• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
VLFA

VLFA

Big fan of open source and Joomla

Website URL: http://joomlabuff.com

Jaðarsbakkalaug á AkranesiJaðarsbakkalaug á AkranesiFundur Verkalýðsfélags Akraness með fulltrúum Akraneskaupstaðar vegna starfsmatsniðurstaðna fyrir sundlaugarverði II með vakstjórn var haldinn í morgun. Á fundinum var tilkynnt að þeir sem gegna áðurnefndum störfum skulu hækka vegna starfsmats sem fram fór árið 2007 úr 329 stigum í 364 stig sem þýðir að viðkomandi starfsmenn færast úr launaflokki 121 í launaflokk 125 eða sem nemur fjórum launaflokkum.

Stéttarfélögin sem eiga aðild að kjarasamningi við Akraneskaupstað skiluðu inn á sínum tíma athugasemdum vegna áðurnefndra starfa en einhverra hluta vegna láðist Launanefnd sveitafélaga eða Akraneskaupstað að afgreiða þessi starfsmöt og á þeirri forsendu eru þeir starfsmenn sem um ræðir að fá leiðréttingu allt til ársins 2006. Leiðréttingin nemur um það bil frá 800 þúsund krónum og til allt að 1200 þúsund krónum hjá þeim starfsmönnum sem gegnt hafa þessum störfum.

Það var afar ánægjulegt að þessi niðurstaða skuli hafa fengist enda er um umtalsverða kjarabót að ræða fyrir vaktstjóra í sundlaugunum en um er að ræða fimm einstaklinga. Endurgreiðslan mun að öllum líkindum eiga sér stað um þarnæstu mánaðarmót þegar endanlegur útreikningur á leiðréttingunni hefur átt sér stað hjá launadeild Akraneskaupstaðar.

Það er óhætt að segja að sorgartíðindi hafi borist þegar tilkynnt var í dag að 4-5 starfsmönnum hjá Elkem Ísland hafi verið sagt upp störfum sökum þess að verið er að hætta með framleiðsluna á FSM í verksmiðjunni, en þessi framleiðsla hefur nú verið flutt til Noregs. Á síðustu 6 mánuðum hafa hvorki fleiri né færri en 17 manns misst vinnuna hjá Elkem Ísland á Grundartanga, sem verða að teljast skelfileg tíðindi vegns þess atvinnuástands sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði.

Það er þyngra en tárum taki þegar fjölskyldumenn missa vinnuna við þær aðstæður sem nú ríkja eins og áður sagði, því ekki er um auðugan garð að gresja hvað atvinnu varðar um þessar mundir.

Í ljósi þessara staðreynda að hér hafa 17 manns misst vinnuna á síðustu 6 mánuðum þá hafa starfsmenn haft samband við Verkalýðsfélag Akraness og kvartað sáran yfir því að verktakar séu látnir vinna störf sem tilheyra svokallaðri kjarnastarfsemi innan fyrirtækisins. Félagið hefur margoft gert athugasemdir við þessa starfsemi verktakanna enda telur félagið að þeir séu að ganga í störf sem tilheyra svokallaðri kjarastarfsemi.

Það er ljóst að á þessu máli verður tekið núna og á það látið reyna, því það er grundvallaratriði á milli samningsaðila að báðir virði gildandi samninga. Mun félagið því verða við þeirri þungu undiröldu starfsmanna að fara í málið af fullum þunga og leita lausna hvað þetta varðar.

Á síðasta fundi ákvað stjórn sjúkrasjóðs Verkalýðsfélags Akraness að hækka fæðingarstyrkinn um 100% frá og með 1. janúar 2012. Mun fæðingarstyrkur til félagsmanna frá og með 1. janúar 2012 hækka úr 35.000 kr. í 70.000 kr. Samtals þýðir þetta að ef báðir foreldrar eru félagsmenn þá nemur styrkurinn 140.000 kr.

