• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Apr

Nýr kjarasamningur Elkem samþykktur með tæplega 90% greiddra atkvæða

Síðastliðinn miðvikudag kynnti formaður Verkalýðsfélags Akraness nýgerðan kjarasamning við Elkem Ísland 19. apríl fyrir starfsmönnum fyrirtækisins.

Við undirritun kjarasamningsins er gefur hann starfsmönnum 17,5% að teknu tilliti til eingreiðslu sem félagið samdi sérstaklega um við fyrirtækið. Án eingreiðslu eru starfsmenn að hækka í launum frá tæpum 30.000 til 35.000 kr. á mánuði á fyrsta ári. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2011 og með eingreiðslu og afturvirkni samningsins eru starfsmenn að fá allt að 500.000 kr. greiðslu með næstu útborgun. Auk taxtahækkunar eru gerðar breytingar á bónuskerfinu í nýja samningnum, hámarksbónus getur nú gefið 13,5% en 10% áður. Einnig voru nýir þættir voru teknir inn í bónuskerfið sem gerir það að verkum að það mun gefa meira en gamla kerfið gerði.

Á kynningunni lýstu starfsmenn almennt yfir ánægju með samninginn en þeim bauðst að kjósa um hann að aflokinni kynningu og einnig gátu starfsmenn kosið yfir páskahátíðina. Kosningu lauk kl. 15 í dag. Það er skemmst frá því að segja að samningurinn var samþykktur með miklum meirihluta sem sýnir þá miklu ánægju sem ríkti með samninginn. Alls greiddu 125 starfsmenn atkvæði og féllu þau þannig að 111 sögðu já sem eru 88,8% og 14 sögðu nei sem eru 11,2%.

Nú er verk að vinna, því félagið á fleiri ógerða samninga á Grundartangasvæðinu en kjarasamningur Klafa var laus 1. janúar og það er morgunljóst að krafa félagsins verður að sú krafa og eingreiðsla sem um samdist fyrir starfsmenn Elkem gangi jafnt til starfsmenn Klafa. En rétt er að geta þess að Elkem á 50% hlut í Klafa og Norðurál 50%, en Klafi sér um upp- og útskipanir á Grundartangasvæðinu.

Einnig er rétt að geta þess að launaliður Norðuráls var laus um áramótinn og sá samningur sem undirritaður var ásamt eingreiðslunni þarf klárlega að koma að fullu til starfsmanna Norðuráls. Einnig vantar starsfmenn Norðuráls 3% til að brúa endanlega launabilið milli Elkem og Alcan í Straumsvík. Launin voru jöfn til áramóta en þá runnu áhrif eingreiðslu sem félagið samdi um við Norðurál út.

26
Apr

Innbrot í Húsafelli

Nú í nótt var brotist inn í sumarbústað Verkalýðsfélags Akraness í Húsafelli. Skemmdir voru unnar á útidyrum, rúða brotin og sjónvarpi stolið. Málið hefur verið kært til lögreglu.

Þeir sem mögulega hafa séð til mannaferða eða geta veitt upplýsingar um málið eru beðnir um að hafa samband við lögreglu eða skrifstofu félagsins.

20
Apr

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness haldinn í gær

Í gærkvöldi var árlegur aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness haldinn á Gamla Kaupfélaginu. Á fundinum fór formaður félagsins yfir starfsemi og verkefni félagsins frá síðasta aðalfundi og endurskoðendur kynntu afkomu félagsins.

Endurskoðendur félagsins fóru yfir ársreikninga félagsins og í yfirferð þeirra kom m.a. fram að allir sjóðir félagsins eru reknir með rekstrarafgangi. Það er gríðarlega mikilvægt að rekstur félagsins skuli vera með þessum hætti því fjárhagslega sterkt og sjálfstætt félag er engum háð og betur í stakk búið til að styðja við sína félagsmenn og berjast fyrir réttindum þeirra af öllum kröftum.

Í skýrslu stjórnar fór formaður yfir þær gríðarlegu breytingar Verkalýðsfélag Akraness hefur tekið á undanförnum árum. Ekki aðeins fjárhagslega heldur einnig félagslega. Félagsmönnum hefur t.a.m. fjölgað mjög ört undanfarin ár og mikill metnaður hefur verið lagður í framúrskarandi þjónustu við félagsmenn.

Það var afar ánægjulegt að heyra í þeim fundarmönnum sem tóku til máls og lýstu yfir ánægju með starfsemi félagsins. Slíkt gerir ekkert annað en að efla stjórnir og starfsmenn félagsins enn frekar til dáða.

19
Apr

Eingreiðsla og afturvirkni nema allt að 500 þúsund krónum

Járnblendiverksmiðja Elkem á GrundartangaJárnblendiverksmiðja Elkem á GrundartangaRétt í þessu var undirritaður kjarasamningur Verkalýðsfélags Akraness við Elkem Ísland en samningurinn mun gilda til þriggja ára. Þetta er fyrsti samningurinn sem undirritaður er með þessum hætti hjá ríkissáttasemjara í þeirri samningalotu sem nú stendur yfir.

