• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
May

Verkalýðsfélag Akraness hafnar tillögum Samtaka atvinnulífsins algerlega

Forsvarsmaður Vinnslustöðvarinnar segir að fiskvinnslufyrirtæki geti staðið við launahækkanirForsvarsmaður Vinnslustöðvarinnar segir að fiskvinnslufyrirtæki geti staðið við launahækkanirEins og flestir muna þá gekk samninganefnd ASÍ frá samkomulagi við Samtök atvinnulífsins þann 25. febrúar sl. um frestun á endurskoðun kjarasamninga og þeim launahækkunum sem áttu að taka gildi 1. mars sl.

Samkomulagið gekk út það að umsömdum launahækkunum sem áttu að taka gildi 1. mars yrði frestað til 1. júlí nk.  Þessar hækkanir hljóðuðu uppá 13.500 kr. hækkun á launatöxtum og 3,5% hækkun til handa þeim sem ekki tóku laun eftir taxtakerfi.

Frestunin sem gerð var 25. febrúar var gerð í algjörri óþökk sex stéttarfélaga á landsbyggðinni og var Verkalýðsfélag Akraness eitt þessara félaga.

Nú hafa Samtök atvinnulífsins lagt fram tillögu til samninganefndar ASÍ um enn frekari frestun á þeim launahækkunum sem áttu að taka gildi fyrst 1. mars sl. og síðan 1. júlí nk.

Formaður hefur kynnt sér þær tillögur sem SA lagði fram í morgun og er skemmst frá því að segja að Verkalýðsfélag Akraness hafnar þessum tillögum Samtaka atvinnulífsins algerlega. Í þessum tillögum frá SA eru m.a. hugmyndir um breytingar á 3,5% hækkuninni sem á að ná til þeirra sem ekki starfa eftir taxtakerfi.  Bara þannig að það sé á hreinu þá hefur Samninganefnd ASÍ ekki nokkra heimild til að breyta innihaldi þeirra kjarasamninga sem gengið var frá 17. febrúar 2008.

Krafa Verkalýðsfélags Akraness er hvellskýr, að þær launahækkanir sem um var samið 17. febrúar 2008 taki tafarlaust gildi 1. júlí nk.

 

Afstaða félagsins byggist á því að gengið var frá afar hófstilltum samningum 17. febrúar 2008 sem áttu að tryggja hér stöðugleika og aukinn kaupmátt til handa okkar fólki. Þar af leiðandi ber verkafólk á engan hátt ábyrgð á því ástandi sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi og telur Verkalýðsfélag Akranes að fjölmörg fyrirtæki hafi borð fyrir báru til að standa við áður umsamdar launahækkanir eins og t.d. hefur gerst í fiskvinnslunni og hjá öðrum útflutningsfyrirtækjum. 

Forsvarsmaður Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum sagði t.d. á fundi í Vestmannaeyjum fyrir viku síðan með framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands að fiskvinnslan hefði fulla burði til að standa við gerða samninga.  Það liggur fyrir að fjölmörg fyrirtæki hafa burði til að standa við gerða samninga og atvinnurekendur hafa fengið frestun á þeim launahækkunum sem áttu að taka gildi 1. mars til 1. júlí og það nægir.  Verkafólk hefur ekki burði til að gefa meira eftir en orðið er.

Það gengur heldur ekki upp að ríki, sveitarfélög, tryggingafélög, verslunareigendur og aðrir þjónustuaðilar varpi sínum vanda beint út í samfélagið á meðan verkafólk hefur þurft að fresta sínum umsömdu launahækkunum, tekið á sig tekjuskerðingar og horft upp á stóraukna greiðslubyrði og hækkun á höfuðstól sinna lána frá 20% og upp í allt að 100%.

Það er ljóst að íslensku verkafólki er að blæða út sökum þess ástands sem nú ríkir í íslensku samfélagi, ástandi sem verkafólk ber ekki nokkra ábyrgð á.  Á þeirri forsendu hvetur formaður Verkalýðsfélags Akraness allt verkafólk vítt og breitt um landið til að standa þétt saman og hvika ekki frá þeirri kröfu að atvinnurekendur standi við hóflegan kjarasamning sem undirritaður var 17. febrúar 2008.  Kjarasamning sem ráðamenn þjóðarinnar sögðu á sínum tíma væri hófstilltur og myndi tryggja stöðugleika í íslensku samfélagi!

