• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Jul

Atvinnulausum fækkar

Fækkað hefur umtalsvert fólki á atvinnuleysisskrá hér á Akranesi að undanförnu og verða það að teljast afar ánægjuleg tíðindi í ljósi þess ástands sem nú ríkir í íslensku atvinnulífi vítt og breitt um landið.

Ástæða þess að störfum hefur verið að fjölga er fyrst og fremst að þakka vinnslunni sem er tengd hvalveiðum en hátt í 150 manns starfa nú við vinnslu upp í Hvalfirði sem og hér á Akranesi.  Einnig er ekki nein vafi á að þau tryggju störf sem stóriðjan er að veita tryggir mikin stöðugleika í atvinnulífinu hér á Akranesi.

Mest urðu 333 atvinnulausir á Akranesi, í dag eru 259 án atvinnu eða í hlutastörfum 112 karlar og 147 konnur og hefur því atvinnulausum fækkað um 74 á síðustu mánuðum eða sem nemur 28,5%.  Því miður eru þessi störf í kringum hvalveiðarnar tímabundar og er reiknað með að veiðarnar og vinnslan standi eitthvað framí ágúst eða september.

27
Jul

Rætt um niðurskurð,atvinnuástand og kjaramál

Formaður VLFA í viðtali í þættinum SprengisandiFormaður VLFA í viðtali í þættinum SprengisandiFormaður Verkalýðsfélags Akraness var í gær í þættinum Sprengisandi ásamt Árna Páli Árnasyni félagsmálaráðherra,Guðlaugu Kristjánsdóttur formanni BHM einnig var hringt í Ernu B. Friðfinnsdóttur formann FÍH og Friðbert Traustason formann
SSF.  Aðalmálefni þáttarins var um niðurskurð hjá hinu opinbera, atvinnumál og kjaramál.
 
Formaður félagsins kom víða við í þættinum í gær og fór t.d yfir atvinnuástandið á félagssvæði VLFA sem er að mörgu leiti mjög gott sé miðað við önnur landssvæði.  Hann nefndi í því samhengi hversu mikilvæg stóriðjan á Grundartanga er atvinnulífinu á Akranesi og einnig þeim upp undir 150 nýjum störfum sem fylgt hafa í kjölfar á hvalveiðum.
 
Formaður gerði einnig fyrirhugaðan niðurskurð á launakjörum starfsmanna Akraneskaupstaðar að umtalsefni og nefndi í því samhengi að það væri grátlegt að verið væri að skerða laun starfsmanna sem ekki næðu 300.000 kr. í mánaðarlaun.  Enda hefur það verið yfirlýst stefna stjórnvalda að slá skjaldborg um þá tekjulægstu.

Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra sagði í þættinum í gær að langt væri í land hvað varðar efnahagsbata. Hann segir einnig að ofrausn hafi verið þegar sagt var að ríkið myndi ekki skerða ósamningsbundin laun yfir 400 þúsund krónum. Ráðherrann sagði að því miður ráði ríkið ekki við annað en teygja sig enn neðar og nefnir tvö til þrjú hundruð þúsund krónur í því samhengi.

Hægt að hlusta á Sprengisand hér

24
Jul

Kjarasamningur við Launanefnd sveitarfélaga samþykktur

Starfsmenn sveitarfélaga sem eru félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness hafa samþykkt  framlengingu og breytingar á kjarasamningi Verkalýðsfélags Akraness við Launanefnd sveitarfélaga. Mikill meirihluti þeirra sem tóku þátt í kosningunni greiddu atkvæði með samningum þrátt fyrir að innihald samningsins væri afar rýrt.

Flestir vita að sveitarfélögin standa því miður afar illa eftir að hafa hagað sér óskynsamlega í fjármálum á undanförnum árum og á þeirri forsendu var afar erfitt að vænta þess að ná miklum kjarabótum í þessum samningum.

Það ríkir hins vegar mikil reiði hjá bæjarstarfsmönnum með þá fyrirætlan bæjaryfirvalda að breyta vinnutilhögun starfsmanna íþróttamannvirkja, skólaliða og annarra starfsmanna Akraneskaupstaðar sem hefur þau áhrif að launakjör áðurnefndra aðila eru að lækka frá 10% upp í tæp 15%.

Það er grátbroslegt að ganga frá kjarasamningi sem kveður á um hækkun á lægstu töxtum upp á 6.750 kr. á sama tíma og kynntar eru breytingar á vinnutilhögun sömu aðila sem hafa í för með sér skerðingu á mánaðarlaunum frá rúmum 30.000 kr. upp í tæplega 60.000 kr á mánuði.

