• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Feb

Skipverjar fá ekki laun og eru nánast matarlausir

Formaður félagsins fór og kynnti sér ástandið um borð í flutningaskipinu sem er að losa súrál fyrir Norðurál í Grundartangahöfn, en skipverjarnir sjálfir stöðvuðu uppskipun úr skipinu nú í hádeginu.  Grundartangasvæðið þ.m.t, höfnin tilheyrir félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness.

Eftirlitsmenn á vegum Alþjóðaflutningasambandsins (IFT) hafa einnig verið á svæðinu til að gæta hagsmuna þeirra sem eru í áhöfn skipsins.

Skipið siglir undir fána Panama en er í eigu grísks útgerðarmanns og telur áhöfnin 17 Úkraínumenn og Georgíumenn. 

Samkvæmt upplýsingum sem formaður félagsins fékk þá hafa skipverjarnir ekki fengið laun síðan í september og því til viðbótar er matur um borð í skipinu af afar skornum skammti.  Einnig fékk formaður félagsins þær upplýsingar að skipverjar séu verulega uggandi um sinn hag.

Útgerðarmaður skipsins er á leið hingað til lands frá Grikklandi vegna málsins. Vonandi leysist þessi deila sem allra fyrst.

Hins vegar er það með öllu óþolandi og ólíðandi ef rétt reynist að skipverjar hafi ekki fengið laun sín greidd frá því í september í fyrra, og ekki bætir úr skák að skipverjar séu nánast matarlausir. Það þarf að taka á þeim útgerðarmönnum sem haga sér með þessum hætti af fullri hörku, sama hvar næst til þeirra. 

07
Feb

Lágmarkslaun eru 125.000 fyrir fullt starf

Af gefnu tilefni vill formaður félagsins vekja athygli félagsmanna á því að lágmarkstekjur fyrir fullt starf (173,33 tímar) eru frá áramótum 125.000 kr á hinum almenn vinnumarkaði. að teknu tilliti til þess að starfsmaðurinn hafi náð 18 ára aldri og hafi starfað samfellt í fjóra mánuði. 

Til félagsins leitaði félagsmaður sem taldi að verið væri að brjóta á sér og reyndist það vera rétt hjá honum. 

Umræddur félagsmaður var að fá greitt sem almennur verkamaður eftir launataxta SGS við SA nánar tiltekið eftir launaflokki II þar sem byrjunarlaun eru kr. 121.317. Þessi umræddi starfsmaður er að vinna fullt starf og á þar af leiðandi að vera með að lágmarki 125.000 kr. á mánuði fyrir fullt starf. Þessu til viðbótar var umræddur starfsmaður orðinn 22 ára og skv. kjarasamningum er það ígildi eins árs starfsreynslu.

Formaður félagsins hafði samband við umrætt fyrirtæki og greinilegt var að fyrirtækið áttaði sig ekki á því að lágmarkstekjutrygging fyrir fulla dagvinnu er 125.000 kr. Fyrirtækið taldi sig vera algerlega að standa við kjarasamninga þar sem það var að greiða eftir þeim lágmarkstöxtum sem getið er um í þeim.  Það er alveg ljóst að mati formanns félagsins að það þarf sannarlega að kynna þetta betur fyrir atvinnurekendum því þótt þeir séu að greiða lágmarkslaun skv. launatöxtum þ.e. kr. 121.317 þá verða þeir að  greiða uppbót á laun þeirra starfsmanna sem ekki ná lágmarkstekjutryggingu sem er kr. 125.000,-

06
Feb

Félagsmenn VLFA fá dagbók

Þessa stundina ættu allflestir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness að vera búnir að fá senda heim til sín dagbók.  Í dagbókinni eru hinar ýmsu upplýsingar er lúta að starfsemi félagsins og einnig eru upplýsingar um hin ýmsu réttindamál sem tengjast okkar félagsmönnum. Dagbókin gildir einnig sem félagsskírteini.

