• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15

Í gær samþykkti Héraðsdómur Reykjavíkur þá kröfu lögmanns Verkalýðsfélags Akraness að aflað yrði ráðgefandi álits frá EFTA dómstólnum vegna lögmætis verðtryggingar hér á landi. Eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá ákvað Verkalýðsfélag Akraness að fjármagna dómsmál vegna lögmætis verðtryggingar hér á landi. Er það mikill áfangasigur að Héraðsdómur Reykjavíkur skuli hafa kveðið upp þann dóm að leitað verði ráðgefandi svara frá EFTA dómstólnum en rétt er að geta þess að lögmenn Landsbankans, sem er sá banki sem lánið sem um ræðir er hjá, hafnaði því að leitað yrði eftir þessu áliti.  

Eins og fram hefur komið kvað héraðsdómur upp þennan úrskurð í gær en hann felst í að óskað verði eftir áliti varðandi 6 spurningar sem tengjast málinu. Formaður VLFA telur þetta vera eitt brýnasta mál íslenskra heimila enda nema verðtryggðar skuldir heimilanna í dag um 1.700 milljörðum króna sem þýðir að í 4% verðbólgu hækka skuldirnar um 68 milljarða á ársgrundvelli.

Ekki liggur fyrir hvort að lögmenn Landsbankans muni áfrýja þessum dómi til Hæstaréttar eða ekki en það er mikilvægt að niðurstaða verði ljós í þessu máli er lýtur að lögmæti verðtryggingarinnar eins fljótt og kostur er. Rétt er að geta þess að þetta mál var þingfest í febrúar á þessu ári og hefur því málið tekið afar langan tíma. Ekki liggur fyrir hverslu langt er í að niðurstaða berist frá EFTA dómsstólnum en allt eins má gera ráð fyrir því að það geti tekið allt að þrjá mánuði.

Með því að smella á meira hér að neðan er hægt að sjá í hverju þessar spurningar sem um ræðir eru fólgnar.

Úrskurðarorð:

Leitað verður ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi spurningum:

1. Samrýmist það ákvæðum tilskipunar nr. 87/102/EBE um neytendalán, eins og tilskipuninni var breytt með tilskipun nr. 90/88/EBE og tilskipun nr. 98/7/EB, að við gerð lánssamnings, sem bundinn er vísitölu neysluverðs samkvæmt heimild í settum lögum og tekur því breytingum í samræmi við verðbólgu, sé við útreikning á heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar, sem birtur er lántaka við samningsgerðina, miðað við 0% verðbólgu en ekki þekkt verðbólgustig á lántökudegi?

2. Samrýmist það ákvæðum tilskipunar ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum ef löggjöf í ríki sem aðild á að EES-samningnum heimilar að samningur neytanda og veitanda um lán til fjármögnunar fasteignakaupa hafi að geyma ákvæði þess efnis að greiðslur af láninu skuli verðtryggðar samkvæmt fyrir fram ákveðinni vísitölu?

3. Ef svarið við fyrstu spurningunni er á þann veg að verðtrygging greiðslna af láni sem tekið er til fjármögnunar fasteignakaupa sé samrýmanleg ákvæðum tilskipunar 93/13/EBE þá er í öðru lagi spurt hvort tilskipunin takmarki svigrúm viðkomandi samningsríkis til þess að ákveða með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum hvaða þættir skuli valda breytingum á hinni fyrir fram ákveðnu vísitölu og eftir hvaða aðferðum þær breytingar skuli mældar.

4. Ef svarið við annarri spurningunni er að tilskipun 93/13/EBE takmarki ekki það svigrúm samningsríkis sem nefnt er í þeirri spurningu þá er í þriðja lagi spurt hvort samningsskilmáli teljist hafa verið sérstaklega umsaminn í skilningi 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar þegar a) tekið er fram í skuldabréfi sem neytandi undirritar í tilefni lántöku að skuldbinding hans sé verðtryggð og tilgreint er í skuldabréfinu við hvaða grunnvísitölu verðbreytingar skuli miðast, b) skuldabréfinu fylgir yfirlit sem sýnir áætlaðar og sundurliðaðar greiðslur á gjalddögum lánsins og tekið er fram í yfirlitinu að áætlunin geti tekið breytingum í samræmi við verðtryggingarákvæði lánssamningsins, og c) neytandi og veitandi undirrita báðir greiðsluyfirlitið samtímis og samhliða því að neytandi undirritar skuldabréfið?

