafund í gær.  Einungis eitt mál var til umræðu á fundinum en það var tilboð sem Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram til hækkunar á launatöxtum. Mun tilboðið taka gildi 1. júlí ef samkomlag næst.  Með þessu tilboði vilja SA reyna að forða því að kjarasamningum verði sagt upp í haust. 

Formaður Verkalýðsfélags Akraness er hlynntur því að reyna eftir fremsta megni að ná samkomulagi við Samtök atvinnulífsins.  En til að það geti orðið að veruleika þarf að þroska þessar hugmyndir sem SA hefur lagt fram. 

Það er mat formanns félagsins að 12 þúsund króna hækkun á launatöxtum handa verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði sé einfaldlega of lág.  Rétt er að minna á að kjarasamningur sem gerður var við Starfsgreinasambandið 7. mars 2004 og gildir fyrir verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði gaf langt um minna en aðrir samningar sem síðar voru gerðir. 

Hvað var sagt við verkafólk þegar kjarasamningurinn var gerður 7. mars 2004?  Jú, því var sagt að með því að gera kjarasamning til fjögurra ára og hafa kauphækkanir á samningstímanum hóflegar þá myndi það leiða af sér lága verðbólgu. Það myndi tryggja verkafólki kaupmáttaraukningu en ekki kaupmáttarskerðingu.

Raunin varð hins vegar sú að flest allir hópar sem sömdu á eftir Starfsgreinasambandinu sömdu um langtum meira heldur en verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði fékk út úr sínum kjarasamningi.  Þessu til viðbótar hefur verðbólgan verðið langt fyrir ofan viðmið Seðlabankans sem er 2.5%. Nú er verðbólgan 7.6%.  Það liggur fyrir að stór hluti þess fólks sem tekur laun eftir kjarasamningi Starfsgreinasambandsins hefur orðið fyrir umtalsverðri kjaraskerðingu frá 7. mars 2004.   Það er einnig alveg morgunljóst að verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði verður ekki kennt um þann óstöðugleika sem nú ríkir í þjóðfélaginu.

Ef það er einhver hópur í þessu samfélagi sem þarf að fá leiðréttingu á sínum launakjörum þá er það verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði.  Það verður ekki lengur liðið að það eitt og sér sé látið viðhalda stöðugleikanum í þessu landi og sér í lagi þegar hvorki íslensk stjórnvöld né aðrir, eru tilbúnir að axla þá ábyrð.

Eins og áður sagði þá er formaður félagsins hlynntur því að reynt verði til þrautar að ná samkomlagi við Samtök atvinnulífsins.  Til að samkomulag náist verða Samtök atvinnlífsins þó að koma með hærri taxtahækkanir.  Einnig verður ríkisvaldið að koma að þessu samkomulagi.  T.d. á að gera þá skýlausu kröfu á ríkisvaldið að það hækki viðmið vaxtabóta til samræmis við hækkun á fasteignamati.  Hækkun á fasteignamati mun leiða til þess að vaxtabætur til fólks mun stórskerðast.

Rétt er að minna á að forsendur kjarasamnings SGS eru kolbrostnar á það bæði við verðbólguþáttinn og einnig þáttinn er lúta að kostnaðarhækkunum annarra kjarasamninga.  En það liggur ljóst fyrir að kostnaðarhækkanir annarra kjarasamninga eru langt yfir því sem kjarasamningur SGS gaf.

02
Jun

Tillögur Samtaka atvinnulífsins skref í rétta átt

Samtök atvinnulífsins hafa komið með tillögur um að hækka samningsbundna launataxta um 12 þúsund krónur á mánuði með svokölluðum taxtaviðauka.  

Formaður félagsins mun fara yfir þessar hugmyndir sem Samtök atvinnulífsins hafa nú lagt fram.  Við fyrstu skoðun virðist svo sem þessi 12 þúsund króna hækkun til handa verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði dugi ekki til að jafna það sem starfsmenn sveitarfélaga og ríkis hafa verið að fá í hækkanir á sínum launum að undanförnu.

Það hlýtur að vera krafa félaga innan Starfsgreinasambands Íslands að þær kauphækkanir sem starfsmenn hjá ríkinu og sveitarfélögunum hafa verið að fá að undanförnu komi einnig til handa verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði með sambærilegum hætti og þar gerðist.

