• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
May

Atkvæðagreiðslu lýkur á morgun

Klukkan 12:00 á morgun lýkur atkvæðagreiðslu um kjarasamninga Verkalýðsfélags Akraness við Samtök atvinnulífsins annars vegar vegna starfa á almennum vinnumarkaði (Almenn deild og Matvæladeild) og hins vegar vegna iðnaðarmanna (Iðnsveinadeild).

Kjarasamningar og kynningargögn liggja frammi á skrifstofu félagsins þar sem opinn kjörfundur fer fram. Einnig er hægt að skoða upplýsingar um almenna samninginn með því að smella hér og samning iðnaðarmanna hér.

20
May

Viðræðum slitið við Samtök atvinnulífsins vegna Klafa

Verksmiðjur Elkem Ísland og Norðuráls á GrundartangaVerksmiðjur Elkem Ísland og Norðuráls á GrundartangaSamningafundur var haldinn hjá ríkissáttasemjara í dag vegna kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins vegna Klafa ehf. En Klafi er fyrirtæki sem sér um alla þjónustu á Grundartangahöfn, meðal annars upp- og útskipanir og er í eigu risanna tveggja á svæðinu, það er að segja Norðuráls og Elkem Ísland, til helminga. 

Krafa félagsins er að starfsmenn Klafa fái sömu launahækkanir og eingreiðslu og um var samið hjá Elkem Ísland enda eru starfsmenn Klafa fyrrverandi starfsmenn Elkem Ísland. Það fyrirkomulag að stofna nýtt félag utan um út- og uppskipanir var tekið upp fyrir nokkrum árum síðan en átti ekki að leiða til þess að kjör þeirra sem þar starfa myndu dragast aftur úr starfsmönnum Elkem Ísland.

Samtök atvinnulífsins buðu nákvæmlega sömu launahækkanir og um var samið á hinum almenna vinnumarkaði en því var snarlega hafnað með afgerandi hætti hjá ríkissáttasemjara í dag. Óskuðu formaður Verkalýðsfélags Akraness og trúnaðarmaður starfsmanna Klafa eftir að bókaður yrði árangurslaus fundur en það er skilyrði til þess að starfsmenn geti gripið til einhverra róttækra aðgerða til að knýja fram þá sanngjörnu kröfu að fá sömu launahækkanir og starfsfélagar þeirra hjá Elkem Ísland.

Þessari kröfu verður fylgt eftir af fullum þunga og mun formaður funda með starfsmönnum á þriðjudaginn þar sem aðgerðir verða skipulagðar en fátt virðist nú geta komið í veg fyrir alvarleg átök á Grundartangasvæðinu vegna þessarar deilu. En slík deila mun klárlega geta haft áhrif á bæði starfsemi Elkem Ísland sem og Norðuráls.

20
May

18,4% launamunur á milli fiskvinnslufyrirtækja á Akranesi

Bónusgreiðslur eru afar mismunandiBónusgreiðslur eru afar mismunandiKynningarfundur var haldinn í gær um nýgerðan kjarasamning á hinum almenna vinnumarkaði. Þar fór formaður yfir helstu atriði samningsins. Fram kom í máli fundarmanna að vissulega hefðu lágmarkslaunin þurft að hækka mun meira en um var samið en sem betur fer náðist þó að skila örlítið meiri ávinningi til fiskvinnslufólks heldur en margra annarra sem taka kjör eftir kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði. Nægir að nefna í því samhengi að laun fiskvinnslufólks eru að hækka um rúm 11% á þessu ári að teknu tilliti til 50 þúsund króna eingreiðslu og 25 þúsund króna álags á orlofs- og desemberuppbætur. Samt sem áður kom fram í máli formanns að laun fiskvinnslufólks séu ekkert til að hrópa húrra yfir en það er verkefni verkalýðshreyfingarinnar að bæta kjör þessa fólks sem og annarra sem starfa á hinum almenna vinnumarkaði.

Einnig kynnti formaður samanburð sem hann gerði á bónusum fiskvinnslufyrirtækjanna á Akranesi. Þau fyrirtæki sem hann skoðaði voru HB Grandi, Norðanfiskur, hrognavinnsla Vignis G. Jónssonar, lifrabræðslan Akraborg og Laugafiskur. Það er skemmst frá því að segja að bónusgreiðslur til starfsmanna sem starfa í fiskvinnslu eru afar mismunandi. Hæsti meðaltalsbónusinn var hjá lifrarbræðslunni Akraborg en þar var meðaltalsbónusinn á síðustu 12 mánuðum 349 kr. sem gerir 60.492 kr. á mánuði og því hafði sérhæfður fiskvinnslumaður sem starfar hjá Akraborg 234.992 kr. í mánaðarlaun. Þessi starfsmaður mun hækka upp í 256.698 kr. sem er hækkun upp á tæp 22 þúsund. Það er skemmst frá því að segja að starfsmenn Akraborgar njóta rúmum 37 þúsund krónum hærri launagreiðslna eða sem nemur 18,4% heldur en það fiskvinnslufyrirtæki sem greiðir hvað minnstan bónus en hann var 152 kr.

