• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
VLFA

VLFA

Big fan of open source and Joomla

Website URL: http://joomlabuff.com
Tuesday, 23 November 2010 00:00

Góður fundur í Alþingishúsinu í gær

Þingflokkur Hreyfingarinnar óskaði eftir að funda með formanni Verkalýðsfélags Akraness og að sjálfsögðu varð formaðurinn við þeirri beiðni. Fundurinn fór fram í þingflokksherbergi Hreyfingarinnar í Alþingishúsinu í gær.

Fundurinn var afar opinskár og málefnalegur en formaður VLFA lýsti yfir áhyggjum sínum af stöðu þeirra sem starfa á lágmarkslaunum en eins og staðan er í dag þá duga lágmarkslaun ekki fyrir lágmarksframfærslu. Formaður nefndi við þingmenn Hreyfingarinnar að ef atvinnurekendum og verkalýðshreyfingunni muni ekki bera gæfa til að hækka hér lágmarkslaun verulega í komandi kjarasamningum þá verði Alþingi Íslendinga að grípa inn í og lögbinda hér lágmarkslaun svo sómi sé að.

Einnig bar lífeyrissjóðina á góma en það er skoðun formanns að aðkoma atvinnurekenda að stjórnun lífeyrissjóðanna sé afar óeðlileg enda liggur fyrir að krosseignatengsl og hagsmunaárekstrar atvinnurekenda í stjórnun sjóðanna séu klárlega til staðar. Formaðurinn kom þeirri skoðun sinni á framfæri að breyta þurfi lögum um starfsemi lífeyrissjóðanna með þeim hætti að sjóðsfélagarnir sjálfir skipi í stjórnir sjóðanna og það séu sjóðsfélagarnir sjálfir sem kjósi sér alla sína stjórnarmenn.

Það er afar ánægjulegt þegar þingflokkar kalla fulltrúa aðila vinnumarkaðarins til fundar við sig til að heyra sjónarmið og áherslur stéttarfélaganna, til dæmis vegna komandi kjarasamninga og annarra hagsmunamála er lúta að íslenskum launþegum. Formaður Verkalýðsfélags Akraness tilheyrir engum stjórnmálaflokki enda er það hans skoðun að forystumenn í verkalýðshreyfingunni eigi ekki að vera eyrnamerktir einhverjum einum ákveðnum stjórnmálaflokki heldur eigi þeir að styðja öll góð mál er lúta að hagsmunum sinna félagsmanna, óháð því frá hvaða stjórnmálaflokki slík mál koma.

Thursday, 25 November 2010 00:00

Vinnumálastofnun á Akranesi stendur sig vel

Vinnumarkaðsráð Vesturlands fundaði í gær og var meðal annars farið yfir atvinnuástandið á Vesturlandi og rýnt í atvinnuleysistölur. Það sem kom meðal annars fram á fundinum var að atvinnuleysi hefur verið að aukast á Akranesi á milli mánaða. Í september voru 197 einstaklingar á Akranesi án atvinnu eða sem nemur 5,6% atvinnuleysi en í október voru 242 án atvinnu sem nemur 6,8%.

Ástæðan fyrir þessari aukningu er fyrst og fremst sú að hvalveiðum lauk á þessu tímabili en um 150 manns víðsvegar af Vesturlandi og á höfuðborgarsvæðinu höfðu atvinnu af hvalveiðunum. Það kom skýrt fram á fundinum hversu gríðarlega mikilvægar hvalveiðarnar eru atvinnulífinu á þessu svæði enda sköpuðu þær eins og áður hefur komið fram um 150 störf frá júní til loka septembermánaðar.