Þetta er einn liður í því að láta félagsmenn njóta góðs af góðri afkomu félagsins, en frá því ný stjórn tók við í lok árs 2003 hefur hún unnið að því að vinna félagið upp félagslega sem og fjárhagslega og hefur þeirri vinnu svo sannarlega miðað vel áfram á þessum 8 árum sem liðin eru frá því ný stjórn tók við. Á þessu tímabili hefur félagið tekið inn 8 nýja styrki handa félagsmönnum og hækkað upphæðir umtalsvert, enda er það markmið félagsins að reyna að þjónusta félagsmenn sína eins vel og kostur er. Á árinu sem nú var að líða voru t.a.m. greiddar vel á fjórða tug milljóna út úr sjúkrasjóði félagsins.

Félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness hefur fjölgað á þessu tímabili um 70% eða sem nemur um 1.100 félagsmönnum, en í janúar 2004 voru félagsmenn 1.600 talsins en eru í dag rétt tæplega 3.000. Það er afar ánægjulegt að fjöldi manns hefur óskað eftir inngöngu í félagið á liðnum misserum, sem segir okkur að félagið er á réttri leið. Hins vegar er það ætíð þannig að alltaf má gera betur þegar kemur að þjónustu og baráttu fyrir hinn almenna félagsmann.

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að kynna sér vel réttindi sín, hægt er að nálgast allar upplýsingar hér á heimasíðunni eða á skrifstofu félagsins í síma 4309900.

Í dag var haldinn formannafundur Alþýðusambands Íslands þar sem farið var yfir forsenduákvæði kjarasamninga, en fyrir 20. janúar þarf forsendunefnd ASÍ að taka afstöðu til þess hvort forsendur kjarasamninga eru brostnar eða ekki.

Forseti Alþýðusambands Íslands fór yfir forsendur kjarasamningsins, bæði það sem lýtur að Samtökum atvinnlífsins en ekki síður samkomulagi við ríkisstjórnina sem gert var samhliða kjarasamningunum 5. maí. Það er skemmst frá því að segja að það kom fram í máli forsetans að forsenduákvæðið gagnvart SA hefur staðist. En hins vegar kom skýrt fram í máli hans að öðru máli gegni um samkomulag verkalýðshreyfingarinnar við ríkissjórnina. Annað var ekki að skilja á forsetanum en að flest öll atriði samkomulagsins hafi verið svikin.

Á fundinum tók formaður Verkalýðsfélags Akraness til máls og sagðist nú ekki oft vera sammála forseta ASÍ, en nú bregður svo við að formaður félagsins var algerlega sammála forsetanum hvað varðar svik núverandi ríkisstjórnar gagnvart verkalýðshreyfingunni og hagsmunum íslenskra launþega. Formaður fór ítarlega yfir hvernig þessi ríkisstjórn hefur brugðist íslenskum launþegum og heimilum þessa lands illilega frá því hún tók við stjórnartaumunum, fyrst sem minnihlutastjórn í byrjun febrúar 2009 og tók síðan formlega við völdum eftir kosningar í maí 2009.

Það kom fram hjá formanni að alþýða þessa lands hafi bundið miklar vonir við nýja ríkisstjórn sem kenndi sig við norræna velferð, félagshyggju, jöfnuð og réttlæti. Það eru því gríðarleg vonbrigði hvernig þessi ríkisstjórn hefur svikið íslenska verkalýðshreyfingu og launþega þessa lands slag í slag frá því hún tók við völdum. Formaður rakti öll þau svik sem hann hefur orðið vitni að af hálfu þessarar ríkisstjórnar og var af nægu að taka í þeim efnum. Ríkisstjórnin byrjaði á því að svíkja samkomulag sem verkalýðshreyfingin hafði gert við fyrri ríkisstjórn um verðtryggingu persónuafsláttar og krónutöluhækkanir á persónuafsláttinn, en ef ríkisstjórnin hefði staðið við þetta samkomulag þá væri persónuafslátturinn nú 53.500 kr., en ekki rúmar 46.000 kr. eins og hann er í dag. Ríkisstjórnin sveik líka 6.500 kr. hækkun á atvinnuleysisbótum sem átti að taka gildi 1. júní 2010. Hún sveik stöðugleikasáttmálann margfræga. Sjómannaafsláttur hefur verið tekinn af sjómönnum í áföngum. Alger stöðnun hefur verið í atvinnuuppbyggingu, enda kom fram í máli forsetans að atvinnuleysið sé nánast það sama og það var í janúar 2009 þegar núverandi ríkisstjórn komst fyrst til valda. Formaður minnti líka á loforð um skjaldborg heimilanna, en eins og nýverið kom fram í fjölmiðlum þá á helmingur heimila hér á landi nú í vandræðum með að ná endum saman og lítið sem ekkert hefur verið gert til að aðstoða skuldsett heimili vegna stökkbreyttra skulda í kjölfar hrunsins.  Einnig minntist formaður á þá skæðadrífu af skattahækkunum sem dunið hefur á alþýðu þess lands á undarförnum misserum og svona mætti lengi telja.

