• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Monday, 09 January 2012 00:00

Veiðikortið 2012 er komið í sölu!

Veiðikortið 2012 er nú komið í sölu á skrifstofu félagsins. Orlofssjóður VLFA niðurgreiðir kortið til félagsmanna svo félagsmenn geta keypt kortið á kr. 3.000. Fullt verð á kortinu er kr. 6.000 svo afslátturinn er 50%.

Með Veiðikortið í vasanum er hægt að veiða nær ótakmarkað í rúmlega 37 veiðivötnum víðsvegar um landið sem og tjalda endurgjaldslaust við mörg þeirra. Ný vatnasvæði fyrir sumarið 2012 eru oft nefnd Sólheimavötn en þau eru: Hólmavatn á Hólmavatnsheiði og Laxárvatn á Laxárdalsheiði.

Nánari upplýsingar um Veiðikortið, veiðitímabil og nánari reglur er að finna á heimasíðu Veiðikortsins: http://www.veidikortid.is/

Published in Fréttir

Í dag var haldinn formannafundur Alþýðusambands Íslands þar sem farið var yfir forsenduákvæði kjarasamninga, en fyrir 20. janúar þarf forsendunefnd ASÍ að taka afstöðu til þess hvort forsendur kjarasamninga eru brostnar eða ekki.

Forseti Alþýðusambands Íslands fór yfir forsendur kjarasamningsins, bæði það sem lýtur að Samtökum atvinnlífsins en ekki síður samkomulagi við ríkisstjórnina sem gert var samhliða kjarasamningunum 5. maí. Það er skemmst frá því að segja að það kom fram í máli forsetans að forsenduákvæðið gagnvart SA hefur staðist. En hins vegar kom skýrt fram í máli hans að öðru máli gegni um samkomulag verkalýðshreyfingarinnar við ríkissjórnina. Annað var ekki að skilja á forsetanum en að flest öll atriði samkomulagsins hafi verið svikin.

Á fundinum tók formaður Verkalýðsfélags Akraness til máls og sagðist nú ekki oft vera sammála forseta ASÍ, en nú bregður svo við að formaður félagsins var algerlega sammála forsetanum hvað varðar svik núverandi ríkisstjórnar gagnvart verkalýðshreyfingunni og hagsmunum íslenskra launþega. Formaður fór ítarlega yfir hvernig þessi ríkisstjórn hefur brugðist íslenskum launþegum og heimilum þessa lands illilega frá því hún tók við stjórnartaumunum, fyrst sem minnihlutastjórn í byrjun febrúar 2009 og tók síðan formlega við völdum eftir kosningar í maí 2009.

Það kom fram hjá formanni að alþýða þessa lands hafi bundið miklar vonir við nýja ríkisstjórn sem kenndi sig við norræna velferð, félagshyggju, jöfnuð og réttlæti. Það eru því gríðarleg vonbrigði hvernig þessi ríkisstjórn hefur svikið íslenska verkalýðshreyfingu og launþega þessa lands slag í slag frá því hún tók við völdum. Formaður rakti öll þau svik sem hann hefur orðið vitni að af hálfu þessarar ríkisstjórnar og var af nægu að taka í þeim efnum. Ríkisstjórnin byrjaði á því að svíkja samkomulag sem verkalýðshreyfingin hafði gert við fyrri ríkisstjórn um verðtryggingu persónuafsláttar og krónutöluhækkanir á persónuafsláttinn, en ef ríkisstjórnin hefði staðið við þetta samkomulag þá væri persónuafslátturinn nú 53.500 kr., en ekki rúmar 46.000 kr. eins og hann er í dag. Ríkisstjórnin sveik líka 6.500 kr. hækkun á atvinnuleysisbótum sem átti að taka gildi 1. júní 2010. Hún sveik stöðugleikasáttmálann margfræga. Sjómannaafsláttur hefur verið tekinn af sjómönnum í áföngum. Alger stöðnun hefur verið í atvinnuuppbyggingu, enda kom fram í máli forsetans að atvinnuleysið sé nánast það sama og það var í janúar 2009 þegar núverandi ríkisstjórn komst fyrst til valda. Formaður minnti líka á loforð um skjaldborg heimilanna, en eins og nýverið kom fram í fjölmiðlum þá á helmingur heimila hér á landi nú í vandræðum með að ná endum saman og lítið sem ekkert hefur verið gert til að aðstoða skuldsett heimili vegna stökkbreyttra skulda í kjölfar hrunsins.  Einnig minntist formaður á þá skæðadrífu af skattahækkunum sem dunið hefur á alþýðu þess lands á undarförnum misserum og svona mætti lengi telja.

