• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
Sep

Góð samstaða hjá starfsmönnum Klafa

Formaður  fundaði með starfsmönnum Klafa í dag þar sem farið var yfir þá staðreynd að eigendur Klafa hafna alfarið að greiða sambærilega bónusgreiðslu og starfsmenn Íslenska járnblendifélagsins fengu í ágúst sl.  Það var eðlilega afar þungt hljóðið í starfsmönnum Klafa.  En góð samstaða var hjá starfsmönnum um að leita réttar síns í máli þessu.

Það er skoðun starfsmanna að hér sé klárlega verið að brjóta á kjarasamningi sem gerður hefur verið við þá.  Formaður félagsins hefur boðað trúnaðarmenn Klafa á fund með stjórn og trúnaðarráði félagsins sem haldinn verður á miðvikudaginn 16 september nk.  Þar verður farið yfir málið í heild sinni og kynnt verður álit lögmanns félagsins á því hvað hann telur að gera eigi í þessari stöðu sem upp er komin.  Eitt er alveg víst að þessi afstaða hjá eigendum Klafa að greiða ekki umrædda bónusgreiðslu mun ekki auðvelda komandi kjarasamningagerð sem er framundan er, nema síður sé.

09
Sep

Klafi hafnar að greiða starfsmönnum bónusgreiðslu

Verkalýðsfélag Akranes hefur fengið svar við bréfi sem lögmaður félagins sendi forsvarsmönnum Klafa.  Félagið hafði krafist að starfsmenn Klafa fengu sömu eingreiðslu og starfsmenn Íslenska járnblendifélagsins fengu í ágúst, en þar fékk hver starfsmaður um 80 þúsund krónur eftir að Verkalýðsfélag Akraness hafði krafið forsvarsmenn ÍJ um að standa við bókun frá árinu 1998, bókunin veitti starfsmönnum rétt til ágóðahlutdeildar. 

Í svarbréfinu kemur fram að Klafi hafni með öllu að greiða starfsmönnum álíka greiðslu og starfsmenn ÍJ fengu, þeir telja sig ekki vera bundnir af bókun stjórnar ÍJ frá 1998.  Þegar starfsmenn Klafa voru ráðnir var gert samkomulag við Verkalýðsfélag Akraness  og Verkalýðsfélagið Hörður um hver launakjör starfsmanna skyldu vera.   Í því samkomulagi segir að kjarasamningur Íslenska járnblendifélagsins skuli gilda hvað varðar öll kjaraatriði.  Á grundvelli þessa samkomulags krafðist Verkalýðsfélag Akraness Klafa um sambærilega greiðslu til handa starfsmönnum Klafa.  Formaður félagsins fundaði með trúnaðarmanni Klafa í dag og voru þeir í sambandi við lögmann félagsins og voru þeir að meta stöðuna.  Ákveðið var að formaður félagsins fundi með starfsmönnum  mánudaginn 13. september og farið verði yfir stöðu mála.  Ekki er útilokað að félagið vísu þessu máli til dómstóla.  Sé einhver vafi á því að verið sé að brjóta á okkar félagsmönnum, þá mun stjórn félagsins gera allt sem í hennar valdi stendur til að fá þeim vafa eytt.  

07
Sep

Vetrarleigan að hefjast

Vetrarleiga orlofshúsa félagsins er nú að hefjast.  Þeir bústaðir sem leigðir eru út um helgar í vetur eru í Húsafelli, Svínadal, Hraunborgum, Hlíð og Ölfusborgum.

Helgin kostar kr. 7.500 fyrir félagsmenn og er þá miðað við þrjár nætur, þ.e. frá föstudegi til mánudags, nema í Hlíð, þar þarf að skila á hádegi á sunnudegi.  Tekið er við pöntunum á skrifstofu félagsins í alla bústaðina nema í Ölfusborgum.  Gert er ráð fyrir að leigutakar gangi frá leigusamningi og greiði leigugjaldið í síðasta lagi þremur dögum fyrir brottför.  Lyklar eru afhentir á skrifstofu félagsins, nema að Hlíð, þeir eru afhentir á bænum gegn framvísun leigusamnings.