Hægt er að lesa tillögu Samtaka atvinnulífsins í heild sinni með því að smella á meira.

Tillagan í heild:

1. Hækkanir kauptaxta, ákvæðisvinnu og kostnaðarliða sem áttu að koma til framkvæmda 1. mars 2009.

a. Samningar sem kveða á um sérstaka hækkun kauptaxta um 13.500 kr. hækki í stað þess um 6.750 kr. frá 1. júlí 2009 og um sömu tölu 1. nóvember 2009.

b. Samningar sem kveða á um sérstaka hækkun kauptaxta um 17.500 kr. hækki í stað þess um 8.750 kr. frá 1. júlí 2009 og um sömu tölu 1. nóvember 2009.

c. Hækkun ákvæðisvinnutaxta og kostnaðarliða kjarasamninga færist til 1. nóvember 2009.

2. Í stað ákvæðis um launaþróunartryggingu 1. mars 2009 komi eftirfarandi breyting til framkvæmda 1. nóvember 2009:

Grunnhækkun lægri fastra mánaðarlauna, að viðbættum föstum álags- eða aukagreiðslum, en 300.000 kr. er 3,5%. Frá henni dragast hækkanir á launum starfsmanns frá 1. janúar til 30. október 2009. Frádráttur getur þó ekki orðið hærri en grunnhækkun. Við samanburð launa skal miða við föst viku- eða mánaðarlaun að viðbættum föstum álags- eða aukagreiðslum hverju nafni sem þær nefnast.

 Greinargerð: Við mat á kjarasamningunum 17.2 2008 var þetta ákvæði metið til 1,1% kostnaðarauka fyrir atvinnulífið. Var þá talið að ákvæðið snerti einungis þriðjung launamanna þar sem launaskrið og hækkanir í launakerfum drægju úr áhrifum þess. Þróunin hefur orðið allt önnur en ráð var fyrir gert þar sem nánast ekkert launaskrið hefur átt sér stað frá gerð samninganna og laun víða lækkað. Samningsákvæðið er því mun kostnaðarsamara fyrir atvinnulifið en fyrirséð var. Af þeim ástæðum er gerð tillaga um að þetta samningsákvæði takmarkist við mánaðarlaun undir 300.000 kr.

3. Hækkun kauptaxta og almennar launahækkanir sem áttu að taka gildi 1. janúar 2010 færist til 1. september 2010.

19
May

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands haldinn í morgun

Formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands funduðu í morgun í húsakynnum Ríkissáttasemjara. Fundarefnið var komandi endurskoðun á kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði, en eins og flestir vita þá var endurskoðun kjarasamninga frestað í febrúar sl. fram í júní ásamt þeim launahækkunum sem áttu að taka gildi 1. mars.

Einnig var til umræðu kjarasamningur við Ríkið og voru með formanni í för trúnaðarmenn á Sjúkrahúsi Akraness. Formaður félagsins gerði grein fyrir afstöðu Verkalýðsfélags Akraness vegna komandi endurskoðunar og hefur afstaða félagsins ekkert breyst frá því í febrúar en félagið gerir þá skýlausu kröfu að atvinnurekendur standi við þann samning sem gerður var 17. febrúar 2008 og þær launahækkanir sem eiga að taka gildi 1. júlí taki allar gildi þá. Þær hækkanir sem um ræðir eru 13.500 kr. hækkun á þá sem vinna eftir launatöxtum og 3,5% handa þeim sem ekki starfa eftir taxtakerfi.

Afstaða félagsins byggist á því að gengið var frá afar hófstilltum samningum 17. febrúar 2008 sem áttu að tryggja hér stöðugleika og aukinn kaupmátt til handa okkar fólki. Þar af leiðandi ber verkafólk á engan hátt ábyrgð á því ástandi sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi og telur félagið að fjölmörg fyrirtæki hafi borð fyrir báru til að standa við áður umsamdar launahækkanir eins og t.d. hefur gerst í fiskvinnslunni og hjá öðrum útflutningsfyrirtækjum.

Það gengur heldur ekki upp að ríki, sveitarfélög, tryggingafélög, verslunareigendur og aðrir þjónustuaðilar varpi sínum vanda beint út í samfélagið á meðan verkafólk hefur þurft að fresta sínum umsömdu launahækkunum, tekið á sig tekjuskerðingar og horft upp á stóraukna greiðslubyrði og hækkun á höfuðstól sinna lána frá 20% og upp í allt að 100%.