Þegar formaður hafði rakið þessar stórkostlegu vanefndir núverandi ríkisstjórnar, minnti hann forseta Alþýðusambandsins á kröfu miðstjórnar ASÍ frá 22. janúar 2009 þar kemur fram að ASÍ hafi ítrekað reynt að fá þáverandi stjórnvöld til viðræðna um aðgerðir í efnahagsmálum en talað fyrir daufum eyrum. Miðstjórnin krafðist þess að þáverandi ríkisstjórn myndi víkja tafarlaust og boðað yrði til þingkosninga og ný ríkisstjórn með nægjanlegan styrk og endurnýjað umboð myndi taka við.

Að þessu sögðu, tjáði formaður félagsins forseta ASÍ það að nú væri full ástæða til að lýsa yfir fullkomnu vantrausti á núverandi ríkisstjórn og óska eftir því að efnt yrði til kosninga án tafar vegna síendurtekinna svika við íslenskt launafólk. Hvatti formaður forseta ASÍ til að undirbúa slíka ályktun, en það er skemmst að segja frá því að forsetinn svaraði ekki þessari tillögu formanns félagsins. Vakti það undrun formanns, í ljósi þess að á sínum stóð ekki á miðstjórn Alþýðusambandsins að lýsa yfir vantrausti á ríkisstjórn Geirs H. Haarde vegna vanefnda og krefjast kosninga. 

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness fundar í næstu viku. Þar mun þetta mál verða tekið upp og einnig það hvort segja eigi upp núgildandi kjarasamningum. Ef það verður vilji stjórnar og trúnaðarráðs félagsins, þá mun félagið legga fram slíka vantrauststillögu á ríkisstjórn Íslands á næsta formannafundi sem haldinn verður 19. janúar nk., enda er það mat formannsins að svik núverandi ríkisstjórnar við íslenska launþega séu svo grafalvarleg að ekki sé hægt að horfa átölulaust á slík svik lengur.

Forystumenn í verkalýðshreyfingunni mega ekki undir nokkrum kringumstæðum horfa á flokkspólítíska hagsmuni sína fram yfir hagsmuni sinna félagsmanna, enda hefur formaður margoft lýst því yfir að æðstu forystumenn í verkalýðshreyfingunni eiga ekki að vera eyrnamerktir einhverjum einum ákveðnum stjórnmálaflokki, heldur styðja öll góð málefni óháð því frá hvaða stjórnmálaflokki slík mál koma. En því miður hefur formaður það á tilfinningunni að flokkspólítískir hagsmunir séu oft teknir framyfir hagsmuni félagsmanna innan íslenskrar verkalýðshreyfingar í dag.

Published in Fréttir

Á síðasta fundi ákvað stjórn sjúkrasjóðs Verkalýðsfélags Akraness að hækka fæðingarstyrkinn um 100% frá og með 1. janúar 2012. Mun fæðingarstyrkur til félagsmanna frá og með 1. janúar 2012 hækka úr 35.000 kr. í 70.000 kr. Samtals þýðir þetta að ef báðir foreldrar eru félagsmenn þá nemur styrkurinn 140.000 kr.

