• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Dec

Formaður Verkalýðsfélags Akraness valinn Vestlendingur vikurnar !

Vesturlandsblaðið Skessuhorn hefur valið Vilhjálm Birgisson formann Verkalýðsfélags Akraness sem Vestlending vikurnar.  Í blaðinu kemur fram að titilinn hljóti hann fyrir einarða baráttu fyrir kjörum og réttindum erlendra starfsmanna á félagssvæði VLFA.

Formaður félagsins vill þakka Skessuhorni kærlega fyrir að velja sig sem Vestlending vikurnar.  Þetta er mikil hvatning um halda áfram að verja kjör erlendra verkamanna og þeirri ógn sem steðjar að íslenskum vinnumarkaði.

Einnig vill formaður félagsins nefna þá miklu samstöðu sem ríkir í stjórn félagsins um að verja okkar félagssvæði gegn þeim undirboðum og misnotkun sem fylgt hefur erlendu vinnuafli.  Stjórnin hefur tekið ákvörðun um að verja félagsvæðið  með öllum tiltækum ráðum.

Fjölmiðlar þessa lands eiga hrós skilið fyrir að vekja athygli á þeim brotum sem erlent vinnuafl hefur orðið fyrir vítt og breytt um landið.  

05
Dec

Frumvarp um starfsmannaleigur alls ekki nógu gott að mati Verkalýðsfélags Akraness

Verkalýðsfélag Akraness skilaði inn til félagsmálanefndar Alþingis tillögum um breytingar á lögum um starfsmannaleigur.  Verkalýðsfélag Akraness er undrandi á að Alþýðusamband Íslands skuli ekki vera tilbúið að beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á frumvarpinu.

Það er mat Verkalýðsfélags Akraness að þessar breytingatillögur verði að koma inní frumvarpið til að það nái þeim tilgangi sem til frumvarpsins er ætlast.

Það er t.b með ólíkindum að það eigi að festa það í lög (gr. 16 í frumvarpinu lög nr.54/2001) að kjarasamningar á íslenskum vinnumarkaði gildi ekki að fullu fyrir starfsmenn sem starfa hér tímabundið á vegum erlendra fyrirtækja. (þjónustusamningum) Vantar þar töluvert uppá að þeim erlendu starfsmönnum sem munu starfa eftir lögum nr. 54/2001 séu tryggð lágmarkskjör.

Einnig vill félagið benda á að hendur stéttarfélaga eru algerlega bundnar hvað varðar eftirlit með kjörum þeirra sem koma á vegum starfsmannaleiga samkvæmt frumvarpinu. Það verður að veita stéttarfélögunum einhverja heimild til eftirlits með starfskjörum þessara starfsmanna sem koma á vegum starfsmannaleiga og þá í fullri samvinnu við Vinnumálastofnun.

Verkalýðsfélag Akraness hefur þó nokkra reynslu hvað varðar erlent vinnuafl og þeim vandamálum sem því hefur fylgt. Stéttarfélagið er ekki í neinum vafa að frumvarpið eins og það er nú, er alls ekki til þess fallið að leysa þann vanda sem stéttarfélögin hafa verið að glíma við á undanförnum mánuðum, því miður vantar meira til.

Breytingartillögur og greinargerð  Verkalýðsfélags Akraness við frumvarp til laga um starfsmannaleigur eru eftirfarandi:

1.       Á eftir 9.gr. frumvarpsins komi ný grein, 10. gr. ásamt fyrirsögn, svohljóðandi, og breytast greinatölur annarra greina samkvæmt því.

 

10.gr.

Ábyrgð og skyldur notendafyrirtækis.

 

Starfsmannaleiga skal afhenda notendafyrirtæki ráðningarsamninga þeirra starfsmanna sem leigðir eru. Er notendafyrirtæki óheimilt að nýta sér þjónustu viðkomandi starfsmanna nema ljóst sé af ráðningarsamningi að starfskjör séu í samræmi við kjarasamninga og íslenska löggjöf. Notendafyrirtæki getur leitað umsagnar viðkomandi stéttarfélags.

 

 

2.       Við 10.gr. er verður 11.gr.

    a.      Í upphafi greinarinnar bætist ný málsgrein svohljóðandi:

 

Stéttarfélag getur krafið notendafyrirtæki á félagssvæði sínu um ráðningarsamninga þeirra starfsmanna starfsmannaleiga sem þar starfa sem og önnur þau gögn sem notendafyrirtæki hefur undir höndum um vinnu starfsmanna svo sem tímaskýrslur. Ef stéttarfélag telur að brotið hafi verið gegn ákvæðum laganna ber því að senda Vinnumálastofnun rökstudda kvörtun.