5. Telst aðferðin við útreikning verðbreytinga í lánssamningi um fjármögnun fasteignakaupa hafa verið útskýrð rækilega fyrir neytanda í skilningi d-liðar 2. gr. viðauka við tilskipun 93/13/EBE þegar atvik eru með þeim hætti sem nánar greinir í þriðju spurningunni?

6. Á ríki sem er aðili að EES-samningnum val milli þess við innleiðingu 1. mgr. 6. gr. tilskipunar 93/13/EBE, annars vegar að mæla svo fyrir í landsrétti að heimilt sé að lýsa óskuldbindandi fyrir neytanda óréttmæta skilmála í skilningi 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar, eða hins vegar að mæla svo fyrir í landsrétti að slíkir skilmálar skuli ávallt vera óskuldbindandi fyrir neytandann?

Skúli Magnússon

Published in Fréttir

Þann 18. október síðastliðinn kom út ítarleg skýrsla sem aðilar vinnumarkaðsins létu gera. Þar var meðal annars farið yfir launaþróun frá nóvember 2006 og fram í maí 2013.

Það var æði margt forvitnilegt sem fram kom í þessari skýrslu. Meðal annars kom það fram að launavísitalan hefur hækkað um 51,7% á þessu tímabili. Það sem er athyglisvert við þetta er að almennar launahækkanir á hinum almenna vinnumarkaði, svokallaðar prósentuhækkanir, nema einungis 28,3% á sama tíma sem þýðir að launavísitalan hefur hækkað um 23,4%, meira heldur en launahækkanir sem um hefur verið samið á hinum almenna vinnumarkaði.

Það kemur skýrt fram í þessari skýrslu að frá nóvember 2006 til maí 2013 hefur launavísitalan hækkað um tæp 52% eins og áður sagði sem gerir að meðaltali 6,7% hækkun á ári eða 0,5% á mánuði. Þetta sýnir svo ekki verður um villst það gríðarlega launaskrið sem á sér stað enda hefur launavísitalan hækkað um 82% meira heldur en almennar launahækkanir verkafólks.

Það verður að segjast alveg eins og er að það er stórundarlegt að heyra Samtök atvinnulífsins segja í öllum samningum að svigrúm til launahækkana sé lítið en síðan koma fyrirtækin, meðal annars innan Samtaka atvinnulífsins, og hækka laun í vissum geirum um allt að 82% meira en um var samið í kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði. Það er rétt að geta þess að þetta umrædda launaskrið virðist eiga sér stað sérstaklega í efri lögum samfélagsins, til dæmis hjá stjórnendum, í fjármálageiranum, lífeyrissjóðunum, hjá skrifstofufólki en ekki hjá almennu verkafólki.

Þetta er eitthvað sem verkalýðshreyfingin þarf svo sannarlega að skoða. Það að semja ætíð um ákveðna prósentutölu á hinum almenna vinnumarkaði en þurfa síðan að horfa upp á það að vissir hópar í samfélaginu skammti til sín laun langt umfram það sem um hefur verið samið er grátlegt. Það sýnir svo ekki verður um villst að það er miklu meira svigrúm til staðar til launahækkanna heldur en Samtök atvinnulífsins segja til um í aðdraganda kjarasamninga eins og sagan sannar.

Einnig er rétt að rifja upp að Seðlabankinn sagði í síðustu samningum að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði hafi innihaldið alltof háar launahækkanir. Almennar launahækkanir námu 11,4% á samningstímanum en launaskriðið var hinsvegar 18,3% á sama tímabili og því er ekki hægt að segja að kjarasamningarnir hafi innihaldið of miklar hækkanir þegar launaskriðið var langt umfram gerða samninga.

Rétt er að geta þess að neysluvísitalan frá nóvember 2006 hefur hækkað um 54,6% sem þýðir að þeir sem hafa fengið kjarasamningsbundnar launahækkanir hafa orðið fyrir kaupmáttarskerðingu sem nemur 26,3% á sama tímabili.  