Þegar formaður hafði rakið þessar stórkostlegu vanefndir núverandi ríkisstjórnar, minnti hann forseta Alþýðusambandsins á kröfu miðstjórnar ASÍ frá 22. janúar 2009 þar kemur fram að ASÍ hafi ítrekað reynt að fá þáverandi stjórnvöld til viðræðna um aðgerðir í efnahagsmálum en talað fyrir daufum eyrum. Miðstjórnin krafðist þess að þáverandi ríkisstjórn myndi víkja tafarlaust og boðað yrði til þingkosninga og ný ríkisstjórn með nægjanlegan styrk og endurnýjað umboð myndi taka við.

Að þessu sögðu, tjáði formaður félagsins forseta ASÍ það að nú væri full ástæða til að lýsa yfir fullkomnu vantrausti á núverandi ríkisstjórn og óska eftir því að efnt yrði til kosninga án tafar vegna síendurtekinna svika við íslenskt launafólk. Hvatti formaður forseta ASÍ til að undirbúa slíka ályktun, en það er skemmst að segja frá því að forsetinn svaraði ekki þessari tillögu formanns félagsins. Vakti það undrun formanns, í ljósi þess að á sínum stóð ekki á miðstjórn Alþýðusambandsins að lýsa yfir vantrausti á ríkisstjórn Geirs H. Haarde vegna vanefnda og krefjast kosninga. 

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness fundar í næstu viku. Þar mun þetta mál verða tekið upp og einnig það hvort segja eigi upp núgildandi kjarasamningum. Ef það verður vilji stjórnar og trúnaðarráðs félagsins, þá mun félagið legga fram slíka vantrauststillögu á ríkisstjórn Íslands á næsta formannafundi sem haldinn verður 19. janúar nk., enda er það mat formannsins að svik núverandi ríkisstjórnar við íslenska launþega séu svo grafalvarleg að ekki sé hægt að horfa átölulaust á slík svik lengur.

Forystumenn í verkalýðshreyfingunni mega ekki undir nokkrum kringumstæðum horfa á flokkspólítíska hagsmuni sína fram yfir hagsmuni sinna félagsmanna, enda hefur formaður margoft lýst því yfir að æðstu forystumenn í verkalýðshreyfingunni eiga ekki að vera eyrnamerktir einhverjum einum ákveðnum stjórnmálaflokki, heldur styðja öll góð málefni óháð því frá hvaða stjórnmálaflokki slík mál koma. En því miður hefur formaður það á tilfinningunni að flokkspólítískir hagsmunir séu oft teknir framyfir hagsmuni félagsmanna innan íslenskrar verkalýðshreyfingar í dag.

Monday, 09 January 2012 00:00

Veiðikortið 2012 er komið í sölu!

Veiðikortið 2012 er nú komið í sölu á skrifstofu félagsins. Orlofssjóður VLFA niðurgreiðir kortið til félagsmanna svo félagsmenn geta keypt kortið á kr. 3.000. Fullt verð á kortinu er kr. 6.000 svo afslátturinn er 50%.

Með Veiðikortið í vasanum er hægt að veiða nær ótakmarkað í rúmlega 37 veiðivötnum víðsvegar um landið sem og tjalda endurgjaldslaust við mörg þeirra. Ný vatnasvæði fyrir sumarið 2012 eru oft nefnd Sólheimavötn en þau eru: Hólmavatn á Hólmavatnsheiði og Laxárvatn á Laxárdalsheiði.