Vinnumarkaðsráð lýsir yfir þungum áhyggjum af því atvinnuástandi sem nú er á Vesturlandi og vill að við því verði brugðist, til dæmis með aukningu á aflaheimildum. Einnig lýsti Vinnumarkaðsráð yfir áhyggjum sínum vegna þess mikla niðurskurðar sem boðaður hefur verið í heilbrigðiskerfinu.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness, sem situr í Vinnumarkaðsráði, velti þeirri hugmynd upp í gær hver raunverulegur sparnaður heilbrigðiskerfisins væri af því að segja upp opinberum starfsmönnum en eins og fram hefur komið er gert ráð fyrir því að rúmlega 600 opinberir starfsmenn muni missa vinnuna samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Sérstaklega má velta fyrir sér raunverulegum sparnaði með því í ljósi þeirra staðreynda að opinberir starfsmenn munu færast af launaskrá hjá heilbrigðisráðuneytinu yfir á félagsmálaráðuneytið sem hefur yfirumsjón með atvinnuleysistryggingasjóði. Með öðrum orðum er það mat formanns að sparnaðurinn sé óverulegur við að segja upp opinberum starfsmönnum og setja þá á atvinnuleysisbætur.

Það kom einnig fram hjá fulltrúum Vinnumálaráðs í gær að vinnumálastofnun á Vesturlandi sé að standa sig einstaklega vel í hinum ýmsu málum er lúta að atvinnuleitendum og nægir að nefna í því samhengi þá miklu vinnu sem starfsmenn Vinnumálastofnunnar leggja á sig við hin ýmsu vinnumarkaðsúrræði til handa atvinnuleitendum.

Tíminn einn mun leiða það í ljós hversu mikla fjármuni forseti Íslands sparaði íslensku þjóðinni með þeirri ákvörðun sinni að synja Icesave lögunum á sínum tíma.

Nú berast af því fréttir að samningar séu að nást við Breta og Holllendinga í þessari Icesavedeilu.

Það er æði margt sem bendir til þess að okkur beri engin skylda til að ábyrgjast Icesave drápsklyfjarnar, ef marka má okkar færustu lögspekinga og nægir að nefna í því samhengi lagaprófessorana Sigurð Líndal, Stefán Má Stefánsson og lögfræðinginn Lárus Blöndal. Einnig segir Dr. Michael Waibel, sérfræðingur í alþjóðalögum, engar klárar lagalegar skyldur hvíla á herðum Íslendinga til þess að borga Icesave skuldina.

Meira að segja Fjármálaeftirlitið gerði ekki ráð fyrir að ríkisábyrgð væri á Icesave innistæðum í Bretlandi og Hollandi þegar útibú Landsbankans þar voru stofnuð. Eftirlitið benti á að hvergi í lögum um innistæðutryggingar sé talað um ríkisábyrgð.

Formaður félagsins spyr: hví vilja íslensk stjórnvöld leggja slíkar klyfjar á komandi kynslóðir ef engar lagalegar forsendur eru fyrir slíkri skuldbindingu? Við Íslendingar eigum að senda skýr skilaboð út til Breta og Hollendinga um að við viljum greiða það sem okkur ber samkvæmt lagalegum skyldum en við viljum að sjálfsögðu fá að vita hverjar þær lagalegu skuldbindingar eru.

Það blasir við hver ástæða Breta og Hollendinga er þegar þeir neita því að fara með málið fyrir dómstóla. Jú, okkur ber alls engin lagaleg skylda til að greiða þessa skuld.

Sá fantaskapur sem þessi ríki hafa sýnt okkur er ótrúlegur. Fyrst hryðjuverkalög, settir í flokk með Al Quaida og öðrum ribböldum og síðan krafist þess að við tökum á okkur alla ábyrgð í þessu máli.

Gríðarlegur kostnaður 

Hvað hefði það þýtt fyrir okkur Íslendinga ef forsetinn hefði ekki synjað staðfestingu á Icesavelögunum og samningurinn verið samþykktur eins og lá fyrir á sínum tíma? -Jú, við Íslendingar hefðum þurft að greiða 100 milljónir dag hvern bara í vaxtagreiðslur, eða sem nam á bilinu 36 – 45 milljörðum á hverju ári. Það hefði þurft 80.000 skattgreiðendur til að standa bara undir þessum vaxtagreiðslum og til að setja þetta frekar í samhengi, þá kostar 32 milljarða að reka Landspítalann – Háskólasjúkrahús árlega. Og til að sýna enn frekar fáránleikann sem fólginn er í þeim stjarnfræðilegu tölum sem um ræddi þá var verið ekki alls fyrir löngu að vígja hæstu byggingu heims í Dubai, en við gætum reist fyrir Breta einn slíkan turn fyrir helming þeirrar upphæðar sem við áttum að greiða í vexti af síðasta  Icesave-samningi.