Published in Fréttir
Thursday, 24 October 2013 00:00

Undirbúningur kjarasamninga á lokastigi

Undirbúningur að mótun endanlegrar kröfugerðar vegna komandi kjarasamninga er nú á lokametrunum. Formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands hittust fyrr í vikunni þar sem farið var yfir hinar ýmsu hugmyndir er lúta að kröfugerð vegna launaliðar komandi kjarasamninga og vænta má að endanleg kröfugerð hvað launaliðinn varðar liggi fyrir í byrjun næstu viku.

Eins og fram kom í ályktun um kjaramál sem samþykkt var á þingi Starfsgreinasambandsins á Akureyri í síðustu viku, var skýrt kveðið á um að aðildarfélög SGS ætla að brjóta á bak aftur þá láglaunastefnu sem hér hefur ríkt á undanförnum árum og áratugum. Var það mat þingsins að lagfæring á lágmarkslaunum og lágmarkstöxtum verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði verða að vera algjört forgangsmál í komandi kjarasamningum, enda liggur fyrir að lágmarkslaun á Íslandi eru langt fyrir neðan öll opinber framfærsluviðmið.

Síðan er Verkalýðsfélag Akraness einnig byrjað að huga að þeim sérkjarasamningum sem félagið er með og verða lausir á sama tíma og kjarasamningurinn á hinum almenna vinnumarkaði, eða nánar tilgetið í lok nóvember. Í síðustu viku hélt formaður t.d. tvo opna fundi með starfsmönnum Elkem Ísland þar sem kallað var eftir hugmyndum að kröfugerð. Og í gær var fundur með trúnaðarmönnum Elkem, þar sem menn fóru yfir stöðuna og mun endanleg kröfugerð væntanlega liggja fyrir áður en langt um líður.

Það er morgunljóst að sótt verður að þeim fyrirtækjum sem hafa borð fyrir báru, en þau fyrirtæki eru eðli málsins samkvæmt starfandi í útflutningi eins og t.d. fiskvinnslan, ferðaþjónustan og stóriðjurnar. Það er deginum ljósara að krafa félagsins verður sú að starfsfólk fái hlutdeild í góðri afkomu fyrirtækja sem starfa í þessum greinum.

Published in Fréttir

Verksmiðja Elkem á GrundartangaÍ gær voru haldnir tveir fundir með starfsmönnum Elkem Ísland. Sá fyrri hófst kl. 13 og sá síðari kl. 19 en á þessum fundum var kallað eftir hugmyndum starfsmanna að mótun kröfugerðar vegna komandi kjarasamninga Elkem Ísland. Samningurinn mun renna út í lok nóvember. Á fundinum fór formaður yfir hvernig til hefði tekist í síðasta samningi og kom fram í máli hans að laun byrjenda væru í dag tæpum 60.000 kr. hærri á mánuði heldur en fyrir síðustu samninga. Hjá starfsmanni eftir 10 ára starf hefðu launin hækkað um tæpar 75.000 kr. Þessu til viðbótar samdi félagið um verulega eingreiðslu á samningstímanum og nam sú eingreiðsla 450.000 kr. á hvern starfsmann. Sem betur fer varð kaupmáttaraukning hjá starfsmönnum Elkem Ísland sem nam rétt rúmum 8% að teknu tilliti til eingreiðslunnar á samningstímanum.

Það er ljóst að töluverður hugur er í starfsmönnum Elkem vegna komandi kjarasamninga vegna þeirrar staðreyndar að álögur á launafólk gera vart annað en að hækka miskunnarlaust og eina tækifærið sem launafólk hefur til að bæta sinn hag er þegar kjarasamningar eru lausir. Það er ljóst að launafólk á hinum almenna vinnumarkaði nýtur ekki þessa launaskriðs sem viðgengst oft á tíðum því fastlaunasamningar sem gerðir eru kveða einungis á um fastar launahækkanir á samningstímanum og þar af leiðandi skilar það sér ekki í mældu launaskriði.

