• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Jul

Lögmaður Verkalýðsfélags Akraness fundar með forstjóra Íslenska járnblendifélagsins

Lögmaður Verkalýðsfélags Akraness mun eiga fund með forstjóra, aðstoðarforstjóra, og lögmanni Íslenska járnblendifélagsins á þriðjudaginn 3. ágúst kl 15:00.  Tilefni fundarins verður að reyna til þrautar að ganga frá samkomulagi sem lýtur að greiðslu hlutdeildar í hagnaði ársins 2003 til starfsmanna ÍJ.

26
Jul

Auður Finnbogadóttir hefur hafið störf hjá félaginu

Nýr starfsmaður hefur hafið störf á skrifstofu félagsins nýji starfsmaðurinn heitir Auður Finnbogadóttir og var áður launafulltrúi hjá Haraldi Böðvarssyni, en þar hafði hún starfað í ein 28 ár. Stjórn Verkalýðsfélags Akraness býður Auði hjartanlega velkomna til starfa fyrir félagið.

23
Jul

Ára löngum deilum um túlkun á kjarasamningi lokið í síldarbræðslunni

Verkalýðsfélag Akraness hefur gert samkomulag við forsvarsmenn HB-Granda, fyrir þá starfsmenn sem nú eru við störf í síldarbræðslunni.  Var samkomulagið kynnt á starfsmannafundi í gærkveldi, og lýstu starfsmenn yfir mikilli ánægju með hvernig Verkalýðsfélag Akraness hefði unnið í þessu máli fyrir starfsmenn síldarbræðslunnar.  Hver starfsmaður sem nú er í starfi mun fá eingreiðslu uppá 89 þúsund krónur, það varð líka að samkomulagi að starfsmenn ættu rétt á 13 daga auka orlofi.   

Ennfremur var ágreiningur um álagsgreiðslu til tveggja starfsmanna sem unnu við tankavinnu, leystist það mál líka með samkomulagi og mun þeir fá eingreiðslu fyrir tankavinnuna.  Vill stjórn félagsins þakka þeim Sturlaugi Sturlaugssyni forstjóra og Guðmundi Páli Jónssyni starfsmannastjóra HB-Granda sem og starfsmönnum síldarbræðslunnar kærlega fyrir að hægt hafi verið ljúka þessu leiðindamáli sem staðið hefur yfir í mörg ár, með von um að allir þeir sem að þessu máli hafa komið snúi bökum saman og vinni sem ein heild svo fyrirtækið megi vaxa og dafna.

 

21
Jul

Fundað um ágóðahlutdeild starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins

Fundinn í gær sátu formenn Verkalýðsfélags Akraness og Sveinafélags málmiðnaðarmanna á Akranesi auk þeirra trúnaðarmanna félaganna hjá Íslenska járnblendifélaginu ehf. sem áttu heimangengt.  Krafa félaganna um greiðslu ágóðahluta til handa starfsmönnum Íslenska járnblendifélagsins var rædd sem og formlegt svar Íslenska

járnblendifélagsins frá 9. júlí sl.  

Á fundinum var áréttuð sú skoðun stjórna félaganna, sem og þeirra félagsmanna sem hafa tjáð sig um málið, að bókun stjórnar Íslenska járnblendifélagins  í maí 1997 hafi verið forsenda fyrir gerð kjarasamnings 1997 sem og framlengingu hans árið 2001. Hafa starfsmenn litið á greiðslu væntanlegs ágóðahlutar sem lið í sínum launakjörum og  því ljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun leita allra tiltækra leiða til að fá viðurkenningu á þessum rétti félagsmanna sinna.

 

Fram kom á fundinum að þrátt fyrir synjun í  áðurnefndu bréfi  Íslenska járnblendifélagsins frá 9. júlí, þá hefur það   komið fram í máli  aðstoðarframkvæmdastjóra IJ við lögmann félagsins og aðaltrúnaðarmann IJ að vilji sé til mæta kröfum starfsmanna.  Á fundinum var samþykkt að fela lögmanni Verkalýðsfélags Akraness láta á það reyna hvort lausn náist á málinu án afskipta dómstóla, var lögmanninum falið að fá fund með forráðamönnum Íslenska járnblendifélagins hf. hið fyrsta.   Var jafnframt, með hliðsjón af þeim tíma sem mál þetta hefur þegar tekið og að skammt er til undirbúnings kjarasamnings aðila, samþykkt að fela lögmanni Verkalýðsfélagsins að undirbúa málsókn á hendur Íslenska járnblendifélaginu ehf. ef ekki fæst fundur með félaginu á næstu dögum eða ef málið leysist ekki á slíkum fundi.

 

Ákveðið hefur verið að lögmaður Verkalýðsfélags Akraness fundi með forsvarsmönnum Íslenska járnblendifélagsins 3. ágúst.  Það liggur alveg ljóst fyrir að það verður lokatilraun af okkar hálfu til að leysa málið án afskipta dómstóla.

15
Jul

Laus vika í Súðavík 16. til 23. júlí

Vikan 16. til 23. júlí í Súðavík er nú laus til útleigu, kr. 12.000.  Nánari upplýsingar á skrifstofu félagsins, síminn er 430-9900. 

14
Jul

Svar komið frá stjórn Íslenska járnblendifélagsins

Lögmanni Verkalýðsfélags Akraness barst bréf frá stjórn Íslenska járnblendifélagsins í gær er lýtur að ágóðagreiðslum til starfsmanna, en eins og starfsmönnum ÍJ er kunnugt um samþykkti stjórn ÍJ árið 1997 að marka stefnu um ágóðagreiðslu til starfsmanna.  Hafa starfsmenn ÍJ allatíð litið á þessa bókun frá 1997 sem hluta af sínum launakjörum.

Í svari frá Helga Þórhallssyni aðstoðarframkvæmdastjóra sem undirritar bréfið fyrir hönd ÍJ. En í bréfinu segir að þeir hafni með öllu að greiða ágóðahlutdeild til starfsmanna á grundvelli bókunar frá 1997.  En óska eftir viðræðum við félagið um bónusgreiðslur til starfsmanna með hliðsjón af góðri afkomu félagsins vegna ársins 2003.  Ennfremur kemur fram í bréfinu að þær viðræður skulu fara fram á opnum grundvelli og á nokkurra fyrirfram gefinna skuldbindinga af hálfu ÍJ.  Verður það að segjast alveg eins og er að þessi niðurstaða forsvarsmanna ÍJ veldur undrun og miklum vonbrigðum.  Það hefur komið skýrt fram í máli þeirra sem tók þátt í samningagerðinni 1997 fyrir hönd starfsmanna að ef ekki hefði fengist þessi bókun stjórnar þá hefði ekki verið skrifað undir kjarasamninginn 1997 og síðast en ekki síst hafa stjórnendur ÍJ borgað starfsmönnum eftir umræddri bókun en það var árið 1998.  Því er enginn vafi í huga fyrrverandi samningamanna og starfsmanna ÍJ sem og Verkalýðsfélags Akraness að þessi bókun stjórnar ÍJ sé hluti af launakjörum starfsmanna.  Formaður félagsins hefur haft samband við aðaltrúnaðarmann ÍJ og kynnt honum innihald bréfsins.  Fyrirhugað er að halda fund með öllum trúnaðarmönnum ÍJ á mánudaginn kl 13:00 og til þess fundar mun lögmaður Verkalýðsfélags Akraness koma, sem og formaður Sveinafélagsins.  Á þeim fundi verður tekin ákvörðun um hver næstu skref í málinu verða.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image