Verkalýðsfélags Akraness hefur óskað eftir því við bæjaryfirvöld á Akranesi að þau hverfi frá fyrirhuguðum breytingum á vinnutíma skólaliða og starfsmanna íþróttamannvirkja, sem leiða af sér jafnmikla tekjuskerðingu og raun ber vitni. Það er forkastanlegt að skerða laun sem ekki ná 300.000 kr. eins og áðurnefndar tillögur munu gera. Hér á heimasíðunni hefur birst dæmi um starfsmann sem er með 281.000 kr. í mánaðarlaun sem lækkar um rúmar 30.000 kr. á mánuði miðað við fyrirhugaða breytingu á vinnutilhögun. Þetta er ólíðandi og óviðunandi með öllu.  Enda hafa ráðamenn þjóðarinnar og sveitarfélaga talað um að það eigi að slá skjaldborg um þá sem eru með tekjur innan við 300.000 kr. í mánaðarlaun.

Það er sorglegt að horfa uppá það að almennt verkafólk verður fyrir stórkostlegri kjaraskerðingu á sama tíma og ríki, sveitarfélög, tryggingafélög, verslunareigendur og aðrir þjónustuaðilar varpi sínum vanda beint út í samfélagið.  Nei, verkafólk þarf að horfa uppá stóraukna greiðslubyrði og hækkun á höfuðstól sinna lána frá 20% og upp í allt að 100% á sama tíma og það er lækkað í launum sem nemur tugum þúsunda á mánuði.

Það er ljóst að íslensku verkafólki er að blæða út sökum þess ástands sem nú ríkir í íslensku samfélagi, ástandi sem verkafólk ber ekki nokkra ábyrgð á.

23
Jul

Álverð hækkar verulega

Það er óhætt að segja að það séu mjög jákvæðar fréttir sem berast úr áliðnaðnum þessa daganna, en verð á áli hefur verið að hækka allverulega að undanförnu.  Álverð náði sögulegu lágmarki í byrjun febrúar á þessu ári, en þá fór álverð niður fyrir 1300 dollara tonnið, núna er álverðið komið yfir 1.700 dollara tonnið sem er hækkun uppá 36%.

Það skiptir okkur Akurnesinga og reyndar allt þjóðarbúið gríðarlega miklu máli að álverð haldi áfram að hækka einfaldlega vegna þess að það eru lausir kjarasamningar starfsmanna Norðuráls um áramótin og hátt álverð mun klárlega auðvelda Verkalýðsfélagi Akraness að ná góðum kjarasamningi fyrir okkar félagsmenn.

Það liggur fyrir núna samkvæmt frétt frá greiningardeild Íslandsbanka að álútflutningur er að skila þessa dagana álíka miklum gjaldeyristekjum og útflutningur sjávarafurða. Hins vegar er sá munur á að innflutt aðföng til álframleiðslu eru talsvert meiri en til veiða og vinnslu.  Einnig er rétt að geta þess að allur hagnaður rennur að lokum til hinna erlendu eigenda álveranna.  Á þeirri forsendu er það skylda Verkalýðfélags Akraness að reyna ná sem allra mestu úr þeim samningum sem framundan eru fyrir okkar félagsmenn og mun Verkalýðsfélag Akraness ekki víkja sér undan þeirri ábyrgð.

Álverð hækkar verulega

Álverð hefur hækkað verulega frá lokum 1. fjórðungs ársins og er nú á svipuðum slóðum og fyrir fjórum árum síðan. Í millitíðinni þandist út verðbóla á hrávörumörkuðum sem síðan sprakk með nokkrum hvelli á haustdögum í fyrra. Áltonnið var selt í London á 1.711 Bandaríkjadali í lok gærdags. Frá mánaðarmótum hefur verð á áli hækkað um 5%, en það sem af er ári nemur hækkunin ríflega 11%. Jákvæðir straumar frá hækkandi hlutabréfaverði og aukinn áhugi hrávörusjóða eru meðal helstu ástæðna hækkunarinnar síðustu daga, en á sama tíma lækkuðu flestir iðnaðarmálmar í verði.

Þróunin það sem af er ári er hins vegar nokkurn veginn í takti við almenna þróun hrávöruverðs, sem hefur farið hækkandi frá miðjum maí. Þó hefur verðhækkun áls undanfarna mánuði verið töluvert yfir meðallagi hvað hrávörur varðar. Orsakast það ekki síst af því að spurn eftir áli er býsna nátengd hagsveiflu vegna þess hvað mikið það er notað í hagsveiflutengdum geirum á borð við bílaiðnað, flugvélasmíði og byggingaiðnað svo nokkuð sé nefnt. Skánandi horfur á heimsvísu, ekki síst væntingar um að hagvöxtur reynist viðunandi í Kína næstu misserin, hafa því að öllum líkindum töluverð áhrif á álverðið.