Það liggur fyrir að Elkem Ísland er útflutningsfyrirtæki og á þeirri forsendu telja menn að svigrúm eigi að vera til staðar í komandi samningum. Menn voru flestir sammála um að gerður verði skammtímasamningur til 12 mánaða þó vissulega hafi heyrst raddir á fundinum sem óskuðu lengri samningstíma. Mótun kröfugerðar mun nú fara fram af fullum þunga enda munu viðræður um nýjan kjarasamning hefjast von bráðar.  

Published in Fréttir

Eins og flestir muna þá óskaði Verkalýðsfélag Akraness eftir því í fyrra við Björn Þorra Viktorsson hrl. og Braga Dór Hafþórsson hdl., að þeir tækju saman lögfræðilega álitsgerð um lögmæti og framkvæmd verðtryggingar á Íslandi.  Að mati lögmannanna  eru allmörg atriði sem gætu bent til þess að bæði grundvöllur verðtryggingarinnar og framkvæmd hennar stangist á við lög.  Eftir að álitsgerðin var birt á heimasíðu VLFA urðu miklar umræður um málefnið og fjölmiðlar tóku það til umfjöllunar. 

Það var morgunljóst að þessi álitsgerð féll ekki vel í kramið hjá varðmönnum verðtryggingarinnar og má nefna að forseti ASÍ lét m.a. hafa eftir sér í viðtali á Bylgjunni, að höfundarnir væru nú „ekki þekktir fyrir að vera mesta mannvitið“!

Í kjölfarið varð mikil umræða um mikilvægi þess, að láta reyna á lögmæti verðtryggingar og framkvæmdar hennar fyrir dómstólum. Fjölmargir félagsmenn VLFA höfðu samband og hvöttu til þess að félagið legði þeirri baráttu lið, enda liggur fyrir að margir félagsmenn telja það sitt helsta kjaramál að losna undan oki verðtryggingar á lánum sínum, enda vita allir að félagsmenn fá ekki launin sín verðtryggð. Málið var tekið fyrir í stjórn VLFA, sem samþykkti einróma að félagið skyldi styðja einstakling til að láta reyna á málið fyrir dómi. Í kjölfarið fól félagið lögmönnunum að hefjast handa við málarekstur og valið var mál einstaklings, en viðkomandi einstaklingur tók verðtryggt lán hjá Landsbankanum hf. (sem þá hét raunar NBI hf.) í nóvember 2008.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 29. janúar sl.  Aðalkrafan í málinu lýtur að því að ákvæði lánssamnings  um verðtryggingu, sé óskuldbindandi. Varakrafan í málinu lýtur að því að viðurkennt verði með dómi, að Landsbankanum sé óheimilt að uppreikna mánaðarlega höfuðstól skuldabréfsins, í samræmi við þróun vísitölu neysluverðs. Þá er í lokin einnig krafist viðurkenningar á því að dómurinn ógildi ákvæði í lánasamningnum, þar sem Landsbankinn áskilur sér rétt til að krefjast uppgreiðsluþóknunar, komi til umframgreiðslna af skuldinni á lánstímanum.  Landsbankinn skilaði sinni greinargerð í málinu hinn 19. mars sl.  Í framhaldinu var málinu úthlutað til dómara, sem hefur boðað til nokkurra fyrirtekta í málinu, þar sem aðilum hefur gefist kostur á að leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings.

Á dómþingi hinn 5. júní sl. var farið fram á það að héraðsdómur leitaði ráðgefandi álits EFTA dómstólsins á nánar tilgreindum atriðum, sem lögmenn telja að skipti máli að leitað verði svara við, áður en málinu verður til lykta ráðið.

Er þar um að ræða túlkun á tilskipunum ESB, sem innleiddar hafa verið í íslensk lög.  Málið var flutt munnlega um þennan þátt málsins á dómþingi um mánaðarmótin ágúst/september sl.  Landsbankinn krafðist þess að héraðsdómur leitaði ekki slíks álits frá EFTA dómstólnum og færði rök fyrir þeirri afstöðu sinni.

Á næstunni má reikna með að úrskurður héraðsdóms liggi fyrir um hvort hann heimili að óskað verði eftir ráðgjafandi áliti frá EFTA dómstólnum.  Héraðsdómur hefur nú ákveðið að gefa lögmönnum aðila kost á að tjá sig frekar um ágreininginn, í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar Íslands um að heimila slíka málsmeðferð í máli Gunnars V Engilbertssonar, sbr. dóm réttarins í málinu nr. 489/2013 frá 8. október sl.

