• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Oct

Formaður og framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins komu í heimsókn í dag

Halldór Björnsson formaður Starfsgreinasambands Íslands og Skúli Thoroddsen framkvæmdastjóri SGS komu í heimsókn í dag á skrifstofu félagsins.  Tilefni heimsóknarinnar var að heyra í stjórn félagsins og fara yfir komandi ársfund Starfsgreinasambandsins sem verður haldinn  14. og 15. október n.k.  Menn fóru yfir þá alvarlegu atburði sem hafa verið að gerast í málefnum Brims og hvernig best væri að bregðast við. 

Formaður félagsins fór yfir hvað hefur verið að gerast og hvað hefur áunnist í starfsemi félagsins frá því ný stjórn tók við 19. nóvember 2003.  Sagði formaður VLFA að miðað við þær hremmingar sem félagið hefur gengið í gegnum á liðnum árum hafi stjórn félagsins tekist að færa margt til betri vegar og starfsemi félagsins hefur tekið algjörum stakkaskiptum á þessu tæpa ári frá því ný stjórn tók við.  Stjórn félagsins bauð þeim félögum Halldóri og Skúla upp á súpu og nautapottrétt sem menn voru afar ánægðir með.  Halldór Björnsson mun láta af formennsku í Starfsgreinasambandinu á ársfundinum 14. október, af því tilefni gaf Verkalýðsfélag Akraness Halldóri bókina um sögu Akraness í þakklætisskyni fyrir það góða samstarf sem hann hefur átt við Verkalýðsfélag Akraness á liðnum árum, og óskaði formaður félagsins Halldóri alls hins besta á komandi árum.

06
Oct

Viðræður um nýjan kjarasamning við Norðurál hefjast 18. október

Haldinn var fundur í dag með forsvarsmönnum Norðuráls, fundinn sátu allir formenn þeirra félaga sem eiga aðild að samningnum, ásamt aðaltrúnaðarmanni Norðuráls.  Á fundinum voru lögð fram drög að viðræðuáætlun.  Þá var tekin ákvörðun um  að hefja samningaviðræður vegna nýs kjarasamnings mánudaginn 18. október kl. 10:00.  Aðilar voru sammála um að byrja að ræða gildisvið samningsins og einnig vaktafyrirkomulag. 

05
Oct

Stuðningsyfirlýsing við aðgerðir gegn Brimi

Stjórn Verkalýðsfélag Akraness lýsir yfir fullum stuðningi við forystumenn sjómannasamtakanna í þeim aðgerðum sem nú standa yfir gegn forsvarsmönnum Brims.

Jafnframt hvetur stjórn Verkalýðsfélags Akraness verkalýðshreyfinguna í heild sinni til lýsa yfir stuðningi við aðgerðir forystumanna sjómannasamtakanna í málefnum Brims.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness telur að það þurfi að svara þessari árás forsvarsmanna Brims á skipulagða verkalýðshreyfingu af  fullri hörku.

 

04
Oct

Fiskvinnslunámskeið fyrirhugað um miðjan nóvember

Hafinn er undirbúningur að halda fiskvinnslunámskeið um miðjan nóvember.  Verkalýðsfélag Akraness mun auglýsa þetta námskeið vel, því það er til töluverðs að vinna, því að afloknu námskeiði hækkar starfsmaðurinn um tvo launaflokka.  Námskeiðið verður unnið í fullri samvinnu við atvinnurekendur.

03
Oct

Fundalotu með starfsmönnum Íslenska járnblendifélagsins vegna komandi kjarasamninga lokið í bili

Nú hafa trúnaðarmenn Íslenska járnblendifélagsins og formaður Verkalýðsfélags Akraness lokið við að funda með öllum verkamönnum sem vinna á vöktum sem og verkamönnum í dagvinnu.  Alls voru haldnir fimm fundir, þar sem farið var yfir hvaða kröfur starfsmenn vilja leggja mesta áherslu á. 

Trúnaðarmenn og formaður VLFA hafa tekið við um 40 kröfum sem starfsmenn ÍJ vilja reyna að ná fram í komandi   kjarasamningum. Samningurinn rennur út 30. nóvember.  Starfsmenn ÍJ hafa skrifað undir áskorun til þeirra félaga sem eiga aðild að kjarasamningi við ÍJ, um að félögin tryggi að kjarasamningur Íslenska járnblendifélagsins verði lágmarkssamningur á starfssvæði ÍJ við Grundartanga. Munu stéttarfélögin svo sannarlega taka þessari áskorun, og reyna að varðveita þau réttindi sem starfsmenn ÍJ bæði núverandi og fyrrverandi (GT Tækni, Fang og Klafi) hafa áunnið sér  á liðnum áratugum.  Sú barátta verður ekki átakalaus, en með samstöðu allra starfsmanna eru meiri líkur á að það takist.  Formaður VLFA lagði til að þegar samningaviðræður væru komnar á fullt skrið, þá verði haldnir fundir með starfsmönnum ÍJ eins oft og þurfa þykir og þeim gerð grein fyrir stöðu mála, með því verða starfsmenn vel upplýstir um gang viðræðnanna. Starfsmönnum ÍJ leist mjög vel á þessa tillögu formanns VLFA.

30
Sep

Samráðsnefnd SHA fundaði á miðvikudaginn 29 september

Samráðsnefnd Sjúkrahúss Akraness kom saman til fundar miðvikudaginn 29. september.  Tilefni fundarins var að fara yfir mál sem starfsmenn hafa óskað eftir að Samráðsnefndin tæki til afgreiðslu.  Vel gekk hjá Samráðsnefndinni að afgreiða þau erindi sem kom á borð nefndarinnar og ekki var ágreiningur um afgreiðslu þeirra mála.

Tvö mál eru til nánari skoðunar hjá forsvarsmönnum SHA og er niðurstöðu í þeim málum að vænta mjög fljótlega.  Það er afar brýnt að hafa virka Samráðsnefnd sem tekur strax á þeim ágreiningi sem upp kemur.  Það er líka gott fyrir starfsmenn SHA að hafa þann rétt að geta skotið málum til Samráðsnefndarinnar telji þeir að það sé verið með einum eða öðrum hætti verið að brjóta á sér.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image