Á þessu sést að íslensk þjóð gat ekki undir nokkrum kringumstæðum axlað þá ábyrgð vegna græðgisvæðingar örfárra einstaklinga og handónýts eftirlitskerfis.

Ragnar Reykás

Hvað sagði ekki Steingrímur J. Sigfússon í fréttum 23. október 2008? Hann sagði að það yrði gerð uppreisn hér á landi ef gengið yrði að kröfum Breta og Hollendinga um skuldbindingu vegna Icesave-reikninganna. Hann sagði einnig að Íslendingar hafi uppfyllt allar lagalega skyldur og tilskipanir Evrópusambandsins um innlánstryggingakerfið og Íslendingum bæri ekki að láta undan kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins því okkur beri ekki skylda til að greiða tapið á Icesave-reikningunum.

Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon í október 2008. En það kvað við nýjan tón hjá Steingrími eftir að hann var sestur í ríkisstjórn og hélt m.a uppi skefjalausum hræðsluáróðri um að allt færi hér til fjandans ef ekki yrði gengið frá Icesave-samningunum án tafar. Því segi ég: Ragnar Reykás er grátbroslegur í samanburði við þann viðsnúning sem hefur orðið hjá fjármálaráðherra í þessu máli.

Eins og fram kom áðan, þá á krafa Íslendinga að vera skýr: Borgum það sem okkur ber lagaleg skylda til og krefjumst þess að sú skylda verði kölluð fram af óháðum dómstólum. Enda er, eins og áður hefur komið fram, álit flestra fræðimanna að ekki sé kveðið á um ríkisábyrgð í Evrópureglugerð um innstæðutryggingar og Steingrímur J. er því sammála ef marka má ummæli hans frá því í október 2008.

Reiðir forsetanum

Það voru æði margir sem voru afar reiðir því þegar forsetinn neitaði að staðfesta lögin á sínum tíma.  Það er mér óskiljanlegt að meira að segja einstaka forystumenn í verkalýðshreyfingunni skuli hafa verið æfir yfir þessari ákvörðun forsetans  og nægir að nefna það sem fram kom á vef Starfsgreinasambandsins í því samhengi en þar segir m.a. Forseti lýðveldisins kemur fram af miklu ábyrgðarleysi gagnvart efnahagsvanda þjóðarinnar.

 Einnig er rétt að rifja upp þegar Össur Skarphéðinsson, sá ágæti ráðherra sagðist ekki vera tilbúinn til þess að bera töskur forsetansí Indlandsferðinni sem forsetinn fór í sínum tíma. Í þessu samhengi vil ég segja við Össur Skarphéðinsson: yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er ekki tilbúinn að bera þær drápsklyfjar sem stóð til að leggja á hana. En það er ljóst að það mun þurfa marga töskubera til að bera farangur fólks sem mun flýja þetta land ef þessi reikningur fellur á saklausan almenning þessarar þjóðar.

Ólafur Ragnar Grímsson segir í sjónvarpsviðtali við Bloombergfréttastofuna:  “Hversu langt er hægt að ganga og fara fram á að venjulegt fólk - bændur, sjómenn, læknar og hjúkrunarfræðingar - axli ábyrð á föllnu bönkunum? Sú spurning, sem er kjarninn í Icesave málinu.”

