• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
May

Annríki í kjarasamningsgerð framundan

Húsakynni ríkissáttasemjaraHúsakynni ríkissáttasemjaraFormaður fundaði með starfsmönnum Klafa í gær og voru skilaboðin alveg skýr frá starfsmönnum: að þær launahækkanir sem um var samið hjá Elkem komi að öllu leyti yfir til Klafa. Klafi er í eigu Elkem Ísland og Norðuráls og því telja starfsmenn engar forsendur fyrir því að það eigi að skilja þá eftir í komandi kjaraviðræðum.

Á morgun mun formaður funda hjá ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings á hinum almenna vinnumarkaði ásamt stéttarfélaginu Framsýn frá Húsavík. Einnig hefur formaður óskað eftir að fundað verði vegna launaliðar Norðuráls en hann var laus um áramótin og hafa viðræður legið niðri að undanförnu sökum þess álags sem verið hefur vegna annarra kjarasamninga. Einnig vildi Verkalýðsfélag Akraness klára samninginn við Elkem Ísland sem klárlega verður hafður til hliðsjónar þegar viðræður við forsvarsmenn Norðuráls hefjast að nýju.  

04
May

Fundað með starfsmönnum Klafa

Verksmiðjur Elkem og Norðuráls á GrundartangaVerksmiðjur Elkem og Norðuráls á GrundartangaFundað var vegna kjarasamnings Klafa hjá ríkissáttasemjara í gær. Ekkert markvert kom fram á fundinum en fulltrúar SA og fyrirtækisins óskuðu eftir því að lokið yrði við kjarasamning á hinum almenna vinnumarkaði, sem væri í raun og veru í lokaferli, áður en haldið yrði áfram með kjarasamningsviðræður vegna Klafa. 

Félagið féllst á þessa ósk Samtaka atvinnulifsins í ljósi þess að kjarasamningsviðræður á milli ASÍ og SA voru komnar á fulla ferð og því erfitt að ganga frá kjarasamningi við þær aðstæður. Hins vegar gerði formaður VLFA Samtökum atvinnulífsins það alveg ljóst að starfsmenn Klafa, sem er í eigu útflutningsfyrirtækjanna Elkem og Norðuráls, gera þá skýlausu kröfu að þeir fái sömu launahækkanir og um var samið við Elkem Ísland. Er ljóst að starfsmenn muni ekki víkja frá þeirri kröfu enda engar forsendur fyrir slíku þar sem starfsmenn Klafa eru fyrrverandi starfsmenn Elkem Ísland og það væri í raun og veru nöturlegt ef ætti að fara að skilja þennan hóp starfsmanna eftir varðandi sambærilegar launahækkanir og um var samið fyrir starfsmenn Elkem.

Starfsmenn Klafa hafa óskað eftir að funda með formanni VLFA vegna þessarar stöðu og verða fundirnir í dag, fyrri fundurinn kl. 13 og síðari fundurinn verður kl. 16:40. Þar verður farið yfir þessa stöðu en það er alveg ljóst að starfsmenn ætla að senda félaginu skýr skilaboð um það að þeir muni aldrei sætta sig við neitt annað en að fá að njóta sömu launahækkana og starfsmenn Elkem.

02
May

Yfir 200 manns mættu á baráttufund vegna 1. maí

Gríðarleg stemmning var á baráttufundi vegna 1. maí hátíðarhaldanna sem stéttarfélögin á Akranesi stóðu fyrir í gær. Farin var kröfuganga sem fjölmargir tóku þátt í. Að aflokinni kröfugöngu hófust hátíðarhöld í sal Verkalýðsfélags Akraness þar sem formaður VLFA hélt ávarp en Stefán Skafti Steinólfsson, verkamaður í Elkem Ísland, hélt hátíðarræðuna í tilefni dagsins. Grundartangakórinn tók nokkur lög við texta eftir gamla snillinginn Theódór Einarsson og féllu þau í góðan jarðveg á meðal fundargesta.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness kom víða við í sinni ræðu og gagnrýndi meðal annars Samtök atvinnulífsins harðlega fyrir þá sérhagsmuangæslu sem þeir hafa ástundað fyrir LÍÚ og að Samtök atvinnulífsins séu búin að halda kjarasamningum í herkví í eina fimm mánuði. Fram kom í ræðu formanns meðal annars eftirfarandi:

Ágætu félagar.