Það er mat lögmanna Verkalýðsfélags Akraness sem reka þetta mál að mjög mikilvægt sé að fá þetta rágjafandi álit og verður að teljast umtalsverðar líkur á að Héraðsdómur Reykjavíkur heimili að óskað verði eftir ráðgjafandi áliti frá EFTA dómstólnum í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar í máli Gunnars V Engilbertssonar.

Published in Fréttir

Í dag verða haldnir tveir stöðufundir vegna kjarasamninga Elkem Ísland. Allir starfsmenn Elkem eru boðaðir á fundina sem verða haldnir á Gamla Kaupfélaginu. Fyrri fundurinn hefst kl. 13:00, sá seinni kl. 19:00.

Á fundunum mun formaður Verkalýðsfélags Akraness fara yfir stöðu kjarasamninganna, taka saman hvað áunnist hefur frá síðustu kjarasamningagerð og kalla eftir hugmyndum um mótun kröfugerðar vegna kjarasamningaviðræðna sem framundan eru.

Starfsmenn Elkem eru hvattir til að mæta á þann fund sem þeim hentar betur og taka þátt í umræðum og mótun kröfugerðar

Published in Fréttir
Wednesday, 09 October 2013 00:00

Stjórnarkjör VLFA

Samkvæmt 29. gr. laga Verkalýðsfélags Akraness ber að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu um kjör stjórnar.

Framboðslistum til stjórnarkjörs í Verkalýðsfélagi Akraness árið 2013, ásamt meðmælendum skv. reglugerð ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslur, ber að merkja kjörstjórn og skila á skrifstofu félagsins, Sunnubraut 13 fyrir kl. 12:00 þann 30. október nk.Hvert það framboð er gilt sem fram kemur innan þess tíma og hefur skriflegt samþykki þeirra sem framboðslistann skipa.

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness hefur lagt fram framboðslista til stjórnar. Listann er hægt að skoða með því að smella hér.

Berist kjörstjórn ekki aðrir listar telst framboðslisti stjórnar og trúnaðarráðs sjálfkjörinn til næstu tveggja ára.

Published in Fréttir
Friday, 04 October 2013 00:00

Áskorun til stjórnvalda og Alþingi

Í fjárlagafrumvarpinu sem fjármálaráðherra lagði fram á þriðjudaginn kom fram að miðþrep tekjuskattsins sem launafólk greiðir eigi að lækka úr 25,8 prósentum í 25,0 prósent. Áætlað er að þessi skattabreyting muni kosta ríkissjóð fimm milljarða króna á næsta ári.Því ber að fagna að til standi að létta skattaánauð launafólks en hins vegar telur formaður VLFA þessa hugmynd að lækka miðskattþrepið um 0,8% ekki réttu leiðina enda morgunljóst að hún er að gagnast þeim tekjuhærri mun betur en þeim tekjulægri.

Á þeirri forsendu skorar formaður á stjórnvöld og Alþingi að breyta þessum áformum um að lækka miðþrepið. Frekar mætti hækka persónuafsláttinn sem nemur þessum fimm milljörðum, því það er ljóst að slík breyting á skattbyrði launafólks kemur jafnt niður á alla, en gagnast klárlega þeim tekjulægstu mun betur.

Einnig væri fróðlegt fyrir almenning að fá upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu um hversu mikið persónuafsláttur einstaklinga myndi hækka, ef hann samtals hækkaði um þessa upphæð sem talað er um að ríkissjóður verði af vegna breytinga á miðþrepi tekjuskattsins.

Það er algerlega hvellskýrt að auka verður ráðstöfunartekjur þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi og ein leið til þess er að hækka persónuafsláttinn enn frekar og það er kjörið tækifæri að nota þessa fimm milljarða til þess.

Published in Fréttir

Sjómenn vítt og breitt um landið hafa um alllanga hríð verið afar ósáttir við það viðmiðunarfiskverð sem Verðlagsstofa skiptaverðs ákvarðar, enda er það verð ætíð langt undir því verði sem fæst þegar fiskur er seldur í opnum viðskiptum í gegnum fiskmarkaði.

