• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
VLFA

VLFA

Big fan of open source and Joomla

Website URL: http://joomlabuff.com

Rétt í þessu lauk fyrri samstöðufundi starfsmanna Elkem Ísland og Klafa en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá stefnir í harða kjaradeilu vegna kjarasamnings áðurnefndra fyrirtækja.

Á fundinum gerði formaður Verkalýðsfélags Akraness, sem jafnframt er formaður samninganefndarinnar, yfir 50 starfsmönnum grein fyrir þeirri grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu starfsmanna við Samtök atvinnulífsins. Á fundinum ríkti gríðarlegur einhugur og samstaða á meðal starfsmanna um að sýna fulla hörku í komandi kjaraviðræðum. Boðað hefur verið til fundar samninganefndarinnar með Samtökum atvinnulífsins hjá Ríkissáttasemjara á morgun og mun þá koma í ljós hvort hægt verður að leysa deiluna án átaka eða ekki.

Það var ánægjulegt að sjá þá miklu samstöðu sem ríkti á meðal starfsmanna og kom fram í máli fundarmanna að þeir eru klárir til að mæta því ábyrgðarleysi sem Samtök atvinnulífsins hafa sýnt íslenskum launþegum að undanförnu af fullri hörku. Það er æði margt sem bendir til þess að það stefni í vinnustöðvun hjá áðurnefndum fyrirtækjum ef ekki næst niðurstaða á fundinum á morgun.

Nýafstaðinn samstöðufundur starfsmanna Elkem og Klafa samþykkti ályktun en þeirri ályktun segir m.a.:

"Það er svívirða af verstu sort af hálfu Samtaka atvinnulífsins að ætla að taka kjarasamningsbundinn rétt launafólks í herkví í óákveðinn tíma vegna ágreinings útvegsmanna við stjórnvöld vegna fiskveiðistjórnunarkerfisins." Einnig segir: "Fundurinn hafnar alfarið samræmdri launastefnu sem virðist byggjast á þriggja ára samningi með afar hófstilltum launahækkunum, algjörlega óháð getu hverrar atvinnugreinar fyrir sig. Það liggur fyrir að rekstrarskilyrði útflutningsfyrirtækja hafa verið afar góð um alllanga hríð vegna gengisfalls íslensku krónunnar. [...] Fundurinn lýsir yfir furðu sinni varðandi það miskunnarlausa ábyrgðarleysi Samtaka atvinnulífsins að ætla að stefna rótgrónum stöðugleika stóriðjufyrirtækja á Grundartanga í stórhættu vegna ágreinings um fiskveiðistjórnunarkerfið."

Ályktunina í heild sinni má lesa hér.

Seinni samstöðufundur starsfmanna Elkem og Klafa verður haldinn kl. 19 í kvöld og vonandi verður sami einhugurinn og samstaðan ríkjandi á þeim fundi.

Friday, 28 January 2011 00:00

Nýjar myndir

Myndir frá samstöðufundum starfsmanna Elkem og Klafa í gær eru nú aðgengilegar hér á síðunni. Hægt er að sjá þær með því að smella hér

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá var fyrsti samningafundur samninganefndar Elkem Ísland og Klafa haldinn hjá Ríkissáttasemjara í dag. Sá ótrúlegi atburður átti sér stað við upphaf fundanna að þrjú stéttarfélög af þeim fimm sem aðild eiga að kjarasamningi Elkem höfðu haft samband við atvinnurekendur og Samtök atvinnulífsins og greint frá að þeir fulltrúar sem sætu í samninganefndinn væru ekki þar í þeirra umboði. Í samninganefndinni situr formaður Verkalýðsfélags Akraness, trúnaðarmaður rafiðnaðarmanna, trúnaðarmaður VR, trúnaðarmaður FIT, formaður FIT og aðaltrúnaðarmaður starfsmanna sem jafnframt er fulltrúi allra stéttarfélaga.

