• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
VLFA

VLFA

Big fan of open source and Joomla

Website URL: http://joomlabuff.com

Verkalýðsfélag Akraness vinnur nú að tveimur hagsmunamálum fyrir sína félagsmenn er lúta að broti á kjarasamningum að mati félagsins. Hér er um umtalsverða hagsmuni að ræða fyrir þá félagsmenn sem um ræðir. Á þessari stundu er æði margt sem bendir til þess að bæði málin muni enda fyrir félagsdómi enda er það mat lögmanns félagsins að hér sé um klárt brot á kjarasamningi að ræða.

Ítarleg grein verður gerð fyrir þessum málum ef ekki næst niðurstaða í þeim, en það ætti að skýrast um miðjan þennan mánuð hvort félagið neyðist til að fara með þessi mál fyrir félagsdóm eður ei.

Það er alveg skýr stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að réttindi félagsmanna verða varin með kjafti og klóm ef félagið telur að um brot á kjarasamningsbundnum réttindum sé að ræða og er þá að sjálfsögðu ekki horft í kostnað hvað þá réttindagæslu varðar. 

Verksmiðjur Elkem Ísland og Norðuráls á GrundartangaVerksmiðjur Elkem Ísland og Norðuráls á GrundartangaÞað er afar ánægjulegt að sjá að þrjú af stærstu fyrirtækjunum á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness skiluðu umtalsverðum hagnaði á árinu 2010 samkvæmt upplýsingum sem fram koma í bókinni 300 stærstu fyrirtæki á Íslandi.

Formaður VLFA hefur verið að rýna í þessar rekstrartölur og kemur meðal annars fram að heildarvelta HB Granda var rúmir 23 milljarðar, eigið fé fyrirtækisins er um 22 milljarðar og hagnaður á árinu 2010 voru rúmir 3 milljarðar króna. Fjölmargir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness starfa hjá fyrirtækinu, bæði í landvinnslu og til sjós.

Hjá Elkem Ísland, þar sem 213 manns starfa, var heildarveltan upp á 23,5 milljarða, eigið fé fyrirtækisins var 22,5 milljarðar og hagnaður ársins fyrir skatta voru 2 milljarðar króna. Á þessu sést að rekstur Elkem Ísland á Grundartanga var mjög góður.

Það fyrirtæki sem skilaði mestum hagnaði á árinu 2010 á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness var Norðurál en það fyrirtæki skilaði fyrir skatta hvorki meira né minna en 10 milljörðum í hagnað en heildarvelta Norðuráls nam 55 milljörðum. Til að sýna sterka stöðu Norðuráls er eigið fé hvorki meira né minna en 60 milljarðar króna.

Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir Verkalýðsfélag Akraness og í raun og veru allt samfélagið hér á Akranesi og í nærsveitum þessi sterka staða þessara kjölfestufyrirækja. Þetta var ein af röksemdarfærslum Verkalýðsfélags Akraness þegar félagið barðist með kjafti og klóm gegn svokallaðri samræmdri launastefnu, þessi sterka staða sem útflutningsfyrirtækin byggju yfir í kjölfar gengisfalls íslensku krónunnar og hækkandi afurðaverðs. Sem betur fer náði félagið að brjóta á bak aftur þessa samræmdu launastefnu sem byggðist á því að allir launþegar áttu að fá sömu launahækkanir, algjörlega óháð getu hverrar atvinnugreinar fyrir sig. Þessar afkomutölur styðja að málflutningur Verkalýðsfélags Akraness fyrir því að útflutningsfyrirtæki ættu að greiða meira heldur en aðrar atvinnugreinar var á rökum reistur. En sem dæmi þá hækkuðu laun starfsmanna Norðuráls um 14,1% á þessu ári og starfsmanna Elkem Ísland álíka sem er langt fyrir ofan það sem um var samið á hinum almenna vinnumarkaði.

Þessi góða staða vekur bjartsýni fyrir því að hægt verði að bæta kjör starfsmanna í stórðiðjum enn frekar í náinni framtíð því eins og segir í orðatiltækinu, betur má ef duga skal.