Það er morgunljóst að hér er um gríðarlega hagsmuni að ræða fyrir þá sjómenn sem eru látnir taka laun sín eftir því lágmarksverði sem Verðlagsstofa skiptaverðs ákveður. Enda hafa útgerðir í auknu mæli hætt að landa afla á fiskmarkaði og tekið aflann beint inní vinnsluna hjá sér og greitt sjómönnum viðmiðunarverðið frá Verðlagsstofu, en ekki markaðsverð og hér munar gríðarlegum upphæðum.

Þetta þýðir að sjómenn verða af miklum tekjum, sveitarfélögin verða af útsvari, ríkissjóður af tekjuskatti og hafnarsjóðir sveitarfélaganna af hafnargjöldum, því aflaverðmætið verður mun minna en ef allur fiskur myndi taka mið af markaðsverði.  Þeir einu sem græða eru útgerðamennirnir!

Skoðum hvað áætlað er að sjómenn, ríkissjóður, sveitarfélögin og hafnarsjóðir eru að verða af miklum fjármunum vegna þess að útgerðir komast upp með að greiða eftir lágmarksverði Verðlagsstofu skiptaverðs. Samkvæmt skýrslu sem KPMG gerði fyrir Samtök fiskframleiðenda í fyrra þá kemur fram að ef útgerðamenn hefðu látið markaðsverð á fiskmörkuðum gilda, þá hefði aflaverðmætið hækkað um 18 milljarða.  Það hefði þýtt að tekjur þeirra sjómanna sem taka laun eftir Verðlagsstofuverðinu hefðu verið 7 milljörðum hærri, takið eftir: 7 milljörðum. Sveitarfélögin hefðu fengið 1 milljarð í auknar útsvarstekjur, ríkissjóður hefði fengið tæpa 2 milljarða í aukinn tekjuskatt og hafnarsjóðir hefðu fengið 350 milljónir í auknar tekjur vegna hærra aflaverðmætis.  

En hvernig er þetta viðmiðunarverð sem Verðlagsstofa skiptaverðs styðst við fundið út? Jú, það er nefnd sem ákvarðar þetta verð, en úrskurðarnefndin starfar eftir lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna frá árinu 1998. Í úrskurðarnefndinni sem tekur ákvörðun um þetta fiskverð sitja hagsmunaaðilar útgerðarmanna og sjómanna en í nefndinni eiga sæti fulltrúar frá Landssambandi útvegsmanna og Landssambandi smábátasjómanna ásamt fulltrúum frá Sjómannasamtökunum.

Brot á samkeppnislögum?

Þetta fyrirkomulag er vart hægt að telja eðlilegt, enda hefur samkeppniseftirlitið gert athugasemdir við þetta fyrirkomulag í áliti sem kom út árið 2012. Þar kom meðal annars fram orðrétt:

„Í þriðja lagi vill samkeppniseftirlitið benda ráðherra á að það fyrirkomulag laga um Verðlagsstofu skiptaverðs, sem fjallað var um hér að framan, að hagsmunasamtök útvegsmanna sem eru keppinautar, ræði um og ákveði verð sem síðan er notast við í innri viðskiptum útgerða er óheppilegt í samkeppnislegu tilliti.“ Einnig kom eftirfarandi fram í álitinu „Til að koma í veg fyrir þær samkeppnishömlur sem af þessu fyrirkomulagi leiða væri eðlilegast að útvegsmenn kæmu ekki með beinum hætti að ákvörðun þessa verðs (Verðlagsstofuverðs). Möguleg lausn væri að efla starfsemi skiptaverðs og gefa stofnuninni heimildir til ákvarða viðmiðunarverð í beinum viðskiptum með fisk.“ Svo segir einnig í þessu áliti: „Slík breyting eða önnur sambærileg leið myndi líklega hafa að í för með sér að verð í innri viðskiptum samþættra útgerða yrði líkara því verði sem annars myndi gilda í sambærilegum viðskiptum á milli tveggja ótengdra aðila.“

Takið eftir þessum orðum, þarna segir Samkeppniseftirlitið að ef útgerðarmenn kæmu ekki að ákvörðun viðmiðunarverðsins þá yrði fiskverðið til sjómanna hærra. Formaður spyr sig, er þetta ekki brot á samkeppnislögum? Og hví gerir Samkeppniseftirlitið ekkert í því að fylgja þessum ábendingum sínum eftir? Hér eru gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir þjóðarbúið allt.

