• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Oct

Sveini Andra Sveinssyni lögmanni starfsmannaleigunnar 2B svarað !

Í viðtali sem ber yfirskriftina “Óskiljanlegt að verktakafyrirtækin séu kærð” og birtist í Morgunblaðinu í dag segir Sveinn Andri Sveinson lögmaður starfsmannaleigunnar 2b

“Mikið hugmyndaflug þarf til að skilja hvers vegna stéttarfélög tóku ákvörðun um að kæra þau sex fyrirtæki sem eru með starfsmenn á vegum starfsmannaleigunnar 2 B í vinnu, enda ljóst að þeir eru starfsmenn leigunnar, ekki verktakanna. Það er minn umbjóðandi sem borgar þessum mönnum laun og er með þá á launaskrá, en ekki þessi fyrirtæki. Það er óskiljanlegt með öllu hvernig hvarflar að mönnum að leggja inn kæru á þessi verktakafyrirtæki,"

Virðulegum lögfræðingnum virðist erfitt að skilja að við teljum okkur hafa rökstuddan grun um að um sé að ræða brot á lögum nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga, hann þarf ekki að gera meira en að skoða skráningu 2b í fyrirtækjaskrá til að sjá að um íslenskt fyrirtæki er að ræða. Þar með er ljóst að starfsmannaleigan 2b getur ekki flutt inn starfsfólk á grundvelli laga nr.54/2001 um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja.  Þetta er nú ekki flóknara.

 Ef um er að ræða brot á lögum nr. 97/2002 segir meðal annars í 17.gr.
Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef maður:   “a. af ásetningi eða stórfelldu gáleysi nýtir starfskrafta útlendings sem ekki hefur atvinnuleyfi samkvæmt lögunum.” Er einhverjum vafa undirorpið hverjir voru að nýta starfskrafta Pólverjanna sem um ræðir? Voru það ekki notendafyrirtækin?

Síðar segir einnig í 17. gr.  Það varðar sektum eða fangelsi allt að fimm árum að reka skipulagða starfsemi til að aðstoða útlendinga við að starfa hér á landi án atvinnuleyfis samkvæmt lögum þessum. 

Skammtímaminni hefur ekkert með þetta mál að gera og útúrsnúningar Sveins um GT verktaka eiga einfaldlega ekki við. GT verktakar voru sagðir með samning við erlenda starfmannaleigu og féllu því undir lög nr. 54/2001 Það er einnig mjög villandi að halda því fram “að ríkisborgarar nýrra landa Evrópusambandsins hafi leyfi til að dvelja hér og starfa í 3 mánuði án atvinnuleyfis.” eins og haft er eftir Sveini, slíkt er þeim aðeins heimilt ef þeir koma á vegum erlends fyrirtækis.

Verkalýðsfélag Akraness áttar sig alls ekki á þessum útúrsnúningum Sveins Andra Sveinssonar og spyr hvað þessi  blekkingarleikur eigi þýða ?

26
Oct

Verkalýðsfélag Akraness hefur óskað eftir áliti frá lögmanni félagsins um hvort Ístak og Fagsmíði hafi brotið lög með því að vera með ólöglegt vinnuafl í sinni þjónustu !

Verkalýðsfélag Akraness heldur áfram eftirliti með ólöglegu vinnuafli.  Í gær fékk félagið upplýsingar um að fleiri erlendir starfsmenn á vegum starfsmannaleigunnar 2B væru að störfum á Grundartangasvæðinu.  Þessar upplýsingar reyndust réttar, í  þessu tilfelli var um  nokkra pólverja að ræða.   Enginn þeirra er með atvinnuleyfi hér á landi.   Fyrirtækið sem þeir starfa hjá heitir Fagsmíði ehf.  Hefur Verkalýðsfélag Akraness sent sýslumanninum í Borgarnesi kæru vegna þessara ólöglegu starfsmanna.  Einnig hefur félagið sent fyrirtækjunum tveimur Ístaki og Fagsmíði bréf þar sem óskað er eftir upplýsingum um ráðningarkjör þessara erlendu starfsmanna.  Verkalýðsfélag Akraness lítur það mjög alvarlegum augum að Ístak og Fagsmíði séu með ólöglegt vinnuafl í sinni þjónustu. Verkalýðsfélag Akraness hefur því  óskað eftir því við lögmann félagsins að hann skoði hvort umrædd fyrirtæki hafi gerst brotleg við íslensk lög með því að hafa starfsmenn sem ekki hafa tilskilin réttindi til að starfa hér á landi. 