Eins og áður hefur komið fram þá talaði formaður félagsins skýrt á þessum fundi um að staðið yrði fast í lappirnar hvað varðar þær hækkanir sem taka eiga gildi 1. júlí og er það mat Verkalýðsfélags Akraness að hvergi eigi að hvika frá þeirri kröfu.

19
May

Sumar 2009 - fyrstur kemur, fyrstur fær í dag!

Vinnu við seinni úthlutun orlofshúsa er lokið og þar sem eindagi var í gær er nú búið að losa allar bókaðar vikur sem ekki voru greiddar þá.

Um bókun á þessum vikum gildir héðan í frá hin ágæta regla "Fyrstur kemur, fyrstur fær". Hægt er að bóka lausar vikur á skrifstofu félagsins, Sunnubraut 13 eða í síma 4309900.

Hægt er að skoða lista yfir lausar vikur með því að smella hér.

18
May

Tillaga að lausn á deilunni um arðgreiðslur Orkuveitunnar

Formaður Verkalýðsfélags Akraness gerir það að tillögu sinni að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur standi í hvívetna við gerða kjarasamninga og lækki arðgreiðslu til eigenda um 400 milljónir.

Það liggur fyrir að Orkuveitan er að spara um 400 milljónir á ári vegna þess að starfsmenn OR voru tilbúnir að lækka laun sín vegna erfiðleika í rekstri.  Einnig voru starfsmenn OR þvingaðir til að fresta áður umsömdum launahækkunum sem áttu að taka gildi 1. mars sl.

Eins og frægt er orðið þá hefur stjórn OR ákveðið að greiða út arð sem nemur 800 milljónum króna á sama tíma og starfsmenn taka á sig launalækkun sem nemur 400 milljónum á ársgrundvelli.  Með því að lækka arðgreiðsluna um 400 milljónir og láta starfsmenn fá þær greiðslur sem kjarasamningur þeirra kveður á um þá næðist farsæl lausn í þessari deilu.

Vissulega er rétt að þær arðgreiðslur sem OR greiðir út eru að ganga til þeirra sveitarfélaga sem eru eignaraðilar að Orkuveitunni og fara því inní samfélagið aftur.  Það gengur hins vegar ekki upp að launþegar sem hafa þurft að horfa uppá stóraukna greiðslubyrði á undanförnum mánuðum þurfi að fresta hækkunum og lækka sín launakjör á sama tíma og slíkar greiðslur eiga sér stað hjá fyrirtækjum.

Það er alls ekki hægt að fara fram á það við launþega þessa lands að þeir afsali sér eða fresti sínum kjarasamningsbundnu launahækkunum á meðan fyrirtæki greiða út arðgreiðslur eins og við höfum orðið vitni að að undanförnu.

Akraneskaupstaður á 5,5% í Orkuveitunni og fengi því um 45 milljónir í arðgreiðslu af þeim 800 milljónum sem til stendur að greiða út.

15
May

Ekki skrýtið þótt illa sé komið fyrir íslensku efnahagslífi

Ekki mikið rekstrarvitEkki mikið rekstrarvitÞað er ekkert skrýtið þótt íslenskt efnahagslíf sé í jafn skelfilegri stöðu og raun ber vitni, ef tekið er tillit til þeirrar ákvörðunar stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur um að greiða út 800 milljónir í arð þó svo fyrirtækið hafi tapað 73.000 milljónum króna á síðasta ári.

Kjörnir fulltrúar í stjórn Orkuveitunnar eru frá Reykjavíkurborg Guðlaugur Gylfi Sverrisson, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson, Svandís Svavarsdóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir, frá Akranesi Gunnari Sigurðsson og frá Borgarbyggð Björn Bjarki Þorsteinsson.

Formaður spyr sig, hvaða skilaboð eru hinir áðurnefndu kjörnu fulltrúar að senda út í samfélagið með arðgreiðslu upp á 800 milljónir þrátt fyrir 73.000 milljóna tap? Á sama tíma hefur stjórn fyrirtækisins farið fram á að laun starfsmanna lækki og einnig að umsömdum launahækkunum sem taka áttu gildi 1. mars yrði frestað til 1. júlí. Þessar aðgerðir áttu að tryggja atvinnuöryggi starfsmanna Orkuveitunnar. Á þeirri forsendu spyr formaður sig einnig hvort ekki sé verið að stefna atvinnuöryggi starfsmanna Orkuveitunnar í verulega hættu með arðgreiðslu upp á 800 milljónir.

