• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Mar

Annar fundur með ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings Norðuráls

Samninganefnd stéttarfélaganna og forsvarsmenn Norðuráls munu funda í dag kl. 13 í húsakynnum ríkissáttasemjara vegna kjaradeilu um nýjan kjarasamning Norðuráls. Þetta er annar fundurinn sem haldinn er undir stjórn ríkissáttasemjara.

Nú eru liðnir tveir mánuðir frá því kjarasamningur Norðuráls rann út og skynjar formaður Verkalýðsfélags Akraness greinilega óþreyju hjá starfsmönnum Norðuráls sem binda miklar vonir við nýjan samning.

Krafa stéttarfélaganna er skýr og sanngjörn, að launakjör starfsmanna Norðuráls verði með sama hætti og gerist hjá öðrum sambærilegum stóriðjum eins og t.d. Alcan í Straumsvík. Frá þessari kröfu mun Verkalýðsfélag Akraness ekki með nokkru móti hvika.

02
Mar

Úthlutun orlofshúsa um páska 2010 lokið

Í gær var dregið úr umsóknum um vikudvöl yfir páskana í orlofshúsum Verkalýðsfélags Akraness.

Eins og undanfarin ár var mikil aðsókn í húsin og til að tryggja framgang réttvísinnar við útdráttinn var fulltrúi sýslumanns fenginn til að draga úr umsóknunum.

Búið er að hafa samband við þá sem dregnir voru út og er þeim óskað ánægjulegrar dvalar í orlofshúsum yfir páskana.

01
Mar

Fyrsti fundur með ríkissáttasemjara

Samninganefnd stéttarfélaganna og forsvarsmenn Norðuráls áttu fyrsta fund með ríkissáttasemjara í morgun vegna kjaradeilu um nýjan kjarasamning Norðuráls. Eins og fram kom hér á heimasíðunni í síðustu viku þá ákvað samninganefnd stéttarfélaganna að vísa deilunni til ríkissáttasemjara en búið var að halda 13 samningafundi og var það mat samninganefndarinnar að alltof mikið bæri á milli til að hægt væri að halda áfram án aðkomu ríkissáttasemjara.

Á fundinum í morgun gerðu deiluaðilar ríkissáttasemjara grein fyrir þeim ágreiningi sem nú er uppi og þeim kjarakröfum sem liggja fyrir. Það hefur einnig komið hér fram á heimasíðunni margoft að krafa samninganefndar stéttarfélaganna er að laun starfsmanna Norðuráls verði með sambærilegum hætti og í öðrum stóriðjum eins og til að mynda Alcan í Straumsvík. Frá þessari kröfu mun Verkalýðsfélag Akraness ekki hvika. Áætlað er að næsti samningafundur verði á fimmtudaginn kemur.

26
Feb

Kjaradeilu við forsvarsmenn Norðuráls vísað til Ríkissáttasemjara

Rétt í þessu var að ljúka samningafundi stéttarfélaganna við forsvarsmenn Norðuráls. Á þessum fundi lögðu forsvarsmenn Norðuráls fram nýtt tilboð til handa stéttarfélögunum vegna kjarasamnings Norðuráls. Því miður ber allt of mikið á milli samningsaðila miðað við fyrirliggjandi samningstilboð og á þeirri forsendu ákvað samninganefnd stéttarfélaganna að vísa kjaradeilunni til Ríkissáttasemjara.

Héðan í frá mun Ríkissáttasemjari því sjá um verkstjórn kjaraviðræðna. Áttu formaður Verkalýðsfélags Akraness og forstjóri Norðuráls samræður við Ríkissáttasemjara í morgun um næstu skref. Hefur Ríkissáttasemjari nú þegar boðað til næsta fundar á mánudaginn kemur.

Krafa stéttarfélaganna er skýr, það er að launakjör starfsmanna Norðuráls verði með sama hætti og gerist hjá öðrum sambærilegum stóriðjum eins og t.d. Alcan í Straumsvík. Því miður sýna allir launasamanburðir sem gerðir hafa verið að munur á milli þessara verksmiðja er umtalsverður. Þetta vandamál á rætur að rekja aftur til ársins 1998 þegar starfsemi Norðuráls hófst á Grundartanga. Þá, einhverra hluta vegna, var gefinn verulegur afsláttur á kjörum starfsmanna Norðuráls samanborið við aðrar stóriðjur.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur sagt að hann muni ekki skrifa undir samning nema í honum felist jöfnuður á við laun í öðrum stóriðjum, það er alger lágmarkskrafa.

Formaður hefur einnig kallað eftir skýringum á því af hverju starfsmenn Norðuráls eigi ekki að njóta sambærilegra kjara og t.d. starfsmann Alcan í Straumsvík. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur rekstur verksmiðjunnar á Grundartanga allt frá því hún hóf starfsemi 1998 verið afar góður. Fyrirtækið skilaði t.d. 16 milljörðum í hagnað á árinu 2008, mest allra fyrirtækja hér á landi og frá árinu 1998 hefur fyrirtækið skilað 37 milljörðum í hagnað. Á þessu sést að það eru engar forsendur fyrir því að starfsmenn Norðuráls njóti ekki sömu kjara og starfsbræður þeirra hjá Alcan í Straumsvík.

26
Feb

Síðasti dagur til að sækja um í páskaúthlutun er í dag

Í dag er síðasti dagur til að sækja um orlofshús í páskaúthlutun. Þau orlofshús sem í boði eru um páskana eru: Húsafell, Svínadalur, Hraunborgir, Ölfusborgir og Akureyri. Tímabilið sem um ræðir er frá miðvikudeginum 31. mars til miðvikudagsins 7. apríl.

Hægt er að sækja um á skrifstofu félagsins að Sunnubraut 13, í síma 4309900 eða á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Dregið verður úr umsóknum á mánudaginn kemur og strax haft samband við þá sem dregnir verða út.

25
Feb

Sumar 2010 - Útilegukortið og Veiðikortið á meðal nýjunga

Undirbúningur fyrir komandi sumarútleigu stendur nú í hámarki á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness, en þegar kemur að því að undirbúa sumarúthlutun orlofshúsa er að mörgu að huga og nauðsynlegt að vera tímanlega á ferðinni.

Eins og venjulega hefur félagið tekið á leigu nokkur orlofshús til viðbótar við þau sem þegar eru í eigu félagsins. Félagið á fyrir sumarbústaði í Húsafelli, Svínadal, Hraunborgum og Ölfusborgum og þrjár íbúðir á Akureyri. Í sumar verður að auki í boði dvöl í sumarbústað að Eiðum, í tveimur húsum í Stóru Skógum og í íbúð á Flateyri við Önundarfjörð. Fjöldi vikna sem í boði verða hefur aldrei verið meiri enda hefur aðsókn í orlofshús aukist jafnt og þétt undanfarin ár og er síst búist við minni aðsókn þetta sumarið.

Í sumar eru fleiri spennandi nýjungar í boði fyrir félagsmenn. Hægt verður að kaupa Útilegukortið 2010, Veiðikortið 2010 og gistimiða á Hótel Eddu með 50% afslætti á skrifstofu félagsins. Sala Veiðikortsins er þegar hafin, Útilegukortið er væntanlegt um miðjan mars og gistimiðarnir seinna í vor. Nánari upplýsingar verða birtar hér á heimasíðunni innan skamms.

Athygli er vakin á því að ekki verður hægt að fá endurgreiðslu vegna korta sem keypt eru annars staðar, eingöngu er hægt að veita afsláttinn á kort sem seld eru á skrifstofu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image