 

                 b.      Í lok greinarinnar bætist við ný setning svohljóðandi:

Sama gildir um starfsmenn stéttarfélaga

 

3.          Við 16.gr. er verður 17.gr.  Liður a.i. orðist svo:

 

    1. Eftirfarandi breytingar verða á 3.gr. laganna:

i.               1.tölul. 1.mgr. hljóði þannig:

             Lög nr. 55/1980  um starfskjör launafólks og skyldutryggingu

             lífeyrisréttinda 1.gr., 6.gr. og 7.gr.

 

 

Athugasemdir við einstaka greinar breytingatillagna.

 

                                                            Um lið 1.

Telja verður eðlilegt að gera þá kröfu til notendafyrirtækja að þau hafi undir höndum ráðningarsamninga og ábyrgist að kjör starfsmanna séu í samræmi við íslensk lög og kjarasamninga. Er lagt til að fyrirtækin geti leitað umsagnar viðkomandi stéttarfélags hvort svo sé.  Notendafyrirtækin hafa hingað til getað skýlt sér bak við ábyrgð starfsmannaleigunnar og hefur það að mati verkalýðshreyfingarinnar torveldað allar aðgerðir til að tryggja starfsmönnum starfsmannaleiga lögbundin starfskjör. Ætla verður einnig að notendafyrirtækin hafa  mun betri þekkingu á kjarasamningum og íslenskri löggjöf en starfsmannaleigur.  Má ætla að ábyrgð notendafyrirtækja skapi meiri festu í þessum málum og tilraunum til að komast hjá lögboðnum launagreiðslum fækki. Þessi ábyrgð ætti ekki að íþyngja notendafyrirtækjum og geta þau falið stéttarfélögum málið með því að leita umsagnar þeirra.   Samkomulag aðila vinnumarkaðarins um samráðsnefnd til að fjalla um málefni útlendinga nær almennt ekki til starfsmannaleiga þar sem þær eru í fæstum tilvikum aðilar að samtökum atvinnulífsins. Á grundvelli framangreindrar ábyrgðar notendafyrirtækis getur nefndin hins vegar kallað eftir gögnum frá þeim, m.a. ráðningarsamningi.

                                                            Um lið 2.

Telja verður að stéttarfélög á starfssvæði notendafyrirtækis sé hæfast til að hafa  eftirlit með því hvort brotið sé gegn ákvæðum laganna. Þekking þeirra á kjarasamningum, nálægð og samneyti almennra félagsmanna við starfsmenn starfsmannaleiganna auðveldar þetta eftirlit. Er eðlilegt að félögin geti kallað eftir ráðningarsamningum hjá notendafyrirtækjunum sem og önnur gögn sem fyrirtækin eru með um vinnu þessara starfsmanna, svo sem tímaskýrslur. Þessi eftirlitsheimild stéttarfélaga ætti að tryggja að mál komi fyrr til athugunar hjá Vinnumálastofnun og kvartanir samkvæmt 9.gr. verði færri og rökstuðningur betri. Má ætla að þetta fyrirkomulag leiði til minna álags á Vinnumálastofnun vegna þessara mála en ella.

                                                            Um lið 3.

Í frumvarpi til laga um útsenda starfsmenn sem síðar varð að lögum nr.54/2001 um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja kemur fram að frumvarpið er sett fram til að innleiða ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins nr. 96/71EB um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu.  Kemur fram í frumvarpinu að lög bandalagsins útiloki ekki einstök aðildarríki frá því að beita löggjöf sinni eða kjarasamningum gagnvart hverjum þeim sem ráðinn er til starfa á yfirráðasvæði þeirra þótt vinnuveitandinn hafi staðfestu í öðru aðildarríki, jafnvel þótt ráðningin sé tímabundinn.   ( þetta kemur fram í tl. 10 og 19 í inngangi tilskipunarinnar.)    Er talið eðlilegt að erlendum starfsmönnum séu tryggð sömu lágmarksréttindi og íslenskt starfsfólk nýtur á grundvelli kjarasamninga og löggjafar.

Með því er einnig tryggt að notkun á þjónustu starfsmannaleiga skekki síður samkeppnisstöðuna á íslenskum vinnumarkaði. 

 

Fh.  Verkalýðsfélags Akraness

 

_____________________________________
Vilhjálmur Birgisson, formaður

05
Dec

Fyrirtækið Geca tekið til gjaldþrotaskipta !