Þeir sem óska eftir að fá bústað leigðan í Ölfusborgum panta hann hjá Afgreiðslu Ölfusborga í síma 483-4260 og fá nánari upplýsingar þar um fyrirkomulag greiðslu og afhendingu lykla.  Verðið fyrir helgina þar er kr. 8.500.

06
Sep

Hægt að skoða um 300 hundruð myndir sem tengjast félagsstarfinu.

Nú er hægt að skoða tæpar 300 myndir hér á heimasíðunni.  Það eru t.d. 88 myndir sem teknar hafa verið af starfsmönnum Norðuráls, 56 myndir í HB Granda og 33 myndir sem hafa verið teknar á Sjúkrahúsi Akraness.  Allt eru þetta myndir sem tengjast starfsemi félagsins á einn eða annan hátt, sjón er sögu ríkari.  Smellið á Myndir og veljið þann flokk sem þið viljið skoða, hægt er að stækka myndirnar með því að smella á þær.

03
Sep

Sjómenn að missa þolinmæðina...

Það styttist í að sjómenn missi þolinmæðina að sögn Sævars Gunnarssonar, formanns Sjómannasambands Íslands. Sjómenn áttu fund með útvegsmönnum hjá ríkissáttasemjara í gær og stóð fundurinn í þrjár klukkustundir. 

Sævar sagði eftir fundinn að ekkert hafi gengið á fundinum í dag og að núna þegar sjómenn væru búnir að vera samningslausir í átta mánuði styttist í að þeir misstu þolinmæðina. Næsti fundur í deilunni verður haldinn á þriðjudag.

02
Sep

Starfsmenn Klafa og Fangs eru sárir...

Starfsmenn Klafa og Fangs eru  sárir, reiðir og undrandi yfir því að ekki hafi komið arðgreiðsla til þeirra eins og kom til starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins 15. ágúst s.l.  Verkalýðsfélag Akraness hefur vísað þessu máli til lögmanns félagsins sem hefur sent forsvarsmönnum þessara tveggja  fyrirtækja bréf,  þar sem þess er krafist að starfsmenn Klafa og Fangs  fái sömu arðgreiðslu og starfsmenn ÍJ fengu 15. ágúst s.l. 

Í bréfi lögmanns félagsins sem hann sendi um miðjan ágúst til Klafa og Fangs, bendir hann á  ráðningasamninga starfsmanna, því í þeim er vísað beint í kjarasamning Íslenska járnblendifélagsins hvað varðar öll kjaraatriði.  Því er það mat starfsmanna þessara fyrirtækja  og Verkalýðsfélags Akraness  að starfsmenn þessara fyrirtækja eigi rétt á þessum arðgreiðslum, þetta eru flest allir fyrrverandi starfsmenn ÍJ og fengu starfsmennirnir þau skilaboð þegar þessi dótturfyrirtæki voru stofnuð og þeim boðin vinna hjá þessum fyrirtækjum, að þeir skyldu halda öllum þeim launakjörum sem þeir hafi haft hjá ÍJ.  Formaður félagsins hefur verið í góðu sambandi við framkvæmdastjóra þessara tveggja  fyrirtækja en þeir hafa lítið getað tjáð sig um þessi mál, og segja báðir að stjórnir fyrirtækjanna muni  taka ákvörðun í málum þessum.  Það er einlæg von stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að stjórnir Klafa og Fangs afgreiði mál þetta farsællega svo ekki þurfi að koma til frekari aðgerða af hálfu félagsins.  Ennfremur telur Verkalýðsfélag Akraness það væri gott og reyndar nauðsynlegt að forsvarsmenn stéttarfélaganna og forsvarsmenn Klafa, Fangs og Íslenska járnblendifélagsins funduðu saman og færu yfir málin í heild sinni. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image