Formaður félagsins er stoltur af forsetanum mínum sem hafði kjark og þor til að taka þessa ákvörðun og hefur í þessu máli varið hagsmuni þjóðarinnar á alþjóðlegum vettvangi með kjafti og klóm. Einnig er fotrmaðurinn algjörlega sammála forsetanum þegar hann segist enn þeirrar skoðunar að kjósendur eigi að hafa lokaorðið á hverju því samkomulagi sem gert verður við Breta og Hollendinga og við Íslendingar eigum ekki undir nokkrum kringumstæðum að taka annað í mál en að þjóðin fái að hafa lokaorðið í þessu máli.

Monday, 29 November 2010 00:00

Samninganefnd SGS fundaði í dag

Rétt í þessu lauk fundi samninganefndar Starfsgreinasambands Íslands í húsakynnum Ríkissáttasemjara. Á fundinum var lögð lokahönd á kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands gagnvart Samtökum atvinnulífsins.

Kröfugerðin verður ekki gerð opinber fyrr en hún hefur verið afhent fulltrúum Samtaka atvinnulífsins, en það verður gert 6. desember nk.

Það eina sem formaður getur sagt er að hann er nokkur sáttur við áherslur þeirrar kröfugerðar sem Starfsgreinasambandið hefur nú mótað. En eins og flestir vita þá hafa ýmsir aðilar í íslensku samfélagi eins og t.d. Guðbjartur Hannesson félagsmálaráðherra, Runólfur Ágústson stjórnarformaður Vinnumálastofnunar og Björk Vilhelmsdóttir formaður Velferðasviðs Reykjavíkurborgar bent á að stórlega þurfi að hækka lágmarkslaun og lágmarkstaxta á Íslandi. 

Það er alveg ljóst að framundan eru afar erfiðar kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins, ríki og sveitarfélög og er því mjög mikilvægt að verkalýðshreyfingin standi þétt saman við að ná sínum áherslum fram.

Skrifstofa félagsins hefur fundið fyrir gríðargóðum viðbrögðum við átaki sem unnið hefur verið að undanförnu til að ná fram afsláttarkjörum fyrir félagsmenn. Félagið kynnti átakið með auglýsingu í staðarblöðum í vikunni og hefur hún vakið hefur frábær viðbrögð. Hægt er að sjá auglýsinguna með því að smella hér.

Í dag bættust fyrirtækin Olís og Model í hóp þeirra sem munu bjóða félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness ýmis sérkjör gegn framvísun félagaskírteinis.

Olís mun bjóða 7 króna afslátt af dæluverði á þjónustustöðvum Olís og 5 króna afslátt af dæluverði hjá ÓB. Auk þess er boðinn 5-15% afsláttur af ýmsum vörum og þjónustu hjá fyrirtækinu. Gengið verður frá endanlegum samningi eftir helgina.

Hægt er að sjá nánari upplýsingar um afsláttarkjör Olís með því að smella hér. 

Skjal um virkni og leiðbeiningar varðandi afsláttarkjörin má sjá með því að smella hér. 

Model mun einnig bjóða félagsmönnum sérkjör, en verið er að vinna í því. Nánari upplýsingar munu koma þegar þær liggja fyrir.

Þau fyrirtæki sem nú þegar hafa ákveðið að veita félagsmönnum afslátt gegn framvísun félagsskírteinis eru þá:

  • Model Akranesi, nánari upplýsingar síðar
  • Olís umtalsverður afsláttur af vöru og þjónustu sjá nánar hér
  • Tryggingafélagið VÍS 5% óháð öðrum afsláttarkjörum sem félagsmenn kunna að hafa.
  • N1 umtalsverður afsláttur á vörum og þjónustu sjá nánar hér
  • Apótek Vesturlands 10% afsláttur af vörum í búð (ekki lyfjum)
  • Ozone 10% afsáttur
  • Omnis 15 % afsláttur af skólavörum, skrifstofuvörum og bleki, 5% afslátt af tölvum og öðrum vörum - 12 mánaða vaxtalaus lán á kreditkort (GSM símar undanskildir)
  • Bifreiðaverkstæðið Brautin 7% afsláttur af vinnu

    Þau fyrirtæki sem eru tilbúin til að veita afslætti fyrir Verkalýðsfélag Akraness eru eindregið hvött til að hafa samband við skrifstofu félagsins. Rétt er að geta þess að um 3.000 félagsmenn eru í VLFA og mun félagið sjá um að auglýsa þessi afsláttarkjör vel og rækilega fyrir sínum félagsmönnum.