Ég veit vel að Samtök atvinnulífsins eru ekkert ýkja ánægð með þá stefnufestu sem VLFA hefur sýnt í mörgum málum. Og sem dæmi þá gagnrýndi Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, mig harkalega í viðtali á Bylgjunni í þættinum Ísland í bítið á föstudaginn. Hann kallaði mig meðal annars „korter í þrjú gæjann“. Ekki veit ég hvað hann á við blessaður. Kannski sér hann eftir dansinum sem ég bauð honum uppí þegar ég samdi um góðan samning fyrir starfsmenn Elkem og telur sig núna hafa verið misnotaður! Hver veit?

 

Að öllu gríni slepptu þá lít ég á það sem hól þegar Samtök atvinulífsins gagnrýna mig.  Hins vegar skil ég vel að Vilhjálmur Egilsson og SA pirrist yfir störfum Verkalýðsfélags Akraness. Auðvitað fer það í taugarnar á SA að félagið náði að landa samningi við Elkem Ísland langt umfram það sem til stóð að semja á hinum almenna vinnumarkaði.  En þetta þurfti félagið meðal annars að gera í reykfylltu bakherbergi með forsvarsmönnum fyrirtækisins án vitneskju Samtaka atvinnulífsins.

Að afloknu ávarpi formanns kom Stefán Skafti Steinólfsson og hélt mjög fína barátturæðu en í ræðu hans kom meðal annars eftirfarandi fram:

Atvinnurekendur nota ástandið markvisst til að níðast á verkafólki.

Var það ekki Akraneskaupstaður sem reið á vaðið og bauð út ræstingar í leikskólum...Eins og venjulega er ráðist á lítlmagnann þegar EXCEL kynslóðin ætlar að spara. Hver er sparnaðurinn fyrir samfélagið þegar upp er staðið.

Að loknum ræðuhöldum og söngatriðum buðu stéttarfélögin upp á kaffi og kökuhlaðborð sem var í umsjón Lionsklúbbsins Eðnu og var það afar veglegt að vanda en yfir 200 manns mættu í kaffisamsætið.

29
Apr

1. maí hátíðahöld á Akranesi

Hátíðahöld á Akranesi vegna 1. maí verða með hefðbundnum hætti.

Safnast verður saman við Kirkjubraut 40 klukkan 14:00 í kröfugöngu og genginn hringur á neðri-Skaga í takt við lúðra og áslátt Skólahljómsveitar Akraness. Að göngu lokinni verður hátíðardagskrá í sal Verkalýðsfélags Akraness á 3ju hæð Kirkjubrautar 40. Fundarstjóri er Vilhjálmur Birgisson og mun hann flytja ávarp. Ræðumaður dagsins er Stefán Skafti Steinólfsson, verkamaður. Grundartangakórinn mun syngja fyrir gesti og boðið verður upp á veglegt kaffihlaðborð. Eins og undanfarin ár býður 1. maí nefndin börnum frítt í bíó í Bíóhöllinni kl. 15:00.

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að mæta og taka þátt í dagskránni.

28
Apr

Viðræðum slitið við Samtök atvinnulífsins

Í morgun fundaði formaður félagsins með ríkissáttasemjara og forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins vegna kjarasamnings Verkalýðsfélags Akraness á hinum almenna vinnumarkaði. Það er skemmst frá því að segja að niðurstaðan var engin og lét formaður bóka hjá ríkissáttasemjara árangurslausan fund sem er forsenda fyrir því að hægt sé að hefja verkfallsaðgerðir.

