• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
VLFA

VLFA

Big fan of open source and Joomla

Website URL: http://joomlabuff.com
Friday, 20 November 2009 00:00

Frábær afkoma Norðuráls

Fundað var í dag í húsakynnum ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings Norðuráls. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hefur sú vinna fram að þessu aðallega farið í textabreytingar í kjarasamningnum og miðar þeirri vinnu ágætlega áfram. Samt sem áður eru nokkrar greinar sem ágreiningur er um og vonandi leysist hann von bráðar. Ekkert er farið að ræða um launalið samningsins sem skiptir jú starfsmenn hvað mestu máli.

Formaður hefur verið að kynna sér hvernig fyrirtækinu gekk rekstrarlega á síðasta ári og það er skemmst frá því að segja að afkoma Norðuráls á síðasta ári var glæsileg. Hagnaður fyrirtækisins nam rétt rúmum 16 milljörðum króna. Heildarvelta fyrirtækisins voru rúmir 47 milljarðar þannig að hagnaður nemur 34% af heildarveltu sem verður að teljast frábær árangur.

Heildarlaunakostnaður var rétt tæpir 3 milljarðar sem að gera 6,23% af heildarveltu fyrirtækisins sem verður að teljast afar lág tala. Í ljósi þeirrar staðreyndar að rekstur Norðuráls hefur verið afburðagóður, ekki bara á síðasta ári heldur nánast frá upphafi, er ljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun standa fast á því að launakjör starfsmanna verði bætt allverulega í þeim viðræðum sem nú standa yfir.

Það er einnig rétt að minna á að í febrúar fór álverðið niður í 1266 dollara pr. tonn en í dag er álverðið komið upp í 2000 dollara pr. tonn. Allt þetta og einnig það sem áður hefur komið fram mun hjálpa samninganefndinni að standa fast á sínum kröfum þegar kemur að launaliðunum.

Eitt er víst að Verkalýðsfélag Akraness mun sýna tennurnar í þessum viðræðum enda er komið að því að starfsfólkinu verði umbunað fyrir þann frábæra árangur sem náðst hefur á liðnum árum og þessi árangur næst alls ekki nema með góðu og hæfu starfsfólki.

Það er gríðarlega ánægjulegt að afkoma fyrirtækisins skuli hafa verið þetta jákvæð á síðasta ári, enda er stóriðjan á Grundartanga það sem heldur lífinu í öllu samfélaginu hér á Akranesi og nærsveitum.

Monday, 23 November 2009 00:00

Kynning fyrir atvinnuleitendur

Í morgun hélt Vilhjálmur Birgisson, formaður félagsins, kynningu fyrir atvinnuleitendur í boði Vinnumálastofnunar. Kynningin fjallaði m.a. um réttindi og skyldur á vinnumarkaði, vinnulöggjöfina og hlutverk stéttarfélaga. Góð mæting var á kynninguna og bárust formanni fjölmargar spurningar frá þátttakendum.

Kynningar sem þessar eru mikilvægur þáttur af starfsemi félagsins og er þeim sem óska eftir slíkum kynningum bent á að hafa samband við skrifstofu félagsins.

Monday, 23 November 2009 00:00

Valdaklíkan óhress

Formaður Rafiðnaðarsambandsins, Guðmundur Gunnarsson sá ástæðu til að gagnrýna formenn Verkalýðsfélags Akraness og Framsýn Húsavík vegna afskipta þeirra af verkalýðsmálum yfir höfuð á ráðstefnu trúnaðarmanna Rafiðnaðarsambandsins sem haldin var um miðjan nóvember.

Frétt um þetta birtist á mbl.is í gærkvöldi. Það fer afskaplega í taugarnar á formanni Rafiðnaðarsambandsins að áðurnefndir formenn hafa gagnrýnt samninganefnd Alþýðusambands Íslands harðlega fyrir þá linkind sem sýnd var við endurskoðun kjarasamninganna 25. febrúar og 25. júní sl.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur ætíð sagt að það hafi verið stórkostlega mistök að fresta áður umsömdum launahækkunum sem hefur valdið því að verkafólk hefur verið þvingað til að afsala sér á annað hundrað þúsunda króna, og það með samþykki samninganefndar Alþýðusambands Íslands.