Þetta er einn liður í því að láta félagsmenn njóta góðs af góðri afkomu félagsins, en frá því ný stjórn tók við í lok árs 2003 hefur hún unnið að því að vinna félagið upp félagslega sem og fjárhagslega og hefur þeirri vinnu svo sannarlega miðað vel áfram á þessum 8 árum sem liðin eru frá því ný stjórn tók við. Á þessu tímabili hefur félagið tekið inn 8 nýja styrki handa félagsmönnum og hækkað upphæðir umtalsvert, enda er það markmið félagsins að reyna að þjónusta félagsmenn sína eins vel og kostur er. Á árinu sem nú var að líða voru t.a.m. greiddar vel á fjórða tug milljóna út úr sjúkrasjóði félagsins.

Félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness hefur fjölgað á þessu tímabili um 70% eða sem nemur um 1.100 félagsmönnum, en í janúar 2004 voru félagsmenn 1.600 talsins en eru í dag rétt tæplega 3.000. Það er afar ánægjulegt að fjöldi manns hefur óskað eftir inngöngu í félagið á liðnum misserum, sem segir okkur að félagið er á réttri leið. Hins vegar er það ætíð þannig að alltaf má gera betur þegar kemur að þjónustu og baráttu fyrir hinn almenna félagsmann.

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að kynna sér vel réttindi sín, hægt er að nálgast allar upplýsingar hér á heimasíðunni eða á skrifstofu félagsins í síma 4309900.

Published in Fréttir
Friday, 30 December 2011 00:00

Ótrúlegt kjarasamningsár á enda

Í gær var haldinn hinn árlegi jólatrúnaðarráðsfundur Verkalýðsfélags Akraness. Á fundinum fór formaður yfir það starfsár sem nú er senn á enda og eðli málsins samkvæmt bar þar hæst það ótrúlega kjarasamningsár sem nú er að líða.

Formaður rakti alla kjarasamninga sem félagið hafði gert á árinu og þá ótrúlegu baráttu sem fólst í því að brjóta á bak aftur þá svokölluðu samræmdu launastefnu sem Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins höfðu mótað. Formaður rakti þá baráttu sem félagið stóð í en í nafni samræmdrar launastefnu átti með öllum tiltækum ráðum að reyna að koma í veg fyrir að fyrirtæki í útflutningi myndu greiða hærri launahækkanir heldur en um yrði samið eftir umræddri láglaunastefnu. Einn af fyrstu kjarasamningunum sem undirritaðir voru í þessari kjarasamningslotu á hinum almenna vinnumarkaði var kjarasamningur Elkem Ísland sem Verkalýðsfélag Akraness undirritaði 19. apríl. Formanni er það fullkunnugt að þessi samningur hafi valdið gríðarlegum titringi á milli Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins enda kom það skýrt fram í fjölmiðlum á sínum tíma. Enda tókst Verkalýðsfélagi Akraness í þessum samningi að brjóta láglaunastefnuna hvað varðar útflutningsfyrirtæki á bak aftur. Sá samningur var langtum betri en sá samningur sem gengið var svo frá á hinum almenna vinnumarkaði af forystu ASÍ þann 5. maí. Samningurinn við Elkem fól í sér eingreiðslu og afturvirkni sem nam um 500 þúsund krónum til hvers starfsmanns fyrirtækisins en í heildina var kjarasamningurinn að gefa um 26% á samningstímanum.

Formaður sagði einnig frá því á fundinum að félaginu hafi tekist að semja um umtalsvert hærri launahækkanir til handa starfsmönnum Klafa, sem er þjónustufyrirtæki á Grundartanga, en sá samningur var algjörlega í anda þess sem gerðist hjá Elkem Ísland. Sá samningur náðist í gegn eftir að félagið hafði boðað til verkfalls sem hefði haft víðtæk áhrif á Grundartangasvæðinu. Einnig tókst félaginu að ná góðum samningi fyrir starfsmenn Norðuráls, samningi sem var ekki í neinu samræmi við þá láglaunastefnu sem fólgin var í samræmdu launastefnunni.

