• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Jun

Áskorun til olíufélaganna

Nú hafa öll olíufélögin tekið ákvörðun um að endurgreiða öllum þeim sem tóku bensín á bensínstöðvum fyrirtækisins þá daga sem ný eldsneytisgjöld ríkisstjórnarinnar voru rukkuð inn án þess að þau væru komin á birgðirnar. 

N1 lét reikna út fyrir sig að ofteknu gjöldin á áðurnefndu tímabilin námu um 9 milljónum króna. Þeir tilkynntu á sama tíma að þeir muni gefa ofteknu gjöldin til góðgerðarmála.

Verkalýðsfélag Akraness vill hins vegar minna öll olíufélögin á að bensínafgreiðslufólk og annað starfsfólk olíufélaganna sem starfar eftir lágmarkstöxtum á hinum almenna vinnumarkaði var þvingað til að afsala sér hækkun sem átti að taka gildi 1. mars sl., hækkun upp á 13.500 kr. á launataxta. Með öðrum orðum þá hefur afgreiðslufólk á bensínstöðvum orðið af 40.500 krónum á síðustu þremur mánuðum.

Á þeirri forsendu skorar Verkalýðsfélag Akraness á N1 sem og öll hin olíufélögin að greiða starfsfólki sínu sem vinnur eftir kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði þá hækkun sem að fólkið var þvingað til að afsala sér 1. mars sl. Sem dæmi þá duga þær 9 milljónir sem N1 oftók til að greiða 222 starfsmönnum 40.500 krónur, eins og kjarasamningur þeirra var búinn að gera ráð fyrir að þeir sem starfa eftir taxtakerfi fengju.

En eins og frægt er þá gengu Samtök atvinnulífsins og samninganefnd ASÍ frá samkomulagi 25. febrúar sl. um frestun á hækkunum til 1. júlí nk. Nú liggur hins vegar fyrir að atvinnurekendur ætla ekki heldur að standa við það samkomulag sem gert var 25 febrúar sl, hugsanlega að hluta til.

Það er skoðun Verkalýðsfélags Akraness að olíufélögin hafi fulla burði til að standa við þann kjarasamning sem gerður var 17. febrúar 2008. Þúsundir starfsmanna starfa hjá olíufélögunum vítt og breitt um landið og vinnur stór hluti þessa fólks á lágmarkstöxtum.

Olíufélögin hafa verið dugleg við að varpa sínum vanda beint út í verðlagið og á þeirri forsendu er algerlega ástæðulaust að veita olíufélögunum afslátt á kjarasamningum.

08
Jun

Þrír sjómenn heiðraðir í tilefni sjómannadags

Í hátíðarguðsþjónustu í Akraneskirkju í gær voru heiðraðir merkismenn í tilefni sjómannadagsins. Þeir sem heiðraðir voru eru þeir Kristján Pétursson fyrrv. skipstjóri á Höfrungi, Þorvaldur Guðmundsson fyrrv. skipstjóri á Akraborginni og yfirhafnarvörður hjá Faxaflóahöfnum og Stefán Lárus Pálsson fyrrv. skipstjóri og útgerðarmaður.

Að heiðruninni lokinni var gengið fylktu liði að minnismerki sjómanna á Akratorgi þar sem Eiríkur Jónsson formaður Sjómannadagsráðs lagði blómsveig að því eftir stutta athöfn.

Eftir athöfnina stóð Akraneskaupstaður fyrir hófi í safnaskálanum til heiðurs sjómönnunum þremur sem hlutu heiðursmerki sjómannadags.

Það er Verkalýðsfélag Akraness sem stendur að þessari athöfn er lýtur að heiðrun sjómanna, minningarathöfninni um týnda sjómenn og athöfninni sem fram fer á Akratorgi þar sem blómsveigur er lagður að minnisvarða um látna sjómenn.

Verkalýðsfélag Akraness óskar áðurnefndum aðilum innilega til hamingju með heiðrunina.

05
Jun

Sjómannadagurinn 2009

Eins og venja er verður sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur um allt land næstkomandi sunnudag. Verkalýðsfélags Akraness hefur, eins og undanfarin ár, tekið þátt í skipulagningu og framkvæmd hátíðarhaldanna.

Klukkan 10 að morgni sjómannadags verður minningarstund við minnismerkið í kirkjugarðinum. Að því loknu verður hátíðarguðsþjónusta í Akraneskirkju kl. 11. Þar munu þrír merkismenn í okkar samfélagi verða heiðraðir, þeir Kristján Pétursson fyrrv. skipstjóri á Höfrungi, Þorvaldur Guðmundsson fyrrv. skipstjóri á Akraborginni og yfirhafnarvörður hjá Faxaflóahöfnum og Stefán Lárus Pálsson fyrrv. skipstjóri og útgerðarmaður.