Nánari upplýsingar um Veiðikortið, veiðitímabil og nánari reglur er að finna á heimasíðu Veiðikortsins: http://www.veidikortid.is/

Í morgun var tekið fyrir í Hæstarétti mál Þórarins Björns Steinssonar en hann hefur í nokkur ár reynt að sækja bætur frá Norðuráli og Sjóvá eftir að hafa slasast við að koma samstarfskonu sinni til hjálpar. Á þeim tíma er slysið átti sér stað, haustið 2005, starfaði Þórarinn hjá Norðuráli og ásamt fleirum lyfti hann rúmlega 620 kílóa stálbita sem fallið hafði á samstarfskonu hans. Við það gaf sig eitthvað í baki Þórarins og hefur hann átt við þau meiðsli að stríða síðan og er nú 75% öryrki.

Tryggingafélag Norðuráls, Sjóvá, hefur síðan slysið átti sér stað neitað að greiða Þórarni bætur og færa fyrir því þau rök að ekki hafi verið um hefðbundið vinnuslys að ræða. Þórarinn höfðaði mál fyrir héraðsdómi þegar ljóst var að honum yrðu ekki greiddar bætur og tapaði hann því máli í fyrra. Nú hefur hann áfrýjað málinu til Hæstaréttar og eins og áður kom fram var málið tekið fyrir þar í morgun.

Það skiptir gríðarlegu máli hvernig dómur fellur í þessu máli því ef Hæstiréttur staðfestir dóm héraðsdóms er í raun verið að senda þau skelfilegu skilaboð út í samfélagið að það borgi sig ekki að koma samstarfsfólki sínu til hjálpar því hugsanlega geti viðkomandi setið uppi með allt það tjón sem björgunin kann að valda. Á þeim tíma sem Þórarinn lenti í þessu atviki var hann félagsmaður hjá Verkalýðsfélagi Akraness.

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni mun Verkalýðsfélag Akraness standa straum af öllum málskostnaði ef málið tapast fyrir Hæstarétti enda er það stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að standa ávallt með sínum félagsmönnum svo ekki sé nú talað um þegar um jafnmikla hagsmuni er að ræða eins og í þessu máli. Væntanlega má reikna með að dómur falli í þessu máli innan nokkurra vikna.

Í gær kom stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness saman til að ræða forsendur kjarasamninga og hvort segja bæri upp kjarasamningum vegna forsendubrests. Formaður fór yfir forsenduákvæði kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði og kom fram í máli hans að forsendur gagnvart Samtökum atvinnulífsins hafa staðist en öðru máli gegndi með samkomulag sem gert var við ríkisstjórn Ísland samhliða kjarasamningum.

Það var mat stjórnar og trúnaðarráðs félagsins að ekki væri grundvöllur fyrir því að segja upp kjarasamningum þó svo forsenduákvæði gagnvart ríkisstjórninni hefðu kolbrostið, enda mun ekkert annað gerast gagnvart íslenskum launþegum, ef kjarasamningum verður sagt upp, en að launahækkanir sem koma eiga 1. febrúar verða hafðar af launafólki.

Hins vegar var stjórn og trúnaðarráð félagsins agndofa yfir þeim síendurteknu svikum sem núverandi ríkisstjórn hefur ástundað gagnvart íslensku launafólki og á þeirri forsendu var samþykkt ályktun þar sem m.a. kemur fram:

"Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness krefst þess að ríkisstjórn Íslands standi við öll þau loforð sem fram koma í yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gerði við verkalýðshreyfinguna samhliða kjarasamningum 5. maí 2011. Að öðrum kosti sér stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness sig knúið til að lýsa yfir algeru vantrausti á núverandi ríkisstjórn vegna síendurtekinna svika og vanefnda við íslenskt launafólk og krefst þess að stjórnin fari frá og boðað verði til kosninga við fyrsta tækifæri."

Einnig kemur fram í ályktuninni:

"Hver hefði trúað því að ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferð, félagshyggju, jöfnuð og réttlæti skyldi ráðast jafn illilega á kjör íslensks launafólks eins og núverandi stjórn hefur ítrekað gert frá því hún komst til valda.