 

Það er óhætt að segja að nýju fjárlögin sem kennd eru við hrunfjárlög hafi vakið upp ugg og ótta á meðal almennings. En í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir stórfelldum niðurskurði í heilbrigðiskerfinu sem nemur 5,4 milljörðum. Þessi niðurskurður í heilbrigðiskerfinu mun koma afar misjafnlega niður á heilbrigðisstofnanir en verst kemur heilsugæslan í Þingeyjarsýslu út með 40% niðurskurð. Það er einnig verið að skerða almannatryggingar og velferðarmál um 4,5 milljarða og nægir að nefna í því samhengi að fyrirhugað er að skerða barnabætur um 900 milljónir, vaxtabætur um tæpar 300 milljónir og skerða á fæðingarorlofssjóð um 1 milljarð. Að auki er ekki gert ráð fyrir neinum launahækkunum í þessu frumvarpi, ekki einu sinni til þeirra allra tekjulægstu sem starfa hjá hinu opinbera. Það er ljóst að þetta frumvarp mun valda því að tugir ef ekki hundruðir opinberra starfsmanna munu missa vinnuna með skelfilegum afleiðingum fyrir samfélagið allt. Hver er hinn raunverulegi sparnaður af því að segja upp opinberum starfsmanni og færa vandann frá til dæmis heilbrigðiskerfinu yfir á félagsmálaráðuneytið í formi þess að viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður sem missir vinnuna fer á atvinnuleysisbætur.

Með öðrum orðum er verið að skera niður í velferðarmálum um 10 milljarða sem er skelfilegt því það er skylda okkar að verja velferðarkerfið okkar með kjafti og klóm.  Það er óskiljanlegt að ríkisstjórnin skuli ekki nýta sér þá heimild að skattleggja tafarlaust inneign í séreignarlífeyrissjóðum landsmanna en slíkt myndi skila ríkissjóði um eða yfir 100 milljörðum og þannig væri hægt að komast hjá þessum blóðuga niðurskurði í velferðarkerfinu okkar. Ugglaust er það hárrétt að ríkið verði að leita allra leiða til að hagræða í sínum rekstri og ekkert nema gott um það að segja en að það skuli bitna á velferðarkerfinu okkar með jafn skelfilegum hætti og raunin ætlar að verða er algjörlega óásættanlegt. Því skorar formaður Verkalýðsfélags Akraness á ríkisstjórn Íslands að nýta sér þá heimild að skattleggja séreignarlífeyrisgreiðslur landsmanna án tafar og slá skjaldborg utan um velferðarkerfið okkar um leið.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness spyr sig: Er þetta skjaldborgin og norræna velferðin sem okkur var lofað á sínum tíma, ef svo er þá segir formaðurinn, sveiattan.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness tók þátt í mótmælum á Austurvelli í gær þegar um 8.000 manns voru þar samankomin m.a. til að mótmæla algjöru aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í skuldavanda heimilanna. Það var dapurlegt að verða vitni að því hversu mikil reiði og vonleysi skein úr andlitum mótmælenda. Þarna var samankominn þverskurður íslensks samfélags og langstærsti hlutinn var venjulegt fjölskyldufólk sem hagað i sér í fullu samræmi við friðsöm mótmæli.

Þessi mótmæli sýndu svo ekki verður um villst að alþýða þessa lands er búin að fá nóg. Hún er búin að fá nóg af því aðgerðaleysi sem ríkt hefur í málefnum íslenskra fjölskyldna frá því að ríkisstjórnin tók við. Henni var lofað að slegin yrði skjaldborg utan um heimilin og þá sem minnst mega sín í íslensku samfélagi en því miður hefur raunin orðið allt allt önnur.