Það voru gríðarleg átök sem fólust í því að brjóta þessa samræmdu launastefnu á bak aftur enda var forysta ASÍ búin að vinna að því að allir launþegar skyldu fá sambærilegar launahækkanir algjörlega óháð getu hverrar atvinnugreinar fyrir sig. Rök Verkalýðsfélags Akraness voru ætíð skýr, að sýna þyrfti fyrirtækjum sem væru í vanda skilning en um leið voru engar forsendur fyrir því að fyrirtæki sem væru starfandi í útflutningi fengju einhvern afslátt í þeim kjarasamningum sem gerðir voru.

Formaður tók einnig fram að hann hefði viljað sjá mun meiri hækkanir til handa fiskvinnslufólki og starfsmanna síldarbræðslna, en því miður tókst það ekki, enda brást samstaðan eins og frægt var þegar átti að að koma að verkfalli síldarbræðslumanna þann 15. febrúar. Fyrir vikið fékk fiskvinnslufólk mun minni hækkanir heldur en útgerðin réði við enda hefur það svo sannarlega komið í ljós því fjöldi fyrirtækja hefur greitt sínum starfsmönnum umtalsverðar bónusgreiðslur langt umfram gildandi kjarasamninga. Því miður eru sum útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki sem ekki hafa greitt slíkar bónusgreiðslur og hafa skýlt sér á bak við kjarasamninginn sem byggður var á þessari láglaunastefnu. En þessar umframgreiðslur sumra útgerðarfyrirtækja sýna að það var miklu meiri innistæða til hjá þeim fyrirtækjum heldur en kjarasamningurinn til fiskvinnslufólks gaf því fólki.

Published in Fréttir

Eitt af áralöngu baráttumáli Verkalýðsfélags Akraness náðist í gegn í síðustu kjaraviðræðum við forsvarsmenn Norðuráls en það er svokallaður stóriðjuskóli. Það er afar ánægjulegt til þess að vita að núna mun stóriðjuskólinn hefja starfsemi sína 6. janúar næstkomandi en skólasetning verður hins vegar 5. janúar. Stóriðjuskólinn er eins og áður sagði búinn að vera mikið baráttumál og núna var sameiginlegur skilningur samningsaðila að miklivægt væri að koma þessum skóla á laggirnar.

Mikill áhugi var hjá starfsmönnum Norðuráls fyrir þessum skóla en 32 einstaklingar geta farið í skólann í fyrstu atrennu en það voru hvorki fleiri né færri en 79 manns sem sóttu um að komast í skólann í þessari törn. Námið er þrjár annir og munu fyrstu nemendurnir útskrifast í apríl 2013. Kennt verður einn dag í viku frá kl. 7:45-16 og er hver önn um sig í kringum 14 vikur. Í náminu mun fyrirtækið leggja til helming námstímans eða með öðrum orðum þá fá starfsmenn frí til að stunda námið á launum og hinn helmingurinn er í frítíma starfsmannsins. Að afloknu námi mun starfsmaðurinn fá 5% launahækkun sem getur þýtt á milli 20 og 30 þúsund króna launahækkun en það fer eftir starfsaldri viðkomandi starfsmanns. Námið verður kennt í húsakynnum Norðuráls á Grundartanga og munu kennarar koma frá Fjölbrautaskóla Vesturlands og einhver námskeið verða á vegum Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands.

Síðan mun starfsmönnum standa til boða þegar þeir hafa lokið þessu grunnnámi stóriðjuskólans að fara í framhaldsnám stóriðjuskólans og þegar þeir hafa lokið þeim áfanga fá þeir 4% launahækkun til viðbótar.

Verkalýðsfélag Akraness fagnar því innilega að þetta baráttumál um stóriðjuskólann hafi náðst í síðustu samningum og eins og áður sagði er afar ánægjulegt að sjá að nú er námið að fara á fulla ferð strax í janúar eins og stefnt var að en það mun taka umtalsverðan tíma að ná að koma öllum starfsmönnunum í gegnum skólann enda eru þeir yfir 500 talsins.