Það er ekki aðeins að þessi samkomulög hafi verið svikin, heldur hefur skjaldborgin gagnvart heimilunum einnig brugðist og í staðinn fyrir skjaldborg í kringum heimili hefur verið slegin skjaldborg í kringum fjármálastofnanir og erlenda vogunarsjóði. Atvinnuuppbygging og atvinnusköpun hefur algerlega brugðist, enda er nánast sama atvinnuleysi í dag og var í janúar 2009. Alþýða þessa lands átti síður en svo von á því að öllum vanda hrunsins yrði varpað miskunnarlaust og grímulaust yfir á launafólk, sem birtist m.a. í skefjalausum skattahækkunum og gjaldskrárhækkunum sem dunið hafa í íslenskum launþegum á síðustu misserum."

Hægt er að lesa ályktunina í heild sinni með því að smella hér.

Vesturlandsdeild Sjúkraliðafélags Íslands fór þess á leit við formann Verkalýðsfélags Akraness að hann tæki að sér fundarstjórn á opnum fundi í kvöld, þar sem málefni aldraðra á Vesturlandi verða til umfjöllunar. Tilefnið er sú ákvörðun að loka öldrunardeild á Sjúkrahúsi Akraness. Fundurinn verður haldinn á Gamla Kaupfélaginu í kvöld og hefst kl. 20:00.

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

  • Erla Linda Bjarnadóttir, formaður Vesturlandsdeildar Sjúkraliðafélags Íslands flytur ávarp.
  • Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, mun einnig flytja ávarp.
  • Sveinn Kristinsson, forseti bæjarstjórnar og Gunnar Sigurðsson, bæjarfulltrúi, flytja ávörp um afleiðingar breytinga á þjónustu við aldraðra á Akranesi og fækkun atvinnutækifæra.
  • Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands mun fjalla um stöðu starfsmanna.

Þingmönnum Norð-Vesturkjördæmis og landslækni hefur verið boðið til fundarins og er vonast eftir þátttöku þeirra í umræðum á eftir framsögu erindum.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá hefur Verkalýðsfélag Akraness mótmælt harðlega þeim gríðarlega niðurskurði sem Heilbrigðisstofnun Vesturlands hefur mátt þola á undanförnum misserum og nú síðast með lokun á áðurnefndri öldrunardeild með þeim afleiðingum að upp undir 30 manns missa atvinnuna. Auk þess hefur umtalsverður fjöldi starfsmanna verið skertur í starfshlutfalli.

Félagið hefur mótmælt þeirri forgangsröðun sem hefur verið við lýði á undanförnum árum og finnst það með ólíkindum hvernig höggvið hefur verið í sífellu í okkar grunnstoð, sem er að sjálfsögðu heilbrigðiskerfið.

Það ríkti umtalsverð gremja og reiði á meðal fundarmanna á fundi sem haldinn var í gærkvöldi vegna þess mikla niðurskurðar sem Heilbrigðisstofnun Vesturlands hefur mátt þola á undanförnum árum. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá hefur verið tekin ákvörðun um að loka öldurnardeild sjúkrahússins með þeim afleiðingum að um 26 starfsmenn munu missa vinnuna.

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, flutti ávarp og fór yfir ástæður fyrir þessum niðurskurði. Einnig voru bæjarfulltrúarnir Sveinn Kristinsson og Gunnar Sigurðsson með ávörp á fundinum en fundurinn var boðaður af hálfu Sjúkraliðafélags Íslands en langflestir þeirra sem fengu uppsögn vegna þessarar lokunar eru frá Sjúkraliðafélaginu. Þingmönnum Norðvesturkjördæmis var boðið á fundinn og þeir sem mættu voru Ásmundur Daði Einarsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Ásbjörn Óttarsson og Einar K. Guðfinnsson.