Þegar fundurinn hófst upplýsti fulltrúi Samtaka atvinnulífsins að eftirtalin félög: Rafiðnaðarsamband Íslands, VR og Stéttarfélag Vesturlands viðurkenndu ekki sína fulltrúa í samninganefndinni. Það er með hreinustu ólíkindum að trúnaðarmenn viðkomandi félaga sem sátu í samninganefnd Elkem Ísland og hafa sumir hverjir setið árum saman í samninganefnd og undirritað kjarasamninga skuli nú ekki vera viðurkenndir af sínum stéttarfélögum. Sérstaklega í ljósi þess að engar athugasemdir hafa t.a.m. borist formanni Verkalýðsfélags Akraness vegna kröfugerðarinnar, viðræðuáætlunarinnar, eða varðandi það að fulltrúar samninganefndarinnar nytu ekki trausts sinna félaga. Að fá síðan upplýsingar á fyrsta fundi hjá ríkissáttasemjara er að mati formanns ekkert annað en algjört skemmdarverk og eru hagsmunir starfsmanna klárlega ekki hafðir að leiðarljósi við slík vinnubrögð.

Hins vegar er það algjörlega morgunljóst, að mati formanns félagsins, að þessi ótrúlega uppákoma í morgun beinist fyrst og fremst að formanni Verkalýðsfélags Akraness og er liður í skipulagðri skemmdarstarfsemi úr herbúðum Alþýðusambands Íslands. Það liggur fyrir að formaður Stéttarfélags Vesturlands er varaforseti Alþýðusambands Íslands og þessir aðilar hafa markvisst reynt að koma höggi á formann Verkalýðsfélags Akraness. En að nota sína eigin trúnaðarmenn í þessu skyni og skaða kjaraviðræður viðkomandi starfsmanna er til ævarandi skammar fyrir þá sem slíkt ástunda.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness veit vel að þessi herferð stendur yfir núna og hefur í raun staðið yfir um alllanga hríð. Ástæða hennar er einföld: formaður hefur gagnrýnt forystu Alþýðusambands Íslands harðlega fyrir hin ýmsu slælegu vinnubrögð og linkind svo ekki sé nú talað um handónýta samræmda launastefnu þar sem ekkert tillit á að taka til starfsmanna fjársterkra útflutningsfyrirtækja.

Það er gríðarlega ánægjulegt og jákvætt að finna þann mikla stuðning sem kemur frá starfsmönnum Elkem Ísland og Klafa þar sem starfsmenn gagnrýna þessi vinnubrögð harðlega. Þessar athugasemdir stéttarfélaganna hafa ekkert að gera með kjaraviðræður, enda höfðu trúnaðarmennirnir unnið sína kröfugerð að langmestu leyti sjálfir. Vissulega er það erfitt fyrir varaforseta ASÍ, sem talað hefur fyrir langtímasamningi þar sem allir launþegar eiga að fá sömu kjarabætur algjörlega óháð getu einstakra atvinnugreina, að leggja fram kröfugerð upp á 27,5%. Enda er slíkt algjörlega í andstöðu við samræmda launastefnu ASÍ.

Formaður félagsins mun nú yfirfara þetta grafalvarlega mál með sínum félagsmönnum og það skemmdarverk sem hér er verið að vinna því það er í höndum starfsmanna að taka ákvörðun um hvernig á þessum málum er haldið enda er þetta jú þeirra lifibrauð. Það er líka hollt fyrir áðurnefnd stéttarfélög að átta sig á því að það eru félagsmennirnir sem borga jú laun starfsmanna stéttarfélaganna og við eigum að gæta að þeirra hagsmunum og ávalt að fara eftir því sem þeir óska eftir.

Húsakynni ríkissáttasemjaraHúsakynni ríkissáttasemjaraEins og fram kom hér á heimasíðunni þá unnu þrjú stéttarfélög sem eiga aðild að kjarasamningi Elkem Ísland stórfelld skemmdarverk í gær á fyrsta samningafundi undir handleiðslu ríkissáttasemjara. En VR, RSÍ og Stéttarfélag Vesturlands, undir forystu Signýjar Jóhannesdóttur varaforseta ASÍ, höfðu skrifað atvinnurekendum bréf þar sem þeirra eigin trúnaðarmönnum var hafnað í samninganefnd vegna viðræðna um nýjan kjarasamning.