Það er alveg ljóst að ríkisstjórn Íslands og Alþingi verða að koma tafarlaust með alvöru úrræði til lausnar skuldavanda heimilanna og það er einnig ljóst að það verður að grípa til almennra leiðréttinga á skuldum heimilanna. Hagsmunasamtök heimilanna hafa einmitt lagt fram ítarlegar tillögur í þeim efnum sem eru afar athyglisverðar og hafa hagsmuni heimilanna að leiðarljósi.

Verkalýðsfélag Akraness hefur ætíð stutt baráttu Hagsmunasamtaka heimilanna, en samtökin hafa m.a. bent á að grípa þurfi til almennra leiðréttinga vegna skuldavanda heimilanna og það er í raun og veru dapurlegt og grátbroslegt að afar hagstæðar tillögur til handa alþýðu þessa lands skuli koma frá Hagsmunasamtökum heimilanna, þegar lítið sem ekkert hefur komið frá forystu Alþýðusambands íslands í þessum efnum. Jú, það hefur komið fram frá forystu ASÍ að verðtryggingin verði að vera áfram við lýði. Forseti ASÍ sagði m.a. í desember 2008 þegar tillögur komu t.d. frá formanni VLFA um að taka þyrfti neysluvísitöluna úr sambandi og festa hana við verðbólgumarkmið Seðlabankans að slík tillaga væri eins og að taka hitamælinn úr sambandi þegar farsóttir geisuðu.

Einnig hefur forysta ASÍ lýst sig andsnúna almennri leiðréttingu á skuldum heimilanna en hefur talað fyrir sértækum aðgerðum. Reynslan sýnir okkur þó svo ekki verður um villst að slík leið er nánast ófær og afar ósanngjörn eins og fjölmörg dæmi hafa sýnt okkur. Dæmin hafa sýnt að einstök fyrirtæki hafa verið að fá niðurfellingu á sínum skuldum svo nemur hundruðum milljóna og í sumum tilfellum milljarða króna. Á meðan er venjulegu íslensku fjölskyldufólki gert skylt að greiða sínar stökkbreyttu skuldir með góðu eða illu.

Það er þetta óréttlæti sem alþýða þessa lands mun ekki og ætlar sér ekki að láta viðgangast.

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við Háskóla Íslands, sem kennir námskeið í mannauðsstjórnun sem heitir Samskipti á vinnumarkaði, bauð formanni Verkalýðsfélags Akraness að koma og hitta nemendur á meistarastigi í mannauðsstjórnun til að ræða um verkalýðshreyfinguna.

Að sjálfsögðu þáði formaður þetta góða boð og mætti í Háskóla Íslands í gær til að fara yfir málefni er lúta að verkalýðshreyfingunni og stöðu hennar í dag. Fram kom í máli formanns félagsins í háskólanum í gær að hann telur gríðarlega gjá hafa myndast á milli hins almenna félagsmanns og verkalýðshreyfingarinnar. Það kom einnig fram hjá honum að hann telur að verkalýðshreyfingin hafi misst traust og trúnað sinna félagsmanna enda er það mat formanns að forystan hafi ekki tekið stöðu með launafólki í því skelfingarástandi sem nú ríkir hjá íslenskum heimilum.

Sem dæmi þá hefur forysta ASÍ barist fyrir því að verðtryggingin fái að halda sér eins og margoft hefur komið fram í fjölmiðlum og nægir að nefna í því samhengi að forseti ASÍ var ekki sammála tillögum sem voru fólgnar í því að taka neysluvísitöluna úr sambandi í janúar 2009 og festa hana við verðbólgumarkmið Seðlabankans en slík aðgerð hefði klárlega hjálpað skuldsettum heimilum umtalsvert. Einnig kom fram í máli formanns að honum finnst vanta allan kraft í verkalýðshreyfinguna er lítur að kjarabaráttu almennt og nægir að nefna í því samhengi að lágmarkslaun á Íslandi eru einungis 165 þúsund krónur í dag sem er útilokað fyrir nokkurn mann að framfleyta sér á.