Published in Fréttir

AkraneshöfnAkraneshöfnÍ gær var haldinn aðalfundur sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness. Á dagskrá fundarins var meðal annars að kjósa í stjórn sjómannadeildar og ein breyting varð í stjórn deildarinnar en Guðlaugur Elís Jónsson, skipverji á Ingunni AK, kom inn í stjórnina. 

Það sem bar hæst á fundinum var eðli málsins samkvæmt kjaradeila sjómanna við LÍÚ en nú er að verða liðið eitt ár frá því að kjarasamningur sjómanna rann út. Sáralitlar viðræður hafa átt sér stað á milli Sjómannasambands Íslands, sem fer með samningsumboð fyrir hönd félagsins, og LÍÚ. Ástæðan er einföld, Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ hefur gefið það út að á meðan óvissa ríki um fiskveiðistjórnunarkerfið verði ekki samið við sjómenn. Þetta er að mati fundarmanna algjörlega óásættanlegt, að halda kjarasamningum sjómanna í herkví vegna ágreinings útgerðarmanna við stjórnvöld.  Hins vegar voru fundarmenn sammála um það að það sé ámælisvert af stjórnvöldum hversu lengi það hefur dregist að leggja fram breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og lögðu fundarmenn ríka áherslu á það að í fyrirhuguðum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu verði hagsmunir sjómanna og fiskvinnslufólks algjörlega hafðir að leiðarljósi við þær breytingar.

Fundarmenn fordæmdu einnig stjórnvöld fyrir að afnema sjómannaafsláttinn í þrepum eins og nú er verið að gera enda er sjómannaafslátturinn búinn að vera hluti af kjörum sjómanna í tugi ára og því munu sjómenn alls ekki sætta sig við að sjómannaafslátturinn verði þurrkaður út án þess að sambærilegar bætur komi í staðinn fyrir hann. Það er með ólíkindum ef sjómenn eiga að vera eina stéttin í þessu landi sem til að mynda á ekki rétt á skattfrjálsum dagpeningum eins og allar aðrar stéttir þessa lands eiga rétt á.

Það kom einnig fram hjá sjómönnum að það verði að finna ásættanlega aðferðafræði við verðlagningu á öllum fiski, þar með talið uppsjávarfiski, en sjómönnum finnst oft á tíðum það afar undarlegt hvernig útgerðin hefur fengið að komast upp með að verðleggja sínar afurðir á hverjum tíma fyrir sig. Það verður ekki gengið frá kjarasamningum nema þessir hlutir verði komnir í ásættanlegt horf.

Það er náttúrulega eins og áður hefur komið fram algjörlega með ólíkindum að sjómenn skuli vera búnir að vera samningslausir í heilt ár. Rétt er samt að geta þess að kauptrygging hækkaði um 4,25% í sumar og er það í raun og veru það eina sem hefur gerst í þessum kjaraviðræðum. En nú er farið að gæta óþreyju hjá sjómönnum um að fara að klára þennan kjarasamning og skorar sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness á LÍÚ að setjast nú niður með sjómönnum og ganga frá nýjum kjarasamningi hratt og vel.

Published in Fréttir
Wednesday, 28 December 2011 00:00

Samkomulag gert við Norðurál

Rétt fyrir jól náði Verkalýðsfélag Akraness ásamt þeim félögum sem eiga aðild að kjarasamningi við Norðurál samkomulagi vegna ágreinings sem laut að því að starfsmenn sem ráðnir voru til afleysinga í orlofi hafa ekki verið að fá greiddan fullan bónus fyrr en eftir 4 mánuði í starfi.

