• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
17
Jul

Væntingar um góðan kjarasamning starfsmanna Norðuráls

Starfsmenn Norðuráls vænta góðs samningsStarfsmenn Norðuráls vænta góðs samningsNú eru allflestir kjarasamningar Verkalýðsfélags Akraness frágengnir, þ.e.a.s. framlenging á kjarasamningum við Samtök atvinnulífsins, Launanefnd sveitarfélaga og við Ríkið. Nú er einungis einn kjarasamningur eftir á þessu ári en það er kjarasamningur Norðuráls, en sá samningur rennur út í lok þessa árs.

Undirbúningur vegna kjarasamnings starfsmanna Norðuráls mun hefjast að loknum sumarleyfum, en það er ljóst að starfsmenn hafa eðlilega væntingar til töluverðra hækkana á sínum samningi.

Það er ljóst að þróun á heimsmarkaðsverði á áli mun hafa töluverð áhrif á það hvort góður næst eða ekki. Þegar gengið var frá samkomulagi við forsvarsmenn Norðuráls í febrúar sl. þá var álverð í sögulegu lágmarki þegar fengust undir 1300 dollarar fyrir tonnið.

Staðan í dag er mun betri en í febrúar og 17. júlí var álverðið t.a.m. komið upp í 1635 dollara fyrir tonnið sem er hækkun upp á 26% frá því í febrúar. Vissulega eru blikur á lofti varðandi álverð til lengri tíma, sérstaklega vegna birgðasöfnunar á heimsvísu, en Norðurál stendur vel að vígi hvað varðar sölu á áli því þeir hafa tryggt sölu á öllum sínum afurðum í það minnsta til ársins 2016.

Það skiptir gríðarlega miklu máli að álverð haldi áfram að hækka, enda mun það gefa Verkalýðsfélagi Akraness byr undir báða vængi þegar að kemur að kjarasamningagerð fyrir starfsmenn Norðuráls.

Það er skylda þeirra fyrirtækja sem eru hér á álmarkaðnum að greiða sínum starfsmönnum góð laun enda er hér um að ræða fyrirtæki sem eru að selja sínar afurðir í erlendri mynt og því til viðbótar hafa þessi fyrirtæki aðgengi að hagstæðum orkusamningum og síðast en ekki síst kost á afar hæfu og tryggu starfsfólki.

15
Jul

Uppfærðar launatöflur aðgengilegar á vef VLFA

Nú liggur fyrir að samninganefnd Alþýðusambands Íslands hefur samþykkt samkomulag sem gert var við SA um breytingar á kjarasamningum sem undirritaðir voru þann 17. febrúar 2008.

Verkalýðsfélag Akraness skilaði Starfsgreinasambandi Íslands afstöðu sinni, en afstaða VLFA var ætíð skýr. Hún gekk út á það að atvinnurekendur stæðu í hvívetna við þann samning sem undirritaður var þann 17. febrúar 2008. Einungis tvö félög innan SGS vildu hafna því samkomulagi sem undirritað var 25. júní sl. við Samtök atvinnulífsins, það voru Verkalýðsfélag Akraness og Framsýn á Húsavík.

Verkalýðsfélag Akraness telur reyndar að fengnu lögfræðilegu áliti að samninganefnd ASÍ hafi ekki haft heimild til að fresta áður umsömdum launahækkunum eins og raunin varð. Það er alveg ljóst að félagið mun íhuga það sterklega þegar samningar eru lausir hvort félagið muni yfir höfuð veita SGS umboð til samningsgerðar aftur.

Vegna samkomulags um breytingar á kjarasamningum milli aðildarfélaga ASÍ og Samtaka atvinnulífsins er rétt að minna félagsmenn á að kauptaxtar hækkuðu um kr. 6.750 frá 1. júlí sl.

Búið er að uppfæra kauptaxta hér á heimasíðunni í samræmi við þetta.

Uppfærðir kauptaxtar Samiðnar við SA eru væntanlegir, en  taxtahækkun í þeim samningi er kr. 8.750.

14
Jul

Starfsmenn sveitarfélaga athugið!

Starfsmenn sveitarfélaga sem eru félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness eru boðaðir á kynningarfund vegna samnings um framlengingu og breytingar á kjarasamningi Verkalýðsfélags Akraness við Launanefnd sveitarfélaga.