Verkalýðsfélag Akraness vísaði sinni kjaradeilu á hinum almenna vinnumarkaði til ríkissáttasemjara 21. janúar síðastliðinn, langt á undan öðrum stéttarfélögum sem eru þessa dagana að vísa sinni deilu til ríkissáttasemjara. En samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur er ekki hægt að hefja verkfallsaðgerðir eða boðun nema deilunni hafi verið vísað til sáttasemjara og farið hafi fram árangurslausar viðræður. Nú er eins og áður sagði þessu ferli lokið hjá félaginu og ljóst að strax eftir helgi mun félagið kalla saman samninganefnd félagsins til að fara yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin og undirbúa aðgerðir.

En eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær mun formaður félagsins leggja til við samninganefnd félagsins að hafinn verði undirbúningur að verkfallsaðgerðum er lúta að fyrirtækjum í fiskvinnslu í fyrstu atrennu. Félagið mun væntanlega boða starfsmenn fiskvinnslufyrirtækja til áríðandi fundar í næstu viku vegna þeirrar stöðu sem upp er komin ef ekki verður búið að semja fyrir þann tíma.

Formaður félagsins var í viðtali í Íslandi í bítið í morgun þar sem sú alvarlega staða sem upp er komin á hinum almenna vinnumarkaði var til umfjöllunar. Hægt er að hlusta á viðtalið hér..

27
Apr

Þeir hafa kallað eftir stríði og þeir fá stríð

Nú er orðið morgunljóst að ekki muni nást kjarasamningar við Samtök atvinnulífsins á hinum almenna vinnumarkaði með góðu. Á þeirri forsendu mun formaður félagsins um eða eftir helgi boða samninganefnd Verkalýðsfélags Akraness til fundar þar sem verkfallsaðgerðir verða ákveðnar. Formaður mun leggja til við samninganefnd félagsins að hafin verði undirbúningur að verkfalli í öllum fiskvinnslufyrirtækjum á félagssvæði félagsins en þau eru þónokkur. Formaður hefur haft samband við forsvarsmenn nokkurra fiskvinnslufyrirtækja til að greina þeim frá þeirri grafalvarlegu stöðu sem upp er komin á íslenskum vinnumarkaði og fann formaður fyrir miklum vilja frá fulltrúum þeirra fyrirtækja sem hann ræddi við um að leysa þessa kjaradeilu án þess að til átaka kæmi.

Nú eru liðnir 6 mánuðir frá því að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði runnu út en íslenskir launþegar hafa orðið fyrir gríðarlegri kaupmáttarskerðingu frá janúar 2008. Á þeirri forsendu verða kjarabætur til handa íslensku verkafólki sóttar af fullum þunga á næstu vikum. Félagið hefur sagt að fyrirtækjum sem starfandi eru í útflutningi og hafa hagnast umtalsvert vegna gengisfalls íslensku krónunnar verði ekki hlíft við að skila þeirri kaupmáttarskerðingu sem starfsmenn þeirra hafa orðið fyrir.

Það er nöturlegt og í raun og veru sorglegt að verða vitni að því að stórt og öflugt sjávarútvegsfyrirtæki eins og til dæmis HB Grandi sjái sér fært að greiða út tæplega 400 milljóna króna arð til hluthafa á sama tíma og fiskvinnslufólk hefur verið án launahækkana í 6 mánuði og um leið orðið fyrir skefja- og miskunnarlausum hækkunum á öllum sviðum. En eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni hafa allir varpað sínum vanda viðstöðulaust yfir á íslenska launþega eins og til að mynda ríki, sveitarfélög, verslunareigendur og aðrir þjónustuaðilar.   

Að sjálfsögðu mun félagið leita leiða með þeim fyrirtækjum sem eru á félagssvæði þess til að leysa þessa kjaradeilu án átaka en eins og staðan er í dag er ofbeldi Samtaka atvinnulífsins þvílíkt að ekki verður lengur við unað. Þeir hafa kallað eftir stríði og þeir fá stríð.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image