25
Oct

Allt bendir til að allir pólsku starfsmennirnir sem eru á vegum íslenska fyrirtækisins 2b séu að starfa hér ólöglega !

Allt bendir til að allir pólsku starfsmennirnir sem eru á vegum íslenska fyrirtækisins 2b séu  að starfa ólöglega hér á landi.  Ekki bara þeir 10 sem nú starfa hjá Ístaki á grundartanga. Heldur allir þeir erlendu starfsmenn sem  2b hefur útvegað íslenskum fyrirtækjum og eru að störfum víða um landið, t.b á Kárahnjúkum.   Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá kærði Verkalýðsfélag Akraness fyrirtækið 2b til sýslumannsins í Borgarnesi.  Kæran byggist á því að um rökstuddan grun er um að fyrirtækið 2b   sé að brjóta lög nr. 54/2001 um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á vegum erlendra fyrirtækja.  Fyrirtækið 2B er íslenskt fyrirtæki með lögheimili og starfstöð hér á landi.  Teljum við því ljóst að það uppfylli ekki skilyrði 1. gr. laganna og því  óheimilt að gera þjónustusamninga á grundvelli þeirra.  Telur lögfræðingur Vinnumálastofnunar að ljóst sé að umrætt tilvik falli ekki undir lög nr. 54/2001 og  hefur jafnframt upplýst að atvinnuleyfi liggi ekki fyrir og sé því sammála Verkalýðsfélagi Akraness að um ólöglega starfsemi sé um að ræða.  Það er því afar brýnt að Sýslumaðurinn í Borgarnesi bregðist skjótt við og stöðvi vinnu þessara pólsku verkamanna sem starfa hér ólöglega og það án tafar.   Það er verulegt áhyggjuefni fyrir íslensk verkafólk og íslenskan vinnumarkað þegar jafn stórt og virt fyrirtæki eins og Ístak er.   Tekur upp á því  að eiga í viðskiptum við "starfsmannaleigu" sem er afar umdeild og því miður bendir allt til þess núna að hún starfi ólöglega hér á landi.

24
Oct

Verkalýðsfélag Akraness kærir fyrirtækið 2B til sýslumanns í Borgarnesi !

 Félag iðn- og tæknigreina og Verkalýðsfélag Akraness sendu í dag kæru til Sýslumannsins í Borgarnesi vegna leigu fyriurtækisins 2B á 10 pólskum starfsmönnum sem starfa hjá Ístak á Grundartanga. Stéttafélögin hafa fengið staðfest hjá Vinnumálastofnun að fyrirtækið 2B er ekki með atvinnuleyfi fyrir erlent vinnuafl og hefur ekki heimild til að flytja inn erlent vinnuafl á grundvelli þjónustusamninga, þar sem um er að ræða íslenskt fyrirtæki en ekki erlent eins og lög nr. 54/2001 kveða á um.  Kæran hljóðar svona:

Sýslumaðurinn Borgarnesi
Bjarnarbraut 2
310 Borgarnes

Við undirritaðir Hilmar Harðarson, formaður Félags iðn- og tæknigreina, kt 170860 2419, f.h. þess félags og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, kt 050865 5339, f.h. þess félags, óskum eftir að Sýslumaðurinn Borgarnesi kanni lögmæti leigu fyrirtækisins 2B, kennitala 4408042250, á pólskum starfsmönnum til Ístaks hf., kennitala 540671 0959. 

Rökstuddur grunur er um að með leigu þessari sé verið að brjóta lög nr. 54/2001 um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á vegum erlendra fyrirtækja.  Fyrirtækið 2B er íslenskt fyrirtæki með lögheimili og starfstöð hér á landi og bókaðan tilgang inn- og útflutning vöru, kaup og sölu vöru og tengdan rekstur sem og rekstur og útleigu fasteigna og almenna lánastarfsemi.  Teljum við því ljóst að það uppfylli ekki skilyrði 1. gr. laganna og því  óheimilt að gera þjónustusamninga á grundvelli þeirra.