Þetta voru alls ekki einu skemmdarverkin sem voru unnin þennan dag því varaforseti ASÍ sem er eins og áður sagði formaður Stéttarfélags Vesturlands, hafði einnig skrifað atvinnurekendum bréf vegna kjarasamnings Klafa ehf. Fundur um þann samning átti að hefjast strax í kjölfarið á samningafundi Elkem Ísland. Í bréfinu frá varaforsetanum kom fram að hún teldi samninganefndina ólöglega vegna þess að Stéttarfélag Vesturlands ætti ekki fulltrúa í samninganefndinni.  Rétt er að geta þess í upphafi að allir starfsmenn Klafa að undanskildum einum eru félagsmenn Verkalýðsfélag Akraness.

Varaforseti ASÍ og formaður Stéttarfélags Vesturlands kaus frekar að ræða við atvinnurekendur og Samtök atvinnulífsins um að samninganefnd Klafa væri ólögleg vegna þess að Stéttarfélag Vesturlands átti ekki fulltrúa í nefndinni. Það hvarflaði ekki að varaforseta ASÍ að hafa samband við formann Verkalýðsfélags Akraness eða trúnaðarmann Klafa og óska eftir að eiga fulltrúa í samninganefndinni, nei það var miklu betra að reyna að koma höggi á formann VLFA, skítt með hagsmuni starfsmanna Klafa. Það hefði verið sjálfsagt mál að Stéttarfélag Vesturlands ætti fulltrúa ef eftir því hefði verið óskað. En, nei það var miklu betra að senda atvinnurekendum bréf til að eyðileggja samningafundinn hjá ríkissáttasemjara.

Þessi vinnubrögð áðurnefndra stéttarfélaga hafa ekkert með kjarabaráttu að gera, þarna voru fyrst og fremst unnin skemmdarverk og reynt að koma höggi á formann VLFA, en þvílíkt og annað eins vindhögg sem þarna átti sér stað af hálfu umræddra stéttarfélaga á sér vart hliðstæðu í íslenskri verkalýðsbaráttu.  Málið er að Verkalýðsfélag Akraness nýtur fulls trausts hjá starfsmönnum Klafa, Elkem Ísland og einnig hjá starfsmönnum Norðuráls, en formaður VLFA er alls ekki viss um að slíkt sé hægt að segja um hin stéttarfélögin sem eiga aðild að þeim kjarasamningum á Grundartangasvæðinu.  

Þeir aðilar sem vinna svona skemmdarverk af hálfu áðurnefndra stéttarfélaga og vinna algjörlega gegn hagsmunum launafólks eiga klárlega að axla sína ábyrgð og segja af sér.

Þónokkuð margir starfsmenn Norðuráls hafa haft samband við formann að undanförnu og óskað eftir skýringu á því hvers vegna viðræður vegna launaliðar kjarasamningsins sem rann út um áramótin, séu ekki hafnar.

Þessi spurning er mjög eðlileg enda er það í raun og veru ekki eðlilegt að kjaraviðræður séu ekki hafnar mánuði eftir að launaliðurinn rann út. Ástæðan er sú að um er að ræða sameiginlegan kjarasamning fimm stéttarfélaga og eins og staðan er núna þá hafa Stéttarfélag Vesturlands og iðnaðarmannafélögin sem eiga aðild að samningnum ekki ennþá lagt fram kröfugerð sína. Verkalýðsfélag Akraness lagði fram sína kröfugerð fyrir verkamenn félagsins seinnipartinn í desember og var sú kröfugerð unnin í fullu samráði við trúnaðarmenn verkamanna Norðuráls. Heildarmat kröfugerðarinnar er í kringum 27,5% en eins og áður sagði þá er æði margt sem bendir til þess að Stéttarfélag Vesturlands og iðnaðarmannafélögin hafi ekki lagt fram sína kröfugerð til Samtaka atvinnulífsins þótt mánuður sé nú liðinn frá því launaliðurinn rann út.

Nú er þolinmæði trúnaðarmanna Verkalýðsfélags Akraness og félagsins sjálfs að þrotum komin og hefur félagið sent Samtökum atvinnulífsins ósk um að hefja viðræður þrátt fyrir að kröfugerð áðurnefndra félaga liggi ekki fyrir. Því það er mat formanns að það sé ekki hægt að bjóða starfsmönnum upp á svona vinnubrögð öllu lengur. Á formaður von á því að fá boð um kjaraviðræður frá Samtökum atvinnulífsins von bráðar.