Óskað hefur verið eftir að fyrirtækið Geca ehf verði tekið til gjaldþrotaskipta.  Það eru 6 félagsmenn VLFA sem starfa hjá Geca og hafa þeir verið í nánu sambandi við stéttarfélagið á undanförnum dögum vegna þessa.  Starfsmennirnir fengu ekki greidd laun nú um mánaðarmótin vegna þeirra fjárhagsvandræða sem fyrirtækið er komið í.  Verkalýðsfélag Akraness mun gæta að hagsmunum starfsmannanna eins og kostur er og mun félagið tb. sjá um að gera launakröfu fyrir alla starfsmennina sem send verður til skiptastjóra.  Verkalýðsfélag Akraness er að skoða með hvaða hætti félagið getur létt undir með þeim félagsmönnum sem störfuðu hjá Geca.  Það er jú skelfilegt fyrir starfsmennina að lenda í því að fá ekki laun sín greidd og það í sjálfum jólamánuðnum.  Það munu líða 6 til 8 mánuðir þar til ábyrgðasjóður launa greiðir starfsmönnum þau vangreiddu laun sem þeir eiga inni hjá fyrirtækinu.  Eins og áður sagði þá mun stéttarfélagið leita allra leiða til að aðstoða okkar félagsmenn.  Til þess eru jú stéttarfélögin. 

01
Dec

Bæjarstjórinn boðaði til fundar vegna erlends vinnuafls á Akranesi

Verkalýðsfélag Akraness  fagnar innilega að bæjaryfirvöld á Akranesi vilji leggja sitt af mörkum til þess að leikreglur á vinnumarkaði séu virtar við þátttöku erlendra starfsmanna á Akranesi og hefur verið komið á fót formlegum samstarfsvettvangi til þess að auðvelda samstarf þeirra félaga og stofnana sem vinna að málum.

 

 

Í morgun var haldinn fundur um málefni erlends vinnuafls á Akranesi.  Það voru bæjaryfirvöld á Akranesi sem stóðu fyrir fundinum.  Til fundarins voru boðaðir  Ólafur Þ. Hauksson sýslumaður á Akranesi, Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness, Stefán Skjaldarson skattstjóri Vesturlandsumdæmis og Tryggvi Bjarnason lögfræðingur Skattstofu Vesturlandsumdæmis Í bókun fundarins segir að aðilar séu sammála um að hafa með sér samstarf og miðla upplýsingum um málið.

Guðmundur Páll Jónsson bæjarstjóri segir að boðað hafi verið til fundarins vegna þeirra umræðu sem átt hefur sér stað að undanförnu um erlenda starfsmenn hér á landi þar á meðal á Akranesi. Hann segir engan vafa á því í sínum huga að ekki hafi verið farið að settum reglum. Því hafi þótt nauðsynlegt að koma á fót samstarfsvettvangi um þessi mál.  Ákveðið hefur verið að funda aftur í næstu viku.  Bæjarstjórinn sagði í viðtali

við skessuhorn í dag  hvers vegna bæjarfélagið hafi ákveðið að koma að málinu segir hann mikla hagsmuni í húfi fyrir bæjarfélagið.  Einnig sagði Bæjarstjórinn það mjög mikilvægt að staðið sé skil á útsvari vegna þeirra erlendu starfsmanna er hér starfa. Einnig er mjög mikilvægt að sveitarfélagið tryggi að jafnræði sé meðal þegnanna. Ef einstök fyrirtæki komast upp með að brjóta lög og reglur grefur það undan þeim fyrirtækjum hér um slóðir sem standa löglega að hlutum. Slíkt megum við ekki og getum ekki fallist á. Því var mjög ánægjulegt að undirtektir við að koma þessum samstarfsvettvangi á voru góðar. Þannig getum við auðveldað starf þeirra er að þessum málum koma.  Sagði Guðmundur Páll Jónsson að lokum í viðtali við Skessuhornið í dag.

30
Nov

Verkalýðsfélag Akraness mun leggja fyrir félagsmálanefnd Alþingis tillögur um breytingar á lögum um starfsmannaleigur

Formaður Verkalýðsfélags Akraness var boðaður á fund félagsmálanefndar Alþingis í morgun.  Vildu nefndarþingmenn fá álit og afstöðu stéttarfélagsins til nýs frumvarps um starfsmannaleigur.  Formaður gerði félagsmálanefnd grein fyrir þeim málum sem félagið hefur verið að vinna að undanförnu og lítur að brotum á erlendu vinnuafli.  Einnig gerði formaður félagsins félagsmálanefnd Alþingis grein fyrir þeim atriðum í frumvarpinu sem Verkalýðsfélag Akraness er ósátt við.  Það eru aðallega þrjú atriði sem félagið myndi vilja sjá breytingu á.  Mun Verkalýðsfélag Akraness skila inn til félagsmálanefndar fyrir laugardag tillögum um breytingar á lögum um starfsmannaleigur.  Þau atriði í frumvarpinu sem félagið vill sjá breytingar á eru eftirfarandi:

  1. Starfskjör. Verkalýðsfélag Akraness vill sjá breytingu á lögum nr. 54/2001 Um starfskjör 3.gr. í 1. tölulið. 1. mgr. komi:  Kjarasamningar á íslenskum vinnumarkaði gildi fyrir starfsmenn sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja.  Í frumvarpinu sem nú liggur fyrir er þetta ekki tryggt að öllu leiti og vantar þar töluvert upp á.
  2. Eftirlit.  Verkalýðsfélag Akraness vill sjá breytingu á 9.gr og 10. gr sem hefur með eftirlit með lögum um starfsmannaleigur sé framfyllt.  Í frumvarpinu er talað um að eftirlitið sem alfarið hjá Vinnumálastofnun og að Vinnumálastofnun sé óheimilt að láta öðrum í té upplýsingar.  Verkalýðsfélag Akraness telur að öruggasta leiðin til að tryggja að löggjöf er varðar starfskjör launafólks verði farmfylgt sé að fela stéttarfélögunum hlutdeild í nauðsynlegu eftirliti.  Verkalýðsfélag Akraness sér alls ekki hvernig Vinnumálastofnun getur sinnt þessu eftirlitshlutverki svo vel sé, þar sem sérþekking á kjarasamningum og kjörum liggur hjá stéttarfélögunum. 
  3. Ábyrgð notendafyrirtækis.  Verkalýðsfélag Akraness telur að  eðlilegt að setja þá kröfu á notendafyrirtækin að þau hafi undir höndum ráðningasamninga starfsmanna sem koma frá starfsmannaleigum og einnig að notendafyrirtækin ábyrgist að kjör starfsmanna séu í samræmi við íslenska löggjöf og íslenska kjarasamninga. 
29
Nov

Verkalýðsfélag Akraness lýsir furðu sinni á ummælum Hjörleifs Jónssonar í fréttablaðinu á sunnudaginn sl.

Á forsíðu fréttablaðsins á sunnudaginn sl. var vitnað í eiganda fyrirtækisins sem sætir rannsókn lögreglu vegna gruns um að vera með ólöglegt vinnuafl að störfum og einnig gruns um að greiða laun langt undir gildandi kjarasamningum.  Verklýðsfélag Akraness lýsir furðu sinni á ummælum eiganda fyrirtækisins í blaðinu á sunnudaginn sl.  En þar segir Hjörleifur Jónsson að afskipti yfirvalda og Verkalýðsfélags Akraness vegna þeirra erlendu starfsmanna sem hjá honum starfa sé með öllu óviðunandi.  Einnig segir Hjörleifur að ekkert muni koma útúr þessari rannsókn því ekkert sé óeðlilegt við kjör sinna starfsmanna.  Verkalýðsfélagi Akraness er vart hlátur í huga yfir þessum ummælum, en vill benda á að stéttarfélagið hefur gögn og upplýsingar undir höndum sem staðfestir að fyrirtæki Hjörleifs Jónssonar er ekki að greiða þau laun sem ráðningarsamningar Litháana kveða á um.  Gögn sýna tb. að einum Litháanum sem starfar hjá Hjörleifi Jónssyni vantar allt að 300 þúsund krónur í laun fyrir einn mánuð miðað við vinnustundafjölda í umræddum mánuði.  Ef Hjörleifur Jónsson telur að hann hafi ekkert að fela í ljósi þessara staðreynda, að það vanti tb. uppá laun eins starfsmannsins sem nemur tæpum 300 þúsund krónum á einum mánuði, þá hvað.   Málið er enn í rannsókn hjá lögreglunni á Akranesi og hefur lögreglan fengið gögn frá Verkalýðsfélagi Akraness sem sýnir og staðfestir að töluvert vantar uppá að Litháunum sé greidd laun eftir þeim ráðningarsamningum sem atvinnuleyfi mannanna voru veitt út á á sínum tíma.     Í ljósi alls þessa eru ummæli Hjörleifs Jónssonar í fréttablaðinu á sunndaginn afar undarleg svo ekki sé fastar að orði kveðið.  Þeir atvinnurekendur sem ekki fara eftir þeim leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði eiga að hafa vit á því að skammast sín.   Verkalýðsfélag Akraness mun gera ítarlega grein fyrir þessu máli hér heimasíðunni á fimmtudaginn nk.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image