Formaður félagsins benti á, á formannafundum ASÍ sem haldnir voru t.a.m 25. febrúar að það væru klárlega til fyrirtæki sem hefðu fjárhagslega burði til að standa við gerða samninga og benti formaður á öll þau fyrirtæki sem standa í útflutningi í því samhengi, og einnig olíufyrirtækin og önnur fyrirtæki sem hafa varpað sínum vanda viðstöðulaust út í verðlagið.

Flestir muna eftir málum tengdum arðgreiðslum HB Granda, sem Verkalýðsfélag Akraness vakti athygli á, en það mál endaði á farsælan hátt með því að stjórn HB Granda ákvað að greiða öllum starfsmönnum fyrirtækisins áður umsamdar hækkanir sem taka áttu gildi 1. mars.

Rétt er að rifja upp hver ályktun miðstjórnar ASÍ var í því máli, en þar situr m.a. Guðmundur Gunnarsson. En í þeirri ályktun kom fram áskorun frá miðstjórn um að HB Grandi dragi arðgreiðslurnar til baka ELLA greiði starfsfólki áður umsamdar launahækkanir.

Það var eins gott að stjórnendur HB Granda fóru ekki eftir miðstjórn, því ef farið hefði verið eftir ályktun miðstjórnar og HB Grandi dregið arðgreiðslurnar til baka þá hefði fyrirtækið ekki þurft að greiða fiskvinnslufólkinu áður umsamdar hækkanir að mati miðstjórnar ASÍ, þó svo fyrirtækið hafi skilað umtalsverðum hagnaði á síðasta ári.

Í kjölfarið á því að HB Grandi ákvað að hækka laun sinna starfsmanna fylgdi fjöldi fyrirtækja í sjávarútvegi og tilkynntu að þau ætluðu að standa við áður umsamdar hækkanir þó svo samninganefnd sem Guðmundur Gunnarsson situr í, hafi verið búin að þvinga launafólk til að fresta áður umsömdum hækkunum.

Þessu til viðbótar var því hafnað að launafólk sem ynni eftir kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði fengi að kjósa um það í allsherjaratkvæðagreiðslu hvort það væri tilbúið að fresta áður umsömdum launahækkunum eins og samninganefnd ákvað.

Guðmundur Gunnarsson heldur því fram að formenn Verkalýðsfélags Akraness og Framsýnar "taki lítinn þátt í umræðu og stefnumótandi starfi í heildarsamtökum launamanna, þó svo þeir séu kjörnir til þess".

Þessi fullyrðing er í hæsta máta hlægileg og nægir að nefna að formaður Verkalýðsfélags Akraness gagnrýndi harðlega á formannafundum ASÍ 25. febrúar og 25. júní frestun kjarasamninga  og verða áður nefndir formenn seint sakaðir um það að koma ekki sjónarmiðum sínum á framfæri innan Starfsgreinasambandsins og Alþýðusambandsins.

Nægir að nefna í því samhengi síðasta ársfund, en þar lagði VLFA t.a.m. fram tillögu um stóraukið lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóðunum og formaður kom hinum ýmsu málum á framfæri. Hægt er að horfa á ræður formanns hér.

Það var stórmerkilegt á ársfundinum að Guðmundur Gunnarsson fann tillögunni um stóraukið lýðræði við stjórnarval allt til foráttu. Samt sem áður hefur Rafiðnaðarsambandið ályktað um lífeyrismál og í ályktun frá þeim frá 27. mars segir m.a. orðrétt: "Á fundum rafiðnaðarmanna undanfarin ár hafa ítrekað verið samþykktar ályktanir þess eðlis að sjóðsfélagar kjósi alla stjórnarmenn lífeyrissjóða, ekki einungis helming þeirra. "

Einnig hefur birst á mbl.is viðtal við Guðmund Gunnarsson um að kjósa þurfi stjórnarmenn beinni kosningu.

Þess vegna var óskiljanlegt að sjá formann Rafiðnaðarsambandsins berjast af alefli gegn tillögu VLFA á ársfundi ASÍ 22. og 23. október. Tillögu sem gekk út á nákvæmlega það sama og hann hefur verið að berjast fyrir. Þetta er formanni félagsins óskiljanlegt. Ekki nema menn meini ekkert með því sem eru að berjast fyrir og láta hafa eftir sér?