Líkur á frekari hækkun 
Þótt sérfræðinga á hrávörumarkaði greini á um hvort slegið geti í bakseglin hvað álverð varðar á næstu mánuðum virðast þeir flestir sammála um að horfur séu allgóðar næstu árin. Samantekt spáa á Bloomberg hljóðar til að mynda á þann veg að álverð muni að meðaltali verða tæpir 1.800 Bandaríkjadalir fyrir tonnið á næsta ári og tonnið fari upp undir 2.900 dali að þremur árum liðnum. Framvirkt álverð gefur ekki jafn mikla ástæðu til bjartsýni, en þó hljóðar það upp á að áltonnið verði komið í tæplega 2.000 dali árið 2012.

Mikilvægt fyrir viðskiptajöfnuð
Þróun álverðs hefur talsvert mikið að segja fyrir viðskiptajöfnuð Íslands á komandi árum. Álútflutningur skilar þessa dagana álíka miklum gjaldeyristekjum og útflutningur sjávarafurða. Hins vegar er sá munur á að innflutt aðföng til álframleiðslu eru talsvert meiri en til veiða og vinnslu, auk þess sem hagnaður rennur að lokum til hinna erlendu eigenda álveranna. Nettóinnflæði gjaldeyris vegna álframleiðslu er því umtalsvert minni en raunin er með sjávarútveg. Þar sem raforkuverð til álveranna er tengt við álverð getur þróun þess síðarnefnda þó gert gæfumuninn um arðsemi og ekki síður lausafjárstöðu orkufyrirtækjanna í erlendum gjaldeyri. Á tímum þar sem aðgangur að erlendu lánsfé er afar takmarkaður hér á landi er gríðarlega mikilvægt að orkufyrirtækin þurfi sem minnst að leita á innlenda markaði eftir gjaldeyri og að rekstur þeirra sé arðbær, og því getur hagstæð þróun álverðs létt íslensku efnahagslífi róðurinn talsvert á næstu misserum. 

Heimild Greiningardeild Íslandsbanka

21
Jul

Mikil gremja á meðal starfsmanna Akraneskaupstaðar

Gremja á meðal starfsmanna AkraneskaupstaðarVerkalýðsfélag Akraness hélt í gær kynningarfund um nýgerðan kjarasamning við Launanefnd sveitarfélaga en hér er um að ræða kjarasamning fyrir starfsmenn Akraneskaupstaðar og félagsmenn VLFA sem starfa hjá öðrum sveitarfélögum.

Á fundinum var farið yfir helstu atriði í samningum en því miður var ekki um miklar hækkanir að ræða í þessum samningi frekar en öðrum samningum sem gerðir hafa verið við Launanefnd sveitafélaga, að undanförnu sökum afar slæmrar fjárhagsstöðu sveitafélaga vítt og breytt um landið.

Formaður fór einnig yfir þær sparnaðarleiðir sem bæjarráð hefur samþykkt og lítur að breytingu á vinnutilhögun starfsmanna íþróttamannvirkja, skólaliða og annarra starfsmanna Akraneskaupstaðar.  Þessar breytingar hafa þau áhrif að launakjör áðurnefndra aðila eru að lækka frá 10% upp í tæp 15%.

Formaður sagði á fundinum að það væri grátbroslegt að ganga frá kjarasamningi sem kveður á um hækkun á lægstu töxtum upp á 6.750 kr. á sama tíma og kynntar eru breytingar á vinnutilhögun sömu aðila sem hafa í för með sér skerðingu á mánaðarlaunum frá rúmum 30.000 kr. upp í tæplega 60.000 kr á mánuði.

Hann greindi fundarmönnum einnig frá því að félagið hafi gert alvarlegar athugasemdir við þessar breytingu á vinnutilhögun starfmanna sem mun leiða til tekjutaps frá 340.000 kr uppí tæpar 700.000 kr á ársgrundvelli.  Formaður upplýsti að félagið hafi  skrifað bæjarráði og bæjarstjórn bréf þar sem óskað er eftir því að skipaður verði vinnuhópur sem muni fara yfir þær sparnaðaraðgerðir sem boðaðar hafa verið. Þegar þetta er skrifað hefur ekkert svar borist frá bæjaryfirvöldum, sem er afar miður. Hægt er að lesa bréfið hér.