Að messu lokinni verður gengið fylktu liði að minnismerki sjómanna á Akratorgi og blómsveigur lagður að því eftir stutta athöfn.

Akraneskaupstaður mun eftir athöfnina standa fyrir hófi til heiðurs sjómönnunum þremur sem hljóta heiðursmerki sjómannadags.

Verkalýðsfélag Akraness vill óska sjómönnum landsins innilega til hamingju með daginn. Hægt er að lesa um sögu sjómannadagsins með því að smella á meira.

Sjómannadagurinn - saga og uppruni

"Sjómannadagurinn er haldinn fyrsta sunnudag í júní nema hvítasunnu beri upp á hann, þá viku síðar. Hann var fyrst haldinn í Reykjavík árið 1938 en á fáum árum breiddist hann út um öll sjávarpláss og er þar víða mestur hátíðisdagur að jólunum undanskildum. ...

Markmið dagsins eru að efla samhug sjómanna, kynna þjóðinni starf þeirra og minnast drukknaðra. Samtök sjómanna sjá um hátíðhöld á sjómannadaginn.

Sjómannadagurinn tók að nokkru leyti við af hinum gamla lokadegi vetrarvertíðar 11. maí sem miðast hafði við árabáta og seinna vélbáta. ...

Fyrsti undirbúningsfundur að almennum sjómannadegi var haldinn 8. mars 1937. Þangað komu fulltrúar frá Félagi íslenskra loftskeytamanna, Sjómannafélagi Reykjavíkur, Skipstjórafélagi Íslands, Skipstjóra- og stýrimannafélagi Reykjavíkur, Skipstjórafélaginu Kára í Hafnarfirði, Skipstjórafélaginu Ægi, Skipstjórafélaginu Öldunni, Vélstjórafélagi Íslands og Matsveina- og veitingaþjónafélagi Íslands. ...

Fyrsti sjómannadagurinn var haldinn í Reykjavík og á Ísafirði 6. júní 1938 og tókst með miklum ágætum. Talið er að í Reykjavík hafi um tvö þúsund sjómenn tekið þátt í skrúðgöngu frá Stýrimannaskólanum við Öldugötu um Ægisgötu, Túngötu, Aðalstræti, Austurstræti, Bankastræti og Skólavörðustíg að styttu Leifs Eiríkssonar. Lúðrasveit lék fyrir göngunni. ...

Síðan hefur sjómannadagurinn verið haldinn hátíðlegur og með hverju ári fjölgaði þeim stöðum þar sem hann var haldinn. Þegar árið 1940 eru hátíðahöld í Keflavík, á Akranesi, Flateyri, Bolungarvík, Ísafirði, Ólafsfirði, Dalvík, Akureyri og í Vestmannaeyjum. Innan fárra ára hafði þessi hátíðisdagur breiðst út um allt land. ...

Í mörgum kaupstöðum og öðrum sjávarplássum utan Reykjavíkur hefur sjómannadagurinn orðið mesta hátíð ársins á eftir jólum. Umsvið sjómannaráðs á höfuðborgarsvæðinu færðust einnig stöðugt í aukana. Mestu framkvæmdir á vegum þess eru vafalaust Dvalarheimili aldraðra sjómanna....

Árið 1939 efndi sjómannadagsráð til samkeppni um ljóð og lag fyrir sjómannadaginn. Skáld og tónsmiðir brugðust skjótt við og bárust 42 kvæði en 27 göngulög. Fyrstu verðlaun hlaut Magnús Stefánsson (Örn Arnarson) fyrir ljóð sitt „Hrafnistumenn“ við lag eftir Emil Thoroddsen. Hefur það síðan orðið óbeinn einkennissöngur sjómannadagsins. ...

Um sjómannadaginn voru sett sérstök lög árið 1987 þar sem kveðið er á um tímasetningu hans og settar reglur til að tryggja sem flestum sjómönnum frí á sjómannadaginn. Í þeim er einnig ákvarðað að hann skuli vera almennur fánadagur. Hann hafði ekki verið einn fánadaganna í forsetaúrskurði um þá 1944, en snemma varð það almennur siður að draga fána að húni á sjómannadaginn, bæði á landi og á skipum í höfn. Í endurnýjuðum forsetaúrskurði frá 1991 er sjómanndagurinn á sínum stað, einn af ellefu opinberum fánadögum."

Árni Björnsson. "Saga daganna." Mál og menning. Reykjavík 1993. Bls. 144-147.
05
Jun

Sjómenn heimsóttu leikskólabörn á Akranesi í morgun

Í morgun fengu leikskólabörn á Akranesi glaðning frá Verkalýðsfélagi Akranesi í tilefni sjómannadagsins sem er á sunnudaginn. Vilhjálmur Birgisson formaður félagsins, Jóhann Örn Matthíasson formaður sjómannadeildar og Eiríkur Jónsson formaður sjómannadagsráðs færðu yfir 400 börnum á öllum leikskólum bæjarins harðfisk.