Já, eins og áður sagði þá er gremja sjómanna vítt og breitt gríðarleg vegna þess mikla munar sem er á milli verðs Verðlagsstofu skiptaverðs og þess verðs sem fæst með sölu í gegnum fiskmarkaði. Eins og fram kom í skýrslunni frá KPMG eru gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir sjómenn og getur sú upphæð numið allt að 7 milljörðum króna á ársgrundvelli.

Einhverra hluta vegna hafa útgerðarmenn komist upp með það að nota eingöngu verð Verðlagsstofu varðandi uppgjör til sjómanna þrátt fyrir að það sé einungis viðmiðunarverð og lágmarksverð.

Formaður vill benda sjómönnum á að skýrt er kveðið á um í kjarasamningum að útgerðarmaður og áhöfn skuli gera sín á milli samning um fiskverð þegar útgerð selur afla til eigin vinnslu. Það er að segja, í viðskiptum milli skyldra aðila. Sjómenn eru beðnir um að taka sérstaklega eftir þessu: Til að slíkur samningur öðlist gildi skal hann staðfestur í leynilegri atkvæðagreiðslu áhafnar og að því loknu undirritaður af fulltrúum áhafnar og útgerðar. Samningurinn skal vera í stöðluðu formi þar sem fram komi meðal annars verð einstakra fisktegunda, gildistími, uppsagnarákvæði og svo framvegis.

Ætli sjómenn hafi almennt gert slíka samninga um fiskverð, eða er það útgerðamaðurinn sem ákveður einhliða að Verðlagstofuverðið skuli gilda?

Takið enn og aftur eftir sjómenn, þið hafið rétt til þess að semja við ykkar útgerð um fiskverð og sjómenn eiga alls ekki að láta útgerðarmenn komast upp með að nota viðmiðunarverðið frá Verðlagsstofu skiptaverðs sem er lágmarksverð eins og margoft hefur komið fram. Leitið til ykkar stéttarfélags, tökum höndum saman og látum ekki allan arðinn renna óskiptan til útgerðarmanna eins og nú er. Sjómenn, fiskvinnslufólk og þjóðin öll vill fá hlutdeild í þessum mikla arði sem auðlindir hafsins eru að skila okkur.

Published in Fréttir
Monday, 30 September 2013 00:00

Hvalveiðum að ljúka

Hvalveiðunum sem hófust 16. júní síðastliðinn er nú lokið en alls veiddust 134 langreyðar af þeim 154 sem leyfið var fyrir. Það er óhætt að segja að veiðar og vinnsla á hval hafi verið mikil innspýting fyrir atvinnulífið hér á Vesturlandi enda voru uppundir 150 manns sem störfuðu í kringum þessa starfsemi og er margt sem bendir til þess að meðallaun á vertíðinni hafi verið á bilinu 800.000 - 1.000.000 kr. á mánuði.

Á þessu sést að þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir umrædda starfsmenn enda eru atvinnumöguleikar upp á slíkar tekjur ekki á hverju strái um þessar mundir. Hinsvegar er rétt að geta þess að starfsmenn Hvals hafa svo sannarlega unnið fyrir hverri krónu enda er umtalsvert vinnuframlag sem liggur að baki slíkum launum. Það hefur áður komið fram hér á heimasíðu félagsins að það er svona starfsemi sem skiptir okkur Íslendinga gríðarlega miklu máli, fyrirtæki sem skapa íslensku þjóðarbúi gjaldeyristekjur, tekjur sem gera það að verkum að við getum haldið úti því velferðarsamfélagi sem við viljum búa í. Nú er bara að vona að hvalveiðarnar muni hefjast að nýju að ári því það er morgunljóst að á meðan á vertíðinni stendur má segja að áhrif veiðanna og vinnslunnar séu ígildi stóriðju og því má kannski segja að hér sé um vistvæna stóriðju að ræða.  

Published in Fréttir

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image