Málið er einfalt: Guðmundur Gunnarsson þolir það einfaldlega ekki að áðurnefndir formenn hafa gagnrýnt harðlega þá linkind sem ríkir í forystusveit Alþýðusambands Íslands og það er hlægilegt að sjá og heyra að hann leggur ofuráherslu á að fjölmiðlar ræði ekki við þá einstaklinga sem hér um ræðir. Það birtist vart pistill frá Guðmundi þar sem hann er ekki að gagnrýna spjallþáttastjórnendur og fjölmiðla yfir höfuð fyrir að ræða við þá aðila sem hafa aðra skoðun heldur en valdaklíkan sem stjórnar Alþýðusambandi Íslands.

Formanni VLFA var t.a.m. boðið í Kastljósþátt og var forsvarsmönnum Alþýðusambands Íslands, m.a. Guðmundi Gunnarssyni líka boðið. Á einhvern óskiljanlegan hátt sáu þessir menn sér ekki fært að mæta og ræða þá gagnrýni sem t.a.m. formenn Verkalýðsfélags Akraness og Framsýnar hafa haldið á lofti. Rétt er að benda á yfirlýsingu frá Helga Seljan í þessu samhengi:

Yfirlýsing Helga Seljan  

Eitt að lokum: Guðmundur Gunnarsson formaður RSÍ talar um að áðurnefndir formenn séu einangraðir í verkalýðshreyfingunni. Það má vel vera að áðurnefndir formenn séu einangraðir hvað varðar valdaklíkuna sem öllu vill ráða, en hinn almenni félagsmaður stendur þétt að baki þeim, ef marka má skoðanakannanir sem Capacent Gallup gerði þar sem tvö stéttarfélög innan Starfsgreinasambandsins báru af og viti menn, það var Verkalýðsfélag Akraness með yfir 90% ánægða með starfsemi félagsins og Framsýn á Húsavík með 96% félagsmenn ánægða.

Það er þetta traust sem áðurnefndir formenn vilja njóta: traust félagsmannanna sjálfra. En það skiptir formenn VLFA og Framsýnar litlu máli hvort þeir njóti trausts valdaklíkunnar í Alþýðusambandi Íslands sem að mati formanns VLFA hefur misst öll tengsl við grasrótina og könnun leiddi í ljós að nýtur einungis trausts 25% landsmanna.

Tuesday, 24 November 2009 00:00

Sátt hefur náðst við Akraneskaupstað

Formaður félagsins ásamt Magnúsi Norðdahl, lögmanni ASÍ, funduðu í morgun með lögmanni Sambands íslenskra sveitarfélaga og Jóni Pálma Pálmasyni bæjarritara Akraneskaupstaðar.

Tilefni fundarins var það að bæjaryfirvöld á Akranesi höfðu í sparnaðarskyni stytt opnunartíma íþróttamannvirkja Akraneskaupstaðar umtalsvert með töluverðri tekjuskerðingu fyrir starfsmenn. Í framhaldi af þessari styttingu tóku yfirvöld ákvörðun um að heimila íþróttaiðkun í íþróttahúsinu á Vestugötu tvisvar sinnum í viku klukkutíma í senn án þess að starfsmenn bæjarins væru til staðar.

Bæjaryfirvöld ætluðu sér með öðrum orðum að láta sjálfboðaliða ganga í störf starfsmanna íþróttamannvirkja, störf sem þeir hafa sinnt undanfarin ár og áratugi.  Þessu mótmælti Verkalýðsfélag Akraness harðlega í bréfi til bæjaryfirvalda (sjá hér).

Niðurstaða fundarins var afar jákvæð, en bæjaryfirvöld hafa ákveðið að frá og með miðjum desember verði horfið frá þessari opnun þar sem starfsmenn bæjarins eru ekki til staðar. Hér var um gríðarlega mikla hagsmuni að ræða fyrir starfsmenn Akraneskaupstaðar. Það var ekki hægt að láta það átölulaust að sjálfboðaliðar gengju í störf starfsmanna enda hefði málið klárlega getað orðið fordæmisgefandi. Því ákvað Verkalýðsfélag Akraness að fara í málið af fullri hörku með hagsmuni félagsmanna sinna að leiðarljósi.

Wednesday, 25 November 2009 00:00

Bónuskerfið hjá Elkem Ísland að svínvirka

Verkalýðsfélag Akraness gekk frá kjarasamningi fyrir starfsmenn Elkem Ísland í desember á síðasta ári og var sá samningur mjög hagstæður fyrir starfsmenn fyrirtækisins enda hækkuðu laun þeirra umtalsvert.