Formaður félagsins fundaði með lögmanni félagsins í morgun þar sem tekin var ákvörðun um að stefna Heilbrigðisstofnun Vesturlands fyrir félagsdómi vegna brota á kjarasamningi. En 1. janúar á síðasta ári tilkynnti stofnunin starfsmönnum einhliða eftir fyrirmælum frá fjármálaráðuneytinu um að HVE ætti að hætta að greiða starfsmönnum vaktaálag þegar starfsmenn tækju helgidagafrí í samræmi við svokallað 12 daga frí sem þeir eiga rétt á.

Þessar greiðslur hafa verið greiddar til starfsmanna í áraraðir og jafnvel í áratugi og það er mat lögmanns félagsins og formanns að ekkert kveði á um í kjarasamningum að starfsmenn eigi ekki rétt á vaktaálagsgreiðslum þegar áðurnefnd frí eru tekin. Enda stendur í aðalkjarasamningi, grein 2.6.7.: "Starfsmaður sem vinnur á reglubundnum vöktum alla daga ársins, getur í stað greiðslna skv. gr. 2.3.2. fengið frí á óskertum föstum launum í 88 vinnuskyldustundir á ári miðað við fullt starf í heilt ár." Eins og á þessu sést er kveðið á um óskert föst laun og vaktaálög eru sannarlega hluti af föstum launum starfsmanna. Á þeirri forsendu stenst þessi ákvörðun HVE og fjármálaráðuneytisins á engan hátt og því ætlar Verkalýðsfélag Akraness að láta á málið reyna fyrir dómi.

Það er einu sinni þannig að launakjör ófaglærðs fólks á heilbrigðisstofnunum eru ekki til að hrópa húrra fyrir og því þarf að verja öll þau réttindi sem umræddir starfsmenn eru með með kjafti og klóm og það mun Verkalýðsfélag Akraness gera í þessu máli sem og öðrum.

Tvisvar á ári gefur Verkalýðsfélag Akraness út fréttabréf í þeim tilgangi að kynna starfsemi og þjónustu félagsins og segja fréttir af þeim málum sem félagið vinnur að hverju sinni.

Starfsfólk skrifstofu VLFA vinnur nú að gerð næsta fréttabréfs og verður það aðeins efnismeira en venja er til. Meðal efni blaðsins er aldarminning Herdísar Ólafsdóttur fyrrverandi formanns kvennadeildar, ritara félagsins og starfsmanns skrifstofu í yfir 30 ár og viðtal við Þórarin Helgason sem nýverið lét af störfum í stjórn félagsins. Einnig verður sögð ferðasaga "eldri deildar" VLFA í máli og myndum auk ýmissa frétta af málefnum félagsins.

Blaðinu verður dreift á öll heimili á Akranesi og í nærsveitum þann 1. desember nk. Lesa má eldri fréttabréf VLFA með því að smella hér.

Monday, 14 November 2011 00:00

Bónuskerfi Elkem Ísland svínvirkar

Samhliða kjarasamningum við Elkem Ísland sem tóku gildi 1. desember 2010 var tekið upp nýtt bónuskerfi. Þetta nýja bónuskerfi samanstendur af afkastabónus og öryggis- og umgengnisbónus. Það er óhætt að segja að þetta nýja bónuskerfi sé svo sannarlega að skila árangri bæði fyrir fyrirtækið sem og starfsmenn.

Í þessu nýja bónuskerfi getur bónusinn að hámarki gefið 13,5% en almenna reglan er sú að ef bónusinn gefur í kringum 80% af hámarkinu þá eru samningsaðilar sammála um að bónusinn sé að virka sem skyldi. Eru þá hagsmunir beggja samningsaðila hafðir að leiðarljósi.