Formaður nefndi einnig á námskeiðinu í gær að verkalýðshreyfingin verði að taka stöðu með launþegum, berjast af alefli fyrir almennum leiðréttingum á stökkbreyttum skuldum heimilanna og beita sér af fullum þunga fyrir bættum kjörum sinna félagsmanna í komandi kjarasamningum. Formaður nefndi það einnig að aðkoma verkalýðshreyfingarinnar að lífeyrissjóðunum hafi klárlega skaðað hreyfinguna enda hefur forysta ASÍ því miður tekið stöðu með lífeyrissjóðunum sem síðan hefur leitt til þess að skuldsett heimili hafa fengið það illilega í bakið. Nægir að nefna varðstöðu ASÍ við verðtrygginguna í því samhengi.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness samþykkti á fundi sínum í gær að styrkja Hagsmunasamtök heimilanna um 200 þúsund krónur vegna frábærrar baráttu þeirra vegna skuldavanda íslenskra heimila. Verkalýðsfélag Akraness hefur frá upphafi stutt Hagsmunasamtökin af fullum hug í þeirri baráttu að bæta stöðu skuldsettra heimila, meðal annars með almennum leiðréttingum á skuldum. HH hafa lagt fram ítarlegar tillögur til að mæta skuldavanda heimilanna og eru þetta tillögur í anda þess sem Verkalýðsfélag Akraness hefur ætíð talað fyrir.

Það er með ólíkindum að grasrótarsamtök eins og Hagsmunasamtök heimilanna sem hafa frá upphafi tekið stöðu með heimilunum skuli vera búin að ná jafnlangt í sinni vinnu eins og raun ber vitni og nægir að nefna fund samtakanna með ríkisstjórninni í gær þar sem farið var yfir áðurnefndar tillögur. Það er dapurlegt að verða vitni að því að forysta ASÍ hafi ekki lýst yfir fullum opinberum stuðningi við Hagsmunasamtök heimilanna heldur þvert á móti hafa þeir verið á móti þeirri hugmyndafræði sem Hagsmunasamtökin hafa boðað. Nægir að nefna í því samhengi orð forseta Alþýðusambands Íslands á aukaársfundi ASÍ þar sem hann var að fjalla um skuldavanda heimilanna og tillögur ASÍ í þeim efnum en orðrétt sagði forsetinn "Það er hins vegar mikið áhyggjuefni hvernig bæði stjórnmálaflokkar og sjálfskipaðir bjargvættir hafa afvegaleitt umræðuna um raunhæfar lausnir á vanda heimilanna. Yfirboð um almenna lækkun skulda sem fjármagna á með galdraþulum skapa auðvitað væntingar meðal almennings um það sem vitað er að ekki verður hægt að mæta". Einnig sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins, orðrétt þegar ríkisstjórnin kynnti aðgerðapakka vegna skuldavanda heimilanna: "Mér finnst þetta mjög jákvætt skref sem þarna er tekið, mér sýnist að þær kröfur sem við höfum sett fram við stjórnvöld séu að flestu leyti ef ekki öllu til skila haldið."

Formanni er það óskiljanlegt af hverju forysta Alþýðusambands Íslands tekur ekki stöðu með sínum félagsmönnum en það hefur margoft komið fram að þeir eru á móti almennum leiðréttingum á skuldum heimilanna og hafa t.d. varið tilvist verðtryggingarinnar með hagsmuni lífeyrissjóðanna að leiðarljósi af fullum þunga. Formaður hefur spurt sig í hvaða liði forseti Alþýðusambands Íslands er í þessum efnum og hefur nánast komist að þeirri niðurstöðu að hann sé í hálfgerðu yfirliði þegar kemur að hagsmunagæslu fyrir sína félagsmenn.