Fundurinn verður haldinn mánudaginn 20. júlí kl. 18:00 í Skrúðgarðinum, Akranesi.

Hægt verður að kjósa um samninginn að aflokinni kynningu. Einnig verður hægt að kjósa þriðjudaginn 21. júlí og miðvikudaginn 22. júlí á skrifstofu félagsins.

Þeir félagar sem starfa eftir samningnum eru eindregið hvattir til að mæta.

Samninginn í heild sinni er hægt að lesa með því að smella hér..

Helstu atriði samningsins má lesa með því að smella á meira.

Aðalatriði samningsins:

  • Gildistími samnings er 1. júlí 2009 – 30. nóvember 2010.
  • Ný launatafla tekur gildi frá 1. júlí 2009.
  • Launataxtar. Mánaðarlaun fyrir dagvinnu allt að kr. 180.000 hækka 1. júlí 2009 og 1. nóvember 2009 um kr. 6.750.-  en hækka minna frá 180.000 kr. að 210.000. Laun umfram 210.000 kr í júlí og 220.000 kr. í nóvember 2009 taka ekki hækkunum.  Mánaðarlaun fyrir dagvinnu allt að kr. 180.000.-  hækka 1. júní 2010 um kr. 6.500.- en hækka minna að kr. 225.000. Mánaðarlaun fyrir dagvinnu umfram kr. 225.000.- eru óbreytt.
  • Starfsmenn í tímamældri ákvæðisvinnu og ræstingu samkvæmt fermetragjaldi hækka, sjá nánar meðfylgjandi skjal.
  • Lágmarkslaun fyrir fullt starf skulu vera kr. 157.000.- frá 1. júlí 2009, kr. 165.000.- frá 1. nóvember 2010 og kr. 170.000.-  frá 1. júní 2010, fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sömu stofnun.
  • Orlofsuppbót árið 2010 verður kr. 25.800.- 
13
Jul

Laun hækka um 6.750,- en skerðast á móti um tugi þúsunda

Rétt í þessu skrifaði Verkalýðsfélag Akraness undir samning um framlengingu og breytingar á kjarasamningi félagsins við Launanefnd sveitarfélaga.

Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá velti formaður félagsins því alvarlega fyrir sér hvort hann ætti yfir höfuð að skrifa undir þennan kjarasamning vegna þeirrar ákvörðunar bæjarráðs Akraneskaupstaðar að breyta vinnutilhögun skólaliða og starfsmanna íþróttamannvirkja. Þessar breytingar hafa þau áhrif að launakjör áðurnefndra aðila eru að lækka frá 10% upp í tæp 15%.

Verkalýðsfélag Akraness tók þá ákvörðun að skrifa undir þennan samning á þeirri forsendu að allflest stéttarfélög hafa þegar gengið frá framlengingu á kjarasamningi. Mun Verkalýðsfélag Akraness hins vegar reyna eftir fremsta megni að fá þeim niðurskurði sem boðaður hefur verið á launakjörum starfsmanna Akraneskaupstaðar sem tilheyra VLFA breytt með einum eða öðrum hætti.

Sem dæmi þá hefur Verkalýðsfélag Akraness skrifað bæjarráði og bæjarstjórn bréf þar sem óskað er eftir því að skipaður verði vinnuhópur sem muni fara yfir þær sparnaðaraðgerðir sem boðaðar hafa verið. Þegar þetta er skrifað hefur ekkert svar borist frá bæjaryfirvöldum. Hægt er að lesa bréfið hér.

Það er í raun og veru grátbroslegt að ganga frá kjarasamningi sem kveður á um hækkun á lægstu töxtum upp á 6.750 kr. á sama tíma og kynntar eru breytingar á vinnutilhögun sömu aðila sem hafa í för með sér skerðingu á mánaðarlaunum frá rúmum 30.000 kr. upp í tæplega 60.000 kr á mánuði.

Það er skýlaus krafa Verkalýðsfélags Akraness að bæjaryfirvöld á Akranesi hverfi frá fyrirhuguðum breytingum á vinnutíma skólaliða og starfsmanna íþróttamannvirkja, sem leiða af sér jafnmikla tekjuskerðingu og raun ber vitni. Það er forkastanlegt að skerða laun sem ekki ná 300.000 kr. eins og áðurnefndar tillögur munu gera. Hér á heimasíðunni hefur birst dæmi um starfsmann sem er með 281.000 kr. í mánaðarlaun sem lækkar um rúmar 30.000 kr. á mánuði miðað við fyrirhugaða breytingu á vinnutilhögun. Þetta er ólíðandi og óviðunandi með öllu.