Þetta nýja bónuskerfi hjá Elkem hefur hins vegar verið að gefa gott betur, eða um 85% af hámarkinu. Þetta þýðir að 11,46% leggjast ofan á öll laun starfsmanna og sem dæmi þá hefur bónusinn síðustu 2 mánuði verið annars vegar 12,84% og hins vegar 12,53% sem er frábær árangur.

Til að sýna fram á  hvað bónuskerfið getur haft mikla þýðingu, þá eru föst laun starfsmanns eftir 10 ár 359.202 og 12,53% bónus ofan á þá tölu gerir í bónusgreiðslur 45.008 kr. á mánuði. Ef bónusinn gefur bara 10,8% þá gerir hann tæpar 38.800 kr. Hér munar rúmum 6.000 kr. á mánuði. Þetta sýnir hversu mikilvægt það er að bónuskerfið virki sem skyldi, eins og það gerir svo sannarlega hjá starfsmönnum Elkem Ísland um þessar mundir.

Lífsviðurværi starfsmanna stefnt í voðaLífsviðurværi starfsmanna stefnt í voðaÞað er óhætt að segja það að það séu váleg tíðindi sem nú dynja á atvinnulífinu hér á Akranesi. En nú mun fjármálaráðherra leggja fram frumvarp fyrir jól til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem kveður á um að tekinn verður upp nýr afar íþyngjandi kolefnisskattur á stóriðjufyrirtækin. Þessi nýi skattur mun verða þess valdandi að atvinnuöryggi starfsmanna Elkem Íslands, sem eru nú um 300 talsins, verður ógnað allverulega. Einnig er morgunljóst að þessi nýi skattur mun verða þess valdandi að framleiðsla á sementi hér á landi mun heyra sögunni til og mun þessi skattur, ef af verður, verða síðasti naglinn í kistu Sementsverksmiðjunnar hér á Akranesi.

Sem dæmi þá liggur fyrir að þessi nýi skattur mun þýða aukakostnað fyrir Elkem Ísland sem nemur 430 milljónum á árinu 2013 en þessi nýi skattur mun fara stighækkandi næstu tvö ár á eftir og á árinu 2014 verður þessi kolefnisskattur kominn upp í 645 milljónir og á árinu 2015 er hann kominn upp í 860 milljónir króna. Þessu til viðbótar þarf Elkem síðan að greiða kaup á kolefnisheimildum fyrir kísil-, málm- og járnblendiiðnað en sá kostnaður mun nema um 200 milljónum króna á ári til viðbótar. Til að sýna fáránleikann í þessu máli þá var heildarlaunakostnaður Elkem Ísland á árinu 2010 1,3 milljarðar þannig að þessir nýju skattar Steingríms eru ígildi 50% af heildarlaunakostnaði fyrirtækisins. Og á árinu 2015 verður þessi skattur farinn að nálgast 85% af heildarlaunakostnaði fyrirtækisins. Á þessu sést hversu fáránleg þessi útfærsla er.

Það liggur fyrir að rekstur járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga er mjög sveiflukenndur og svona íþyngjandi skattheimta mun klárlega stefna fyrirtækinu og þeim störfum sem þar eru í stórhættu. Það er þyngra en tárum taki að fyrirtæki sem hefur barist fyrir rekstrarafkomu sinni vegna aðstæðna á heimsmarkaði undanfarna áratugi ætli jafnvel að lúta í lægra haldi vegna skattastefnu Steingríms J. Sigfússonar og ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. En árin 1992 og 1995 vantaði einungis hársbreidd upp á að verksmiðjunni hefði verið lokað vegna aðstæðna á heimsmarkaði en nú gæti hins vegar raunin orðið sú að verksmiðjan þyrfti að lúta í lægra haldi vegna skattastefnu fjármálaráðherra.