Formaður sagði á fundinum að það væri skýlaus krafa Verkalýðsfélags Akraness að bæjaryfirvöld á Akranesi hverfi frá fyrirhuguðum breytingum á vinnutíma skólaliða og starfsmanna íþróttamannvirkja, sem leiða af sér jafnmikla tekjuskerðingu og raun ber vitni. Það er forkastanlegt að skerða laun sem ekki ná 300.000 kr. eins og áðurnefndar tillögur munu gera. Hér á heimasíðunni hefur birst dæmi um starfsmann sem er með 281.000 kr. í mánaðarlaun sem lækkar um rúmar 30.000 kr. á mánuði miðað við fyrirhugaða breytingu á vinnutilhögun. Þetta er ólíðandi og óviðunandi með öllu.  Enda hafa ráðamenn þjóðarinnar og sveitarfélaga talað um að það eigi að slá skjaldborg um þá sem eru með tekjur innan við 300.000 kr. í mánaðarlaun.

Það ríkti mikil gremja á meðal fundarmanna með þessa fyrirætlan bæjaryfirvalda um breytingu á vinnutilhögun sem skerðir laun starfsmanna jafn skelfilega raun ber vitni.  Starfsmenn Akraneskaupstaðar sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness vilja fá upplýsingar hvað aðrir hópar innan bæjarins þurfa að leggja af mörkum í þeim sparnaðaraðgerðum sem nú liggja fyrir og nægir að nefna þar forstöðumenn, kennara, starfsmenn í stjórnunarstöðum og æðstu stjórnendur bæjarins.  Það getur ekki verið eðlilegt að ráðast ætíð á þá tekjulægstu þegar kemur að sparnaðarleiðum eins og þessar tillögur klárlega gera.

Það er mat Verkalýðsfélags Akraness að skerðing á launum starfsmanna sem ekki ná 400.000 kr. sé algjörlega ólíðandi og óviðunandi og Verkalýðsfélag Akraness getur alls ekki sætt sig við þessa fyrirætlan bæjaryfirvalda. 

Það færi betur ef bæjaryfirvöld Akraneskaupstaðar hefðu farið eins að eins og bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ en þar er enginn bæjarstarfsmaður lækkaður í launum sem ekki nær 400.000 kr. í mánaðarlaun.  Sjá fundargerð Reykjanesbæjar.  

20
Jul

Uppbygging á Grundartangasvæðinu

Norðurál á GrundartangaEins og flestir vita þá eru erfiðleikar í atvinnulífinu víða þessa dagana, en það er skemmst frá því að segja að á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness er útlitið nokkuð bjart miðað við mörg önnur landssvæði.

Nægir að nefna gríðarlega mikla vinnu að undanförnu í tengslum við hvalveiðar og sem dæmi þá hafa um 40 manns hér á Akranesi og um 80 manns í Hvalstöðinni í Hvalfirði unnið linnulaust á vöktum allan sólarhringinn frá því í byrjun júní. Reiknað er með að vertíðin standi eitthvað fram í ágúst til september.

Fleiri jákvæðar fréttir hafa borist af atvinnumálum svæðisins. Nýverið opnaði nýtt veitingahús hér á Akranesi á Kirkjubraut 11 og munu væntanlega þó nokkur störf skapast í kjölfarið þegar að starfsemin verður komin í fullan gang og hefur formaður átt í viðræðum við eigendur staðarins varðandi launakjör og annað slíkt.

Einnig tilkynnti stálsmiðjan Héðinn nú nýverið um að framkvæmdir séu hafnar við byggingu þjónustuverkstæðis Héðins á Grundartanga. Áætlað er að þjónustuverkstæðið verði tilbúið með haustinu. Fyrirtækið mun þjóna fyrirtækjum á Grundartangasvæðinu sem og öðrum verkefnum á Vesturlandi. Sjálft verkstæðishúsið verður um 400 fermetrar og skrifstofa og starfsmannaaðstaða verður um 184 fermetrar.

Þann 16. júlí síðastliðinn var tekin fyrsta skóflustungan að fóðurverksmiðju Líflands á Grundartanga. Áætlað er að verksmiðjan muni rísa á 6 mánuðum og er fyrirhugað að verksmiðjan hefji framleiðslu næsta vor. Framleiðsluhúsið verður um 1200 fermetrar og er gert ráð fyrir að á annan tug iðnaðarmanna verði að störfum á framkvæmdatímanum. Hjá Líflandi starfa vel á sjötta tug starfsmanna.

Það er ljóst að með tilkomu þessara öflugu fyrirtækja á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness munu atvinnumöguleikar til lengri tíma litið aukast töluvert þegar að starfsemi þessara fyrirtækja verður komin í fullan gang. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image