Eitt af þeim atriðum sem tekið var á í þessum nýja samningi var bónuskerfi starfsmanna en gamla bónuskerfið hafði því miður ekki virkað sem skyldi og á þeirri forsendu ákváðu samningsaðilar að taka inn ný viðmið í nýju bónuskerfi.

Nú hefur komið í ljós að þetta nýja bónuskerfi er að svínvirka. Í upphafi gerðu menn ráð fyrir að bónus starfsmanna myndi að meðaltali gefa í kringum 7% en nú hefur komið í ljós að á síðustu þremur mánuðum hefur bónusinn verið að meðaltali 8,5% sem er mjög jákvætt.

Það er meira jákvætt að frétta af Elkem Ísland en á síðasta ári gekk rekstur fyrirtækisins mjög vel en hagnaður þess nam rúmum 1,1 milljarði króna sem er um 8% af heildarveltu fyrirtækisins en heildarveltan var rúmir 13 milljarðar króna.

Það er morgunljóst að það skiptir gríðarlega miklu máli hversu vel stóriðjunni á Grundartanga gengur enda byggjum við Skagamenn okkar afkomu að þónokkuð stórum hluta á rekstri þessara fyrirtækja.

En eins og áður hefur komið fram á heimasíðunni skilaði Norðurál rúmum 16 milljörðum í hagnað á síðasta ári og Elkem skilaði 1,1 milljarði í hagnað eins og fram kom hér að ofan. Þetta sýnir að okkar styrkustu stoðir sem eru stóriðjan, virðast standa á sterkum grunni um þessar mundir öllu samfélaginu til heilla.

Thursday, 26 November 2009 00:00

Græðgi og siðleysi

Í fréttum í gær kom fram að Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar Alþingis, teldi að bankarnir væru ekki að fara að lögum og reglum hvað varðar afskriftir hjá fyrirtækjum. Ef þetta er rétt er þetta grafalvarlegt mál en það sem er enn alvarlegra er það að það er verið að afskrifa skuldir hjá fyrirtækjum og eignarhaldsfélögum svo milljörðum ef ekki tugum skiptir á meðan alþýða landsins er þvinguð til að greiða allar sínar skuldir upp í topp og helst meira til.

Nægir að nefna í því samhengi viðtal sem var við ung hjón á Bylgjunni í gær en á heimasíðu Bylgjunnar segir um efni viðtalsins: 

Samviskusamt, venjulegt fólk sem vildi gera allt til að greiða svimandi hækkandi skuldir sínar, þrátt fyrir að hafa ekki átt raunverulegan þátt í hækkun þeirra eftir hrun. Nýi Kaupþing banki (Arion banki) sýndi engan samstarfsvilja og kreisti allar eigur þeirra út úr þeim. Í dag standa þau eftir með engar eigur og að auki 16 milljón króna skuldabréf sem bankinn neyddi þau til að skrifa upp á. Hann íhugaði sjálfsmorðHlusta hér

Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á bankana afskrifa skuldir fyrirtækja og það jafnvel án þess að fara eftir lögum og reglum eins og formaður viðskiptanefndar Alþingis hefur haldið fram. Hvernig má það vera að ekki sé hægt að koma skuldsettum heimilum til hjálpar á sama tíma og slíkar afskriftir eiga sér stað?

Rétt er að rifja upp hver úrræði Ríkisstjórnarinnar eru gagnvart gengistryggðum bílalánum en þar stendur skuldaranum til boða að færa gengisvísitöluna aftur til 1. maí 2008 sem léttir á greiðslubyrðinni. Til boða stendur að lengja lánið um 3 ár og ef skuldin er ekki að fullu greidd þá á skuldarinn valmöguleika sem er fólginn í því að skila bifreiðinni og fá restina niðurfellda. Með öðrum orðum: Lánveitandinn fær allt sitt til baka og vel það. Þetta er svona í hnotskurn það sem er verið að bjóða almenningi upp á á meðan allt önnur lögmál gilda um skuldir fyrirtækja.

