• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Dec

Ný verðkönnun frá verðlagseftirliti VLFA

Í morgun fór starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness á stúfana og gerði nýja verðkönnun í fjórum verslunum á Akranesi. Verslanirnar sem um ræðir eru Kaskó, Skagaver, Samkaup Strax (Grundaval) og Krónan. Verslun Einars Ólafssonar neitaði að taka þátt í könnuninni. Vert er að taka fram að hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Þar sem nú nálgast áramót og því tilefni til að gera vel við sig og sína í mat og drykk var matarkarfa Verkalýðsfélagsins stækkuð frá því síðast og verð athugað á 45 vörutegundum. Þar sem þessar vörutegundir voru ekki til í öllum fjórum verslununum reyndist nauðsynlegt að fækka þeim niður í þær 36 vörutegundir sem fengust í öllum fjórum verslununum.

Niðurstöður þessarar könnunar eru þær að Kaskó var með ódýrustu matarkörfuna og kostaði hún þar kr. 14.547. Matarkarfan í Skagaveri kostaði kr. 15.167, í Krónunni kostaði hún kr. 15.912 og í Samkaup-Strax kostaði hún kr. 17.471.

Hægt er að skoða könnunina í heild sinni hér.

28
Dec

Aðalfundur sjómannadeildar haldinn í gærkvöldi

Aðalfundur sjómannadeildar var haldinn í gærkvöldi. Meðal fundarefnis voru venjuleg aðalfundarstörf og önnur mál. Kosið var í stjórn deildarinnar og eftirtaldir hlutu kosningu:

Jóhann Örn Matthíasson, ritari

Már Vilbergsson, vararitari

Elías Ólafsson, meðstjórnandi

Sveinbjörn Rögnvaldsson, varameðstjórnandi

Úr stjórn gekk Gísli Jón Bjarnason þar sem hann hefur hætt sjómennsku og vill Verkalýðsfélag Akraness þakka honum fyrir góð störf á liðnum árum. Á fundinum var einnig rætt um hin ýmsu réttindamál sjómanna og Jóhann Örn Matthíasson gerði grein fyrir helstu málum sem rædd voru á Sjómannaþingi sem haldið var í Reykjavík fyrr í vetur. Einnig gerði formaður félagsins fundarmönnum grein fyrir starfsemi félagsins á síðasta ári og kom fram í máli formanns að afkoma félagsins hefur verið afar góð og hefur félagið tekið algerum stakkaskiptum frá því ný stjórn tók við fyrir þremur árum.

28
Dec

Stjórn og trúnaðarráð hélt sinn árlega jólafund í gær

Jólatrúnaðarráðsfundur var haldinn í gær og hófst fundurinn kl. 18.00.  Formaður félagsins fór yfir það helsta sem gerst hefur í starfsemi félagsins á árinu sem nú er að líða.

Fram kom í máli formanns að árið hefur verið Verkalýðsfélagi Akraness afar hagstætt, t.d. hefur verið gríðarleg fjölgun í félaginu á liðnu ári.  Einnig kom fram hjá formanni að mjög erilsamt hefur verið hjá starfsmönnum félagsins á þessu ári og greinilegt að félagsmenn nýta sér þjónustu félagsins í auknu mæli, sem er afar jákvætt.  

27
Dec

Aðalfundur sjómannadeildar haldinn í kvöld

Aðalfundur sjómannadeildar verður haldinn í kvöld og hefst fundurinn kl. 20:00.

Á dagskrá fundarins eru venjuleg aðalfundarstörf sem og önnur mál.  Fundurinn er haldinn í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13.

Sjómenn eru eindregið hvattir til að mæta.

22
Dec

Jólakveðja!!

Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness sendir félagsmönnum sínum og landsmönnum öllum bestu óskir um gleðilega jólahátíð og farsæld á komandi ári.

21
Dec

Kaskó lægstir í verðkönnun sem Verkalýðsfélagið framkvæmdi í dag

Í dag var gerð ný könnun á vegum félagsins og var athugað verð á 50 vörutegundum úr flestum vöruflokkum í fjórum verslunum á Akranesi. Verslanirnar sem um ræðir eru Kaskó, Skagaver, Samkaup Strax (Grundaval) og Krónan. Verslun Einars Ólafssonar neitaði að taka þátt í þeirri könnun sem hér er birt. Vert er að taka fram að hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Til að hægt væri að taka mark á verðsamanburði milli þessara verslana reyndist nauðsynlegt að fækka vörutegundum um þær sem ekki fengust í öllum verslunum og því voru að lokum 28 vörutegundir í matarkörfu Verkalýðsfélagsins.

Niðurstöður könnunarinnar eru þær að ódýrust var matarkarfan í Kaskó en þar kostaði hún kr. 10.505. Í Skagaver kostaði karfan 11.653, í Krónunni kostaði hún kr. 12.163 og í Samkaup-Strax kostaði hún kr 13.591. Karfan kostaði því að meðaltali kr. 11.978. 

Verðlagseftirlit Verkalýðsfélags Akraness mun á næstu dögum og vikum gera reglulegar verðkannanir í þessu verslunum til að fylgjast með verðlagsþróun félagsmönnum sínum sem og öðrum neytendum hér á Akranesi til hagsbóta.

Hægt er að skoða könnunina í heild sinni með því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image