Samningsaðilar fóru yfir þessa framkvæmd og benti Verkalýðsfélag Akraness á að ekki hafði verið rætt sérstaklega um þessa takmörkun á bónusgreiðslum til afleysingamanna þegar umfangsmiklar breytingar voru gerðar á bónuskerfinu í kjarasamningnum sem tók gildi 1. janúar 2010. Ekkert var getið um slíka takmörkun á bónusgreiðslum til afleysingamanna í þeim kjarasamningi. Voru samningsaðilar sammála um að vafi léki á hvort heimilt hafi verið að greiða ekki umræddum starfsmönnum fulla hlutdeild í árangri en Norðurál byggði sína framkvæmd á samkomulagi sem undirritað var af fyrrverandi trúnaðarmanni frá árinu 2000.

Samningsaðilar gengu frá samkomulagi um að frá og með 1. janúar 2012 breytist framkvæmd greinarinnar 3.14 í kjarasamningi þannig að allir starfsmenn eigi rétt á fullri hlutdeild í árangri frá upphafi ráðningar. Jafnframt er samkomulag um að starfsmenn sem ekki fengu greidda fulla hlutdeild í árangri frá 1. janúar 2010 og út árið 2011 fái greidda eingreiðslu sem svari til mismunar á greiddri hlutdeild annars vegar og fullri hlutdeild í árangri hins vegar sem greidd var á starfstíma árin 2010 og 2011. Áætlað er að kostnaður Norðuráls vegna þessarar leiðréttingar sé um 8 milljónir fyrir hvort ár fyrir sig eða samtals um 16 milljónir króna. Uppgjör fer fram samhliða launaútborgun 31. janúar 2012.

Formaður er afar ánægður með þetta samkomulag og sérstaklega í ljósi þess að ekki hafi þurft að koma til þess að málið færi fyrir félagsdóm. Hér er um umtalsverða kjarabót að ræða fyrir alla þá starfsmenn sem eru ráðnir til afleysinga því nú munu þeir framvegis njóta fulls bónus en ekki með takmörkunum eins og framkvæmdin var áður.

Published in Fréttir
Thursday, 22 December 2011 00:00

Gleðileg jól

Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness óskar félagsmönnum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Skrifstofa félagsins verður lokuð á Þorláksmessu og þriðjudaginn 27. desember en opnar á ný miðvikudaginn 28. desember.

Ef áríðandi mál koma upp er hægt að ná í formann félagsins í síma 8651294.

Published in Fréttir

Í lok árs 2005 gerði stjórn Verkalýðsfélags Akraness mjög góðan samning við Landsbankann á Akranesi um öll bankaviðskipti félagsins. Í einu ákvæði samningsins er kveðið á um að Landsbankinn greiði í sérstakan styrktarsjóð Verkalýðsfélags Akraness sem nota á til að styrkja góðgerðamál á félagssvæði VLFA.

Á grundvelli þessa samnings við Landsbankann ákvað stjórn félagsins á fundi sínum á fimmtudaginn var að styrkja Mæðrastyrksnefnd Akraness um 100.000 kr.  Einnig ákvað stjórn félagsins að styrkja styrktarsjóð Akraneskirkju um 150.000 kr. og mun séra Eðvarð Ingólfsson sóknarprestur okkar Skagamanna sjá um að útdeila þeim fjármunum til fjölskyldna sem eiga í fjárhagsvandræðum.  Verkalýðsfélag Akraness hefur frá árinu 2005 styrkt hin ýmsu góðgerðasamtök hér á Akranesi um tæpar 4 milljónir í gegnum þennan samning sem félagið gerði við Landsbankann á Akranesi.

Stjórn félagsins er afar ánægð með að geta komið þessum góðgerðasamtökum til hjálpar með þessu framlögum. 

Það er alveg ljóst að gríðarlegur fjöldi fólks á um sárt að binda fjárhagslega um þessar mundir sökum þess ástands sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi. Á þeirri forsendu er jákvætt að geta aðstoðað einhverja sem eiga í tímabundnum erfiðleikum fjárhagslega við að halda gleðilega jólahátíð.