Hver skyldi hafa verið einn af þeim mönnum sem unnu að tillögum í félagsmálaráðuneytinu til hjálpar skuldsettum heimilum? Jú, það var Yngvi Örn Kristinsson, fyrrum forstöðumaður hagfræðisviðs Landsbanka Íslands, en hann hefur sett fram 229 milljóna kröfu í þrotabú Landsbankans.  Yngvi hefur látið hafa eftir sér að ekki sé grundvöllur til almennra leiðréttingar á skuldum heimilanna.  Þessi sami einstaklingur fer fram á 230 milljónir úr þrotabúi Landsbankans og þegar málið varð opinbert átti að reyna að klóra í bakkann með því að gefa út yfirlýsingu sem byggðist á því að ef krafan yrði viðurkennd myndi hún renna til góðgerðarmála.

Yngvi Örn var ráðinn af Árna Páli Árnasyni til ráðgjafarstarfa í félagsmálaráðuneytinu og verður sú ráðning að teljast stórundarleg í ljósi fyrri starfa viðkomandi einstaklings. Græðgin og siðleysið virðist einfaldlega engan enda ætla að taka og á sama tíma verður alþýða þessa lands að blæða illilega fyrir þá græðgi og siðleysi sem ríkt hefur í þessu samfélagi á liðnum árum og áratugum.  

Friday, 27 November 2009 00:00

Árás á sjómenn

Þær voru ekki glæsilegar fréttirnar sem sjómönnum bárust í dag því samkvæmt nýju skattafrumvarpi fjármálaráðherra verður sjómannaafslátturinn lagður af í þrepum á næstu fjórum árum.

Tugir sjómanna eru í sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness og á þeirri forsendu mótmælir Verkalýðsfélag Akraness þessari aðför ríkisstjórnarinnar að einni mikilvægustu stétt okkar landsmanna sem eru jú sjómenn þessa lands. En það verða einmitt þeir sem munu koma til með að leggja hvað mest af mörkum við að vinna íslenskt efnahagslíf úr þeim hremmingum sem það er nú í.

Sjómannaafslátturinn á sér áratuga langa sögu og er klárlega hluti af launakjörum sjómanna og það má ekki gleyma því að sjómenn vinna við afar erfiðar aðstæður á degi hverjum og eru fjarri sínum fjölskyldum svo vikum skiptir í mörgum tilfellum. Það er líka rétt að minna á að almennir launþegar njóta dagpeninga ef þeir þurfa að vera fjarri sínum heimilum um lengri eða skemmri tíma. Og að sjálfsögðu á slíkt að gilda um sjómenn einnig.

Sjómenn hafa þurft að taka á sig umtalsverða kjaraskerðingu á undanförnum árum sökum samdráttar í aflaheimildum þó vissulega sé gengisfall krónunnar að hjálpa þeim þessa stundina. Það er einnig rétt að minna fólk á að sjómenn þurfa að taka þátt í svokölluðu olíugjaldi og eru þeir ein af fáum stéttum þessa lands sem þurfa að borga sérstaklega fyrir að stunda sína vinnu. Það mætti líkja þessu við að strætóbílstjórar þyrftu að borga sérstakt olíugjald fyrir að aka strætó eða þá að starfsmenn í stóriðjum þyrftu að greiða með stóriðjufyrirtækjunum í raforkugjaldi. Með öðrum orðum þá er ekki allt sem sýnist varðandi launakjör sjómanna.

Það kom í fréttum í dag að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segi að sjómannsstarfið hafi breyst mikið á undanförnum árum. Vissulega er það rétt að starfið hefur breyst mikið og öryggi sjómanna hefur stóraukist á liðnum árum en Steingrímur hefði gott af því að fara og kynna sér störf sjómanna og þau vinnuskilyrði sem þeir þurfa oft á tíðum að vinna við í aftakaveðrum. Honum myndi þá væntanlega snúast hugur um afnám sjómannaafsláttar þegar hann sæi við hvaða aðstæður sjómenn þurfa oft að glíma við.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness skorar á ríkisstjórn Íslands að hlífa sjómönnum og hverfa frá þessum áformum án tafar því án íslenskra sjómanna er íslenskt þjóðfélag afskaplega illa statt.

Það er spurning hvort sjómenn íhugi ekki alvarlega að grípa til róttækra aðgerða vegna þessara aðgerða ríkisstjórnar og það ríkisstjórnar sem vill kenna sig við félagshyggju og jafnaðarstjórn.