Aðalatriði samningsins má sjá með því að smella á meira.

Samningurinn mun birtast í heild sinni hér á heimasíðunni á morgun.

Aðalatriði samningsins:

  • Gildistími samnings er 1. júlí 2009 – 30. nóvember 2010.
  • Ný launatafla tekur gildi frá 1. júlí 2009.
  • Launataxtar. Mánaðarlaun fyrir dagvinnu allt að kr. 180.000 hækka 1. júlí 2009 og 1. nóvember 2009 um kr. 6.750.-  en hækka minna frá 180.000 kr. að 210.000. Laun umfram 210.000 kr í júlí og 220.000 kr. í nóvember 2009 taka ekki hækkunum.  Mánaðarlaun fyrir dagvinnu allt að kr. 180.000.-  hækka 1. júní 2010 um kr. 6.500.- en hækka minna að kr. 225.000. Mánaðarlaun fyrir dagvinnu umfram kr. 225.000.- eru óbreytt.
  • Starfsmenn í tímamældri ákvæðisvinnu og ræstingu samkvæmt fermetragjaldi hækka, sjá nánar meðfylgjandi skjal.
  • Lágmarkslaun fyrir fullt starf skulu vera kr. 157.000.- frá 1. júlí 2009, kr. 165.000.- frá 1. nóvember 2010 og kr. 170.000.-  frá 1. júní 2010, fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sömu stofnun.
  • Orlofsuppbót árið 2010 verður kr. 25.800.- 
09
Jul

Verkalýðsfélag Akraness óskar eftir því að stofnaður verði vinnuhópur

Verkalýðsfélag Akraness sendi í dag bæjarráði og bæjarstjórn Akraness bréf þar sem óskað er eftir því að skipaður verði vinnuhópur vegna þeirra sparnaðaraðgerða sem bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 2. júlí sl. Í þessum vinnuhópi auk bæjaryfirvalda yrðu fulltrúar þeirra stéttarfélaga sem eiga aðild að kjarasamningum við Akraneskaupstað auk trúnaðarmanna.

Samkvæmt þeim tillögum sem nú liggja fyrir þá blasir við gríðarleg skerðing hjá starfsmönnum íþróttamannvirkja og skólaliðum og ljóst að það ríkir töluverð gremja á meðal starfsmanna, en starfsmenn munu lækka samkvæmt þessum tillögum frá rúmum 10% upp í tæp 15%. Sem dæmi þá er einstaklingur sem er með 280.000 í mánaðarlaun skertur um rúmar 30.000 kr. á mánuði.

Það er mat Verkalýðsfélags Akraness að skerðing á launum starfsmanna sem ekki ná 300.000 kr. sé algjörlega ólíðandi og óviðunandi.

Verkalýðsfélag Akraness kallar eftir upplýsingum um hvað aðrir hópar innan bæjarins þurfa að leggja af mörkum í þeim sparnaðaraðgerðum sem nú liggja fyrir og nægir að nefna þar forstöðumenn, kennara, starfsmenn í stjórnunarstöðum og æðstu stjórnendur bæjarins.

Það er von Verkalýðsfélags Akraness að bæjaryfirvöld muni verða við þessari beiðni félagsins um að skipa vinnuhóp því það er grundvallaratriði að víðtæk sátt ríki um þær sparnaðaraðgerðir sem framundan eru og mjög mikilvægt að slegin verði skjaldborg um þá starfsmenn Akraneskaupstaðar sem hafa hvað lægstar tekjurnar.

07
Jul

Íhugar að skrifa ekki undir fyrirliggjandi kjarasamning

Á fundi bæjarráðs sem haldinn var fimmtudaginn 2. júlí 2009 voru samþykktar alls kyns sparnaðarleiðir fyrir bæjarsjóð. Það sem vakti sérstaka athygli formanns Verkalýðsfélags Akraness voru verulegar breytingar á vinnutilhögun starfsmanna íþróttamannvirkja og skólaliða sem mun klárlega hafa umtalsverð áhrif á launakjör þessara hópa.