Ríkisstjórn Íslands og forystu ASÍ hefur verið tíðrætt um það að kostnaður við almennar leiðréttingar sé svo mikill að þær séu ekki framkvæmanlegar. En samkvæmt fjölmiðlum hafa átt sér gríðarlegar afskriftir frá hruninu til útrásarvíkinga og fyrirtækja og nægir að nefna samkvæmt fréttum afskriftir eins og:

  • Ólafur Ólafsson í Samskip, 88 milljarðar
  • Baugsfeðgar, 30 milljarðar
  • Magnús Kristjánsson, útgerðarmaður, 50 milljarðar
  • Bjarni Ármannsson, 800 milljónir

Í fréttum í september 2009 kom fram að eignarhaldsfélög hefðu fengið nærri 85 milljarða afskrifaða sem eru meðal annars í eigu eftirfarandi aðila:

  • Langflug, Finnur Ingólfsson, 14 milljarðar
  • Pálmi Haraldsson, Fons, 30 milljarðar

Og í fréttinni segir að svona mætti lengi telja en þarna hafi fréttastofan tínt til helstu afskriftir bankanna að undanförnu til eignarhaldsfélaga en samtals voru afskriftir til eignarhaldsfélaga eins og áður hefur komið fram 85 milljarðar. Núna fyrir örfáum dögum kom fram að 8 fyrirtæki hefðu fengið afskrifaðar skuldir sínar upp á tæpa 55 milljarða. Samtals eru þetta ef marka má fréttir 309 milljarðar sem hafa verið afskrifaðir til eignarhaldsfélaga tengdum útrásarvíkingum og fyrirtækjum. Og hafa verður í huga að hér er einungis verið að tala um afskriftir sem ratað hafa í fjölmiðla.

Svo talar ríkisstjórnin og forysta ASÍ um kostnað vegna almennra leiðréttinga á skuldum heimilanna. Slíkan málflutning í ljósi þessara staðreynda er ekki annað hægt en að fordæma. Séstaklega í ljósi þeirra ummæla að slá hafi átt skjaldborg um heimili landsmanna. Það er ljóst að forysta ASÍ og ríkisstjórnin hafa misskilið hlutverk sitt og ekki slegið skjaldborg utan um heimilin heldur fjármögnungarfyrirtækin. 

Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að Alþingi Íslendinga verði að skipa óháða rannsóknarnefnd þar sem kallað verður eftir öllum afskriftum til fyrirtækja og einstaklinga og það upplýst fyrir alþjóð hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig í reykfylltum bakherbergjum fjármálastofnanna. 

Alþýða þessa lands getur ekki horft upp á þetta grímulausa óréttlæti sem birtist í afskriftum á skuldum til útrásarvíkinga og einstakra fyrirtækja eins og birst hefur í fjölmiðlum. Það er grundvallaratriði samt sem áður að skuldsett heimili eru ekki að fara fram á neina ölmusu heldur einungis sanngjarna leiðréttingu á stökkbreyttum skuldum sínum sem það gat ekki undir nokkrum kringumstæðum borið neina ábyrgð á.

Verkalýðsfélag Akraness skorar á verkalýðshreyfinguna í heild sinni að styðja tillögu Hagsmunasamtaka heimilanna af fullum þunga enda eru tillögur þeirra klárlega til hagsbóta fyrir heimili landsins.

Tuesday, 12 October 2010 00:00

Opinn félagsfundur VLFA 19. október

Þriðjudaginn 19. október næstkomandi verður haldinn opinn félagsfundur hjá Verkalýðsfélagi Akraness. Fundurinn fer fram í Gamla kaupfélaginu og hefst hann kl. 19:30.

Dagskrá fundarins verður eftirfarandi:

1. Kynning á afsláttarkjörum til félagsmanna VLFA
2. Stefnumótun í kröfugerð vegna komandi kjarasamninga
3. Önnur mál
 
Stjórn Verkalýðsfélags Akraness hvetur alla félagsmenn til að mæta og ræða kröfugerð vegna komandi kjarasamninga enda eru allir kjarasamningar félagsins lausir á næstu mánuðum.
 
Kaffiveitingar verða í boði fyrir fundargesti.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image