Samt sem áður eru þessar hugmyndir Samtaka atvinnulífsins jákvætt skref í rétta átt.

Núna hefur Starfsgreinasamband Íslands boðað til formannafundar á þriðjudaginn kemur þar sem þessar hugmyndir verða til umræðu og því fagnar formaður Verkalýðsfélags Akraness. 

31
May

Laun ófaglærðra starfsmanna Sjúkrahúss Akraness munu hækka um allt að 18 þúsund á mánuði fyrir 100% starf

Formaður félagsins ásamt skrifstofustjóra Sjúkrahúss Akraness funduðu í gær um þær hækkanir sem eru að koma til ófaglærðs starfsfólks SHA og munu gilda frá 1. maí.

Það er alveg ljóst að með þessum hækkunum hefur tekist að jafna þann launamun sem ríkt hefur á milli starfsmanna sem starfa hjá ríkinu á við starfsmenn sveitarfélaganna sem starfa við sambærileg störf.

Formaður félagsins fagnar þessari ákvörðun forsvarsmanna SHA og telur að starfsmann SHA geti nokkuð vel við unað sé tekið mið af verkafólki sem starfar við sambærileg störf á hinum almenna vinnumarkaði.

Sem dæmi má nefna að laun starfsmanna eru að hækka um allt að 18 þúsund á mánuði fyrir 100% starf.

Núna verður það skýlaus krafa að laun verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði verði lagfærð til fulls á við þær hækkanir sem hafa orðið hjá sveitarfélögunum og ríkinu.  Ef það ekki gerist þá er ekkert annað í stöðunni en að sækja þær lagfæringar fyrir verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði með fullu afli.

29
May

Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands hafnar því að halda formannafund

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness sendi Starfsgreinasambandi Íslands bréf 2. maí sl. og óskaði eftir því að haldinn yrði formannafundur.  Það er mat stjórnar félagsins að mjög veigamikil mál hafi verið afgreidd á liðnum mánuðum sem hafi gengið þvert á hagsmuni félagsmanna VLFA.  Þetta eru mál eins og frumvarp um starfsmannaleigur, frjálsa för launafólks frá hinum nýju ríkum EES og síðast en ekki síst endurskoðun kjarasamninga sem fór fram í desember. 

Stjórn félagsins hefur gagnrýnt það harðlega að ekki var mótuð sameiginleg stefna í þessum málum af hálfu formanna Starfsgreinsambandsins og sum þeirra hafa vart verið rædd t.d endurskoðun kjarasamninga. 

Svar hefur borist til Verkalýðsfélags Akraness og kemur fram í svarbréfinu að framkvæmdastjórn SGS sjái ekki ástæðu til að kalla saman formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins til að fjalla um umrædd mál. Er þessi afstaða SGS óskiljanleg með öllu.  Verkalýðsfélag Húsavíkur óskaði einnig eftir því við SGS að haldinn yrði formannafundur þar sem til umfjöllunar yrðu kjaramál og sá óróleiki sem er hjá verkafólki sem starfar á hinum almenna vinnumarkaði.  Verkalýðsfélagi Húsavíkur var einnig hafnað um formannafund.  Rétt er að benda á að verkafólk sem tekur laun eftir kjarasamningi SGS hefur setið verulega eftir hvað varðar launahækkanir á við aðra hópa.  Sem dæmi þá eru laun hjá sveitarfélögunum og ríki fyrir sambærileg störf um 20 til 30 þúsundum hærri en hjá verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði.

Það liggur líka fyrir að Samtök atvinnulífsins er byrjuð að undirbúa sig fyrir endurskoðun kjarasamninga og hafa m.a. rætt við formann félagsins um þau mál.  Forsendunefndin á að vera búin að meta samningsforsendur fyrir 15. nóv. 

Því er það afar undarlegt að forysta SGS sjái ekki ástæðu til að kalla saman formenn aðildarfélaga SGS til að móta sameiginlega kröfu hvað varðar endurskoðun kjarasamninga og sérstaklega í ljósi þeirrar vinnu sem er nú þegar hafin hjá Samtökum atvinnulífsins. Hins vegar ætlar Starfsgreinasamband Íslands að halda kjaramálaráðstefnu í haust. Er það að mati formanns félagsins allt of seint í ljósi þess að Samtök atvinnulífsins eru nú þegar byrjuð að undirbúa endurskoðun kjarasamninga eins og áður sagði.

