• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Mar

Fundað hjá ríkissáttasemjara á morgun

Á morgun verður samningafundur hjá ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings Norðuráls og hefst fundurinn klukkan 13 en samninganefnd stéttarfélaganna ætlar hins vegar að hittast á fundi í fyrramálið til að vega og meta endanlega það tilboð sem forsvarsmenn Norðuráls lögðu fram á síðasta fundi.

Að mati formanns Verkalýðsfélags Akraness liggur það hins vegar algjörlega morgunljóst fyrir að það tilboð sem barst síðastliðinn föstudag sé ekki grunnur að lausn þessarar deilu enda ber himinn og haf á milli deiluaðila ennþá. Eins og áður hefur komið fram þá er farið að gæta verulegrar óþreyju hjá starfsmönnum og ljóst að mikill þrýstingur er kominn á samningsaðila að ljúka þessari deilu en eins og staðan er í dag er fátt sem bendir til þess að það gerist á næstu dögum.

19
Mar

Mikið ber á milli deiluaðila

Rétt í þessu var að ljúka samningafundi hjá ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings Norðuráls. Á fundinum lögðu forsvarsmenn Norðuráls fram heildstætt tilboð sem nú er til skoðunar hjá samninganefnd stéttarfélaganna og óskaði ríkissáttasemjari eftir því að ekki yrði fjallað um innihald tilboðsins að svo stöddu opinberlega.

Rétt er að nefna að nokkur ágreiningsatriði sem hafa verið til umræðu að undanförnu hefur nú tekist að leysa en megnið af þessum atriðum lúta ekki að stóra atriðinu sem er að sjálfsögðu sjálfur launaliðurinn.

En það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að enn sé himinn og haf á milli deiluaðila en ríkissáttasemjari hefur boðað til næsta fundar á þriðjudaginn kemur.

19
Mar

Orlofshúsabæklingur og nýr félagavefur

Eftir helgi mun orlofshúsabæklingur vegna sumarúthlutunar 2010 berast inn um lúgur félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness. Frestur til að skila umsóknum er til 12. apríl.

Eins og venjulega er hægt að skila umsóknum á skrifstofu félagsins en í ár gefst félagsmönnum einnig kostur á að skila umsóknum á nýjum félagavef. Félagavefurinn hefur verið í þróun undanfarnar vikur og þar er nú mögulegt að skoða iðgjaldasögu, punktastöðu, greiðslusögu vegna bóta og styrkja og úthlutunarsögu vegna orlofshúsa. Jafnframt býður félagavefurinn upp á upplýsingar um stöðu orlofshúsa og einnig er hægt að sækja um, bóka og greiða fyrir orlofshús með greiðslukorti.

Veflyklar verða sendir hverjum og einum félagsmanni í næstu viku. Vonast er til að þessi viðbótarþjónusta nýtist félagsmönnum sem best. Vinsamlega hafið samband við starfsfólk skrifstofu ef aðstoðar er þörf eða ef spurningar vakna við notkun félagavefsins.

Í sumar eru fleiri spennandi nýjungar í boði fyrir félagsmenn. Hægt verður að kaupa Útilegukortið 2010, Veiðikortið 2010 og gistimiða á Hótel Eddu með 50% afslætti á skrifstofu félagsins. Sala Veiðikortsins er þegar hafin, Útilegukortið er væntanlegt í næstu viku og gistimiðarnir seinna í vor.

Athygli er vakin á því að ekki verður hægt að fá endurgreiðslu vegna korta sem keypt eru annars staðar, eingöngu er hægt að veita afsláttinn á kort sem seld eru á skrifstofu. 

18
Mar

Vistvæn stóriðja

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur gefið út veiðiheimildir á hval og hrefnu fyrir komandi vertíð og samkvæmt reglugerð má veiða 200 langreyðar og 200 hrefnur sem er það sama og var á síðustu vertíð. Í fyrra voru veiddar 126 langreyðar og 81 hrefna.

Þetta eru afar jákvæð tíðindi enda voru hátt í 150 manns sem fengu vinnu við hvalvinnslu á síðustu vertíð og það er óhætt að segja að þetta hafi haft gríðarlega jákvæð áhrif fyrir samfélagið hér á Akranesi og í nærsveitum og nægir að nefna í því samhengi að meðallaun þeirra sem tilheyra VLFA og störfuðu fyrir Hval hf voru 561.000 kr. á mánuði. Á þessu sést að tekjumöguleikar starfsmanna voru nokkuð góðir, sérstaklega í því árferði sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði. Hins vegar ber að geta þess að mikið vinnuframlag liggur að baki þessum tekjum starfsmanna Hvals. Það má því kannski segja að veiðar á hval hafi verið hálfgerð vistvæn stóriðja.

Eins og áður sagði þá mun þetta hafa jákvæð áhrif á atvinnulífið hér á Akranesi enda eru vel á fjórða hundrað manns án atvinnu á Akranesi í dag.