Undanfarna daga hafa iðnaðarmenn verið að störfum í sumarbústað félagsins í Húsafelli. Unnið hefur verið að því að skipta um eldhúsinnréttingu og endurnýja tæki auk ýmiss viðhalds. Endurbættur bústaður verður klár til útleigu í lok vikunnar.

Það er Trésmiðjan Akur sem tók að sér verkið, en þar er um að ræða rótgróið fyrirtæki hér á Akranesi þar sem starfa á þriðja tug félagsmanna VLFA.

Viðhald orlofshúsa er eitt af hlutverkum Orlofssjóðs Verkalýðsfélags Akraness sem á og rekur fjóra sumarbústaði svo og þrjár íbúðir á Akureyri.

Í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í gær er gert ráð fyrir að skattar sem lagðir verða á einstaklinga á næsta ári hækki um 36,8 milljarða kr. Skattar á vörur og þjónustu eiga að hækka um tæplega 31 milljarð kr. Þar af hækkar virðisaukaskattur um tæpa 10 milljarða kr. Það er alveg ljóst að heimili þessa lands munu á engan hátt þola þá auknu skattbyrði sem fyrirhuguð er á næsta ári og ljóst að ef ekki verður breyting á mun heimilum þessa lands blæða endanlega út.

Það er með ólíkindum að ekki skuli skoðuð gaumgæfilega sú hugmynd að skattleggja lífeyrissjóðsiðgjöld jafnóðum og þau eru greidd inn í sjóðina, og hætta þar af leiðandi núverandi kerfi sem byggist á því að sjóðsfélagar greiða skatt þegar kemur að lífeyristöku. Ef slíkt yrði gert yrði klárlega hægt að komast hjá þeim miklu skattahækkunum sem þegar hafa verið boðaðar.

Í gær birtist afar athyglisverð grein í Morgunblaðinu eftir tryggingastærðfræðingana Benedikt Jóhannesson og Bjarna Guðmundsson þar sem þeir segja að með því að skattleggja lífeyrisgreiðslur strax geti ríkið náð allt að 30-35 milljörðum króna í ríkissjóð á ári. Þeir tala einnig um að hugsanlega sé þetta ein besta leiðin til að leysa hina brýnu þörf á skatttekjum án þess að valda heimilum búsefjum með hækkunum á álögum.

Nýr liður í skattahlið fjárlaga hefur verið kynntur og ber beitið Orku-, umhverfis- og auðlindagjöld en þeim er ætlað að skila inn 16 milljörðum kr. á næsta ári. Ef þessi skattur verður að veruleika er ljóst að starfsöryggi starfsmanna stóriðjufyrirtækjanna Norðurál, Elkem Ísland og Sementsverksmiðjunnar verður stefnt í stórhættu.

Viðtal var við formann félagsins á vef Skessuhorns í dag og birtist það í heild sinni hér að neðan:

 

“Þær tillögur sem nú liggja fyrir varðandi orku- og kolefnisskatta á stóriðjufyrirtæki gerir það að verkum að það er verið að leggja störf þeirra sem starfa við stóriðju hér á landi í stórhættu,” segir Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness í samtali við Skessuhorn. Eins og kunnugt er kynnti fjármálaráðherra í gær fjárlagafrumvarp næsta árs og er þar gert ráð fyrir verulegum skattaálögum á stóriðjuna sem ekki hefur verið til staðar hingað til. “Á okkar starfssvæði er þetta einkum Grundartangasvæðið þar sem þúsund störf eru nú sett í fullkomna hættu. Stóriðjan þar beinlínis heldur lífinu í samfélaginu á Akranesi og nágrannabyggðum. Ef þessar hugmyndir ná fram að ganga gæti þessi skattur á Norðurál á Grundartanga numið á sjötta milljarði króna, hjá Elkem Ísland vel á annan milljarð og á Sementsverksmiðjuna einhver hundruð milljóna. Það er morgunljóst að Sementsverksmiðjan og Elkem Ísland hafa enga burði til að taka slíka skattlagningu á sig og því er eins og ég sagði verið að ógna framtíð þessara fyrirtækja og störfum fólksins.”