Í fundargerð bæjarráðs kemur m.a. fram að frá 1. október nk. verði breyting á opnunartíma íþróttamiðstöðvarinnar á Jaðarsbökkum, íþróttahússins við Vesturgötu og Bjarnalaugar. Opnunartími verði styttur um eina klukkustund virka daga og tvær klukkustundir laugardaga og sunnudaga. Lokað verði alla stórhátíðardaga og sérstaka frídaga.

Þessi ákvörðun þýðir það að starfsmenn íþróttamannvirkja Akraneskaupstaðar eru að lækka frá rúmum 10% upp í rétt tæp 15%. Formaður hefur dæmi um einstaka starfsmenn sem eru við þetta að lækka um 365.000 til 800.000 krónur á ársgrundvelli.

Það er algjörlega óviðunandi að starfsmaður sem er með 3.379.000 krónur í árslaun, eða 281.000 á mánuði skuli lækka í launum niður í 3.011.000 krónur á ársgrundvelli eða sem nemur 31.000 krónum á mánuði. Hér er um að ræða skerðingu á launum sem ekki ná 300.000 krónum á mánuði. Það er ljóst að skólaliðar grunnskólanna munu einnig verða fyrir umtalsverðri skerðingu.

Rétt er að geta þess að grunnlaun starfsmanns íþróttamannvirkja sem er 25 ára eru í dag 171.000 krónur.

Formaður átti í dag samtal við Gísla S. Einarsson bæjarstjóra Akraneskaupstaðar þar sem formaður gerði alvarlegar athugasemdir við fyrirhugaða breytingu á vinnutilhögun skólaliða og starfsmanna íþróttamannvirkja og taldi formaður að það væri yfirlýst stefna íslenskra stjórnvalda og sveitastjórna að slá skjaldborg um þá starfsmenn sem ekki ná launum sem nema 300.000 krónum á mánuði.

Fram kom í máli bæjarstjóra að það væri hans persónulega mat að ekki ætti að hrófla við launum einstaklinga sem væru með undir 300.000 krónum á mánuði og tók hann undir með formanni að æskilegt hefði verið að launanefnd sveitarfélaga hefði mótað einhverja heildstæða stefnu fyrir öll sveitarfélög í landinu sem varðar niðurskurð á launakjörum starfsmanna.

Formaður tjáði bæjarstjóra að það væri grundvallaratriði að skipa vinnuhóp með þeim stéttarfélögum sem eiga aðild að kjarasamningum við Akraneskaupstað auk trúnaðarmanna, þar sem farið yrði yfir þessi mál. Því það er grundvallaratriði að víðtæk sátt náist á meðal starfsmanna Akraneskaupstaðar um þær sparnaðarleiðir sem fyrirhugaðar eru. Það er algjörlega ólíðandi að starfsfólk sem nær ekki 300.000 krónum í mánaðarlaun verði fyrir jafn mikilli skerðingu og raun ber vitni.

Formaður vill fá að sjá hvaða breytingum aðrir starfsmenn Akraneskaupstaðar taka á sínum launakjörum, t.d. forstöðumenn, starfsmenn í stjórnunarstöðum, kennarar og æðstu stjórnendur bæjarins.

Verkalýðsfélag Akraness hefur fullan skilning á því að sveitarfélög vítt og breitt þurfa að leita allra leiða til að vinna sig út úr því skelfingarástandi sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi. Hins vegar gerir Verkalýðsfélag Akraness þá kröfu að slegin verði skjaldborg um þá starfsmenn sem eru undir 300.000 kr. í mánaðarlaun. Það er einfaldlega lítið sem ekkert hægt að taka af slíkum launum, þau rétt duga til lágmarksframfærslu miðað við þá gengdarlausu hækkun sem orðið hefur á greiðslubyrði fólks.

Því mun Verkalýðsfélag Akraness íhuga það sterklega að skrifa ekki undir kjarasamning sem nú liggur nánast klár fyrir við launanefnd sveitarfélaganna fyrr en þessi mál verða komin á hreint. Það hlýtur að vera skilningur á meðal allra að starfsmenn sem ná ekki 300.000 í mánaðarlaun geta á engan hátt tekið á sig skerðingu á sínum launum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image