Það er morgunljóst að þetta mál er dauðans alvara fyrir atvinnulífið hér á Akranesi því ef þessi skattur verður að veruleika eru í það minnsta 300 störf ásamt þúsund afleiddum störfum í verulegri hættu. Það er einnig ljóst að þessi skattur mun hafa veruleg áhrif á hið nýja kísilver sem fyrirhugað er að reisa í Reykjanesbæ og einnig fyrir norðan. En þessi nýi skattur mun nema vel á þriðja hundrað milljóna strax á árinu 2013 fyrir þessi nýju kísilver. Vart hafa þessir erlendu fjárfestar kísilveranna átt von á hundruð milljóna nýrri skattheimtu þegar þeir tóku ákvörðun um að fjárfesta hér á landi.

Formaður félagsins veltir því fyrir sér á hvaða vegferð ríkisstjórnin er í ljósi þess að þessi skattlagning mun klárlega setja lífsviðurværi hundruð fjölskylda í algert uppnám og væntanlega setja framkvæmdir kísilveranna í óvissu.  Hvernig eiga erlendir fjárfestar að hafa áhuga á að fjárfesta hér á landi og skapa atvinnu hér þegar svona vinnubrögð eru ástunduð af hálfu stjórnvalda.

Það er orðið löngu tímabært að fjármálaráðherrann átti sig á því að velferðakerfi okkar Íslendinga byggist á því að búa til gjaldeyristekjur, þannig vinnum við okkur út úr vandanum. Það verður ekki gert með því að skattleggja útflutningsfyrirtækin út úr landinu með íþyngjandi álögum.

Af hverju skyldi móðurfélag til dæmis Elkem Ísland hafa hætt starfsemi á nokkrum ofnum í Noregi? Jú, það var vegna þess að rekstrarskilyrði hér á landi fyrir stóriðju hafa verið ívið betri heldur en erlendis og einnig eru stóriðjurnar með langtíma raforkusamninga fram í tímann sem gerir það að verkum að þeir þurfa að kaupa raforkuna óháð því hvort þeir nota hana eða ekki. Þetta gerðist einnig með móðurfélag Norðuráls en móðurfélagið lokaði álveri í Vestur-Virginíu árið 2009. Vilja menn skapa þannig rekstrarskilyrði fyrir stóriðjurnar hér á landi að þegar kreppir að á heimsmarkaði þá séu meiri líkur til þess að verksmiðjum verði lokað hér á landi? Mat formanns er einfalt, að sjálfsögðu eigum við að skapa þannig rekstrarskilyrði að þessir erlendu fjárfestar hafi áhuga á að starfa og fjárfesta hér á landi.

Það er algerlega óþolandi að verða vitni af því heillaga stríði sem flokkur Steingríms J Sigfússonar á við stóriðjuna hér á landi og er stóriðjunni nánast fundið allt til foráttu.  Við Akurnesingar vitum mæta vel þau jákvæðu áhrif sem stóriðjan hefur á okkar samfélag.  Sem dæmi þá starfa yfir 3000 manns á Grundartangasvæðinu með afleiddum störfum.  Það liggur fyrir að útsvars- og tekjuskattur af starfsmönnum Norðuráls nam um 1 milljarði króna að teknu tilliti til frádráttar persónuafsláttar starfsmanna. Þessu til viðbótar greiðir Norðurál uppundir 400 milljónir í tryggingagjald og um 250 milljónir vegna fasteignagjalda. Elkem Ísland skilar í útsvar og tekjuskatt um 400 milljónum að teknu tilliti til frádráttar persónuafsláttar og um 140 milljónum í tryggingagjald. Á þessu sést að þessi stóriðjufyrirtæki eru svo sannarlega að skila umtalsverðum fjármunum til þjóðarbúsins sem notaðir eru í velferðarkerfið hér á landi.

Í ljósi þess hversu málið er grafalvarlegt þá hefur Verkalýðsfélag Akraness ásamt bæjarstjóra Akranesskaupstaðar óskað eftir fundi með þingmönnum Norðvestur kjördæmis og fulltrúum þeirra fyrirtæka sem málið varðar og er líklegt að sá fundur verði strax í næstu viku sökum alvarleika málsins. Það er skýlaus stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að þegar atvinnuöryggi okkar félagsmanna er ógnað jafn illilega og þessar nýju skattatillögur kveða á um þá verður því mætt af fullri hörku. Því það síðasta sem við megum við núna er að störf í útflutningsgeiranum fari að tapast sökum skattpíningar stjórnvalda.