Að krefja starfsmenn um lækkun launa þeirra og greiða arð út á sama tíma er ekkert nema argasta ósvífni gagnvart því góða starfsfólki sem vinnur hjá fyrirtækinu.

Hvernig ætlar stjórn Orkuveitunnar að mæta þessum gríðarlega halla sem var á síðasta ári? Nú liggur fyrir að gjaldskrárhækkun varð hjá OR í september sl. upp á 10%, lækkuð launakjör starfsmanna OR áttu að skila 400 milljónum. Mega notendur Orkuveitunnar eiga von á frekari gjaldskrárhækkunum til að mæta því tapi sem fyrirtækið er að verða fyrir og til að geta náð upp í þessa 800 milljóna króna arðgreiðslu?

Það er kannski ekkert skrýtið þótt illa sé komið fyrir sveitarfélögum vítt og breitt um landið ef þetta er viðskiptavitið sem kjörnir fulltrúar sveitarfélaganna hafa. Það er alla vega morgunljóst að ef íslensk heimili væru rekin á þennan hátt sem er að gerast hjá OR þá tæki ekki langan tíma hjá þeim að keyra sig í þrot.

Krafan er hvellskýr: Stjórn OR, greiðið ykkar góða starfsfólki áður umsamdar launahækkanir tafarlaust, annað er hreinasta móðgun við starfsfólk OR.

14
May

Hreinasta ósvífni

Enn og aftur á að höggva í launþega og krefja þá um að falla frá áður umsömdum launahækkunum á sama tíma og til stendur að greiða arð út úr fyrirtækinu, eins og nú hefur komið í ljós með Orkuveitu Reykjavíkur.

Verkalýðsfélag Akraness er með samning við Orkuveitu Reykjavíkur vegna nokkurra starfsmanna sem vinna hjá fyrirtækinu, en Akraneskaupstaður á 5,7% í Orkuveitu Reykjavíkur.

Það er með hreinustu ólíkindum að til standi að greiða arð á sama tíma og starfsmenn hafa verið krafðir um að fresta áður umsömdum launahækkunum. Mun OR spara sér um 400 milljónir á því, en ætlar sér á sama tíma að greiða arð upp á 800 milljónir þó svo fyrirtækið hafi tapað 73 milljörðum á síðasta ári. Rétt er að minna á það að gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur hækkaði um 10% í endaðan september á síðasta ári. Með öðrum orðum, fyrirtæki varpa sínum vanda stöðugt út í verðlagið á meðan íslenskir launþegar verða fyrir gríðarlegri kjaraskerðingu og stóraukinni greiðslubyrði.

Svo eru menn að tala um þjóðarsátt og stöðugleikasáttmála á sama tíma og svona óréttlæti birtist íslenskum launþegum með jafn afgerandi hætti. Það gengur ekki upp að það sé ávalt íslenskir launþegar sem þurfi að herða sultarólina á sama tíma og eigendur stórfyrirtækja hyggist greiða sér út arð þó svo engar forsendur séu fyrir slíkum arðgreiðslum.

Vissulega er það rétt hjá Hjörleifi Kvaran, forstjóra OR, að arðgreiðslurnar renna til eigenda OR sem eru Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð, en það réttlætir hins vegar á engan hátt það að starfsmenn séu látnir taka á sig launalækkanir til þess eins að hægt sé að greiða út arðgreiðslur til eigenda.

Það er alveg ljóst að íslenskt verkafólk er búið að fá nóg af þeirri framkomu sem því er sýnt slag í slag af hinum ýmsu fyrirtækjum og það mun ekki koma til greina að fresta eða falla frá þeim umsömdu launahækkunum sem eiga að taka gildi 1. júlí nk. á hinum almenna vinnumarkaði. Formaður Verkalýðsfélags Akraness skorar á íslenskt verkafólk að rísa upp og láta óánægju sína yfir þeirri þróun sem nú er að eiga sér stað kröftuglega í ljós.

Krafan er skýr, að stjórn OR standi við þær launahækkanir sem samið hefur verið um við stéttarfélögin og láti þær taka tafarlaust gildi, því ef hægt er að greiða út arð þá er hægt að standa við áður umsamdar launahækkanir.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image