17
Mar

Góð afkoma HB Granda

Verkalýðsfélag Akraness fagnar því innilega að rekstur HB Granda á síðasta ári virðist hafa verið mjög góður. En hagnaður HB Granda á síðasta ári nam 13 milljónum evra, eða um 2,2 milljörðum króna.

Það hefur verið töluverð vinnsla í frystihúsi fyrirtækisins á liðnu ári og fjölgaði starfsmönnum lítillega. Einnig fór fram umtalsverð vinna við hrognatöku hér á Akranesi og var til dæmis unnið á sólarhringsvöktum á meðan á vertíðinni stóð. Og núna á síldarbræðslan von á tveimur skipum með kolmunnaafla til bræðslu hér á Akranesi. Á þessu sést að vinnsla hér á Akranesi hefur bara verið með miklum ágætum á liðnu ári, starfsmönnum til heilla.

Rétt er að það komi skýrt fram að stjórn HB Granda á heiður skilinn fyrir að vera eitt af fáum fyrirtækjum hér á landi sem hefur staðið að fullu við allar þær launahækkanir sem um var samið 17. febrúar 2008 og hefur gert það að verkum að verkafólk og aðrir starfsmenn fyrirtækisins hafa ekki orðið af vel á annað hundrað þúsund krónum vegna þeirrar frestunar sem samkomulag ASÍ og Samtaka atvinnulífsins kvað á um. Sem dæmi þá fengu allir starfsmenn 2,5% launahækkun um síðustu áramót en í áðurnefndu samkomulagi eiga þessar hækkanir ekki að taka gildi fyrr en 1. júlí næstkomandi. Það væri óskandi að það væru fleiri fyrirtæki hér á landi sem hefðu fjárhagslega burði til að standa við þær launahækkanir sem áttu að taka gildi 1. janúar síðastliðinn eins og HB Grandi gerði.

16
Mar

Næsti samningafundur á föstudaginn

Í gær var haldinn enn einn fundurinn hjá Ríkissáttasemjara til lausnar á kjaradeilu vegna starfsmanna Norðuráls. Það er mat formanns að lítið hafi þokast áfram hvað varðar aðalmálið sem er launaliðurinn. Vissulega er verið að skoða önnur ágreiningsatriði og reynt að finna lausn á þeim.

Krafa samninganefndar stéttarfélaganna er að kjör starfsmanna Norðuráls verði með sambærilegum hætti og gerist hjá Alcan í Straumsvík, en til þess að það takist þurfa laun starfsmanna að hækka um tugi þúsunda á mánuði. Rétt er að benda á að grunnlaun byrjanda eru einungis rúmar 167.000 krónur hjá verkamanni.

Önnur rök sem samninganefndin hefur haldið hátt á lofti er góð staða Norðuráls og eins og komið hefur fram hér á heimasíðunni þá hefur Norðurál skilað hagnaði nánast öll árin frá því fyrirtækið hóf starfssemi 1998 og heildarhagnaður fyrirtækisins til ársins 2008 nemur upp undir 36 milljörðum króna. Þar af var hagnaðurinn 16 milljarðar árið 2008, en þá var álverðið nokkuð hagstætt eða 2.665 dollarar tonnið.

Nú kveður hins vegar við að forsvarsmenn Norðuráls segja að fyrirtækið hafi verið rekið með tapi á síðasta ári. Formanni félagsins finnst það skjóta skökku við að slíkt hafi gerst, sérstaklega í ljósi þess að meðalverð á áli í fyrra var rétt tæpir 1.700 dollarar. Í byrjun ársins 2009 gerðist það hins vegar að álverðið fór niður í 1.275 dollara. Þá var í fréttum 19. nóvember 2009 haft eftir Mike Bless, fjármálastjóra Century Aluminium, móðurfélags Norðuráls, að "félaginu hafi tekist að reka álver sitt á Grundartanga á sléttu þegar álverðið fór niður í 1.275 dollara á tonnið í mars 2009. Þetta hafi verið hægt vegna þess hve raforkuverðið á Íslandi er hagstætt félaginu."

Því spyr formaður sig, hvernig stendur á því að ef tekist hafi að reka álverið á sléttu í mars 2009 á 1.275 dollurum tonnið, að það dugi þá ekki 1.700 dollara meðalverð eins og raunin varð yfir allt árið. Einnig hefur gengið verið fyrirtækinu í hag, þeir selja álið í dollurum og borga laun í íslenskum krónum, en dollarinn hækkaði um 40% á milli áranna 2008 og 2009.

Það er skýlaus krafa okkar Íslendinga að reyna að ná sem mest út úr þeim erlendu stóriðjufyrirtækjum sem eru með starfsemi hér á landi, njóta hagstæðs raforkuverðs og fá afnot af landinu okkar og þeim mikla mannauði sem hér býr. En grundvallaratriðið er hins vegar það að áliðnaðurinn er að gera mjög góða hluti, álverðið í dag er yfir 2.200 dollarar og á þeirri forsendu er engin ástæða til að reka láglaunastefnu í stóriðjunni á Grundartanga.

Ríkissáttasemjari hefur boðað til næsta samningafundar á föstudaginn nk.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image