24
May

Þeir sem hafa hæstu launin hjá Akraneskaupstað hækka langtum meira en ófaglærðir komi til sameiningar á milli Starfsmannafélags Akraneskaupstaðar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur félagsfundur Starfsmannafélags Akraneskaupstaðar heimilað stjórn félagsins að kanna hugsanlega sameiningu félagsins við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar. Einnig hefur bæjarráð samþykkt að leita eftir samstarfi við Reykjavíkuborg um launamál starfsmanna Akranesskaupstaðar.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur verið að bera saman laun ófaglærðs starfsfólks kaupstaðarins miðað við kjarasamning Reykjavíkurborgar annars vegar og kjarasamning launanefndar sveitarfélaga hins vegar. Karl Björnsson formaður launanefndar sveitarfélaga sagði í viðtali við Skessuhornið ekki alls fyrir löngu að á launaráðstefnu sem haldin var 28. janúar hafi laun ófaglærðs fólks hjá Akraneskaupstað verið aðlöguð að kjarasamningi Reykjavíkurborgar. Einnig sagði hann að launanefndin hefði ekki treyst sér til að hækka þá sem hæstu hefðu launin hjá Akraneskaupstað.

Í þessum samanburði sem formaður félagsins hefur unnið kemur í ljós að stór hluti ófaglærðs fólks sem starfar hjá Akraneskaupstað hækkar sáralítið með því að taka laun eftir kjarasamningi Reykjavíkurborgar og í sumum tilfellum lækka einstök störf á við Reykjavíkurborg og nægir þar að nefna starfsfólk í ræstingu og í þvottahúsi. Hins vegar munu forstöðumenn, fulltrúar og deildarstjórar, eða með öðrum orðum: þeir sem hæstu hafa launin, hækka svo jafnvel tug-þúsundum skiptir. Þó eru störf sem munu einnig hækka t.d. matráðar með mannaforráð og stuðningsfulltrúar í skólum.  Þeir sem munu hækka lítillega eða jafnvel standa í stað eru skólaliðar, sundlaugarverðir, matráðar I, verkamenn í bæjarvinnu og starfsmenn á leikskóla.

Sem dæmi má nefna að 36 ára gamall starfsmaður í ræstingu sem vinnur eftir kjarasamningi launanefndar er með í grunnlaun 138.279 kr. Taki hann hins vegar laun eftir kjarasamningi Reykjavíkurborgar eru grunnlaunin 134.294 kr. Lækkunin er því upp á 5.785 kr.

Hins vegar mun algengt vera að stjórnendur og millistjórnendur Akraneskaupstaðar hækki frá 20.000 kr. upp í tæpar 50.000 kr. á mánuði.  Það getur ekki verið vilji bæjaryfirvalda að þeir sem hæstu hafa launin hækki um tugi þúsunda á mánuði á meðan ófaglærðir standa nánast í stað. 

Formaður Verkalýðsfélags Akraness átti óformlegan fund með formanni Starfsmannafélags Akraness þar sem farið var yfir þessi mál og ríkir ekki ágreiningur um að kjarabót þeirra lægstlaunuðustu verður ekki í neinu samræmi við þær kjarabætur sem þeir hæstlaunuðustu fá.

Einnig hefur formaður félagsins átt fund með bæjarráði þar sem hann gerði þeim grein fyrir því að hækkanir til þeirra sem hæstu hafa launin eru ekki nokkru samræmi við hækkanir til ófaglærða.  Vissulega ber að fagna því að Akraneskaupstaður er tilbúin að hækka laun starfsmanna bæjarins en grundvallaratriði er að það ríki sanngirni í þeim hækkunum.

Skilningur hefur ríkt í samfélaginu um að hækka laun þeirra sem hvað lægstu hafa launin en ef niðurstaðan verður sú að starfsmenn Akraneskaupstaðar fari að taka laun eftir kjarasamningi Reykjavíkurborgar þá hefur dæmið snúist við, þeir hæstlaunuðustu munu fá langmest en þeir sem lægstu hafa launin fá lítið og sumir ekki neitt. Er það, að mati formanns Verkalýðsfélags Akraness, algerlega óásættanlegt.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image