Starfsmenn munu hækka að meðaltali um tæp 10% á fyrsta ári samningsins og mun byrjandi hjá Elkem hækka um tæpar 30 þúsund krónur á mánuði en starfsmaður sem hefur starfað í 10 ár er að hækka um tæpar 35 þúsund krónur. Rétt er að geta þess að samningurinn hefur afturvirkni og munu starfsmenn fá greitt frá 1. janúar 2011. Þessu til viðbótar ákvað fyrirtækið vegna góðrar afkomu þess að greiða starfsmönnum ein föst mánaðarlaun aukalega. Þegar allt þetta er tekið saman er niðurstaðan sú að starfsmaður sem hefur starfað í 10 ár hjá Elkem mun fá tæpar 500 þúsund krónur í formi eingreiðslu við næstu útborgun.

Orlofs- og desemberuppbætur munu einnig hækka töluvert en þær eru samtals í dag 260.542 kr. en munu hækka í 274.872 kr. samanlagt sem er 5,5% hækkun. Heildarhækkun samningsins á samningstímanum að teknu tilliti til eingreiðslunnar vegna góðrar afkomu fyrirtækisins er um 26%.

Formaður telur þennan samning vera mjög ásættanlegan fyrir starfsmenn Elkem en samningurinn verður kynntur fyrir starfsmönnum á fundum á morgun og einnig mun starfsmönnum bjóðast að kjósa um samninginn að lokinni kynningu.

Það er alveg morgunljóst að þetta er sú lína sem félagið mun leggja varðandi aðra samninga á Grundartangasvæðinu, það er að segja við Klafa og Norðurál, en samningur Klafa var laus um áramót og launaliður Norðuráls einnig á sama tíma.

18
Apr

Drög að kjarasamningi til þriggja ára liggja fyrir hjá Elkem Ísland

Verksmiðja Elkem Ísland á GrundartangaVerksmiðja Elkem Ísland á GrundartangaRétt í þessu var að ljúka samningafundi hjá ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings Elkem Ísland og það er skemmst frá því að segja að það liggja fyrir drög að kjarasamningi sem væntanlega verður undirritaður á morgun. 

Hér er um þriggja ára samning að ræða og ef endanleg niðurstaða fæst á morgun mun formaður væntanlega kynna samninginn fyrir starfsmönnum næstkomandi miðvikudag. Formaður er þokkalega sáttur við þau drög sem nú liggja fyrir enda skiptir gríðarlega miklu máli að íslenskir launþegar fari að fá launahækkanir enda eru nú liðinir upp undir 6 mánuðir frá því að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði runnu út. Kjarasamningur Elkem rann út 1. janúar og það liggur fyrir að í þessum samningsdrögum muni vera um afturvirkni samningsins að ræða þannig að starfsmenn hafa ekki orðið af launahækkunum fyrir það tímabil frá því að samningurinn rann út.

15
Apr

Framleiðsla í Sementsverksmiðjunni loksins að fara af stað

SementsverksmiðjanSementsverksmiðjanÁ morgun mun 9 og hálfs mánaðar framleiðslustoppi í Sementsverksmiðjunni loksins ljúka og er áætlað að framleiða 25 þúsund tonn af sementi. Hluti af þeirri framleiðslu er nú þegar seldur, meðal annars í Búðarhálsvirkjun.

Þetta eru gríðarlega jákvæð tíðindi enda hefur rekstrarumhverfi Sementsverksmiðjunnar verið mjög erfitt í kjölfar hruns á byggingarmarkaðinum en formanni VLFA finnst það með óílkindum að verið sé að flytja inn erlent sement frá Danmörku á sama tíma og við Íslendingar erum að framleiða hér hágæða sement. Í fyrra voru flutt inn um 28 þúsund tonn af sementi. Það er mat formanns að íslenska ríkið eigi að styrkja íslenska framleiðslu og versla allt sitt sement innanlands en með því sparast umtalsverðar gjaldeyristekjur.

Árið 2007 framleiddi Sementsverksmiðjan 153 þúsund tonn af sementi sem var nánast metár en í fyrra voru einungis framleidd 38.700 tonn. Ástæðan fyrir því að framleiðsla er að hefjast að nýju er sú að birgðastaða á sementi á lager er nánast engin og munu þessi 25 þúsund tonn duga eitthvað fram á haust en áætlað er að það taki verksmiðjuna tvo mánuði að framleiða þau.

Verkalýðsfélag Akraness skorar á íslenska ríkið sem og alla verktaka að styðja við íslenska framleiðslu með því að versla íslenskt sement. Með því verjum við störf hér á landi og á sama tíma sparast umtalsverður gjaldeyrir og ekki veitir af um þessar mundir.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image