Börnin á Teigaseli gerðu sér glaðan dag í tilefni dagsins og hittu þeir félagar börnin á hafnarsvæðinu þar sem þau skemmtu sér við pokahlaup og ýmsa aðra leiki tengda sjómannadeginum. Einnig komu þeir færandi hendi á Vallarsel, Garðasel og Akrasel.

04
Jun

Stöðugleikasáttmáli hvað?

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir á mbl.is í dag að þessi stýrivaxtalækkun uppá 1% þýði að líklega lognist út allar kjaraviðræður því ekki sé hægt að hækka laun með stýrivexti svona háa.

Nú liggur fyrir að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði hanga á bláþræði en samkvæmt samkomulagi sem gert var við Samtök atvinnulífsins 25. febrúar sl. þá á verkafólk sem starfar eftir kauptöxtum að hækka þann 1. júlí nk. um 13.500 kr. á mánuði. Aðrir eiga að hækka um 3,5%.

Samtök atvinnulífsins hafa hafnað því algerlega að standa við þetta samkomulag á grundvelli þess að atvinnulífið þoli ekki þessa hækkun m.a. vegna hás vaxtastigs. Þór Sigfússon formaður Samtaka atvinnulífsins sagði t.d. í útvarpsviðtali í gær að ef ekki kæmi til verulegrar vaxtalækkunar hjá Seðlabankanum þá væri verið að kveðja íslenskt atvinnulíf. Það er alvitað að hátt vaxtastig er bæði að leggja fyrirtæki og skuldsett heimili að velli.

Ef þetta er raunin þá spyr formaður sig, hví í ósköpunum beita íslensk stjórnvöld sér ekki af fullri hörku fyrir því að keyra hér niður stýrivexti, þó ekki væri nema til þess eins að gera atvinnurekendum kleyft að standa við hóflega gerða kjarasamninga frá 17. febrúar 2008 og forða um leið átökum á íslenskum vinnumarkaði.

Er þetta stöðugleikasáttmálinn sem unnið er að? Er þetta ávinningur verkalýðshreyfingarinnar af þríhliða samkomulagi sínu við atvinnurekendur og stjórnvöld? Það eina sem hefur komið frá ríkisvaldinu er hækkun á veltusköttum upp á 3 til 5 milljarða sem leiðir til þess að verðtryggðar skuldir íslenskra heimila hækka um 8 milljarða, er þetta stöðugleikasáttmálinn?

Það er í raun og veru ótrúlegt að það skuli vera hægt að afstýra átökum á íslenskum vinnumarkaði með því að lækka stýrivextina til muna og slíkt hafi ekki verið gert. Alþýðusamband Íslands á svo sannarlega að velta því fyrir sér að efna til harðra mótmæla vegna þessarar ákvörðunar Seðlabankans og aðgerðaleysis stjórnvalda.

03
Jun

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness fundar um tilboð Samtaka atvinnulífsins á morgun

Í gær var formannafundur Starfsgreinasambands Íslands þar sem farið var yfir þá alvarlegu stöðu sem upp er komin í samningamálum við Samtök atvinnulífsins, en eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá hafa Samtök atvinnulífsins hafnað því að standa við það samkomulag sem gert var 25. febrúar sl.

Á fundinum kom fram að tilboð SA felur í sér tvískiptingu umsaminna launahækkana sem koma áttu til framkvæmda 1. mars þannig að helmingur, 6.750 kr. bætist við mánaðarlaun nú 1. júlí en helmingur 1. nóvember. Ennfremur verði 3,5% hækkun á laun yfir launatöxtum frestað til 1. nóvember.

Þá er um frestun á umsaminni launahækkun um næstu áramót fram á haust 2010. Talið er líklegt að náist ekki samkomulag með tilslökunum verkalýðshreyfingarinnar á umsömdum launahækkunum muni Samtök Atvinnulífsins segja upp gildandi kjarasamningi og verða þá samningar lausir.

Mjög skiptar skoðanir voru á fundinum í gær um hvað gera skuli. Fram kom hjá formanni Verkalýðsfélags Akraness að hann telji að það eigi að standa fast í lappirnar og krefja atvinnurekendur um að standa við afar hófstilltan samning sem gerður var 17. febrúar 2008. Að öðrum kosti verði samningunum sagt upp.

Stjórn og trúnaðarráð mun koma saman til fundar á morgun þar sem farið verður yfir þessa alvarlegu stöðu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image