Húsakynni ríkissáttasemjaraHúsakynni ríkissáttasemjaraEins og fram kom hér á heimasíðunni í morgun þá óskaði Verkalýðsfélag Akraness eftir því við Samtök atvinnulífsins að haldinn yrði samningafundur vegna launaliðar Norðuráls sem rann út um áramótin. Það er skemmst frá því að segja að Samtök atvinnulífsins hafa svarað ósk félagsins og er fyrsti formlegi samningafundur um launaliðinn fyrirhugaður á föstudaginn kl. 13 í húsakynnum ríkissáttasemjara.  

Nú hafa bankar og sparisjóðir sent frá sér frétt þar sem þeir lýsa því hversu ofboðslega sanngjarnir þeir eru gagnvart skuldsettum heimilum. En þeir segja að þeir hafi samtals afskrifað um 22 milljarða króna hjá einstaklingum og fjölskyldum í tengslum við þau úrræði sem skuldugum heimilum standa til boða. Segja Samtök fjármálafyrirtækja að þetta sýni að mikill vilji hafi verið hjá bönkum og sparisjóðum að aðstoða viðskiptavini í greiðsluerfiðleikum.

Það er afar athyglisvert að sjá að bankar og fjármálastofnanir eru búnir að reikna nákvæmlega út afskriftir er lúta að skuldsettum heimilum en að sama skapi sjá þeir sér ekki fært að upplýsa almenning í þessu landi um afskriftir til auðmanna og einstakra fyrirtækja. Það er skýlaus krafa að fjármálastofnanir upplýsi nákvæmlega um allar afskriftir til auðmanna og fyrirtækja með nákvæmlega sama hætti og þau hafa upplýst um afskriftir á skuldum heimilanna. Fyrst þau gátu gert það þá hljóta fjármálastofnanirnar að geta gert slíkt hið sama um áðurnefnda aðila.
 
Rétt er að rifja upp þær afskriftir sem ratað hafa í fjölmiðla til þeirra manna sem sumir hverjir voru valdir að efnahagshruninu. Nægir að benda á fréttir sem ratað hafa í fjölmiðla um afskriftir á undanförnum mánuðum en þessar eru þær helstar:
 
•   Samtals 306,5 milljarðar
 
Á þessu sést að þær afskriftir og leiðréttingar sem átt hafa sér stað hjá skuldsettum heimilum eru grátbroslegar í ljósi þessara gríðarlegu afskrifta sem átt hafa sér stað hjá mönnum sem voru arkitektar að því efnahagshruni sem hér varð, rétt er að minna en og aftur á að þetta eru einungis afskriftir sem ratað hafa í fjölmiðla.
 
Hvar er loforð ríkisstjórnar Íslands um algjört gegnsæi í öllum málum hér á landi og að allt skuli vera uppi á borðum? Málið er einfalt, það hefur aldrei verið eins mikill leyndarhjúpur yfir starfsemi bankanna eins og núna og á þeirri forsendu á það að vera skýlaus krafa að bankarnir upplýsi almenning alfarið um allar þær afskriftir sem átt hafa sér stað en hætti tafarlaust að afgreiða þessi mál inni í reykfylltum bakherbergjum fjármálastofnana. 
 
Ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju, velferð og síðast en ekki síst réttlæti getur ekki látið það átölulaust að horfa upp á að leiðrétting á skuldum heimilanna nemi einungis 22 milljörðum á sama tíma og auðmenn og einstaka fyrirtæki hafa fengið samtals hundruð milljarða í afskriftir. Slíkt mun almenningur í þessu landi ekki geta sætt sig við enda eru heimilin ekki að fara framá ölmusu heldur einungis sanngjarna og réttláta leiðréttingu á þeim forsendubresti sem hér varð.
Thursday, 02 December 2010 00:00

Fundað með ungum atvinnuleitendum

Í fyrradag fundaði formaður með ungum atvinnuleitendum á Akranesi sem eru í vinnumarkaðsúrræði sem nefnist Skagastaðir. Á fundinum fór formaður yfir hin ýmsu réttindi og skyldur sem hvíla á atvinnuleitendum eins og til dæmis þá skyldu að sækja þau úrræði sem Vinnumálastofnun býður upp á hverju sinni.

Þetta var afar ánægjulegur fundur en fjölmargar spurningar komu frá hinum ungu atvinnuleitendum, bæði varðandi þau réttindi sem gilda á íslenskum vinnumarkaði og einnig atvinnuástandið almennt. Einnig var töluvert spurt um þau réttindi sem stéttarfélögin bjóða fullgildum félagsmönnum sínumm upp á.