Fundarmenn kölluðu eftir því í hverju þessi sparnaður væri fólginn því það lægi fyrir að alltaf þarf að þjónusta þetta fólk sem dvalið hefur á öldrunardeildinni. Fram kom hjá aðstandendum sem sátu fundinn að frábær þjónusta hafi verið veitt á þessari tilteknu deild og það væri sárt að sjá á eftir því góða starfsfólki sem þar starfar.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness, sem jafnframt var fundarstjóri á þessum fundi, gagnrýndi harðlega þá forgangsröðun sem hefur verið hjá stjórnvöldum og nefndi hann sem dæmi að verið væri að styrkja Sinfónínuhljómsveit Íslands um 800 milljónir ásamt fjölmörgum öðrum atriðum sem klárlega hefði mátt skera frekar niður heldur en þá grunnstoð sem heilbrigðiskerfið okkar er. Fram kom í máli Guðbjarts að búið er að skera fjárveitingar til Heilbrigðisstofnunar Vesturlands niður um 550 milljónir króna á ári á liðnum árum. Það sér það hver maður að svona blóðugur niðurskurður mun klárlega fara að stefna öryggi þeirra sem þurfa að sækja þá þjónustu sem þar er veitt í hættu. Það er kaldhæðnislegt til þess að vita að fjárveitingar til fjármálaeftirlitsins voru auknar um 550 milljónir á síðasta ári á sama tíma og búið er að skera niður um sömu krónutölu á Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Þetta er forgangsröðun sem meðal annars formaður félagsins skilur alls ekki.

Formaður félagsins sagði einnig á fundinum að það er ekki það eina að þessir 26 einstaklingar séu að missa vinnuna heldur hafi tugir starfsmanna verið lækkaðir í starfshlutfalli og því var grátbroslegt að sjá í fréttum að seðlabankastjórinn Már Guðmundsson hefur stefnt bankanum sem hann stýrir vegna brota á ráðningarsamningi og krefst hann launahækkunar sem nemur 300 þúsund krónum á mánuði. Veruleikafirring þessara manna er algjör í ljósi þeirra hamfara sem nú ganga yfir starfskjör heilbrigðisstarfsmanna þar sem starfsfólki er sagt upp, launakjör lækkuð og þess krafist að fólk leggi mun meiri vinnu á sig sökum fækkunar á hinum ýmsu stofnunum. Það var greinilega enginn vilji til þess að endurskoða þessa ákvörðun ef marka má orð ráðherrans á fundinum.

Birgir S. ElínbergssonÍ dag verður borinn til grafar Birgir S. Elínbergsson, fyrrverandi formaður orlofsdeildar Verkalýðsfélags Akraness. Birgir var gríðarlega mikill áhugamaður um verkalýðsmál og félagslega baráttu og er skemmst frá því að segja að Birgir tók þátt í mikilli baráttu sem átti sér stað í Verkalýðsfélagi Akraness frá árinu 2001 til ársloka 2004. Sú barátta endaði með því að Alþýðusamband Íslands skipaði starfsstjórn yfir félaginu og efnt var til allsherjarkosninga innan félagsins.

Birgir var einn af þeim sem voru á lista undir forystu núverandi formanns VLFA en sá listi vann kosningarnar árið 2003 og tók við rekstri félagsins en reksturinn var afar slæmur á þessum árum jafnt fjárhagslega sem félagslega. Það var mikið kappsmál hjá Birgi að koma félaginu í samt lag enda var hann með gríðarlega sterka réttlætiskennd og uppgjöf var ekki til í hans orðabók. Hann var ætíð tilbúinn að berjast með kjafti og klóm til að réttlætið myndi ná fram að ganga og fyrir bættum hag íslenskra launþega.

Birgir gerðist síðan verkstjóri og samkvæmt lögum félagsins gat hann ekki setið lengur í stjórn félagsins. En hann var ekki lengi að koma sér aftur í verkalýðsbaráttuna enda var hann orðinn gjaldkeri Verkstjórafélagsins örfáum mánuðum eftir að hann gerðist verkstjóri. Allir sem þekktu Birgi vissu að hér var mikill öðlingur á ferð og var hann ætíð tilbúinn til að rétta fólki hjálparhönd ef það átti í einhverjum vanda.

Stjórn félagsins kveður þennan góða og dygga vin með miklum söknuði og vottar aðstandendum og vinum sína dýpstu samúð.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image