Við teljum að um sé að ræða a.m.k. 10 pólska starfsmenn  sem ekki hafa atvinnuleyfi á Íslandi en munu vera að störfum fyrir Ístak hf. við stækkun Norðuráls hf á Grundartanga á grundvelli þjónustusamnings við 2B ehf. 

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun mun pólskur einstaklingur með íslenska kennitölu hafa haft milligöngu um ráðningu hinna pólsku starfsmanna til 2B ehf.  Ekkert liggur fyrir að viðkomandi uppfylli ákvæði 1. gr. laga nr. 54/2001 um fyrirtæki með staðfestu utan Íslands.  Telur Vinnumálastofnunin að ljóst sé að umrætt tilvik falli ekki undir lög nr. 54/2001 og  hefur jafnframt upplýst að atvinnuleyfi liggi ekki fyrir og því um ólöglega starfsemi að ræða.


Þá vilja félögin koma á framfæri þeirri túlkun sinni á lögum nr. 54/2001 að þau gildi einungis um réttarstöðu þeirra starfsmanna sem sendir eru til “notendafyrirtækis” hér á landi en ekki við frekari framleigu  á viðkomandi starfsmanni.

Það er verulegt hagsmunamál verkalýðsfélaga að tryggt sé að lögum nr. 54 frá 2001 sé rétt framfylgt og er því kæra þessi sett fram varðandi meint brot 2B ehf.


Akranesi 24.október 2005


F.h. Félags iðn- og tæknigreina  F.h. Verkalýðsfélags Akraness

__________________________  _____________________________
Hilmar Harðarson    Vilhjálmur Birgisson

22
Oct

Skrifað verður undir nýjan fyrirtækjasamning við Fang ehf. á mánudaginn kemur

Skrifað verður undir nýjan fyrirtækjasamning við eigendur Fangs ehf. á mánudaginn kemur.  Formaður félagsins kynnti væntanlegan samning fyrir starfsmönnum  á miðvikudaginn var.  Virtust starfsmenn almennt vera nokkuð sáttir við samninginn þó vissulega hefði starfsmenn og stéttarfélagið viljað ná örlítið lengra.  Í þessum fyrirtækjasamningi náðist að tryggja flest þeirra kjaraatriða sem starfsmenn og stéttarfélagið  lögðu hvað mestu áherslu á.  Þau kjaraatriði sem náðist að tryggja í þessum nýja fyrirtækjasamningi eru t.b, launatafla, vinnutími, bónus, orlofs og desemberuppbætur.  Einnig fá starfsmenn eingreiðslu sem nemur nokkrum tugum þúsunda.   Allt eru þetta kjaraatriði sem eru mun betri en þekkjast í kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði.  Heildarkostnaðaráhrif samningsins er með sambærilegum hætti og samningar Íslenska járnblendifélagsins og Klafa gáfu eða um 21% á samningstímanum.   Kosið verður um nýjan fyrirtækjasamning fljótlega í næstu viku.  Verkalýðsfélag Akraness vill þakka trúnaðarmanni Fangs kærlega fyrir mjög svo góða samvinnu við gerð þessa samnings.  

19
Oct

Ársfundur Alþýðusambands Íslands hefst á morgun

Ársfundur Alþýðusambands Íslands hefst á morgun og stendur fundurinn yfir í tvo daga, fundurinn verður haldinn á hótel Nordica.  Verkalýðsfélag Akraness á fimm fulltrúa á fundinum í ár þeir eru, Vilhjálmur Birgisson, Guðmundur Rúnar Davíðsson, Bryndís Guðjónsdóttir, Þórarinn Helgason og Jón Jónsson.  Eflaust munu kjaramál vera það mál sem eina mest verður til umræðu á ársfundinum.  Einnig er ekki ólíklegt að mikið verði rædd um forsendur kjarasamninga, en eins og flestir vita eru aðilar vinnumarkaðarins sammála um forsendur kjarasamninga séu kolbrostnar.  Síðan hlýtur ársfundurinn að fjalla ítarlega um þau undirboð sem nú tröllríða íslenskum vinnumarkaði.  Þessi undirboð tengjast nær eingöngu erlendum starfsmönnum sem hingað koma til starfa í gegnum erlendar og innlendar starfsmannaleigur. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image