Monday, 21 November 2011 00:00

Stóriðjufyrirtæki skattlögð úr landi

Eins og fram kom hér á heimasíðunni fyrir helgi þá mun fjármálaráðherra nú fyrir jól leggja fram frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem kveður á um að tekinn verður upp nýr afar íþyngjandi kolefnisskattur á stóriðjufyrirtækin.

Þessi nýi skattur mun stefna atvinnuöryggi starfsmanna Elkem Ísland í tvísýnu og verða þess valdandi að rekstrarhagnaður fyrirtækisins síðustu ára þurrkast algerlega upp.

Formaður félagsins óttast það að eigendur Elkem Ísland taki ákvörðun að hætta starfsemi hér á landi ef þessar íþyngjandi álögur verða settar á fyrirtækið enda verður þá nánast útilokað fyrir fyrirtækið að skila arði til sinna eigenda.

Hvernig eiga erlendir fjárfestar að hafa áhuga á að fjárfesta hér á landi og skapa atvinnu hér þegar svona vinnubrögð eru ástunduð af hálfu stjórnvalda. Nú liggur fyrir að þessi skattastefna Steingríms J. Sigfússonar hefur sett Kísilverið á Reykjanesi í algert uppnám. Framkvæmdir þar áttu að hefjast strax eftir áramót, en áætlað er að um 110 manns komi til með að fá vinnu við Kísilverið á Reykjanesi.

Rétt er að geta þess að í umsögn forstjóra Íslenska Kísilfélagsins til Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis kemur fram að forstjórinn telji að kísiliðnaður fái ekki þrifist á Íslandi ef kolefnisgjaldið verður lögfest og telur mikla áhættu á því að amerískir fjárfestar hætti við verkefnið og neyðist til þess að róa á ný mið.

Ætlar almenningur hér á landi að láta það átölulaust þegar hundruðum starfa er stefnt í verulega hættu og að hætt verði fjárfestingarverkefni eins og Kísilverið á Reykjanesi, framkvæmdir sem myndu skila allt að 110 manns atvinnu.

Formaður félagsins veltir því fyrir sér enn og aftur á hvaða vegferð ríkisstjórnin er í ljósi þess að þessi skattlagning mun klárlega setja lífsviðurværi hundraða fjölskyldna í algert uppnám og væntanlega setja framkvæmdir kísilveranna í óvissu. Hvernig eiga erlendir fjárfestar að hafa áhuga á að fjárfesta hér á landi og skapa atvinnu hér þegar svona vinnubrögð eru ástunduð af hálfu stjórnvalda.

Ætlar ríkisstjórnin að skapa þannig rekstrarskilyrði fyrir stóriðjurnar hér á landi að þegar kreppir að á heimsmarkaði þá séu meiri líkur á því að verksmiðjum verði lokað hér á landi? Það er orðið löngu tímabært að fjármálaráðherrann átti sig á því að velferðarkerfi okkar Íslendinga byggist á því að búa til gjaldeyristekjur. Það verður ekki gert með því að skattleggja útflutningsfyrirtækin út úr landinu með íþyngjandi álögum.

Járnblendiverksmiðja Elkem Ísland á Grundartanga mun þurfa að lúta í lægra haldi fyrir hinum nýja kolefnisskatti, verði hann að raunveruleikaJárnblendiverksmiðja Elkem Ísland á Grundartanga mun þurfa að lúta í lægra haldi fyrir hinum nýja kolefnisskatti, verði hann að raunveruleikaEinar Þorsteinsson, forstjóri járnblendiverksmiðjunnar Elkem Ísland á Grundartanga, sendi rétt í þessu öllum þingmönnum, bæjarfulltrúum og formanni Verkalýðsfélags Akraness, tölvupóst þar sem skýrt er kveðið á um að verði hinn nýi kolefnisskattur að veruleika þá muni það þýða endalok starfsemi verksmiðjunnar. En orðrétt segir forstjórinn:

"Miðað við framleiðsluáætlanir Elkem Ísland ehf mun fyrirhuguð álagning kolefnisgjalds sem lögð verður á félagið verða um.þ.b. 430.000.000 kr árið 2013,  645.000.000 kr árið 2014 og 860.000.000 kr.árið 2015.  Fyrirhugað kolefnisgjald verður því meira en tvöfalt hærra upphæð en meðal hagnaður fyrirtækisins undanfarin tíu ár. Má því vera ljóst að allar forsendur fyrir frekari rekstri Elkem Ísland ehf  í framtíðinni verða gerðar að engu, en fyrirtækið hefur verið ein af megin stoðum atvinnulífs á Vesturlandi í rúmlega 30 ár."

Á þessu sést að þetta mál er dauðans alvara enda er hér í húfi lífsafkoma 300 starfsmanna og um eitt þúsund afleidd störf tengjast einnig verksmiðjunni. Það er ótrúlegt til þess að vita að verksmiðja sem hefur verið rekin í 30 ár og hefur mátt þola gríðarlegar sveiflur í sínum rekstri í gegnum árin muni jafnvel lognast útaf vegna skattpíningar. En meðal annars stóð til að loka verksmiðjunni árið 1992 og 1995 vegna aðstæðna á heimsmarkaði og núna er æði margt sem bendir til þess að þessi verksmiðja sem hefur staðið af sér slíka storma ætli að lúta í lægra haldi fyrir skattpíningu fjármálaráðherrans Steingríms J. Sigfússonar og ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Þegar þessi skattur er skoðaður sést algjörlega að það er ekki nokkur vitglóra í þessum hugmyndum enda er allur rekstrarhagnaður fyrirtækisins síðustu 13 ára þurrkaður upp og nánast útilokað að fyrirtækið muni geta skilað jákvæðri rekstrarafkomu í náinni framtíð. Það er ekki að ástæðulausu að forstjóri fyrirtækisins skuli taka svona sterkt til orða þegar hann talar um að rekstur fyrirtækisins sé í algjöru uppnámi vegna þessarar skattpíningar ríkisstjórnarinnar. Erlendir fjárfestar hafa ekki nokkurn áhuga á að koma nálægt Íslandi hvað varðar fjárfestingar hér á landi þegar menn haga sér með þessum hætti. Það er verið að skapa hér rekstrarumhverfi fyrir fyrirtæki sem gerir það að verkum að umtalsverðar líkur eru á því að fyrirtækin lognist út af eins og þetta dæmi sannar.

Á morgun mun formaður Verkalýðsfélags Akraness ásamt oddvitum stjórnmálaflokka í bæjarstjórn eiga fund með þingmönnum Norðvestur-kjördæmis vegna þessa grafalavarlega máls og hefst fundurinn kl. 12 á morgun. Einnig munu málefni Sementsverksmiðjunnar verða til umfjöllunar sem og sá gríðarlegi niðurskurður sem Heilbrigðisstofnun Vesturlands hefur mátt þola að undanförnu.

Wednesday, 23 November 2011 00:00

Er trúnaðarmaður á þínum vinnustað?

·         Á hverri vinnustöð þar sem vinna að minnsta kosti 5 manns skal kjósa trúnaðarmann. Séu starfsmenn fleiri en 50 skulu trúnaðarmenn vera tveir.

·         Trúnaðarmenn eru kosnir til tveggja ára í senn.

·         Trúnaðarmenn njóta samkvæmt lögum verndar gegn uppsögnum vegna starfa sinna og ganga fyrir í störf þurfi að koma til uppsagna.

·         Trúnaðarmaður er tengiliður stéttarfélagsins og starfsmanna og fulltrúi félagsins á vinnustað.

·         Trúnaðarmaður á að reyna að leysa úr fyrirspurnum félaga sinna og rannsaka umkvartanir þeirra ef þær varða félagslegan eða lagalegan rétt starfsmanna og nýtur stuðnings stjórnar og starfsmanna félagsins vegna þess.