Published in Fréttir
Friday, 16 December 2011 00:00

Verðtryggingarvítisvélin

Verðtryggðar skuldir heimilanna hafa hækkað frá 1. janúar 2009 til 1. september 2011 um 18,3 milljarða bara vegna skattahækkana ríkisstjórnarinnar.  Þessu til viðbótar munu verðtryggðar skuldir heimilanna hækka um 3-4 milljarða vegna fyrirhugaðra skattahækkana, samtals eru þetta hækkanir á verðtryggðum skuldum heimilanna frá 1. janúar 2009 til 1. janúar 2012 uppá 22,3 milljarða og þetta er bara vegna hækkunar á neysluvísitölunni vegna skattahækkana.

Íslensk heimili skulda að meðaltali 18 milljónir í verðtryggðum skuldum þannig að jólagjöfin í ár frá ríkisstjórninni til heimilanna er hækkun að meðaltali uppá tæpar 400.000 kr á skuldum heimilanna.  Mér reiknast til að verðtryggðar húsnæðisskuldir heimilanna hefi hækkað um hvorki meira né minna en yfir 300 milljarða frá 1. janúar 2008, á þessu sést hverslags vítis- og drápsvél verðtryggingin er íslenskum heimilum.

Vítisvél

Verðtryggingarvítisvélin hefur farið á undanförnum árum eins og skýstrókur um skuldsett heimili og sogað allan eignarhluta í burtu frá heimilunum og fært hann yfir til fjármagnseigenda, banka, lífeyrissjóða og erlendra vogunarsjóða.

Á sama tíma og íslensk heimili þurfa að horfa uppá 400.000 kr. hækkun á  höfuðstól verðtryggðra skulda að meðaltali vegna hækkunar neysluvísitölunnar vegna skattahækkana, þá hækkar lífeyriseign Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingríms J Sigfússonar fjármálaráðherra um 300.000 kr.  vegna þess að neysluvísitalan mun hækka um 0,2% vegna fyrirhugaðra skattahækkana.

Réttlæti og jöfnuður

Eins og fram hefur komið þá er talið að lífeyriseign forsætisráðherra og fjármálaráðherra sé yfir 150 milljónir hvort fyrir sig.  En þessi gríðarlega lífeyriseign er með ríkisábyrgð og verðtryggð sem gerir það að verkum að skattahækkanir sem fara útí neysluvísitöluna gera ekkert annað en að stórhækka lífeyri æðstu ráðamanna.  Er þetta réttlætið og jöfnuðurinn sem þessi ríkisstjórn vill kenna sig við, að alþýða þessa lands þurfi að horfa upp á 400.000 króna hækkun á höfuðstól sinna lána á meðan lífeyrisréttindi oddvita stjórnarflokkanna hækka um 300.000 krónur vegna áðurnefndrar hækkunar á neysluvísitölunni vegna skattahækkana.

Svo talar forysta ASÍ fyrir því að mikilvægt sé að viðhalda verðtryggingunni til að verja eignir lífeyrissjóðanna en það virðist ekki skipta þessa menn neinu máli þótt verðtryggðar skuldir heimilanna hafi hækkað yfir 300 milljarða frá 1. janúar 2008, já yfir 300 milljarðar hafa verið færðir frá skuldsettum heimilum yfir til fjármagnseigenda, banka, lífeyrissjóða og erlendra vogunarsjóða.  Ég veit ekki betur en að öllu jöfnu ætti húseignin okkar að vera líka okkar lífeyrir.

Verðtryggingarvítisvélinni verður að eyða með öllum tiltækum ráðum því hvaða réttlæti og jöfnuður er það að t.d ofur lífeyrisréttindi æðstu ráðamanna bólgni út á meðan skuldsett heimili horfa uppá eignarhlut sinn sogast í burtu vegna verðtryggingarvítisvélarinnar.

Published in Fréttir

Fréttir

Nýjar fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image