Formaður fagnar því framtaki hjá Akraborg að taka upp nýtt bónuskerfi sem skilar bæði starfsmönnum og fyrirtækinu miklum ávinningi sem leiðir til þess að fyrirtækið er að greiða langhæsta bónusinn á meðal fiskvinnslufyrirtækja. Ef bónusinn heldur áfram að vera jafn lifandi og hann var á síðustu 12 mánuðum má áætla að meðaltalsbónusinn hjá starfsmönnum Akraborgar verði 405 kr.

18
May

Kynningarfundur og atkvæðagreiðsla vegna nýrra kjarasamninga

Vegna nýgerðra kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins um störf á almennum vinnumarkaði annars vegar og iðnaðarmanna hins vegar boðar Verkalýðsfélag Akraness til kynningafundar á Gamla Kaupfélaginu, Kirkjubraut 11 fimmtudagskvöldið 19. maí kl. 20:00. Eftir kynninguna hefst kosning um samningana og geta fundarmenn kosið á staðnum.

Opinn kjörfundur stendur til kl. 12:00 fimmtudaginn 26. maí og verður hægt að kjósa á skrifstofu félagsins, Sunnubraut 13 fram að þeim tíma. Kjarasamningar og kynningargögn liggja frammi á skrifstofu. Einnig er hægt að skoða upplýsingar um almenna samninginn með því að smella hér og samning iðnaðarmanna hér.

Athygli er vakin á því að þessir samningar eiga ekki við um þá félagsmenn sem starfa í stóriðju, hjá sveitarfélögum eða ríki, aðeins þá sem starfa á almennum vinnumarkaði (Almenn deild VLFA) og iðnaðarmenn (Iðnsveinadeild VLFA).

Þeir félagsmenn sem þetta á við um eru eindregið hvattir til að mæta á kynningarfundinn annað kvöld og kynna sér efni samninganna.

16
May

Fyrirtækjasamningur kynntur fyrir starfsmönnum ISS á Grundartanga

Formaður fundaði með starfsmönnum ISS á Grundartanga en það eru starfsmenn sem sjá um ræstingu og mötuneyti hjá Elkem Ísland. Tilefni fundarins var nýgerður fyrirtækjasamningur sem formaður ásamt trúnaðarmanni hafa verið að vinna að um alllanga hríð og fór formaður yfir innihald samningsins.

Fyrirtækjasamningurinn gildir í 3 ár og er starfsmaður með 10 ára starfsreynslu að hækka úr 289 þúsund krónum í 306 þúsund krónur á mánuði en inni í því er 8,8% vaktaálag sem miðast við að unnið sé fjórðu hverja helgi. Þessu til viðbótar tókst að hækka orlofs- og desemberuppbætur umtalsvert en þær voru 104.547 kr. hvor fyrir sig eða samtals 209.094 kr. í 119.889 kr. hvora fyrir sig eða samtals 239.778 kr. sem er hækkun upp á 14,7%.

Einnig munu starfsmenn fá þessa hefðbundnu eingreiðslu upp á 50 þúsund krónur og viðbótarhækkun um 10 þúsund vegna orlofsuppbótar og 15 þúsund krónur vegna desemberuppbótar en þessar eingreiðslur koma vegna þess hversu lengi hefur dregist að ganga frá kjarasamningi.

13
May

Þrír kjarasamningar undirritaðir í dag

Húsakynni ríkissáttasemjaraHúsakynni ríkissáttasemjaraÞað er óhætt að segja að þetta hafi verið annasamur dagur varðandi kjarasamningsgerð en formaður félagsins undirritaði þrjá samninga hjá ríkissáttasemjara í dag við Samtök atvinnulífsins. Eins og áður hefur komið fram var það kjarasamningur á hinum almenna vinnumarkaði sem gengið var frá. Einnig var gengið frá samningi vegna starfsmanna fiskimjölsverksmiðjunnar og síðast en ekki síst þá tókst loksins að ganga frá fyrirtækjasamningi fyrir starfsmenn ISS sem starfa í mötuneytinu og við ræstingar hjá Elkem Ísland á Grundartanga. 

Greint verður nánar frá innihaldi þessara samninga eftir helgi og samningarnir verða kynntir fyrir starfsmönnum alla næstu og þarnæstu viku.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image