Það er alveg ljóst að Vinnumálastofnun hér á Akranesi heldur afar vel utan um atvinnuleitendur og þetta framtak þeirra, Skagastaðir, er til mikillar fyrirmyndar enda er boðið upp á fjölmörg erindi og námskeið því samhliða.

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í júlí sl. þá var meginkrafa Verkalýðsfélags Akraness vegna komandi kjarasamninga að lágmarkslaun skyldu hækka í 200.000 kr. í komandi kjarasamningum. Þessi krafa félagsins vakti umtalsverð viðbrögð á sínum tíma og nægir að nefna í því samhengi viðbrögð Samtaka atvinnulífsins sem töldu þessa kröfu óeðlilega. Sjá frétt um málið hér

Nú hefur samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands afhent Samtökum atvinnulífsins kröfur sambandsins vegna komandi kjarasamninga og það er skemmst frá því að segja að aðalkrafa SGS er að lágmarkslaun hækki upp í 200.000 kr. frá 1. desember 2010. Auk þess er gert ráð fyrir tilfærslu á launaflokkum hjá hinum ýmsu starfshópum eins og t.d. fiskvinnslufólki enda er alveg ljóst að greinar tengdar útflutningi hafa fulla burði til þess að hækka laun sinna starfsmanna verulega. Þetta staðfesta þau jákvæðu tíðindi sem bárust um að Samherji hafi greitt landverkafólki sínu rúmar 260.000 kr. í eingreiðslu nú í desembermánuði.

Það er markmið samninganefndar SGS að endurheimta þann kaupmátt sem glatast hefur frá upphafi efnahagshrunsins haustið 2008, minnka atvinnuleysið og tryggja hinum lægst launuðu auknar kjarabætur. Það er alveg ljóst að það verður ekki liðið að íslensku verkafólki og öðru launafólki verði einu falið það verkefni að bera klafa efnahagshrunsins á jafngrimmilegan hátt og birtist þessa dagana í hinum skefjalausu verðlags-, skatta- og gjaldskrárhækkunum sem dynja nú á almenningi af fullum þunga.

Það er gríðarlega mikilvægt að Starfsgreinasambandið sýni fulla festu í sínum aðgerðum við að bæta kjör íslensks verkafólks því núna fyrst er tækifæri til að rétta hag þessa hóps frá hruni. Það tækifæri verðum við að nýta okkur.

Wednesday, 08 December 2010 00:00

Verkalýðsfélag Akraness styrkir góð málefni

Í lok árs 2005 gerði stjórn Verkalýðsfélags Akraness mjög góðan samning við Landsbankann á Akranesi um öll bankaviðskipti félagsins. Í einu ákvæði samningsins er kveðið á um að Landsbankinn greiði í sérstakan styrktarsjóð Verkalýðsfélags Akraness sem nota á til að styrkja góðgerðarmál á félagssvæði VLFA.

Á grundvelli þessa samnings við Landsbankann ákvað stjórn félagsins á fundi sínum í gær að styrkja Mæðrastyrksnefnd Akraness um 100.000 kr.  Einnig ákvað stjórn félagsins að styrkja styrktarsjóð Akraneskirkju um 150.000 kr. og mun séra Eðvarð Ingólfsson sóknarprestur okkar Skagamanna sjá um að útdeila þeim fjármunum til fjölskyldna sem eiga í fjárhagsvandræðum. Einnig var ákveðið að styrkja SÁÁ um kr. 50.000 og síðast en ekki síst Björgunarfélag Akraness um kr. 300.000 vegna frábærra starfa á undanförnum árum og einstaks björgunarafreks á Langjökli síðastliðinn vetur.

Stjórn félagsins er afar ánægð með að geta komið þessum góðgerðarsamtökum til hjálpar með þessu framlagi. 

Það er alveg ljóst að gríðarlegur fjöldi fólks á um sárt að binda fjárhagslega um þessar mundir sökum þess ástands sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi. Á þeirri forsendu er jákvætt að geta aðstoðað einhverja sem eiga í tímabundnum erfiðleikum fjárhagslega við að halda gleðilega jólahátíð.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image