05
Feb

Aflaskipið Víkingur Ak 100 heldur til loðnuveiða á morgun

Líf er að færast yfir aflaskipið Víking Ak 100, en til stendur að skipið haldi til loðnuveiða á morgun eftir um eins árs stopp. Eins og fram hefur komið á heimasíðu félagsins þá var öllum skipverjum sagt upp störfum í janúar í fyrra vegna samdráttar á uppsjávarafla.

Formaður félagsins fór og hitti nokkra skipverja í morgun sem voru að gera klárt svo hægt væri að halda til veiða.  Það leyndi sér ekki að skipverjar voru nokkuð kampakátir með þá ákvörðun að skipið skuli halda til loðnuveiða á ný.

Af síldarbræðslunni er það að frétta að búið er að ráða nokkra starfsmenn þar til vinnu og eru þeir að yfirfara tæki og tól svo allt verði nú klárt ef hráefni skyldi fara að berast til verksmiðjunnar, sem vonandi gerist von bráðar.

01
Feb

Aðalfundum deilda er lokið

Í gærkvöldi var haldinn aðalfundur Stóriðjudeildar Verkalýðsfélags Akraness og hafa aðalfundir allra deilda þá verið haldnir. Engar mannabreytingar urðu í stjórn Stóriðjudeildar.

Á aðalfundi Opinberrar deildar VLFA sem haldinn var í fyrrakvöld var Ragnhildur Bjarnadóttir kosin ný inn í stjórn deildarinnar í stað Sigurlaugar Guðmundsdóttur. Sigurlaugu eru færðar bestu þakkir fyrir störf sín í félaginu.

Engar mannabreytingar urðu í stjórnum Almennrar deildar og Matvæladeildar.

30
Jan

Vinnumálastofnun kallar eftir gögnum frá fyrirtæki

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur Verkalýðsfélag Akraness haldið úti nokkuð öflugu eftirliti með þeim fyrirtækjum sem starfa á félagssvæði VLFA og eru með erlenda starfsmenn í sinni þjónustu.  Eftirlitið gengur út á það að tryggja að ekki sé verið að brjóta á réttindum þeirra erlendu starfsmanna sem starfa á okkar félagssvæði. 

Einnig gengur eftirlitið út á að kanna hvort þau fyrirtæki sem eru með erlenda starfsmenn séu að uppfylla þau lagaskilyrði sem til þarf til að hafa erlenda starfsmenn í sinni þjónustu.  T.d. hvort búið sé að skrá erlenda starfsmenn til Vinnumálastofnunnar eins og lög kveða á um og einnig hvort fyrirtæki séu að reka starfsmannaleigu án þess að hafa heimildir til slíks.

Nú þegar hefur Verkalýðsfélag Akraness bent Vinnumálastofnun á eitt fyrirtæki sem var að starfa á félagssvæði VLFA án tilskilinna leyfa.  Vinnumálastofnun fór í það mál af fullri einurð og hörku og kom í ljós að grunsemdir Verkalýðsfélags Akraness voru á rökum reistar þar sem viðkomandi fyrirtækið hafði ekki heimild til að starfa sem starfsmannaleiga.

Formaður félagsins hefur nokkuð sterkar grunsemdir um að annað fyrirtæki sé að starfa sem starfsmannaleiga án þess að hafa heimildir til slíks.  Hefur félagið nú þegar gert Vinnumálastofnun viðvart hvað varðar þessar grunsemdir. 

Fulltrúi frá Vinnumálastofnun og Vinnueftirliti ríkisins heimsóttu viðkomandi fyrirtæki í síðustu viku og mun Vinnumálastofnun í framhaldinu kalla eftir gögnum frá umræddu fyrirtæki til að kanna hvort verið sé að brjóta lög um starfsmannaleigur.

Formaður félagsins er afar ánægður með hvernig Vinnumálastofnun tekur á þeim málum sem komið hafa upp á félagssvæði VLFA, en vinnubrögð Vinnumálastofnunar hafa einkennst af fagmennsku og ákveðni. 

Það er stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að félagsleg undirboð og brot á réttindum erlendra starfsmanna verður ekki látið átölulaust á félagssvæði Verklýðsfélags Akraness.  Ef ekki er tekið hart á slíkum brotum mun það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir alla íslenska verkamenn.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image