Fyrirhugað er að halda trúnaðarmannanámskeið eftir áramót. Allir nýir trúnaðarmenn eru beðnir um að hafa samband við skrifstofu félagsins og skrá sig. Aðrir trúnaðarmenn eru einnig beðnir að hafa samband.

Athugaðu hver er trúnaðarmaður á þínum vinnustað. Viljir þú koma á kosningu á þínum vinnustað veitir starfsfólk skrifstofu VLFA fúslega aðstoð við framkvæmdina. Athygli er vakin á því að eftir kosningu trúnaðarmanns þarf að tilkynna um kjörið til félagsins þar sem félagið þarf að tilnefna nýjan trúnaðarmann formlega.

Wednesday, 23 November 2011 00:00

Einu af stoltum Skagamanna hefur nú blætt út

Útisvæði SementsverksmiðjunnarÚtisvæði SementsverksmiðjunnarSorgartíðindi bárust í dag þegar tilkynnt var um að Sementsverksmiðjan á Akranesi sé að hætta starfsemi. Sementsverksmiðjan hóf starfsemi 1958 og lengi vel störfuðu upp undir 180 manns í verksmiðjunni. Það er þyngra en tárum taki að sjá þetta stolt okkar Skagamanna blæða út eins og það hefur gert á síðustu árum. En rétt er að rifja upp að fyrirtækið var selt 2003 til B.M Vallár, Björgunar, fjárfestingarbanka og norska sementsframleiðandanum Norcem AS, en þessi aðilar áttu 25% í verksmiðjunni hver um sig.

Verksmiðjan var seld á heilar 67 milljónir króna, en það kaupverð fékk aldrei greitt og því til viðbótar á B.M. Vallá að hafa skilið eftir um 400 milljóna króna skuld við Sementsverksmiðjuna þegar B.M. Vallá varð gjaldþrota. Það er með ólíkindum að Sementsverksmiðjan, sem framleiddi að meðaltali um 120.000 tonn á ári á árunum fyrir hrun, framleiðslu sem var nánast yfir framleiðslugetu verksmiðjunnar, skuli nú vera að loka sökum erfiðleika. Ugglaust hefur vantrú atvinnulífsins á íslenskum stjórnvöldum ekki hjálpað til og nægir að nefna í því samhengi fyrirhugaðan kolefnisskatt sem Sementsverksmiðjan hefði ekki og gæti aldrei staðið undir.

Formaður veltir því líka fyrir sér hvort norski aðilinn sem nú á 37% í Sementsverksmiðjunni hafi ætíð stefnt að því að leggja niður verksmiðjuna hér á landi og flytja inn sement frá Noregi. Það er alvarlegt mál þegar sú yfirgripsmikla þekking og hugvit sem starfsmenn Sementsverksmiðjunnar búa yfir skuli nánast hverfa á svipstundu með þessari ákvörðun. Það er einnig umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga þegar hvatt er til að við stöndum vörð um íslenska framleiðslu og verjum íslensk störf eins og kjörorðið "Veljum íslenskt" felur í sér. Það er síðan hunsað þegar kaup á sementi eiga sér stað í hinar ýmsu framkvæmdir, en vitað er að sement hefur verið flutt inn frá Danmörku og Noregi í stórum stíl á undanförnum árum. Rétt er að geta þess að íslenska sementið er unnið úr 90% innlendu hráefni og því er það einnig með miklum ólíkindum að menn skuli ekki reyna að stuðla að því að spara gjaldeyri og viðhalda verksmiðjunni, samfélaginu til heilla.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness telur afar ólíklegt að rekstur þessarar verksmiðju muni fara af stað aftur, og eru það gríðarleg vonbrigði ef það reynist rétt. Enda hefur Sementsverksmiðjan á undanförnum áratugum verið eitt af hornsteinum okkar samfélags og átt þátt í að byggja okkar sterka samfélag upp.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image