Vilhjálmur segir að þessu til viðbótar séu kjarasamningur starfsmanna Norðuráls lausir um næstu áramót. “Ef þessi áform ríkisstjórnarinnar lenda á fyrirtækinu er verið að setja kjarasamningsgerðina í algjört uppnám.  Okkar tillaga er sú að það eigi að ná inn sköttum úr stóriðju í gegnum tekjuskatta starfsmanna. Þar fá ríkið og sveitarfélög 37% af laununum og ætti að sjá hag sinn í að svo verði áfram í stað þess að ógna tilveru fyrirtækjanna. Það er með ólíkindum að horfa upp á vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar þar sem er verið að ógna starfsöryggi allra sem starfa í stóriðju. Ég vil því skora á ríkisvaldið að endurskoða þessar tillögur strax.”

Vilhjálmur vill benda ríkisstjórn á skoða gaumgæfilega að skattleggja lífeyrisgreiðslur jafnóðum. “Það gæti skilað ríkissjóði 30-40 milljörðum á ári. Þetta myndu heimili landsins ekki finna fyrir á einn eða neinn hátt nú. Á þeirri forsendu á að skipa hóp sérfræðinga til að skoða það að skattleggja lífeyrisgreiðslurnar strax og hætta þessari endemis vitleysu. Stjórnvöld verða að átta sig á því að ofan á minni veltu og verkefni í þjóðfélaginu eru stjórnvöld að hækka skattaálögur svo mikið bæði á einstaklinga og fyrirtæki að fólki er einfaldlega að blæða út,” sagði Vilhjálmur að lokum.

Á að leggja styrkustu stoðir atvinnulífs Akurnesinga í rúst?Á að leggja styrkustu stoðir atvinnulífs Akurnesinga í rúst?Eins og fjallað hefur verið um hér á síðunni þá gert ráð fyrir nýjum skattalið í fjárlagafrumvarpinu sem ber beitið Orku-, umhverfis- og auðlindagjöld en áætlað er að þau komi til með að skila inn 16 milljörðum kr. á næsta ári.

Ef þessar hugmyndir ná fram að ganga þá myndi það þýða að Norðurál yrði gert að greiða um 6 milljarða króna í þennan nýja skatt, Elkem Ísland um 2 milljarða og Sementsverksmiðjan rúmar 203 milljónir.

Það er algjörlega ljóst að ef þessi nýi skattur verður að veruleika þá mun það stefna störfum í þessum fyrirtækjum í stórhættu. Sem dæmi þá hefur t.a.m. Elkem Ísland aldrei nokkurn tímann skilað 2 millljörðum í hagnað. Einnig má nefna að Sementsverksmiðjan berst fyrir lífi sínu þessi misserin. Á þessu sést hvers lags firring það er að ætla sér að fara að skattleggja þessi fyrirtæki sem í raun og veru eru að halda uppi atvinnustarfseminni á Akranesi og í nærsveitum.

Verkalýðsfélag Akraness og bæjaryfirvöld hafa boðað til fundar á föstudaginn kemur í bæjarþingsalnum þar sem Ragnar Guðmundsson forstjóri Norðuráls, Einar Þorsteinsson forstjóri Elkem Ísland og Gunnar Sigurðsson forstjóri Sementsverksmiðjunnar munu mæta. Einnig verður öllum þingmönnum Norðvesturlandskjördæmis boðið ásamt iðnaðarráðherra.

Hér er um grafalvarlegt mál að ræða þar sem atvinnuöryggi um 1.000 starfsmanna er í húfi, á þeirri forsendu er gríðarlega mikilvægt að gera þingmönnum og ráðherra grein fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem upp getur komið ef þessar hugmyndir verða að veruleika.

Það er mat Verkalýðsfélags Akraness að hægt sé að fá auknar skatttekjur með því að hækka laun starfsmanna, en við hækkun launa starfsmanna þá fá ríki og sveitarfélög samtals rúm 37% til sín. Það má ekki gleyma því að stóriðjufyrirtækin eru með samninga við ríkið um kaup á raforku mörg ár fram í tímann og það gengur ekki upp að ætla sér að koma með auknar skattgreiðslur á þessi fyrirtæki þegar gengið hefur verið frá samningum fram í tímann. Slíkt gerir ekki annað en að fæla alla erlenda fjárfesta frá landinu.

Það eru lausir samningar hjá starfsmönnum Norðuráls nú um áramótin og með þessum tillögum er verið að setja þá kjarasamningsgerð í fullkomna upplausn.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image